Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 13:41:30 (162)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um frv. sem kveður á um að við skulum fullgilda fyrir Íslands hönd samning um hið Evrópska efnahagssvæði og ekki bara samninginn heldur viðauka við hann, bókanir og gerðir sem í viðauka er getið. Það er því ekki rétt að við séum aðeins að fullgilda samninginn um EES, við erum jafnframt að taka í lög allt sem honum fylgir og öll þau lög og reglugerðir sem gilda innan Evrópubandalagsins og snerta fjórfrelsið. Það munu vera um 60% af lagabálkum Evrópubandalagsins sem falla undir það.
    Þegar ég byrjaði fyrir einu ári að kynna mér hvað fælist í því fyrir okkur ef við gerðumst aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði var því mjög haldið á lofti af forsvarsmönnum þessa samnings að stærstu hagsmunir okkar sem snertu þennan samning fælust í því að fá tollfrjálsan markað fyrir helstu útflutningsvörur okkar, þ.e. sjávarafurðir. Þar höfum við haft hingað til verulegar tollaívilnanir samkvæmt svokallaðri bókun 6 sem oft er vitnað til. Þar höfum við notið tollfrelsis á um 50% af útflutningi á sjávarafurðum til Evrópubandalagsins. Það var árið 1990 samkvæmt útflutningsskýrslum. Því til viðbótar höfum við notið verulegra tollfríðinda á 17% af útflutningi sjávarafurða. Þarna er því um að ræða tæp 70% af útflutningi sjávarafurða sem við höfum notið ýmist tollfrelsis á eða verulegra tollfríðinda.
    Hvað er það þá sem við fáum með þessum samningi? Í athugasemdum með samningnum segir að hlutfall tollfrjálsra sjávarafurða aukist úr rúmlega 60%, eins og það er orðað þar, í 90%. Það er talið jafngilda 1,7--2 milljörðum kr. og menn horfa á þetta og hugsa sem svo að þarna sé nú um álitlega upphæð að ræða. En menn skyldu athuga að þetta er ekki það sem við fáum í okkar hlut, alls ekki. Við borgum ekki tollana. Og það er ekki þar með sagt að þessi lækkun komi þeim neytendum til góða sem ætla að kaupa fiskinn okkar. Við sjáum mörg dæmi þess að lækkun í heildsölu kemur ekki fram í smásölu og því skyldi annað gilda um þetta? Það má allt eins gera því skóna að þetta hafi ekki teljandi áhrif á sölumöguleika okkar á fiskafurðum erlendis. Það er vert að skjóta því inn í að það hefur kostað okkur nokkur hundruð milljónir að standa í þessum samningaviðræðum og það ,,batterí`` sem þarna er verið að setja upp kostar okkur líklega um 1 milljarð kr. árlega í greiðslu fyrir alls konar nefndastörf, ferðalög, framlög í Þróunarsjóð EB o.fl. og er þá ekki meðtalinn allur sá viðbótarkostnaður sem við hljótum að lenda í hér innan lands. Endanleg tala liggur vitaskuld ekki fyrir og verður ekki fyrr en fyrsti ríkisreikningur verður tilbúinn þar sem kostnaðurinn kemur þá í ljós verði þetta frv. um Evrópskt efnahagssvæði samþykkt hér á hinu háa Alþingi.

    Í framhaldi af umræðu um tolla má benda á að ríkissjóður verður líka af tekjum í formi fjáröflunartolla sem voru á árinu 1991 940 millj. kr. á vörum frá löndum hins Evrópska efnahagssvæðis. Með samningi um Evrópskt efnahagssvæði erum við að afsala okkur eigin ákvörðunarvaldi um þessar tekjur ríkisins. Hins vegar ef við erum ekki innan Evrópsks efnahagssvæðis getum við sjálf ákveðið á hvaða vörur við leggjum innflutningstolla og hvenær við breytum þeim eða fellum þá niður ef það þjónar hagsmunum okkar. Í þessu sem svo mörgu öðru erum við að afsala okkur eigin ákvörðunarvaldi.
