Staða Kópavogshælis

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 16:41:25 (178)


     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Síðari ræða hæstv. heilbrrh. kom mér verulega á óvart, einkum og sér í lagi þær efasemdir sem fram komu í máli hans um einstakar breytingar í nýsettum lögum um málefni fatlaðra. Það var nefnilega þannig að hæstv. ráðherra var gefinn kostur á því að gefa umsögn um frv. og hún barst, snubbótt, stutt og á þann veg að hæstv. ráðherra hefði kost á því að koma athugasemdum sínum og ábendingum á framfæri við umfjöllun málsins á Alþingi. Frá honum heyrðist hvorki hósti né stuna við meðferð málsins á þingi en ég heyri það á efasemdum hans að það hefði betur farið og betra fyrir lögin og þingheim að ráðherrann hefði látið eitthvað frá sér fara úr ræðustól á þingi á þeim tíma þegar það átti við en ekki nú.