Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 17:27:19 (129)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst vil ég að sjálfsögðu mótmæla því sem hv. 9. þm. Reykv. sagði hér síðast. Því fer fjarri að það liggi fyrir að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sé andvígur EES-samningnum. Þvert á móti liggur fyrir að fólk er óráðið í afstöðu sinni til málsins. Það er helsta niðurstaða þessarar könnunar.
    En víkjum nú að öðru. Ég vil líka láta það koma fram að ég mótmæli því harðlega að hér hafi einhver afhjúpun á utanrrn. farið fram. Það liggur alveg ljóst fyrir að þessi könnun var og verður birt opinberlega. Hæstv. utanrrh. vitnaði til hennar í framsöguræðu sinni fyrir EES-frumvarpinu fyrir viku. Og að láta sér detta það í hug að það hafi á einhvern hátt vakað fyrir honum eða hans starfsmönnum í ráðuneytinu að halda þessu frá þinginu eða almenningi er fullkomin fjarstæða og á ekki við nein rök að styðjast.