    Ég ætla að ræða örlítið meira um sjávarútvegsmálin og EES. Samkvæmt frv. átti að leggja fram frágenginn sjávarútvegssamning um gagnkvæmar veiðiheimildir. Það hefur enn ekki tekist að koma honum saman. Það sem vitað er er að búið er að opna landhelgina fyrir erlendum skipum. Á sama tíma og við höfum haft það markmið að losna við erlend skip úr fiskveiðilögsögunni á nú að hleypa skipum Evrópubandalagsins inn í hana samkvæmt þeim drögum sem fyrir liggja. Skip Evrópubandalagsins fá sem svarar veiðiheimildir fyrir 3 þús. tonnum af karfa og á móti eigum við að fá 30 þús. tonn af loðnukvóta Grænlendinga sem Evrópubandalagið hefur keypt. Í þessu sambandi er rétt að vitna í ræðu sem Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, flutti á aðalfundi Samstöðu hinn 9. maí sl. en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Íslendingar buðu sl. sumar skipti á langhala og loðnu. Hvorki höfðum við nýtt langhalann né Evrópubandalagið loðnuna svo látið var líta út sem hér væri um ,,pappírsviðskipti`` að ræða. Þetta gerbreyttist hins vegar þegar Evrópubandalagið krafðist þess að fá að veiða hér 3 þús. tonn af karfa. Þess ber að geta að karfinn er að sjálfsögðu einn af okkar fullnýttu stofnum þannig að veiðar útlendinga hafa það í för með sér að draga verður úr afla íslensku togaranna sem veiðum útlendinganna nemur. Í stað þessa skyldum við fá 30 þús. tonn af loðnu, þ.e. veiðiheimildir sem Evrópubandalagið hefur keypt af Grænlendingum og við gætum nýtt í stað þeirra 3 þús. tonna af karfa sem Evrópubandalagið fengi að veiða hér.
    Aðalatriði þess sem ég er að reyna að koma hér til skila,`` segir Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, ,,er sú staðreynd að veiðiheimildir þær sem Grænlendingar selja Evrópubandalaginu eru engin viðbót við þá loðnu sem er á Íslands-, Grænlands-, Jan Mayen-svæðinu. Þetta er hluti af því sem við viljum kalla íslenska loðnustofninn. Ef Íslendingar ætla í raun og veru að semja um gagnkvæm veiðiréttindi og afsala sér 3.000 tonnum af karfa nær auðvitað engri átt að þiggja í staðinn loðnu sem við fengjum hvort sem væri.``
    Þetta segir Jakob Jakobsson og ég hef þar engu við að bæta. Þetta eru staðreyndir málsins. Ég tel því að það sem sagt var í upphafi þessara EES-viðræðna, að þær væru fyrst og fremst til að fá niðurfellingu tolla af sjávarafurðum í löndum EB og ekki kæmi til greina að hleypa erlendum skipum inn í okkar fiskveiðilögsögu, sé hvorugt lengur til staðar.
    Menn skyldu líka taka eftir því að í fyrstu var ekki svo mikið sem talað um fjórfrelsið. Það var ekki aðalmarkmiðið. Nú á það hins vegar að vera aðalfengur okkar af þessum samningaviðræðum.
