Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 18:06:33 (187)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er náttúrlega með ólíkindum að tími í umræðum um alvörumál af þessu tagi skuli þurfa að fara í útúrsnúninga og hundalógík af því tagi sem hæstv. forsrh. temur sér og kom skýrt fram hér áðan. Það er með ólíkindum að hæstv. forsrh. skuli reyna að draga umræðuna niður á það plan. Ég verð að segja það alveg eins og er. Ég teldi sæmra að hæstv. forsrh. fjallaði efnislega um þau rök sem stjórnarandstæðingar hafa sett fram í þessu máli og rökstyðja það óhrekjanlega að verið er að flytja vald út úr landinu. Meira að segja sérfræðinganefnd utanrrh. viðurkennir að um valdaafsal er að ræða en það sé að vísu vel afmarkað og hæfilega takmarkað og þess vegna sleppi þetta. Svo kemur forsrh. hér og ætlar að ráðast á stjórnarandstöðuna, sem er að reyna að reisa varnir við, þannig að sú óhæfa eigi sér ekki stað að einfaldur meiri hluti þingmanna taki þetta mál til afgreiðslu án þess að breyta stjórnarskránni eða leita eftir áliti þjóðarinnar.
    Í öðru orðinu segja stjórnarsinnar: Það eru fordæmi fyrir alls konar valdaafsali. Við erum aðilar að mannréttindasamningum og norrænum samningum og þar er flutt vald út úr landinu svo þetta er allt í lagi með EES. En í hinu orðinu kemur svo hæstv. forsrh. upp með málflutning af þessu tagi og ræðst á stjórnarandstöðuna sem vill búa betur um hnútana en gert er í gildandi íslenskri löggjöf svo það geti aldrei gerst og vonandi gerist það aldrei aftur að þjóðin sitji uppi með svo ógæfusama ríkisstjórn að hún ætli sér að pína slíkt mál í gegn sem þetta með einföldum meiri hluta ef hann verður þá barinn upp hér.