Stjórnarskipunarlög

10. fundur
Mánudaginn 31. ágúst 1992, kl. 15:23:01 (151)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að það var ákaflega fróðlegt að hlusta á Björn Þ. Guðmundsson í utanrmn. en ég verð að segja það að hans röksemdir og umræðurnar þar breyttu ekki þeirri skoðun minni að EES-samningurinn brýtur ekki í bága við stjórnarskrána.
    Ég vil einnig leyfa mér, virðulegi forseti, að vitna til þess sem hv. 7. þm. Reykn. sagði í fyrrnefndri blaðagrein. Hann sagði:
    ,,Ég er þeirrar skoðunar að slíkur dómstóll geti verið eins mikilvægur fyrir okkur ef ágreiningur rís og fyrir aðrar þjóðir innan EES. Við megum ekki ala með okkur þá minnimáttarkennd að okkar hlutur hljóti að vera fyrir borð borinn í slíkum dómstóli. Við mundum eiga þar dómara og höfum menn sem geta flutt okkar mál, ekki síður en aðrir.``
    Þetta er kjarni málsins. Það er ekki verið að framselja neitt vald. Það er verið að koma á fót dómstóli til að dæma um ákveðið réttarsvið sem við erum að skapa og það er ekki hægt að bera EES-samninginn saman við Evrópubandalagið. Þess vegna er ekki hægt að álykta af orðum Max Sørensens um EES um það sem hann var að segja þegar hann var að ræða um aðild að Evrópubandalaginu. Það er ekki hægt að bera þessa ólíku hluti saman.