    Vík ég þá aðeins af hinu fjórþætta frelsi. Frjálsir fólksflutningar er hið fyrsta. Þurfum við á því að halda? Það hafa ekki verið miklar hömlur á okkur Íslendingum til að setjast að í öðrum löndum og dæmi um að fólk hafi ýmist fengið atvinnu hjá öðrum eða stofnað eigin fyrirtæki. Við þurfum ekki samning um Evrópskt efnahagssvæði til þess. Hvað varðar það sem fram kom í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, að nauðsynlegt sé fyrir okkur að vera innan Evrópsks efnahagssvæðis til að geta fengið að vera með í evrópsku rannsóknarstarfi, að þá veit hún það áreiðanlega að slík samvinna hefur verið í gangi og er ekki skilyrt því að vera innan Evrópsks efnahagssvæðis. En hvað með þann ótta sumra að hingað flykkist erlent vinnuafl frá atvinnuleysissvæðum Evrópubandalagsins? Ráðamenn svara að það sé engin hætta á því, þar munum við nefnilega njóta fjarlægðarverndar. Vel má það vera en skyldi þá ekki þessi sama fjarlægð vera okkur hindrun þegar kemur að því að leita inn á markaði Evrópubandalagsins sem nú eiga að vera okkur öllum opnir, bæði fyrir sjávarafurðir og iðnaðarvörur? Skyldi þá ekki fjarlægðin vera hindrun í að komast inn á markaðina? Það er erfitt að ná markaðshlutdeild og þó að fiskurinn sé okkar stærsta útflutningsafurð, þá er hann aðeins lítill hluti þess fisks sem þarf til manneldis í Evrópubandalagslöndum. Það eru því ekki miklar líkur á að okkur gangi vel að leggja undir okkur markaði EB með fullunnar sjávarafurðir eins og margir virðast halda, fyrir utan það að markaðsfræðingar telja að mesti vaxtarbroddurinn sé í útflutningi á ferskfiski beint til neytenda og öll þróun síðustu ára hnígur í þá átt. Erum við ekki að fjölga frystitogurum? Vegna hvers? Vegna þess að það er sú framleiðsla sem borgar sig best í dag og mesta eftirspurnin er eftir. Þeir sem leyfi hafa til að veiða fiskinn, þeir sem eiga kvótann, taka fyrst og fremst mið af því hvað gefur mestan hagnað og munu ekki fara að basla við það að framleiða fullunnar fiskafurðir með tilheyrandi hallarekstri eins og dæmið lítur út. Þeim kemur það ekkert við þótt það skapi fleiri störf í landi.
    Ef við lítum til reynslu Dana og Norðmanna um hlutfall fullunnins fisks í heildarútflutningi þá styður það þessa kenningu. Fiskvinnslufyrirtæki í Evrópu hafa líka ákveðið forskot á markaðnum og njóta nálægðar við hann eins og ég sagði áðan en eru okkur hindrun.
    Með frjálsum fólksflutningum má líka leiða að því líkur að erfiðara verði um eftirlit á landamærum enda yfirlýst stefna Evrópska efnahagssvæðisins að slaka þar á. Gætum við ekki átt von á auknu flæði af fíkniefnum sem samkvæmt síðustu fréttum eru alltaf að aukast og á að ræða utan dagskrár í dag? Það virðist svo sem eftirlit okkar með innflutningi fólks megi ekki vera minna en það er. Og ég spyr því hæstv. utanrrh.: Hvað verður gert til að stemma stigu við því að enn meira flæði fíkniefna verði hingað til lands

með tilheyrandi afleiðingum? Á að auka útlendingaeftirlitið á sama tíma og yfirlýst stefna Evrópubandalagsins er að slaka á eftirliti á landamærunum?
    Frjáls flutningastarfsemi er mikilvægur hluti af Evrópska efnahagssvæðissamningnum. Sá hluti sem snertir okkur mest snýr að samgöngum á sjó og í lofti. Í sjóflutningum höfum við búið við samkeppni erlendra aðila bæði beint og óbeint. Það hefur leitt til lækkunar á farmgjöldum og framleiðniaukningar hjá skipafélögum sem hefur komið fram í lækkuðu vöruverði. Samkvæmt samningnum má ekki mismuna með magntakmörkunum eða forgangi að flutningum. Ekki eru í sjónmáli sérstakar eða miklar breytingar við hugsanlega þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu. En þó hefur ekki enn verið gengið frá reglum um gagnkvæman aðgang að strandflutningum innan Evrópubandalagsins og þá væntanlega innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þessu sem öðru er ákvarðanavaldið tekið frá okkur. Við megum ekki semja við þriðju lönd um farmskiptingu. En í þessum málaflokki er EB fyrst og fremst að styrkja sína kaupskipaútgerð. Og það getur verið að okkar fyrirtæki verði sökum smæðar ekki samkeppnisfær.
