Staða Kópavogshælis

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:16:08 (168)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Málefni Kópavogshælis er til umræðu vegna yfirvofandi samdráttar í þjónustu við 134 fatlaða einstaklinga sem búa þar, en Kópavogshæli er langstærsta stofnun fyrir þroskahefta á Íslandi. Kópavogshæli er rekið eins og sjúkrastofnun undir heilbrrn. enda þótt aðeins 20--30 vistmenn þurfi á beinni sjúkravistun að halda. Hinir 100 gætu vistast á sambýli væri til sambýli í landinu fyrir þessa einstaklinga því þeir þurfa fyrst og fremst umönnun, hvatningu og þjálfun.
    Mikil umræða var um málefni Kópavogshælis í vor þegar ný lög um málefni fatlaðra voru samþykkt á Alþingi. Þá var samþykkt að nefnd yrði skipuð til að móta framtíðarskipulag um stofnunina. Því er eðlilegt að spurt sé hvað líði vinnu þessarar nefndar. Við sem samþykktum þessi lög trúðum því statt og stöðugt að verið væri að endurskoða alla starfsemi stofnunarinnar.
    Um langan tíma hefur verið um það mikil umræða að fækka vistmönnum og flytja þá yfir á sambýli. Því er spurt: Hvað hyggst hæstv. heilbrrh. í samvinnu við hæstv. félmrh. gera í þeim málum á næstunni og er einhver markviss vinna í gangi í þessum efnum?
    Við vitum vel að það tekur langan tíma og kostar mikla peninga, en það þarf að hefja þessa vinnu. Starfsfólk og vistmenn á Kópavogshæli eiga heimtingu á að vita hver framtíð heimilisins er. Það er ekki hægt að bíða í þessari óvissu.
    En vandamálið er það sem blasir við nú þegar 30 starfsmenn hætta störfum og aðeins má ráða 19 í staðinn. Það segir okkur að það verður minni umönnun fyrir hina 134 einstaklinga en verið hefur. Því hljótum við að spyrja: Er ekki hægt að spara á einhverjum öðrum sviðum? Hefur hæstv. heilbrrh. skoðað hvort hægt sé að spara í ,,óverheddinu`` eins og sagt er, í staðinn fyrir að spara í umönnun þessara einstaklinga. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég er að ljúka máli mínu. En allir fatlaðir eiga rétt á að njóta sömu þjónustu hvar sem þeir eru vistaðir.