Stjórnarskipunarlög

10. fundur
Mánudaginn 31. ágúst 1992, kl. 15:27:27 (154)

     Flm. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er orðið heldur leiðigjarnt að endurtaka sig svo oft hér. Forúrskurðirnir voru ekki vandamálið þá eða nú. Ég las úr skýrslu utanrrh., sem ég vona að hv. þm. taki trúanlega, þar sem hann segir --- ég skal lesa þetta í þriðja eða fjórða sinn:
    ,,Fari landsdómstóll ekki eftir túlkun EES-dómstólsins í málinu þá gildir niðurstaða landsdómstólsins gagnvart aðilum málsins.``
    Þeir eru bindandi fyrir þá sem báðu um og kunna að biðja um forúrskurðina. Þar sem landsdómstóllinn er æðri forúrskurðinum --- þessi málsgrein fjallar um forúrskurðinn, ég las hana alla áðan, ég vona að ég þurfi ekki að lesa hana í heild sinni --- og annaðhvort þarf að biðja um forúrskurði eða þeir eru ekki æðri landsrétti, þá eru þeir ekki brot á stjórnarskránni. Ég er með alla skýrsluna frá Stefáni Má. Hann fjallar um það ef það verður sett í landslög að forúrskurði skuli fá. En hæstv. utanrrh. gerði sér að sjálfsögðu grein fyrir því að það var ekki hægt. Þess vegna stóðu samningar þannig þegar skýrslan var gerð í mars 1991 að forúrskurðir áttu ekki að vera æðri landslögum. Þess vegna brutu þeir ekki í bága við stjórnarskrána.