    Það vakti athygli mína að í Morgunblaðinu hinn 27. ágúst sl. var grein um samdrátt hjá Eimskip og að tekjur hafi dregist saman um 13% að raungildi fyrstu sex mánuði ársins. Þar segist Hörður Sigurgestsson forstjóri gera ráð fyrir að fækka starfsmönnum um 35--40 manns og að búist sé við áframhaldandi samdrætti í flutningum á næsta ári. Orðrétt segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Við teljum að í flutningalegu tilliti verði árið 1993 áframhaldandi þungt og geti orðið þyngra en árið 1992.``
    Ég spyr nú bara: Hefur maðurinn gleymt því að þann 1. janúar nk. eigum við að vera orðnir aðilar að innra markaði EB? Eða getur það verið að það hafi engin teljandi áhrif á stöðu fyrirtækjanna? Það er þá að minnsta kosti annað en þau rök sem borin eru á borð fyrir okkur, það að staða viðskipta okkar á alþjóðamarkaði muni stórlega batna.
    Ákvæðin um frjálsa vöruflutninga getur einnig haft þau áhrif að við missum íslensk skip undir svokallaðan þægindafána. Og þar með missa íslenskir farmenn störf til annarra sem skipafélögin geta þá ráðið á lægri launum en kjarasamningar kveða á um. Þá hef ég einnig rekið augun í að reglugerð EB nr. 613 1991, um tilfærslu skipa frá einni skipaskrá til annarrar innan EB-ríkja, getur haft sitt að segja. Samkvæmt henni getum við t.d. ekki neitað að skrá skip sem hefur gild skírteini og fullnægir kröfum fyrra heimalands. Við getum ekki sett okkar skilyrði fyrir tækni- og öryggisútbúnaði skipsins og við þekkjum að slíkar reglur eru mjög mismunandi milli landa. Við getum því átt á hættu að hér séu skráð skip sem ekki fullnægja þeim öryggiskröfum sem við gerum til okkar skipa í dag. Og vilji menn kynna sér þetta þá er þetta á bls. 147 í frumvarpinu.
    Í flugsamgöngum verður aukið frelsi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þar hafa verið í gildi ýmsar hömlur á frjálsri samkeppni á milli flugfélaga. En það hefur ekki eintóma kosti í för með sér. Það getur að vísu orðið til þess að samkeppni aukist í millilandaflugi sem mundi skila sér til neytenda í lækkuðum fargjöldum a.m.k. til að byrja með. En er ekki hætt við að þegar risanum í flugrekstrinum hefur tekist að drepa af sér minni fyrirtækin, eins og við sjáum oftlega dæmi um, verði þeir einir á markaðnum og geta þá ráðið verðlagningunni?
    Við verðum í þessu sem öðru að huga að því að þegar hinn óhefti markaður tekur völdin þá er ekki víst að okkar fyrirtæki standist þær kröfur sem gerðar eru. Lítil og meðalstór fyrirtæki --- en samkvæmt skilgreiningu Evrópubandalagsins eru það fyrirtæki þar sem starfa færri en 500 manns --- munu eiga erfitt með að standast samkeppni frá stærri og hagkvæmari rekstrareiningum. Og nú geta menn leitað í huga sér hvaða fyrirtæki á Íslandi eru með meira en 500 manns í vinnu.
