Stjórnarskipunarlög

10. fundur
Mánudaginn 31. ágúst 1992, kl. 15:29:15 (155)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hv. þm. Steingrímur Hermannsson vitnar hér mjög stíft í skýrslu utanrrh. sem hann hefur keppst við ásamt hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að lýsa yfir að ekki hafi verið samstaða um í ríkisstjórn. Ég hef hins vegar sýnt fram á það að með ýmsum hætti hafði hv. þm., þegar hann gegndi forsætisráðherraembætti, borist upplýsingar um það að hugsanlega væri þarna um að ræða ákvæði sem brytu í bága við stjórnarskrána. Og þá spyr ég: Lét hann fara fram á vegum síns embættis sérstaka sjálfstæða athugun á þessu máli eða treysti hann þáv. og núv. utanrrh. Jóni Baldvini Hannibalssyni fyrir því að sjá um þetta mál eingöngu?