Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 14:07:30 (163)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hygg að þetta mál sé stærsta málið sem Íslendingar hafa tekið fyrir á Alþingi frá því að við slitum sambandinu við Dani. Ég hygg að allt frá þeim tíma hafi það verið stefna hvers einasta Íslendings að við þyrftum að halda áfram að styrkja stöðu okkar sem sjálfstæðrar þjóðar en ekki hitt að sjálfstæðið væri okkur fjötur um fót. Það er ærið umhugsunarefni hvernig það getur gerst að nú stöndum við frammi fyrir því að hver ræðumaðurinn eftir annan metur það svo að með því að afsala hluta af fullveldi íslensku þjóðarinnar --- það má deila um hve stórum hluta --- þá muni Íslendingar hafa af því efnahagslegan ávinning. Vopnaburðurinn er slíkur að það minnir á gömlu kenninguna hjá Filippusi Makedoníukonungi, sem sagði: ,,Enginn borgarmúr er svo hár að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir hann.`` Og vissulega er þessi fullyrðing enn í fullu gildi.
    Við höfum upplifað það að hafin er stórkostleg rannsókn í Sovétríkjunum á því hvort íslenskir kommúnistar hafi verið landráðamenn eða ekki. Hvort þeir hafi látið selja sig erlendu stórveldi til stuðnings. Menn hafa lagt það á sig að fletta þar upp gögnum fram og til baka og merkilegt nokk, þeir eru hirðumenn með skjöl þar úti. Þeir brenna þeim ekki, þeir telja rétt að hægt sé að skoða þau. Það lengsta

sem menn hafa komist til þessa í rannsókninni miklu er að forstjóri fyrir íslenskri bókaútgáfu, sem gaf út bækur frá Sovétríkjunum, er staðinn að því að hafa tekið lán og þegið að lánið var afskrifað.
    Vissulega er það umhugsunarefni hversu stóra bita menn geta þegið án þess að það hafi áhrif á þeirra stefnu. En hitt er líka umhugsunarefni að það er alger leynd yfir öllum skjölum utanrrn. frá heimsstyrjöldinni síðari. Má vænta þess að núv. utanrrh. vinni að því að þessari skjalaleynd verði aflétt því að þetta eru að verða mestu leyniskjöl sögunnar? Það er búið að opinbera flestöll önnur gögn í Ameríku en þessi. Hvaðan kemur þá krafan um að þessi gögn séu ekki opinberuð? Er það frá íslenska Alþfl.? Og hvers vegna segir sá það sem hér stendur? Vegna þess að eini foringi Íslendinga í stjórnmálum sem hefur lýst því yfir að hann hafi þegið erlent fé var forustumaður Alþfl., Benedikt Gröndal. Hver kannast ekki við þá yfirlýsingu? Og hann lofaði íslenskri þjóð að gera grein fyrir því hvaðan peningarnir væru komnir, hve miklir og hvernig þeim yrði varið. Þessi skýrsla hefur aldrei verið lögð fyrir íslenska þjóð. Okkur var sagt að þessir peningar kæmu frá norsku verkalýðshreyfingunni. Hver trúir því að hægt sé að láta samþykkja reikninga í norsku verkalýðsfélagi þar sem stendur: Peningar sendir til Íslands til þess að efla Alþfl. uppi á Íslandi? Trúir nokkur maður því að endurskoðandi hafi samþykkt aðra eins hringavitleysu? Trúir nokkur Íslendingur því að þetta sé satt? Hvaðan komu peningarnir sem Benedikt Gröndal var með á sínum tíma? Og hversu mikla peninga hefur íslenski Alþfl. þegið erlendis frá í gegnum tíðina? Það er eins og Ísland sé blómagarður í kosningum. Það eru rauðar kratarósir út um allt, innfluttar. Hvaðan kemur þetta fé? Það skyldi þó ekki vera að það væri komið að skuldadögum og kerling vildi hafa nokkuð fyrir snúð sinn. (Gripið fram í.) Það er engin rós án þyrna, hv. formaður þingflokks Alþfl. Og það eru þyrnarnir sem núna eru farnir að þéttast að.
    Auðvitað höfum við engan sérfræðing á borð við hv. 5. þm. Norðurl. e. í rannsóknastarfsemi til þess að fara ofan í þessi mál. Ég geri ráð fyrir því að þetta rosalega mál þarna fyrir norðan sem ekki er enn upplýst hlyti að verða upplýst á næstunni ef hann tæki sér hlé frá þingstörfum og færi í að skoða það. En kannski verður það þetta mál sem hann tekur fyrir, þ.e. fjármagn Alþfl.
    Ég hygg að það sé aðeins eitt mál fyrir norðan sem mönnum hefur fundist með ólíkindum, þegar grímuklæddur maður ryðst inn í hús, notar eggvopn til að hafa fram vilja sinn gagnvart konu og hótar að drepa börnin hennar. Ég veit ekki um neitt mál á Akureyri sem hefur verið jafnviðbjóðslegt og þetta mál. En ég hélt að það ætti ekki sérstaklega inn í þessa umræðu í nákvæmri skýringu. Ég hélt að menn skildu fyrr en skylli í tönnum. En hvernig stendur þá á því að peningarnir sem komu til Alþfl. forðum og aldrei var gerð grein fyrir hafa algerlega horfið út úr myndinni þegar menn ræða nú um það sem hér er að gerast?
    Fyrrv. formaður utanrmn. þessa þings hefur á seinustu þingum fyrst og fremst verið frægur fyrir það að hann hefur viljað sækja meiri rétt fyrir Íslendinga en hans samtíð hefur sennilega skynjað að væri hægt. Þar á ég við deiluna við Breta út af hugsanlegum olíulindum á gráu svæði eða svæði sem Íslendingar eiga fullan kröfurétt til. En niðurstaðan er sú að hann hefur verið settur af.
