Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 17:12:20 (128)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var nú svo fjöldamargt sem kom fram í ræðu hæstv. viðskrh. að það væri ástæða til þess og óhjákvæmilegt að halda þessari umræðu dálítið áfram og það væri auðvitað best að halda henni áfram í dag því það er nauðsynlegt að svara sumu af því sem fram kom í máli hans ítarlega. En aðalatriðið er það að utanrrn. hefur látið fara fram könnun, skoðanakönnun. Utanrrn. ætlaði ekki að birta þá könnun fyrr en það var knúið til þess í dag. Niðurstaða könnunarinnar er sú að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem afstöðu hafa tekið er á móti aðild að EES. Það er að vísu ljós í myrkri að þau 1,2% sem hafa kynnt sér málið mjög vel eru tiltölulega jákvæð miðað við alla hina, að sögn hæstv. ráðherra. Og það kom líka fram í þeirri yfirlýsingu sem hæstv. ráðherra las áðan til hvers könnunin var gerð. Markmið könnunarinnar er að afla efnis til að nota við hönnun kynningarefnis á vegum utanrrn. Við hönnun kynningarefnis. Með öðrum orðum við heilaþvottaraðferð sem utanrrn. ætlar að beita sér fyrir í þessu máli.
    Hér hefur í dag, virðulegur forseti, utanrrn. verið afhjúpað þannig að ódrengilegum og óheiðarlegum vinnubrögðum í þessu máli að það er algjörlega óhjákvæmilegt að þetta mál og vinnubrögð ráðuneytisins í þessu efni fái sérstaka meðferð.
    Ég kvaddi mér hins vegar hljóðs, virðulegur forseti, sérstaklega til að mótmæla því þegar hæstv. viðskrh. fullyrti að notkun þjóðaratkvæðis í því máli sem hér um ræðir stangaðist á við 1. gr. stjórnarskrárinnar af því að þar er talað um að landinu sé stýrt af þingbundinni stjórn. Satt að segja hef ég aldrei heyrt aðra eins fjarstæðu. En það er alvarlegt umhugsunarefni þegar starfandi utanrrh. telur að það sé í raun og veru ekki hægt að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu af því að hún stangist á við 1. gr. stjórnarskrárinnar, af því að þar er kveðið á um þingbundna stjórn.
    Ég tel, virðulegur forseti, að upplýsingar hæstv. viðskrh. hafi verið gagnlegar en þó alveg sérstaklega sú staðreynd að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er andvígur samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.