Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 17:08:53 (127)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Eitt er sameiginlegt og reyndar ánægjulegt í ræðum þeirra manna sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og það er að menn vilja ástunda vönduð vinnubrögð þegar tillögur koma upp um breytingar á stjórnarskránni. Síðastur vitnaði um þetta hv. 1. þm. Norðurl. v. og gerði það að mörgu leyti vel. Það er að sjálfsögðu hárrétt athugað hjá þeim ágæta þingmanni að stjórnarskrá breyta menn ekki vegna einhverra dægurmálahræringa. Slíkar gárur eiga ekki að breyta henni.
    Um hitt finnst mér fremur orka tvímælis sem hann sagði að honum fyndist það fánýtt sjónarmið að lögin og stjórnarskráin ættu að þjóna fólkinu og þörfum samfélagsins. Ég held honum hafi eitthvað skotist þegar hann mælti þessi orð, en um hitt er ég honum einlæglega sammála að við þurfum að vanda vinnubrögðin ef breyta skal stjórnarskrá lýðveldisins og það vona ég og veit að sú nefnd þingsins sem sérstaklega verður kosin til þess verks mun hafa í huga þegar hún tekur til við sitt vandasama verk.
    Það vakna margar spurningar þegar hreyft er tillögu við eina grein í stjórnarskránni eins og gert er í þskj. 30 og reyndar þskj. 31 líka sem fylgir því, um þjóðaratkvæði. Og það er þess vegna sem ástæða er til þess. Hv. 10. þm. Reykv., sem því miður er nú ekki lengur á meðal vor, lagði á það ríka áherslu, réttilega, að menn ástunduðu lýðræðislegan þankagang og ástunduðu lýðræðisleg vinnubrögð í hvívetna. Það er að sjálfsögðu alveg rétt. Hins vegar fannst mér að sá ágæti þingmaður hefði e.t.v. þurft að hugleiða vegna þess ímyndaða dæmis sem ég tók hér í ræðu minni í gær, hvað það er sem felst í 1. gr. stjórnarskrárinnar, sem eins og þingmönnum er vel kunnugt hljóðar svo: ,,Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.`` Því hv. 10. þm. Reykv. komst ákaflega nálægt því í sinni ræðu að halda því fram að þingbundnir stjórnarhættir væru ekki lýðræðislegir, en þar vil ég leyfa mér að gera mikinn ágreining við þingmanninn og tel að við verðum að virða þessa grein stjórnarskrárinnar í hvívetna og það er eðlilegt að spurningar vakni um það hvort víðtæk beiting þjóðaratkvæðis fari þar vel saman við þetta mikilvæga ákvæði.
    Þetta er að sjálfsögðu enn eitt dæmið um það að spurningar vakna þegar hreyft er breytingum á stjórnarskrá og fulltrúalýðræðið, sem er og verið hefur eitt helsta einkenni okkar stjórnarfars á lýðveldistímanum og lengur, sem betur fer, er að sjálfsögðu meðal þeirra atriða sem við hljótum að taka þar til athugunar.
    Í öðru lagi vildi ég víkja að því sem hv. 10. þm. Reykv. nefndi um samanburð á íslenskum og norskum stjórnarháttum og stjórnskipunarrétti. Álitamálið sem hv. 10. þm. Reykv. hreyfði um rökin samkvæmt norskum stjórnskipunarrétti til þess að óska þar í landi eftir auknum meiri hluta við afgreiðslu á tillögu um staðfestingu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, styðst að sjálfsögðu við norska stjórnskipun. Hún er einfaldlega öðruvísi en okkar. Samanburður við hana segir þess vegna ekkert um það hvort heimilt sé að samþykkja EES-samninginn á grundvelli 21. gr. íslensku stjórnarskrárinnar. Ákvæði 26. gr. hinnar norsku sem til var vitnað í ummælum þingmannsins eru annars eðlis --- ég endurtek: annars eðlis --- en ákvæði 21. gr. okkar stjórnarskrár og fullyrðingar um það að nauðsynlegt sé að bæta við nýju ákvæði vegna EES eiga því alls ekki við nein slík rök að styðjast. Þetta er m.a. eitt af því sem okkar lögfróðustu menn hafa vandlega kannað og m.a. vegna þess að hér hefur verið nefnt nokkuð um framkvæmd eftirlitsstofnunar EES-svæðisins, eins og hún er hugsuð, á sinni eftirlitsskyldu og um aðfararhæfi úrskurða slíkrar stofnunar, þá er ástæða til að minna á að meðal þess sem lögfræðingarnir hafa dregið fram við umræðurnar um stjórnarskrárhæfi þessa samnings er einmitt sú staðreynd að á Íslandi hafa ítrekað verið sett lög um aðfararhæfi erlendra yfirvaldsúrskurða og dómsúrskurða, bæði varðandi sifjamál, hjúskap, ættleiðingu og lögráð, um skattamál, í fjármálaráðherratíð hv. 8. þm. Reykn. Ólafs Ragnars Grímssonar, um almenn ákvæði um úrlausnir eða ákvarðanir erlendra dómstóla eða yfirvalda eða sáttir sem gerðar eru fyrir þeim með aðfararheimild á Íslandi. Fyrir þeirri lagasetningu stóðu þeir Halldór Ásgrímsson og Steingrímur Hermannsson sem mæltu fyrir því máli í deildum þingsins og var reyndar samþykkt hér á árinu

1989.