    Þessi sami þingmaður varð eitt þjóðfrægur fyrir það að hann vildi standa á vissum prinsippum í réttindum manna varðandi atvinnufrelsi, keypti sér hrút, átti byssu, hvort hann hafði keypt hana eða fengið hana gefins veit ég ekki, og hótaði að skjóta hrútinn. Það hafði enginn samúð með hrútnum. Menn hugleiddu það ekki einu sinni að hrúturinn hefði sjálfstæðan vilja og rétt til lífsins. Það fylgdust allir með því hvað skotmaðurinn ætlaðist fyrir og hvort hann hefði óskertan rétt til að drepa hrútinn. Ég veit ekki hvort hv. 4. þm. Reykv. gerði sér grein fyrir því þá að það yrðu hlutverkaskipti í rullunni og hann mundi hafna í hlutverki hrútsins. Það merkilega gerðist að stórskyttan sem tók að sér að sjá um verkið tapaði eiginlega allri athygli. Athygli þjóðarinnar snerist við. Hlutverkið sem hafði verið aðalhlutverkið, þ.e. skotmannsins, varð ákaflega lítils virði vegna þess að sá sem var í hlutverki hrútsins gaf út þá yfirlýsingu sem stendur eftir óbrotgjörn: Heldur segi ég af mér þingmennsku en að brjóta stjórnarskrána. Sú yfirlýsing gerði það að verkum að allri íslenskri þjóð varð ljóst hvers vegna það væri ekki hægt að hafa þennan mann sem formann utanrmn. Það gekk hreinlega ekki upp miðað við stöðu mála.
    Víkjum ögn betur að því sem er að gerast í pólitíkinni í heiminum í dag. Það er vonlaust annað en fara nokkuð vítt yfir sviðið vegna þess að Íslendingar, sem yfirleitt eru ekki mjög hógværir, hafa lýst því yfir samkvæmt skoðanakönnun framkvæmdri af utanrrn., iðnrn. og félmrn. að þekking þeirra á EES-málum sé frekar lítil. Við verðum að fara aftur til heimsstyrjaldarinnar síðari og örlítið lengra því eitt af slagorðum Þjóðverja og ástæðan fyrir því að þeir fóru í þetta stríð var krafa Þýskalands um lífsrými. Hver kannast ekki við gömlu kröfuna um lífsrými? Og hvers vegna kröfðust Þjóðverjar lífsrýmis? Vegna þess að nýlenduveldi heimsins voru búin að niðurnjörva viðskiptahættina um heim allan. Það var búið að útbúa slíkt viðskiptanet að nýlenduveldin höfðu það í hendi sér að stór svæði áttu enga viðskiptalega möguleika við neina þjóð aðra en nýlenduherrana. Dálítið merkilegt að Ísraelsmenn hafa sama háttinn á gagnvart Aröbunum á herteknu svæðunum. Ef þeir ætla að selja eitthvað sem á að fara til útlenda, þá verða Arabarnir fyrst að selja það Ísraelsmanni og hann að selja það úr landi. Ákaflega einföld aðferð til þess að hafa stjórn á hlutunum.
    Eftir heimsstyrjöldina síðari blasti það við að fjármálamenn Evrópu kæmust að þeirri niðurstöðu að Bandaríkin væru svo stór, með svo mikinn heimamarkað, að ríki sem hefði aðeins 50 millj. eða 70 millj. manna heimamarkað, gæti ekki keppt við ríki sem hefði 200 millj. manna heimamarkað eða meira. Niðurstaðan varð sú að þeir ákváðu að reynda að mynda bandaríki Evrópu. Ég ætla ekki að deila á þá hugmynd. Það var út af fyrir sig þeirra hugmynd að það væri tvennt sem mundi vinnast. Í fyrsta lagi mundu þeir skapa iðnaðinum það lífsrými sem hann þyrfti, viðskiptarými, og svo mundi það draga úr líkunum á styrjöldum innan þessa svæðis. En það má ekki gleymast að tvisvar á þessari öld hefur Evrópa logað í styrjöldum. Gott og vel. Rómarsáttmálinn varð að veruleika. Hluti iðnríkja Evrópu skrifaði undir Rómarsáttmálann. Rómarsáttmálinn er ekkert annað en grunnstefnuskrá bandaríkja Evrópu. Það voru önnur ríki í Evrópu. Forusturíki þeirra þá var Bretland sem ekki vildi stofna bandaríki Evrópu en vildi engu að síður vinna að auknu viðskiptafrelsi í álfunni. Þau stofnuðu fríverslunarbandalag. Þessa sögu þekkja flestir. Engu að síður er nauðsyn að rifja hana nú upp. Þegar Bretland tekur þá ákvörðun að ganga inn í Efnahagsbandalagið og fleiri lönd með, þá stækkaði enn kjarninn sem hafði ákveðið að stofna bandaríki Evrópu. Enn var viss hópur ríkja fyrir utan sem vildi freista þess að ná samningum við þetta nýja stórveldi sem var að rísa og viðræðurnar um EES fóru af stað. Þá hafa menn spurt: Hver var niðurstaðan? Var niðurstaðan ekki góð? Niðurstaðan liggur fyrir. Flest ríkin telja að samningurinn sé það slæmur að það sé betri kostur að gerast aðili að EB. Ég segi fyrir mig: Við stöndum núna á þeim tímamótum að við þurfum að gera það upp við okkur: Ætlum við inn í EB eða ætlum við ekki inn í EB?
    Björn Bjarnason, hv. 3. þm. Reykv., núv. formaður utanrmn., hefur með sanni undirstrikað það að samþykkjum við EES erum við búnir að taka fyrsta og annað skrefið inn í EB. Þurfa menn að efast um að þetta sé rétt? Þurfa menn að efast um það? Hví skyldi hann vera að halda þessu fram nema af því að hann telur að svo sé? Ég held þess vegna að það sé tímabært að Íslendingar geri það upp við sig að ef þeir halda áfram núna og samþykkja þennan samning, sem vissulega er brot á stjórnarskránni, má gera ráð fyrir því að enn þá stærra hlutfall af viðskiptum Íslendinga verði við þetta svæði en það er í dag. Og um leið og við flytjum fleiri og fleiri egg í sömu körfuna, þeim mun veikari stöðu höfum við til að standa fyrir utan.
    Ég hef litið svo á að það fari ekki á milli mála að stjórnarskrá Íslands sé svo auðskiljanlegt plagg að sérhver Íslendingur sem er læs og vill ekki lesa allt í gegnum annarra gler hlýtur að átta sig á hinum einföldu orðum þegar talað er um skiptingu valdsins. Þegar talað er um það að dómarar fari með dómsvald, þingið og forsetinn með löggjafarvaldið og forsetinn felur ráðherrum umboð sitt með framkvæmdarvaldið, þá þarf ekki að lesa þetta með einhverjum hugleiðingum um að það standi hvergi að þetta sé alíslenskt framkvæmdarvald, og því sé engin krafa um að þetta sé alíslenskt framkvæmdarvald. Það er engin krafa um það að ráðherrarnir séu alíslenskir. En að framkvæmdarvaldið sem þarna er átt við geti verið annað en íslenskt er náttúrlega slík hártogun og slík ósvífni gagnvart heilbrigðri skynsemi að mann undrar að menn láti sér detta í hug að halda slíku fram.
