Stjórnarskipunarlög

9. fundur
Fimmtudaginn 27. ágúst 1992, kl. 17:38:35 (138)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það vefst reyndar fyrir mér og gerir vafalaust fyrir fleirum hvernig eitthvað sem gerðist á þessum þingfundi knúði hæstv. utanrrh. til þess að skýra frá niðurstöðum þessarar könnunar fyrir viku. Það hlýtur nú jafnvel hv. 8. þm. Reykn. að viðurkenna með mér að sé dálítið erfitt umhugsunarefni. Finnst þingmanninum og öðrum sem um málið hafa spurt þetta beri vitni um það að einhverju hafi átt að halda leyndu? Ég vísa til föðurhúsanna öllum ásökunum um það að hér hafi verið framkvæmd einhver leynikönnun á kostnað almennings. Og ég vildi eiginlega rifja það upp að meðal þess sem hv. 8. þm. Reykn. telur sér til ágætis er það að hann vilji ástunda nútímaleg vinnubrögð í almannatengslum og upplýsingaþjónustu við fólk. Ég held að hann sé nú kominn út á hálan ís ef hann ætlar að tala um milljónakostnað við útbreiðslu á áróðursefni í stjórnmálum, úr ráðuneytum og embættum sem tengjast ríkisstjórn.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram og held að það sé alveg yfir allan vafa hafið að í þessu máli liggja hlutirnir alveg ljóst fyrir og verða kynntir í nánari atriðum. Þetta yfirlit er að sjálfsögðu samið á ábyrgð ÍM Gallups, en ekki utanrrn.