Stjórnarskipunarlög

10. fundur
Mánudaginn 31. ágúst 1992, kl. 15:25:30 (153)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. 7. þm. Reykn. að forúrskurðirnir væru ekki vandamál nú. Ég vek athygli þingheims á þessari setningu. Það er að sjálfsögðu grundvallaratriði að forúrskurðirnir eru ekki vandamál nú. Það er að sjálfsögðu ástæðan fyrir því að m.a. fræðimenn eins og Stefán Már Stefánsson líta svo á að samningurinn, eins og hann er nú, sé ekki brot á stjórnarskránni. Það sem ég var að ræða um í minni ræðu fyrr var að eins og EES-samningurinn var hugsaður í tíð fyrri ríkisstjórnar var inni ákvæðið um forúrskurði EES-dómstólsins sem er öðruvísi myndaður, hefur öðruvísi skuldbindingar en EFTA-dómstóllinn hefur nú og það var gert ráð fyrir því að slíkir úrskurðir yrðu bindandi. Það var einmitt um þetta atriði sem Stefán Már Stefánsson hafði gefið álit og taldi að þarna gæti verið um að ræða brot á stjórnarskránni.
    Auðvitað hljótum við að líta á í hvaða farvegi þetta samningamál var á meðan Steingrímur Hermannsson, hv. 7. þm. Reykn., var forsrh. en ekki að líta á málið í ljósi þess hvernig það lítur út nú eftir að Evrópudómstóllinn er m.a. búinn að komast að þeirri niðurstöðu að einmitt þetta atriði, um forúrskurði EES-dómstólsins, samrýmist ekki hans eigin valdsviði. Það lá ljóst fyrir fyrir kosningarnar í maí að það var einmitt það sem einkenndi EES-dómstólinn, hann hafði það valdsvið, svipað valdsvið eins og EB-dómstóllinn hafði, m.a. til að gefa forúrskurði sem eru bindandi.