    Hins vegar verður það að segjast eins og er að þeir eru margir vel metnir og virtir lögfræðingarnir sem hafa með réttu sagt þjóðinni satt um þessa hluti og reyna ekki með hártogunum að halda því fram að venjulegir menn séu ekki læsir um þessa hluti. Ef það er rétt að venjulegur maður sé ekki læs á stjórnarskrána, þá er það mesta ósvífnin sem framkvæmd er í þessum sal að fara fram á það að menn vinni drengskaparheit að því að virða hana. Hvernig er hægt að krefjast þess af mönnum að þeir vinni drengskaparheit og virði það sem þeir vita ekki hvað er? Er það hægt? Er hægt að fara fram á það að menn vinni drengskaparheit að einhverju sem þeir hafa ekki hugmynd um hvað er? Með þeirri kröfu er beinlínis verið að krefjast þess að hver einasti alþingismaður sé svo viti borinn og sé læs að hann geti af eigin dómgreind metið þessa hluti. Krafan er þessi og það þýðir ekkert að láta sér detta það í hug að einhverjir aðrir eigi að meta þetta.
    Hins vegar er rétt að Alþingi Íslendinga vildi láta kjósa nefnd. Það vildi fara fram á að lögfræðilegir sérfræðingar yrðu látnir segja sitt álit. En hvað gerist þá? Utanrrn. með utanrrh. í broddi fylkingar stormar fram á völlinn og yfirtekur verkefnið. En eitt ætla ég að segja varðandi það atriði. Til forna var eitt af því athyglisverða í dómkerfi Íslendinga það að það mátti ryðja dóm sem kallað var. Maður sem var borinn sökum mátti fara fram á að viss hluti dómaranna viki úr dómarasæti vegna þess að hann prívat og persónulega treysti þeim ekki. Hann taldi þá einhverra hluta vegna ófæra um að taka heiðarlega afstöðu.
    Niðurstaðan sem blasir við núna þegar álit fjórmenninganna er skoðað er því miður sú að þjóðin treystir þeim ekki. Af ýmsum ástæðum hafa menn ástæðu til að ætla að þeir séu vanhæfir til þessa verks af ýmsum persónulegum ástæðum. Og það er furðulegt þegar formaður utanrmn. talar þeim til háðungar um virðingu þessara manna. Það gengur ekki að menn endurskoði eigin verk. Hluti þeirra vann að samningsgerðinni. Ég sé að sumir í salnum skrifa nú jafnhratt og þeir geta og er það vel.
    Ég ætla að víkja hér að áliti Bjarna Hannessonar um það hver séu þrjú aðalatriði þessa máls. Álitið er svo stutt að enginn sérfræðingur hefði látið sér detta í hug að hafa það svona stutt því þá hefði hann ekki getað sent nema mjög lélegan og lágkúrulgan reikning fyrir unnið verk. Það gengur nefnilega ekki að koma aðeins með örstutt álit og heimta háa þóknun fyrir. Með leyfi forseta hljóðar þetta svo:
  ,,1. EES-samninginn er tæpast hægt að flokka undir samstarfssamning sjálfstæðra ríkja heldur verulega stóran áfanga að samrunaferli til stofnunar fjölþjóðlegs stórríkis með þannig innri lögmálum að a.m.k. Íslendingar eiga ekkert erindi inn í það risaríki.
    2. Engar forsendur eru fyrir afsali sjálfstæðis vegna ófriðarhættu að því er Ísland varðar.
    3. Ævarandi endurnýjanlegur þjóðarauður er mjög mikill pr. einstakling, svo sem sjávarafli, raforka og jarðhiti ásamt miklu landrými pr. íbúa og tiltölulega ómengaðs vistkerfis og því möguleikar á að Íslendingar gætu efnahagslega og pólitískt séð haft bestu lífskjör sem gerast og munu verða möguleg hér á þessum hnetti um ókomna tíð ef þeir kunna með þjóðarauðinn að fara og eru það því alger afglöp að tengjast öðrum ríkjum á þann veg að erlendir aðilar gætu náð tökunum á einhverjum af þessum auðlindum. En það eru í ríkum mæli opnaðir ýmsir augljósir og duldir möguleikar erlendra ríkja innan EES-samningsins til að ná tangarhaldi á fyrrgreindum þjóðarauð.``
    Álitið liggur fyrir. Ég efa að það væru margir Íslendingar sem gætu dregið upp þessa mynd í styttra máli. Við skulum örlítið fara yfir stöðuna efnahagslega. Áður en ríkisstjórnin kom til valda vorum við í 6. eða 7. efsta sæti með þjóðartekjur á mann. Við höfum hæst farið í 4. sæti. Það er ekki skrýtið þó að þeir sem hafa horft á slíka sigurgöngu komist að þeirri niðurstöðu að nú beri að afsala fullveldinu. Japanir standa okkur ofar, það er rétt. Og Sviss. Á seinasta áratug var hagvöxtur á Íslandi jafnmikill og í Vestur-Þýskalandi. En það hefur verið meiri hagvöxtur innan EB og hvers vegna? Vegna þess að ástandið í Portúgal og á Spáni var svo aumt að það gat ekki annað en batnað. En hvað með stórríkið sem verið er að tala um í þessum texta? Man nokkur hér inni eftir því að eftir heimsstyrjöldina fyrri þurftu Þjóðverjar að skrifa undir það að þeir hefðu engan her, og hvernig her stofnuðu þeir? Þeir stofnuðu leikfangaher. Það getur nú ekki verið hættulegur her. Hvernig her máttu þeir stofna eftir heimsstyrjöldina síðari? Þeir máttu engan her stofna eftir heimsstyrjöldina síðari nema bara til innra eftirlits hjá þeim sjálfum. En hvað er gert í dag? Búið er að stofna Evrópuherinn. Vita menn það ekki? Búið er að stofna Evrópuherinn. Halda menn virkilega að stórveldið Evrópa ætli aldrei að nota þann her? Hvenær hafa Frakkar og Þjóðverjar stofnað her sem þeir hafa aldrei ætlað að nota? Er mannkynssagan þá einskis virði til að lesa hana yfir og best að þurrka hana út úr öllum skólum og spara þannig útgjöld til menntamála? Er þessi þjóð orðin svo friðelskandi vegna þess að klerkar heimsins séu búnir að predika svo yfir henni að enginn maður hugsi nú um annað en bróðurkærleikann? Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að Balkanskaginn mundi loga eins og hann logar í dag? Hver hefði trúað því? En hvað stóð í gömlu bókunum, gömlu kennslubókunum um þetta efni? Balkanskaginn var kallaður púðurtunna Evrópu. Ég veit ekki hvort það stendur enn í kennslubókunum að Balkanskaginn sé púðurtunna Evrópu. En hitt er mér ljóst að þeir drepa þar menn með sömu aðferðum og við hreindýrin hér á Íslandi, skotið á færi. Það er aðferðin. Ekki að það sé verið að velja einhvern ákveðinn mann sem þurfi að taka fyrir, heldur koma menn sér fyrir í góðri aðstöðu með gott skotvopn og miða svo á allt kvikt. Þetta er hin friðelskandi Evrópa sem blasir við, samfélagið sem við viljum komast inn í.
