Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 17:08:51 (126)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það var auðvitað mjög athyglisvert að hv. þm. Björn Bjarnason lagði ekki í það að biðja um orðið hér með venjulegum hætti til þess að svara því sem ég sagði í umræðunum um hann og hans málflutning og hans greinaskrif, heldur kaus hann undir andsvaralið, þar sem hann veit að ég á ekki rétt á að tala, að svara mér með grófum ásökunum í minn garð. Þetta kalla ég nú hvorki karlmannlegt né drengilegt en er auðvitað vitnisburður um veikan málstað þingmannsins.
    Þingmaðurinn sagði hér að ég hefði farið rangt með tilvitnanir í hann. Ég fór með tvær tilvitnanir sem snerta mál efnislega um afstöðuna til EB. Sú fyrri var að EES-samningarnir eru skipulegasta átak sem gert hefur verið til að opna Íslandi og öðrum EFTA-ríkjum leið inn í Evrópubandalagið. Þetta stendur í öðrum dálki greinarinnar sem birtist í Morgunblaðinu 16. apríl 1991 og það er ekkert rangt við þetta. Þetta sagði þingmaðurinn.
    Að vísu má að nokkru leyti kannski finna orðum hans stað vegna þess að í seinni tilvitnuninni þá sleppti ég að lesa það sem hann sagði utan Íslands, spurningarmerki í sviga, þar sem hann átti þá við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. En það breytir engu um efnislega fullyrðingu hans í greininni sem er

á þá leið: ,,Þeir sem hafa kynnt sér umræðurnar um EES og þær vonir sem bundnar eru við samningaviðræður EFTA og EB í ríkisstjórnum EFTA-landanna (utan Íslands?) vita að þar líta menn [þ.e. í hinum EFTA-löndunum] á EES sem fyrsta og annað skrefið inn í Evrópubandalagið.`` Þannig að þetta eru engar falsanir, þetta eru bara orðin sem þingmaðurinn sendi frá sér í aðdraganda kosninganna. En það er svo margt fleira að finna í þessum skrifum hans sem ég hef ekki enn þá rakið hér og ég vil þá gera það hér og nú vegna þess að þingmaðurinn er hvað eftir annað búinn að segja að það sé fráleitt að túlka skýrslu Jóns Baldvins Hannibalssonar frá mars 1991 svo að þar sé verið að segja, þ.e. í skýrslu utanrrh., að það þurfi að breyta stjórnarskránni vegna EES. En hvað sagði Björn Bjarnason í greininni sem birtist í Morgunblaðinu 26. mars um sama atriði, með leyfi forseta:
    ,,Hvað hefðu framsóknarmenn sagt ef í ályktun Sjálfstfl. hefði verið gefið í skyn, eins og í skýrslu utanrrh., að breyta þyrfti stjórnarskránni til að auðvelda þátttökuna í EES.``
    Nú hefur þingmaðurinn staðið hér dag eftir dag og sagt að það standi ekkert í skýrslu utanrrh., en í greininni var það eitt aðaltilefni árása á Framsfl. að koma því á framfæri alveg skýrt að slíkt væri vissulega gefið í skyn í skýrslu utanrrh.