    Ég ætla ekki að fara að tíunda þessi lögfræðilegu rök, en þarna er um það að ræða að framkvæma megi hér alerlenda úrskurði og dóma að íslenskum aðfararlögum.
    Þetta er mjög mikilvægt í þessu máli og að sjálfsögðu ástæða til þess að gaumgæfa það vel og það var reyndar, eins og hér hefur komið fram, eitt helsta verkefni lögfræðinganna sem utanrrh. fékk til þess að kanna þetta mál, hvort þarna væri um að ræða stjórnarskrárhæfan samning í þessum skilningi. Niðurstaða þeirra varð sú að hann væri það.
    Þetta er að sjálfsögðu ekki vitnisburður um neina léttúð í stjórnarskrármálefnum eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. lét hér að liggja að ríkt hefði hjá ríkisstjórninni í þessu máli. Því fer víðs fjarri. Þetta mál var tekið mjög föstum tökum, bæði í fyrri ríkisstjórn og þeirri sem nú starfar. Niðurstaðan hjá báðum stjórnum varð hin sama, að þetta væri stjórnarskrárhæfur samningur.
    Virðulegi forseti. Mig langar að víkja hér örfáum orðum að því sem kom fram í máli hv. 8. þm. Reykn. fyrr á þessum fundi. Í fyrsta lagi verð ég að játa það að hv. 8. þm. Reykn. virðist sýnna um að leggja öðrum lífsreglurnar en að halda þær, því hann ítrekaði hér í sinni ræðu að menn skyldu gæta að sér í orðavali, vera varkárir í vali orða, en í sömu andrá sakaði hann utanrrh. um að vanvirða grundvallarreglur réttarríkisins í meðferð sinni á EES-málinu. Þetta eru stór orð og geta ekki staðið án þess að þeim sé mótmælt og því miður er hæstv. utanrrh. ekki staddur hér á fundinum til þess að gera það sjálfur, sem ég veit að hann bæði mundi gert hafa og mun gera því slík staðleysa á sér enga stoð í veruleikanum og finnst hvergi nema í hugarheimi hv. 8. þm. Reykn. ( ÓRG: Lestu bara lögfræðiálitið.) Þá kem ég að því, virðulegi þingmaður, --- ég skil það vel að þingmanninum finnist miður að hafa orðið það á að nota þessi stóru orð að þarflausu, ástæðulausu og ekki með drengilegum hætti.
    Ég kem þá að því sem hv. 8. þm. Reykn. vék að í sínu máli og reyndar hv. 1. þm. Norðurl. v., þar sem að því var látið liggja að utanrrn. lægi á gögnum um afstöðu almennings til EES og ég vil taka það fram í þessu máli að það hefur verið gerð fyrir utanrrn. skoðanakönnun. Hún var framkvæmd í júlímánuði af fyrirtækinu ÍM Gallup til að kanna það hvað fólk teldi sig vita um EES-samninginn og hvaða þætti hans það teldi sig helst skorta upplýsingar um. Þessi könnun var fyrst og fremst ætluð sem starfstæki fyrir ráðuneytið til þess að útbúa sem bestar upplýsingar fyrir fólk um þetta mál. Könnun þessari var lokið rétt um miðjan þennan mánuð. Niðurstöður úr henni hafa síðan verið notaðar í utanrrn. við það að fara yfir þau gögn sem notuð hafa verið til að kynna EES-samninginn og við undirbúning á nýju efni.