    Stefnt er að því að öll höft á skiptingu sætaframboðs í flugi verði afnumin hinn 1. jan. 1993 og ekki má mismuna flugfélögum í innanlandsflugi eftir skrásetningu þeirra innan ríkja Evrópska efnahagssvæðisins og alls ekki aðgang að flugvelli sem um fara meira en 30 þús. farþegar á ári. Undir þetta falla flugvellirnir í Reykjavík, Keflavík, á Ísafirði, Egilsstöðum, Akureyri og í Vestmannaeyjum. Þá eru einnig í endurskoðun reglur sem gera á til flugmanna og nýjar kröfur um tæknilega getu flugfélaga. Reyndar get ég ekki séð að við þurfum Evrópskt efnahagssvæði til að gera strangari kröfur til flugmanna eða um tæknilega getu flugfélaga. Okkur er í sjálfsvald sett að vinna að öryggisatriðum í flugi innan IATA, alþjóðasambands flugfélaga. Og við getum sett okkar eigin reglur um fjárhagslega og tæknilega getu flugfélaga til að fá rekstrarleyfi.
    Í kaflanum um fjarskipti segir að opnað sé fyrir frjálsan markaðsaðgang á sviði hvers kyns fjarskipta nema símtalaþjónustu. Þar er ætlunin að við tökum í gildi alls kyns tilskipanir EB og reglur m.a. um farsíma, boðkerfi, um stafræn þráðlaus viðskipti, um stöðlun, um að aðskilja eftirlit og rekstur, svo eitthvað sé nefnt. Þetta kallar á margs konar breytingar hér á landi og reglugerðafár sem trúlega þarf ekki samþykki Alþingis fyrir heldur verður meðal þess sem ráðherra tekur sér vald til að gera eins og oft er um reglugerðir. Í því sambandi vil ég geta þess að komið er fram eitt frv. til laga sem varðar samgöngumál. Það er eins konar bandormur þar sem aðallega er verið að gefa ráðherra heimild til að setja þær reglur á sviði samgöngumála sem kveðið er á um í XIII. viðauka EES-samningsins um flutningastarfsemi.
    Í fjarskiptamálum hefur Ísland þó aðlögunartíma til 1995 ef frv. um Evrópskt efnahagssvæði verður samþykkt.
    Ég hef hér nokkuð gert að umtalsefni frjálsa fólksflutninga og flutningastarfsemi. Til viðbótar fjórfrelsinu er svo fjármagn og þjónusta. Ýmsir virðast halda að erlent fjármagn muni streyma inn í okkar smáu og illa stöddu fyrirtæki. Það er auðvitað fráleitt. Hvað er það helst sem erlendir aðilar hefðu hug á? Trúlega að ná aðstöðu til að nýta þær auðlindir sem við eigum enn nóg af, eins og vatn, orku og óspillta náttúru. Um sjávarútvegsfyrirtæki er ekki að ræða, a.m.k. ekki að svo stöddu þar sem girt hefur verið fyrir þátttöku erlendra aðila með löggjöf sem var, að mig minnir, samþykkt fyrir tæpum tveimur árum. Að öðru leyti vísa ég til þess sem segir í bæklingi fjmrn., Evrópa 1992 og ríkisfjármálin. Þar segir svo um efnahagsleg áhrif aðlögunar að EB, með leyfi forseta; ,, . . .  að búast megi við að viðskiptakjör batni þar sem verð á innfluttum vörum lækki en að vísu geti kreppt að innlendum samkeppnisgreinum.`` Það er mergurinn málsins. Við erum með þessum samningi að hleypa öllu lausu. Við ráðum þróuninni ekki sjálf. Við getum ekki farið okkur hratt eða hægt eftir atvikum og vilja okkar sjálfra. Frjálshyggjan ræður, svo einfalt er það. En það verður kannski ekki einfalt að snúa við ef og þegar við sjáum að við megum okkur lítils í hlutfalli við Evrópurisana.