    Í Þýskalandi voru þeir að dæma hjón fyrir þrælahald á þessu ári. Það var tyrknesk kona sem hafði verið gefin húsmóðurinni. Hún hafði verið gefin henni til eignar eins og við gefum ketti og hunda þegar vel liggur á okkur hér uppi á Íslandi. Meðferðin er miklu verri en venjuleg meðferð á húsdýrum hér, miklu verri. Þrælahald. Dæmdur fyrir þrælahald í Þýskalandi. Ég verð að segja eins og er að burt séð frá því að ég hef ekki áhuga á því að íslenska þjóðin afsali sér sjálfstæðinu, þá spyr ég: Er þetta þá besti félagsskapurinn? Eru nýlenduveldin gömlu besti félagsskapurinn sem Ísland getur fundið? Svo vill til að þetta er kannski eina þjóðin sem með amerískum hraða getur komist inn í EB ef menn vilja, þeir geta notað þýsku leiðina. Hvaða aðferð notuðu Þjóðverjar? Þeir sameinuðu bara Austur-Þýskaland Vestur-Þýskalandi og þar með var Austur-Þýskaland komið inn í EB. Við gætum náttúrlega farið alveg eins að og sagt: Þetta var misskilningur hjá honum Jóni Sigurðssyni. Við höfum aldrei verið annað en hérað í Danmörku, og þar með erum við náttúrlega komnir inn í EB með ævintýralegum hraða. Það þarf enga samningamenn, engan utanrrh., það þarf engan Jón Baldvin í sendiferðir úti með skjalatösku og hatt til að leysa þetta mál. Nei, ef það er það sem íslenska þjóðin vill, komast inn í EB, þá er leiðin opin, það er þýska leiðin. Hún er svo fljótfarin að það tekur ekki nema mánuð að framkvæma hana.
    Ég verð að segja eins og er að þetta leiðir hugann að öðru sem því miður er nú einn af þessum stóra misskilningi sem leiðréttist oft ekki frekar en það að sums staðar á Íslandi er talað um vestur og norður sem gagnstæðar áttir og sömuleiðis alls konar annar misskilningur á ferðinni. Þeir sem eru hér eru ekki Evrópubúar. Landfræðilega séð tilheyrir þetta svæði Ameríku. Það liggur alveg ljóst fyrir, er vísindalega sannað, þarf ekki einu sinni sérfræðinga. Samkvæmt landrekskenningu meginlandanna, nú vona ég að mesti sérfræðingur þeirra norðanmanna, hv. 5. þm. Norðurl. e., taki vel eftir, samkvæmt landrekskenningunni liggur sprungan á land á Reykjanesi ekki langt frá vitanum og stefnir á Þingvöll. Þar eru skiptin. Svo er hún nálægt Grjótagjá við Kröflu fyrir norðan í Mývatnssveit. Önnur sprunga kemur svolítið austar á land á Suðurlandi þannig að það má deila hvorum megin Sunnlendingar eru. En hitt liggur ljóst fyrir. Reykvíkingar, Hafnfirðingar, Kópavogsbúar og Seltjarnarnes ásamt Keflavík eru allt Ameríkanar (Gripið fram í.) ekki Evrópubúar fyrir fimm aura. Akureyringarnir líka Ameríkanar. Það er ekki skrýtið þó að það sé hættulegt að ræða þessar staðreyndir. Það er alvarlegt mál. Það er eitthvað af Evrópubúum á Austfjörðum og í Norður-Þingeyjarsýslu og Suðurlandið er gráa svæðið í þessu, þ.e. er það sprungan á Reykjanesi sem við eigum að taka alvarlega sem gengur í gegnum Almannagjá eða eigum við að miða við hitt gosbeltasvæðið? Einu sinni þóttu Lakagígar merkileg gosstöð og ekki síður virðuleg í þessum efnum. Það væri hægt að líta á hana sem stöðina sem væri á hryggnum. En þetta er náttúrleg svo alvarlegt mál að varla er hægt að ræða það því að þá hafa það náttúrlega ekki verið Íslendingar sem fundu Ameríku. ( Gripið fram í: Hvorum megin er ...?) Þá liggur það alveg ljóst fyrir að það voru Norðmenn sem fundu Ameríku því að þeir komu

hingað fyrst og þar með voru þeir búnir að finna þetta fræga land. ( ÁRÁ: Er það ekki vegna þess sem þú varst að segja áðan, Ameríkanar?) Norðmenn. ( Gripið fram í: Þarna kemur jarðfræðingurinn.) Nú hefur einn vaknað og ekki fylgst með þessu. Þetta hendir alltaf annað slagið og ekkert við því að segja þó að menn fái sér miðdegisdúr.
    En samkvæmt kenningunni um rek meginlandanna þá blasir það við að Ísland tilheyrir bæði Evrópu og Ameríku og það er styttri leið frá þessu eylandi til næsta svæðis í Ameríku en til Evrópu. Það er nefnilega styttra til Grænlands en til Færeyja. Ég ætla ekki að gera þetta að neinu aðalatriði þessa efnis. En þeir sem hafa nú reynt að finna einfalda lausn í þessu mikla máli og sagt: Við erum Evrópubúar, þess vegna eigum við að fara inn í þetta svæði, þeir verða að fara að endurskoða sinn hug þegar meiri hluti þjóðarinnar er Ameríkanar.