    Það var að sjálfsögðu, og er, ætlun ráðuneytisins að þessi könnun yrði gerð opinber þegar vinnu við hana væri lokið. Allar staðhæfingar um leynimakk --- og ég man nú ekki betur en hv. 7. þm. Reykn. notaði orðið leyniþjónustu --- eru þá með öllu tilhæfulausar. Það er fróðlegt að í þessari könnun kemur fram að fólkið í landinu treystir fjölmiðlunum og Alþingi best til að miðla upplýsingum um EES-samninginn. Það liggur því alveg ljóst fyrir að til þess að ná upphaflegum tilgangi þessarar könnunar var alveg bráðnauðsynlegt að alþingismenn og fjölmiðlar fengju upplýsingar um hennar niðurstöður til þess að gera sér enn betur grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem á þeim hvílir í þessu efni. Ég vil þess vegna, með leyfi forseta, gera hér grein fyrir yfirliti þessarar stofnunar, ÍM Gallups, yfir niðurstöður þessarar könnunar og hef nú þann lestur, en tek það fram að þessu yfirliti frá ÍM Gallup verður dreift hér á borð þingmanna á þessum fundi. En yfirlitið er á þessa leið:
    ,,Dagana 10.--28. júlí sl. framkvæmdi ÍM Gallup skoðanakönnun um þekkingu fólks á EES-samningnum og því sem hann hefur í för með sér. Könnunin, sem framkvæmd var fyrir utanrrn., félmrn. og iðn.- og viðskrn., náði til 1.200 manns á aldrinum 15--69 ára á landinu öllu. Liðlega 70% svöruðu spurningunum og endurspegla svarendur þjóðina í öllum veigamestu atriðum.
    Markmið könnunarinnar var að kanna hversu vel fólk hefði kynnt sér EES-málið, hvort þekkingin hefði áhrif á afstöðuna og hvaða atriði samningsins fólk hefði kynnt sér. Könnunin var hönnuð með tilliti til þess að hægt væri að nota hana við vinnslu kynningarefnis sem miðaðist þá við að kynna þau atriði sérstaklega sem þjóðin hefði ekki kynnt sér nægilega vel.
    Fólk var almennt séð sammála um það að þátttakan í EES væri til hagsbóta fyrir innlendan iðnað, mundi leiða til lægra vöruverðs hér á landi og að aukin samkeppni milli banka leiddi til vaxtalækkunar.
    Um þessi mál var að mestu leyti samstaða í öllum aldurshópum. Fólk var einnig mjög visst um það að samningurinn fæli í sér heimild til evrópsks vinnuafls til að koma hingað til lands og vinna og einnig að Íslendingar gætu farið til Evrópu í atvinnuleit.
    41,4% úrtaksins treystu sér ekki til að taka afstöðu til þátttökunnar í EES, 26,9% voru fylgjandi en 31,7% andvígir. Fram undir fimmtugsaldurinn var fólk meira fylgjandi en andvígt en þá snerist afstaðan alveg við. Karlar voru líklegri til að vera fylgjandi en konur og sem dæmi má nefna að ríflega 46% karla á aldrinum 35--44 ára voru fylgjandi þátttökunni. Konur eru óákveðnari í afstöðu sinni.
    Það kom fram í könnuninni að stjórnmálaskoðanir, búseta, starf og kynjaskipting hefur ekki veruleg áhrif á afstöðu fólks. Aldur og áhyggjur af fullveldisframsali, of miklar fjárfestingar Evrópubúa í atvinnulífinu og stjórnun fiskveiða réðu mestu um afstöðu fólks. Fólk hafið fyrst og fremst áhyggjur af fullveldisframsali og var eldri aldurshópurinn þar fremstur í flokki. Einnig hafði fólk áhyggjur af stjórnun fiskveiða og flutningum evrópsks vinnuafls hingað til lands. Stjórnarskráin var ekki ofarlega á áhyggjulistanum hjá þorra almennings.
    Fólk hafði þó ekki kynnt sér málið vel. Einungis 1,2% svarenda hafði kynnt sér málefnið mjög vel. En 79,2% frekar illa, mjög illa eða ekkert. Eftir því sem fólk hafði kynnt sér málið betur þeim mun jákvæðari afstöðu tók það til þátttökunnar í Evrópska efnahagssvæðinu. (Gripið fram í.) Skýr greinarmunur var gerður á EES annars vegar og EB hins vegar. Fjölmiðlar og Alþingi voru þeir aðilar sem fólk treysti best til að miðla sér upplýsingum um samninginn.``
    Hér lýkur lestri á þessu yfirliti ÍM Gallups. Auðvitað get ég ekki svarað fyrir það sem þar stendur því það er að sjálfsögðu samið af þessari hlutlausu könnunarstofnun. En ég vil láta þess getið virðulegur forseti, að nánari skýrsla fyrirtækisins um þessa könnun verður að sjálfsögðu kynnt utanrmn. og verður það gert alveg á næstunni.