Staða Kópavogshælis

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:32:16 (174)

     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja að ég er afar óhress með að þeim spurningum sem ég bar hér fram fyrir hæstv. heilbrrh. hefur ekki verið svarað, ekki á nokkurn hátt, aðeins með því að þarna sé enginn vandi til staðar í dag. Það er vandi þegar dregið er úr þjónustu á stoðdeildum og dregið úr þjálfun vistmanna, þar sem búa 135 fatlaðir einstaklingar sem eru í hópi þeirra rúmlega 300 einstaklinga sem greinast mjög alvarlega þroskaheftir. Það er vandamál. Hvort sem úr því hefur verið bætt að hluta til með því að heimila ráðningu í 19 stöður þá er vandi til staðar og hann hverfur ekki. Ef Kópavogsheimilinu verður gert að mæta þeirri framúrkeyrslu á fjárlögum, sem nú blasir við, með enn frekari niðurskurði fram að

áramótum eða, eins og talað var um við samþykkt fjárlaga, ef stofnunin færi fram úr fjárlagaheimildum þá yrðu þær að mæta því á næsta ári. Þá væri vandinn enn meiri og stærri.
    Það er e.t.v. framtíðarlausn að flytja þá einstaklinga eða hluta þeirra sem þarna eru yfir á sambýli. Það er e.t.v. framtíðarlausn. En við verðum að horfa til heimilisins á meðan og þeirra einstaklinga sem þar dvelja þar til sú lausn verður að veruleika. Með því að draga úr þjónustu í dag erum við að minnka möguleika þessara einstaklinga til þess að fara á sambýli í framtíðinni. Ég vil endilega skora á hæstv. heilbrrh., sérstaklega í tilefni dagsins af því að nú ganga í gildi þau lög sem við samþykktum eftir áskoranir frá félagasamtökum og hæstv. félmrh. sem ég hefði gjarnan vilja sjá hér, að svara því nú hvort þeim einstaklingum sem þarna eru verða tryggð sömu réttindi og aðrir fatlaðir hafa.