Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 17:32:09 (133)


     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Út af þessari könnun þá vekur það athygli mína að 1,2% þóttust vita allt um málið og þeir hafa væntanlega verið því fylgjandi ef lesa má milli línanna í þessum auglýsingatexta. En hann skyldi þó aldrei hafa verið unnin af auglýsingastofunni Athygli? Ég óska eftir því að við fáum þessa könnun eins og hún leggur sig, spurningarnar og lýsingu á hvernig hún var gerð. Ég tek ekkert mark á því þó hún komi litprentuð frá einhverri auglýsingastofu, ég vil fá hana hreina og klára.
    Mig langar til að vitna til álitsgerðar dr. Guðmundar Alfreðssonar út af orðum hæstv. viðskrh. hér áðan. En þar segir á bls. 16:
    ,,Það er ekki rétt að bera saman EES-samninginn og núgildandi EFTA-samning eða mannréttindasamning Evrópuráðsins þrátt fyrir ákvæði í þessum samningum um lausn deilumála. Niðurstöður stofnana samkvæmt síðarnefndu samningunum varða þjóðréttarlegar skuldbindingar og fá ekki sjálfkrafa gildi að landsrétti. Það er ekki heldur sambærilegt að tala um tilfelli þegar íslenskir dómstólar beita útlendum reglum því að þá eru íslenskir dómstólar að verki og hafa lokaorðið. Hið sama gildir um Norðurlandasamninga um gagnkvæmt aðfarar- eða fullnustuhæfi dóma frá þessum löndum (sjá athugasemdir um aðfararhæfar stjórnsýsluathafnir í kaflanum um framkvæmdarvaldið).``
    Varðandi þetta með þarfir þjóðfélagsins sem ég vitnaði til og hæstv. viðskrh. hnaut um í ræðu minni, þá segir hann í ræðu sinni, og ég les hér úr henni kafla, með leyfi forseta:
    ,,Auðvitað eru skiptar skoðanir`` --- segir hæstv. viðskrh. --- ,,meðal lögfræðinga ekki ný bóla, líka um stjórnarskrármálefni. Það er einmitt þess vegna sem reynir á þingmenn hvort þeir geta sjálfir tekið á málum í samræmi við sína samvisku og þarfir þjóðfélagsins.`` --- Ég endurtek: ,,og þarfir þjóðfélagsins``. --- ,,Það er fullkomlega ástæðulaust að tefja eða flækja EES-málið með slíkum frumvarpsflutningi sem hér er til umræðu.``
    Þetta er herhvöt, menn eiga að loka augunum og stinga sér til sunds. Þarfir þjóðfélagsins gera vangaveltur um stjórnarskrána lítils virði.