Staða Kópavogshælis

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:21:06 (170)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Þingmenn á undan mér hafa minnt á þá nefnd sem átti að skipa eða félmn. Alþingis lagði a.m.k. til að skipuð yrði til þess að tryggja réttarstöðu þeirra íbúa sem byggja Kópavogshæli. Mig langar til þess að upplýsa það hér að þessi nefndarskipun getur ekki verið á verksviði félmrh., hún hlýtur að vera á verksviði heilbr.- og trmrh. vegna þess að Kópavogshæli fellur undir heilbr.- og trmrn. sem sjúkrastofnun. Því var beinlínis beint til heilbr.- og trmrh. að hann léti skipa þessa nefnd og í nál. meiri hluta félmn. sem allir stóðu að utan einn fulltrúi, segir:
    ,,Meiri hluti nefndarinnar telur eðlilegt að félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra, stjórnarnefnd Ríkisspítalanna og stjórnarnefnd í málefnum fatlaðra tilnefni sinn fulltrúa hver og jafnframt skipi heilbr.- og trmrh. formann án tilnefningar.``
    Þannig tel ég að við hljótum að geta spurt heilbr.- og trmrh. sem er hér í dag, hvort þessi nefnd hafi verið skipuð og hvað hún hafi gert.
    Virðulegur forseti. Ég held að vandi Kópavogshælis liggi að hluta til í því að Kópavogshæli er skilgreint sem sjúkrahús. Það er verið að reka sjúkrahús fyrir fólk sem er í raun ekki veikt, það er fatlað. Af þeirri fötlun geta auðvitað leitt ýmis veikindi, en það er fyrst og fremst fatlað og þetta fólk þarf að eiga sitt heimili, það á ekki að búa á sjúkrahúsi alla sína ævi. Þarna eru margir einstaklingar sem búa við það að vera með 14 öðrum fötluðum einstaklingum og eiga að búa með þeim alla sína ævi. Þannig getur þetta ekki haldið áfram. Þess vegna verður að búa svo um hnútana að það fólk sem þarna er komist á sambýli og það fái þá þjónustu sem ný lög um málefni fatlaðra bjóða upp á, þ.e. sveigjanlega og einstaklingsbundna þjónustu sem beinist að þörfum hvers og eins en ekki þeirrar stofnunar sem hlut á að máli.
    Ég talaði um að vandi Kópavogshælisins lægi að hluta til í þessu vegna þess að ég held að það sé dýrara að reka þessa þjónustu sem sjúkrahús eins og nú er gert með öllum þeim toppum --- virðulegur forseti, verð ég að segja, sem þarna eru og ég held að fjármunirnir fari ekki alltaf þangað sem mikilvægast er. Í þessu sambandi langar mig að benda á grein sem birtist í Morgunblaðinu sl. laugardag þar sem er verið að tala um sparnað á Sahlgrenska sjúkrahúsinu en þar segir:
    ,,Það er ekki vænlegt að vera með tvíhöfða stjórnun þar sem annar aðilinn fer með fjármálin og hinn ber faglega ábyrgð á starfinu.``