    Hins vegar ætla ég að víkja að öðru sem veldur mér meiri óhug í þessu sambandi en flest annað og það er sú staðreynd að ef stefna Efnahagsbandalags Evrópu í viðskiptamálum verður stefna heimsins þá þýðir það þriðju heimsstyrjöldina, hvorki meira né minna, vegna þess að hvert ríki sem með tollmúrum segir öðru ríki stríð á hendur, er að koma af stað ófriði. Hömlurnar sem þessar þjóðir hafa sett eru því miður svo alvarlegar að það vekur upp þá hugmynd hvort kaupauðgisstefnan gamla, einokunarstefnan, sé draumurinn á bak við allt saman, þ.e. þeir vilja ekki frjáls heimsviðskipti. Þeir vilja ríkjablokkir sem stríða innbyrðis með peningana að vopni en skotvopnin tiltæk í Evrópuher ef með þarf. Hvernig varð Bandaríkjunum við þegar þau fréttu um stofnun Evrópuhersins? Fögnuðu ekki Bandaríkjamenn þegar þeir fréttu stofnun Evrópuhersins? Það var enginn fögnuður í Washington, enginn fögnuður. Og það var breskur ráðherra, sumir segja að hann hafi nú verið fullur, íhaldsráðherra, sem hélt því fram að nýja ríkið væri raunverulega bara Stór-Þýskaland sem verið væri að stofna. Thatcher mótmælti. Engu að síður hefur hún haldið því af og til fram að Bretar eigi ekki að fylgja inn í þann samruna, það eigi ekki að ganga of langt í samruna Evrópu. Það er viss þjóðernishyggja í Thatcher og e.t.v. er það skýringin á því að hv. 1. þm. Vestf. færði mér hana sérstaklega að gjöf á framboðsfundi á Reykhólum í seinustu kosningum, sagði að við framsóknarmenn mættum eiga Thatcher, þetta væri framsóknarkerling. Það er nefnilega athyglisvert að Bretar skynja ógnina af nýjum Evrópuher. Bretar skynja þá ógn og lái þeim það hver sem vill.
    Í Austur-Evrópu fer frelsisþeyr um lönd í dag, frelsisþeyr þannig að hugmyndir þeirra ganga svo langt að skipta í smærri ríki ýmsum ríkjum sem þar voru eins og Tékkóslóvakíu. Ég tel þetta að vísu mjög misráðið hjá þeim. Ég tel að þeir eigi ekki að gera þetta. Ég tel að þeir eigi að reyna að umbera menn af ólíku þjóðerni innan sömu landamæra, það sé það sem allar þjóðir verði að gera í framtíðinni. En engu að síður er það ómótmælanlegt að þar er þróunin í áttina til lýðræðis, í áttina til þess að fólkið sjálft ráði, það verði þjóðirnar sjálfar sem ráði. En hvað sagði höfuðpaurinn yfir Efnahagsbandalaginu þegar Danir, sem aldrei hafa kunnað að ganga í takt, tóku ákvörðun að fella Maastricht-samkomulagið? Það verður að koma manneskjulegra andliti á þetta Efnahagsbandalag. Sem sagt, það var áróður og aftur áróður sem þeir vildu koma á framfæri.
    Ég vil halda því fram ef menn ætla að keyra Vestur-Evrópu hraðar saman til samstöðu en fólkið vill þá geti þeir setið þar uppi með sömu vandamálin og þeir sitja uppi með í Júgóslavíu í dag. Varla var búið að fella Berlínarmúrinn þegar nýnasistar héldu sinn fyrsta opna löglega fund í Berlín. Hvað gerðist núna fyrir nokkrum dögum? Það sem gerðist var einfaldlega það að lögreglulið Þýskulands, sem er talið eitthvert það harðsnúnasta, hopaði fyrir nýnasistum og hleypti þeim inn í byggingu sem það átti að verja, um 1.500 manna lögreglulið. Það skyldi þó ekki vera að hin gömlu sannindi að sagan endurtaki sig eigi fullan rétt á sér.
    Haft er eftir núverandi hæstv. utanrrh. að þetta bandalag muni allt gliðna í sundur. Þær fréttir bárust hingað heim. Hvort hann hefur verið að gera sér glaðan dag þegar sú yfirlýsing var gefin ætla ég ekki að dæma um, ég var ekki viðstaddur. En stundum er sagt að enginn skyldi trúa ófullum Íslendingum.
    Hér er boðað að við séum ekki að afhenda nema örlítið brot af fullveldinu, svo lítið brot að það taki því varla að ræða það. En Danir töldu að búið væri að afhenda nóg í kóngsins Kaupmannahöfn af fullveldi dönsku þjóðarinnar. Þeir töldu að búið væri að afhenda nóg og sannleikurinn er sá að Efnahagsbandalagið er lýðræðislegur óskapnaður. Í Bandaríkjunum kjósa menn forseta. Þjóðin sjálf kýs forsetann. Það er lýðræði. En að ráða framkvæmdastjóra sem valdamesta mann er ekkert lýðræði. En því er haldið fram af sumum að þjóðirnar séu hreinlega of heimskar til að standa í kosningum og merkilegt er það þegar hæstv. íslenski utanrrh. lýsir því yfir að vegna þekkingarleysis á EES sé íslenska þjóðin ófær um að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Hvað er utanrrh. raunverulega að segja? Hann er að segja að íslenska þjóðin sé of heimsk til að greiða atkvæði um þetta mál. Hann er að segja að íslenska þjóðin sé svo heimsk að hún geti ekki búið við lýðræði. Það er það sem utanrrh. er að segja því að orðið heimskur þýðir fyrst og fremst þekkingarskortur, þ.e. sá sem er heimaalinn var ekki talinn jafn vel að sér þekkingarlega séð og sá sem hafði ferðast um. Og niðurstaðan hjá utanrrh. er sú að íslenska þjóðin sé of heimsk til að ákveða örlög sín í þessum efnum. Það þurfi súpermann til að leysa þetta, hvorki meira né minna. Þessi niðurstaða er fengin með skoðanakönnun þar sem spurt var: Hefur þú þekkingu á þessum málum? Örfáir menn sögðust hafa þessa þekkingu. Upplýst hefur verið að hv. formaður utanrmn., 3. þm. Reykv., var einn af þeim sem var spurður og hann hafði þessa þekkingu. Það væri hægt að spara mikið í íslenska skólakerfinu ef menn hefðu á sínum tíma áttað sig á því að það þyrfti ekki svona flóknar spurningar og

notaðar eru að staðaldri á prófum. Það hefði einfaldlega verið hægt að spyrja: Ertu búinn að kynna þér námsefnið fyrir veturinn vel, illa eða sæmilega? Þrír krossar og svo hefði mátt gefa fyrir. Hálfs mánaðar, þriggja vikna eða mánaðar vinna hjá skólanum hefði sparast hefðu menn haft vit á því að hafa eins skilmerkilegar spurningar og þeir höfðu, þessir sem lögðu þetta fyrir þjóðina og spurðu einfaldlega: Hefur þú kynnt þér samninginn um Evrópska efnahagssvæðið nægilega vel? Litið var svo á að það væri öruggt að þeir sem sögðu já hefðu gert það. Hinir sem af hógværð sinni sögðust ekki hafa kynnt sér það nægilega vel voru dæmdir svo þekkingarsnauðir, svo heimskir að þjóðaratkvæðagreiðsla væri óhæf. Niðurstaðan er sú að Danir búa við það að hafa svo greinda þjóð að þeir geta búa við lýðræði. Þar var höfð þjóðaratkvæðagreiðsla. Franskir ráðamenn telja að Frakkar séu svo greind þjóð að þar sé hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu, en utanrrh. Íslands er sannfærður um að íslenska þjóðin sé svo heimsk að ekki sé hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu. Nú er komið að því að hugleiða það hvort íslenskir sjálfstæðismenn taka kveðjunni.
