Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 17:02:09 (122)


     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir það að koma með þetta andsvar því það gefur mér tækifæri til þess að segja honum og öðrum sem heyra vilja að ég tel að við þurfum ekki að kanna kosti og galla við að ganga inn í Evrópubandalagið. Við sjáum þá þegar það mikla galla að það gerir okkur það algjörlega óaðgengilegt og það er ekkert annað en sjálfsblekking að ímynda sér að kostir þess kunni að vera svo miklir að þeir yfirskyggi gallana. Við vitum um nokkra af þeim ókostum sem því fylgja, ekki bara sameiginlega fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins sem við getum með engu móti verið aðilar að. Ég nefni líka mikilsverð atriði eins og stjórnfrelsi og fullveldi lýðveldisins og framtíð þjóðarinnar í þessu landi. Það er misskilningur hjá hv. 3. þm. Reykv. ef hann heldur að það litla stjórnarskrárfrv. sem hér liggur fyrir á þskj. 30 sé einhver varða á leiðinni inn í Evrópubandalagið. Það er það ekki. Þetta er fótakefli eða þröskuldur, hindrun sem við vitandi vits viljum setja upp til þess að hann og hans líkar hnjóti um og tefji för þeirra í kapphlaupi þeirra til Brussel.