    Ég hef, eins og ég sagði í upphafi, í u.þ.b. eitt ár leitast við að skoða kosti og galla á þeim samningi um Evrópskt efnahagssvæði sem við erum að fjalla hér um. Ég taldi eins og sjálfsagt margir aðrir að það hlytu að vera sterk rök fyrir því að við gerðumst aðilar að slíkum samningi. Ég hef bara ekki fundið nein haldbær rök.
    Í upphafi samningaviðræðna lagði Kvennalistinn til að farið yrði frekar í gerð tvíhliða samnings um viðskipti en að búa til þetta Evrópska efnahagssvæði. Mér sýnist fleiri og fleiri vera að komast á þá skoðun. Og ég fæ ekki betur séð en að við hefðum getað náð viðunandi viðskiptasamningi með því og jafnframt haldið óskertu ákvarðanavaldi okkar. Ég get ekki tekið undir það sem hv. þm. Björn Bjarnason segir í grein í Morgunblaðinu og utanrrh. vitnaði til í framsögu, að í viðræðum við EB náum við betri árangri í fylgd með öðrum en einir og óstuddir. Það getur líka verið okkur hindrun að þurfa að taka mið af hagsmunum hinna EFTA-ríkjanna við þessa samningagerð. Og það hefur vafalaust verið hindrun. Með venjulegum fríverslunarsamningi þyrftum við heldur ekki að standa frammi fyrri því að viss ákvæði samningsins um Evrópskt efnahagssvæði stangist á við stjórnarskrána.
    Virðulegi forseti. Ég hef gert að umtalsefni ýmis sérmál í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég tel að á undan mér hafi það margir gert stjórnarskrárþátt málsins að umtalsefni að ég vildi ekki eyða miklum tíma í að ræða það. En það er þó það sem fyrst og fremst þarf að ræða og ná niðurstöðu um, hvort það standist stjórnarskrá landsins að gera þennan samning. Hvort við erum þar að brjóta sérstaklega 2. gr. stjórnarskrárinnar. Við getum ekki látið þær aðvaranir sem virtir lögfræðingar og þjóðréttarfræðingar senda frá sér sem vind um eyru þjóta. Við getum heldur ekki hundsað vilja fjölmargra landsmanna sem vilja að þjóðaratkvæðagreiðsla fram fari um þetta mál. Það er ekki hægt að afgreiða á þann hátt sem utanrrh. gerir, að fólk hafi ekkert vit á þessu og þess vegna þýði ekkert að leggja slíkt undir dóm almennings.
    Að líkja samningnum um Evrópskt efnahagssvæði við hvern annan fríverslunarsamning er líka fráleitt. Hann á ekkert skylt við það. Í samningnum er valdaframsal til yfirþjóðlegra stofnana eins og stofnana Evrópubandalagsins sem við erum ekki aðilar að. Og slíkt er óheimilt samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það eins og ég sagði áðan, enda margir gert það á undan mér og ekki þörf á að endurtaka það allt. En í því frv. sem hér er til umræðu höfum við ekki færi á að breyta neinu. Það er tilbúinn samningur sem við ætlum að lögtaka. Annaðhvort segjum við já eða nei. Samþykkjum það óbreytt eða fellum. Ef það verður samþykkt mun það verða fyrsta skrefið í löngum ferli laga og reglugerða í framtíðinni sem við höfum engin áhrif á. Framvegis yrðum við að gangast undir stóran hluta af lögum og reglugerðum Evrópubandalagsins og höfum engin áhrif á málatilbúnað. Vilja alþingismenn það? Vilja þeir skerða rétt Alþingis til að setja landinu lög? Vilja þeir taka þá áhættu að samþykkja samning, sem að áliti hinna færustu manna, brýtur í bága við stjórnarskrá landsins?
    Virðulegi forseti. Ég skora á hvern og einn að skoða þetta mál vel og vandlega.