    Önnur skoðanakönnun var framkvæmd fyrir nokkru um þessi mál. Þar kom í ljós að sumir af kjósendum Alþfl. töldu að Ísland væri þegar komið í EB. En ekkert varð vart við þennan misskilning hjá sjálfstæðismönnum. Og nú er það spurning: Telja forustumenn Sjalfstfl. íslensku þjóðina svo heimska að ekki sé hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál? Er það niðurstaðan? Er svo komið fyrir Sjálfstfl. að hann skrifar undir slíkt? Það er makalaus niðurstaða. Í hverju einasta lýðræðisríki yrði sagt: Það verður að upplýsa málið þar til þjóðin er fær um að dæma því að hún á rétt á að dæma. En hitt er svo alvarlegt mál að allt bendir til þess að taka verði kennsluréttindin af hæstv. utanrrh. vegna þess að hann hefur einn allra haft þá fjármuni undir höndum sem ætlaðir hafa verið í þetta fræðslustarf. Og hver er niðurstaðan? Honum hefur alfarið mistekist að eigin sögn að fræða þjóðina um málið. Og þjóðin treystir honum ekki heldur. Það er kannski ekki síður alvarlegt.
    Ég hef hlustað á þá kenningu að það hljóti að vera stórkostleg réttindi fyrir Íslendinga að mega fara til útlanda, til Evrópu og fá sér þar atvinnu. Og auðvitað sé sjálfsagt að við leyfum öllum útlendingum sem vilja koma til Íslands frá Evrópu að starfa hér. Það eru nokkrar stéttir sem búa við þá sérstöðu að það er hægt eins og hv. 11. þm. Reykn. vakti athygli á, það er hægt að gera þá kröfu til þess að menn kunni íslensku ef þeir sinna þeim störfum. En stór hluti íslensku þjóðarinnar hefur ekki þá brjóstvörn að hægt sé að gera það að skilyrði að mennirnir kunni íslensku. Þetta er ríki með um 250.000 manns. Þetta er ekki 50 milljóna ríki. Ekki er mikið verk að skipta um þjóð sem er ekki fjölmennari en þetta, skipta um þjóð í þessu landi.
    Hér hafa menn verið að tala um að reisa álver. Álverið verður boðið út verði það reist. Verktakarnir verða trúlega erlendir og vinnuaflið einnig. Ég ætla að fullyrða að enginn getur fylgst með því að það verði farið að íslenskum lögum um það varðandi kaupgreiðslur og fleira. Ef það er ekki hægt, ef það er búið að taka þennan rétt af okkur að mega vísa mönnum úr landi, þá höfum við enga möguleika til að fylgjast með því að stórfyrirtækin virði þá launataxta sem hér eru. Við höfum enga möguleika til þess. Talað er um að reisa á Austurlandi stórvirkjun. Það yrðu trúlega einnig erlendir verktakar sem næðu því verki og það yrðu líka erlendir verkamenn sem ynnu verkið. Mér er ljóst að það eru hlunnindi fyrir þá Íslendinga sem ætla að yfirgefa landið og flytja til útlanda, það eru hlunnindi fyrir þá að geta farið upp í næstu flugvél og sagt farvel og sest að í Evrópu, eigi þeir möguleika á að fá þar störf. Það væri þá hugsanlega best menntaði hluti þjóðarinnar sem hefði þann ávinning. Þær útflutningsbætur er ég aftur á móti ekki reiðubúinn að greiða með hluta af fullveldi landsins.
    En hvað með frelsi fjármagnsins? Að mínu viti er það fjármagn sem er í umferð í landinu svo lítið að ef við mundum líkja þessu við að menn væru að spila póker, þá hefðu Íslendingar ekki einu sinni auraráð til þess að mega sjá á spilin hjá hinum. Þeir hefðu ekki einu sinni auraráð til þess að leggja í borðið það sem þyrfti til þess að mega sjá á spilin hjá hinum. Hver væri styrkleikinn við spilaborðið? Þessi þjóð hefur farið sigurgöngu eftir að hún varð efnahagslega frjáls og við eigum að halda áfram að vinna að efnahagslegu sjálfstæði hennar og frelsi. Við eigum ekki að hopa núna og hleypa erlendum aðilum á nýjan leik inn í íslenska lögsögu.
    Eitt af því merkilega við þetta mál er að það er lagt hér fram, það er hér á dagskrá og það er hér til umræðu án þess að öll gögn málsins séu komin fram. Að mínu viti er það þvert brot á þingsköpum.
    Ég tel að þeir sem í dag láta sig dreyma um að hægt sé með lögum að girða fyrir yfirtöku á landi og auðlindum ef við skrifum undir þennan samning átti sig ekki á því að önnur ríki eru að fara inn í EB. Ísland eitt og sér stæði eftir og þeim mun meiri hluti af okkar viðskiptum sem verður við þetta svæði þeim mun veikari erum við til þess að varðveita efnahagslegt sjálfstæði á eftir. Þess vegna er það grundvallaratriði að Íslendingar greiði úr utanríkisviðskiptum sínum. Með leyfi forseta vil ég lesa upp ályktun um utanríkismál sem samþykkt var af ungum framsóknarmönnum á Egilsstöðum. Ég tel að það sé nauðsyn vegna þess að svo hefur verið um fjallað af fjölmiðlum í landinu að alþýða Íslands fær alranga mynd af því hvað þetta unga fólk var að samþykkja.
    ,,Ályktun um utanríkismál.
    24. þing Sambands ungra framsóknarmanna, haldið að Egilsstöðum dagana 28.--30. ágúst 1992, telur að hag Íslands sé best borgið utan efnahagsbandalaga. Það á að vera höfuðmarkmið stjórnvalda á hverjum tíma að skapa sem best tengsl við öll helstu markaðssvæði heimsins.

    Íslendingar hafa í gegnum árin notið góðs af hnattstöðu sinni og beint sínum viðskiptum í austur og vestur eftir því hvar hagstæðast hefur verið að eiga viðskipti. Þessari sérstöðu Íslands ber að halda á lofti og byggja á henni þegar mótuð er framtíðarstefna í utanríkisviðskiptum okkar. Íslendingar verða að vinna að því öllum árum að koma sér í þá aðstöðu að verða miðja í viðskiptalegum og menningarlegum skilningi. Við verðum að sýna þor til að haga samskiptum við umheiminn þannig að við einangrumst ekki innan ákveðinna viðskiptablokka hvort sem það yrði EB eða eitthvað annað.
    Á seinni árum hafa iðnríki heimsins tekið til við að stofna viðskiptabandalög sem hafa það að markmiði að auka hagvöxt innan bandalaganna. Þessi bandalög byggja á auknu frjálsræði í streymi vöru og þjónustu en jafnframt eru byggðir múrar til að verjast utanaðkomandi áhrifum. Þessi þróun mun auka enn á þann mismun sem er á fátækum og ríkum þjóðum í dag og getur aldrei orðið framtíðarlausn. Íslendingar eiga að ganga á undan og gera þá kröfu í alþjóðaviðskiptum að tekin verði upp fríverslun á öllum sviðum en ekki taka þátt í að einangra fátækari þjóðir frá þeim ríku með bandalagsþátttöku.
    Ljóst er að iðnríki heimsins eiga í sífellt meiri vandræðum með að halda uppi hagvexti og er þetta hagvaxtarkapphlaup búið að taka stóran toll af umhverfi okkar á jörðinni.
    Ungir framsóknarmenn telja að ekki verði að einblína á ódýrar tímabundnar lausnir í okkar utanríkisviðskiptum heldur leita nýrra leiða og stefna að lausn sem er varanleg og hentar öllum þjóðum heims. Íslendingar eiga að stefna að gerð víðtækra viðskiptasamninga við ríki EB og jafnframt við Bandaríkin og Japan og vinna markvisst að því að verða miðstöð fyrir viðskipti milli þessara svæða og einnig fyrir viðskipti annarra þjóða inn á þessi svæði.``
    Þetta er stefnan, hv. 3. þm. Reykv. Þetta er stefnan sem við munum fylgja sem styðjum það sem hér hefur verið lagt fram. Og þetta er stefnan sem mun tryggja sjálfstæði þessarar þjóðar.
    Því er mjög veifað að með því að skrifa undir þetta samkomulag getum við farið að flytja okkar fiskafurðir fullunnar til Evrópu. En vita þessir menn hvernig hafnarborgir Evrópu standa að þessum málum? Þar er veittur í dag um 50% styrkur til þess að byggja upp fyrirtæki sem fullvinna fisk. Þar er kerfið þannig að ef fyrirtæki tekur mann af atvinnuleysisskrá og hefur hann í vinnu, t.d. nýtt fyrirtæki sem tæki hóp slíkra manna og hefði í vinnu, fengi það um 80% af laununum sem það greiddi í styrk og þetta mundi fjara út á fimm árum. Halda menn að hægt sé að keppa við svona styrkjakerfi, halda menn það virkilega? Eru menn svo bláeygir að þeir skilji ekki hvað verið er að gera? Það er verið að þrýsta Íslendingum niður á frumframleiðslustigið nema við beinum viðskiptunum það mikið til annarra svæða jarðarinnar að þeir eigi ekki nein tök á okkur.
    Það er búið að halda því fram sem staðreynd að ef saltfisktollarnir verði felldir niður verði það Íslendingar einir sem fái allan ávinninginn af slíku. Hvers lags skilningur á viðskiptum er á bak við slíkt rugl? Auðvitað munu það verða neytendurnir í viðkomandi löndum sem munu að verulegu leyti fá þann ávinning. Það er einu sinni heimsmarkaður með fisk og það eru líka markaðir hér á Íslandi. Ef sá sem er að salta getur ekki keypt fisk á uppboðsmarkaðnum, þá hefur hann engan fisk til að salta. Þess vegna verður hann að fá það verð sem í dag er fylgt miðað við þessa tollaviðmiðun til þess að geta saltað fiskinn og selt hann út. Við mundum aldrei fá nema brot af þessum ávinningi þó að tollarnir yrðu felldir af. Hitt fengju neytendurnir. Þeir mundu fá afganginn. Haldið þið að spænskir neytendur mundu una því að horfa á það að um leið og tollurinn yrði lækkaður mundi fiskurinn hækka sem samsvaraði því? Eru menn trúaðir á að slík niðurstaða yrði að veruleika?
    Þegar ég horfi til framtíðar í viðskiptum þjóða og landa, þá trúi ég því að ef takast eigi að tryggja frið á þessari jörðu verði að koma í veg fyrir að efnahagsbandalög á borð við Efnahagsbandalag Evrópu marki stefnuna í heimsviðskiptum. Það sé grundvallaratriði að það gerist ekki. En ég ætla að bæta við: Það hrokafulla lið sem stýrir málum í Evrópu í dag gleymir því að það stýrir gömlum þjóðum. Það er engin heimsálfa eldri en Evrópa ef meðalaldur íbúanna er tekin. Hún er eins og gamalmennahæli borið saman við hinar heimsálfurnar. Þar er ekki æskunnar her í slíkum mæli og var um seinustu aldamót. Þetta þýðir einfaldlega, ef horft er á þetta, að það eru engar líkur á því að Evrópa vinni efnahagsstríð ef hún setur það fram eins og hún er að gera í dag. Það eru allar líkur á því að Japan og iðnveldi Asíu annars vegar og Ameríka hins vegar muni hafa betur í þessum viðskiptum. Ég held að á einföldu máli mætti segja að Íslendingar væru að veðja á vitlausan hest ef þeir ætluðu að taka ákvörðun um að ganga inn í eitthvert stórveldið, þá værum við að veðja á vitlausan hest.
    Það getur vel verið að sumum finnist það skrýtið að þeir séu til sem setjast niður við samningaborð en ná ekki samningum og skrifa ekki undir. Sumir líta svo á að ef menn setjast niður hljóti það að leiða til þess að menn nái samningum. Niðurstaðan í þessum samningum var sú að EB færði sig ekki um eitt einasta hænufet. Þeir gáfu nákvæmlega ekkert eftir á neinu sviði. Þeir héldu öllu sínu. Hinar þjóðirnar, sem voru að semja við þá, komust að þeirri niðurstöðu að það væri betra að ganga í EB en að una samningnum. Það eru hinar sögulegu staðreyndir sem liggja fyrir. Ég held að sá félagsskapur, nýlenduveldin gömlu í Evrópu, sé ekki sá félagsskapur sem Íslendingar eigi að leggja mest upp úr. Ég er sannfærður um að við getum nánast ekki fengið verri félagsskap og það þýðir lítið að benda á það að á Norðurlöndum sé gott fólk. Munu Norðurlöndin ráða í þessu nýja ríki í Evrópu?
    Hið nýja ríki í Evrópu er með fullkomnustu glæpasamtök heimsins innan sinna vébanda, mafíuna. Hvaðan voru sérfræðingarnir og skytturnar fengnar sem voru notaðar til þess að skjóta seinustu dómarana sem menn vissu heiðarlega í æðstu embættisstöðum á Ítalíu? Hvar höfðu þær verið þjálfaðar? Í Þýskalandi. Það fór ekkert á milli mála. Úr Þýskalandi komu skytturnar sem voru fengnar til þess að koma heim til Ítalíu til þess að skjóta seinustu dómarana sem mafían taldi það heiðarlega að þeim yrði að ryðja úr vegi. Inn í þetta samfélag telja menn að eigi að sigla, alveg sérstaklega til þess að íslenska þjóðin eigi framtíðarvon.
    Ég segi nú fyrir mig, það er hægt að stinga hausnum í sandinn. Strúturinn gerir það vegna þess að það er skynsamlegt hjá strútnum að gera það, vegna þess að það er búið að rannsaka það af náttúrufræðingum að þegar hann stingur hausnum í sandinn, þá lítur hann út eins og brúskur í eyðimörkinni og rándýrin telja að þar sé ekki um strút að ræða. En ef þeir apar eru til í heimi mannfólksins sem telja að það sé lausn fyrir þá að stinga hausnum í sandinn, þá er um mikinn misskilning að ræða. Búkurinn er svo ólíkur umhverfinu að það fer ekkert á milli mála og það leysir ekkert þó að þeir stingi hausnum í sandinn. Engin lausn. En ef það er tilfellið að lélegur árangur íslenska Alþfl. í kosningum í gegnum árin og sú staðreynd að þrátt fyrir peningana sem þeir hafa fengið erlendis frá til að halda flokknum uppi og Benedikt Gröndal lofaði að gera grein fyrir á sínum tíma sé ekki hægt að ná árangri og ekki um annað að gera en sameina íslenska Alþfl. krötunum í Evrópu, hafa hann hér eins og hvert annað útibú í framtíðinni, þá getur vel verið að þetta sé sú lausn sem ákveðnir hópar sækjast eftir. En er svo komið fyrir sjálfstæðismönnum í þessu landi, það má vel vera að það sé komið svo fyrir sjálfstæðismönnum í þinginu, að það sé Evrópukratisminn sem þeir ætli að tryggja, að þeir ætli að tryggja honum lífsrými á Íslandi? Einu sinni var þessu landi stjórnað af mönnum sem töldu að það væri ekki skylda Íslendinga að tryggja Þjóðverjum lífsrými á Íslandi.
    Ég vil halda því fram að það séu alvarleg mistök ef menn veikja efnahagslegt sjálfstæði þessarar þjóðar með því að halda áfram á þeirri braut að flytja meir af viðskiptunum til Vestur-Evrópu. Við þyrftum með réttu að koma því viðskiptahlutfalli niður fyrir 50% af útflutningi Íslendinga til þess að hafa þann styrkleika að þeir hefðu okkur ekki í hendi sér. Þegar Bretarnir settu á okkur löndunarbann á sínum tíma, þá þoldum við það bann vegna þess að við gátum beint viðskiptunum annað. Við vorum ekki með það hátt hlutfall í viðskiptum við Breta. Mér finnst að þessi draumur sem menn hafa verið að byggja upp geti verið draumur ákveðinna manna sem treysta sér ekki til þess að standa í veruleikanum, vilja hafa drauminn, vilja fá að njóta draumsins og búa við hann einan, ekki heim veruleikans. Það hendir vissa menn að það er eitthvað annað sem tekur yfir og þeir yfirgefa heim veruleikans og hverfa inn í heim draumsins. Ef svo er komið fyrir Sjálfstfl. að hann telur þjóðina of heimska til að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og hæstv. utanrrh. telur, þá er það alvarlegt mál. Væri ekki nær að taka sér tíma og kynna þessi mál fyrir þjóðinni þannig að þjóðin segði: Nú hef ég áttað mig á því um hvað þetta mál snýst. Þegar það lægi fyrir, yrði það íslenska þjóðin sem fengi sjálf að velja sín örlög. Ef meiri hluti íslenskrar þjóðar vill þetta, þá játa ég það sem lýðræðissinni að ég mundi lúta því. Mér þætti það þungbært en ég mundi lúta því. En ef þetta er tekið með ofbeldi, með valdaráni án þess að virða stjórnarskrána, með hreinu valdaráni og ofbeldi, þá lofa ég engu um að lúta slíkum ákvörðunum. Þeir sem telja að það sé hægt að vinna þannig hafa gleymt því á hvaða tíma þeir lifa. Lýðræðið er ekki fullkomið, það vitum við öll. En þeir sem telja sig geta bent á eitthvert stjórnkerfi sem er betra verða þá að koma með það. Það er ekki nóg að segja eins og íslenski utanrrh.: Íslenska þjóðin hefur ekki þekkingu á þessu, hún er ekki dómbær um þetta. Hún er ekki fær um að búa við lýðræði, er niðurstaðan af slíkri röksemdafærslu. Það gengur einfaldlega ekki upp og það vona ég að ef menn ætla að hella þessu yfir þjóðina og hafna því að hún fái að segja álit sitt á því af því að það liggur fyrir skoðanakönnun sem segir að Íslendingar séu á móti þessu, þá hjálpi guð þeim því það er ekki víst að það verði neinir menn sem rétti þeim lið í þeim hildarleik og því ófriðarbáli sem af slíku getur hlotist.