Fíkniefnavandinn

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 18:26:18 (195)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það eru vissulega alvarlegar fréttir sem við fáum yfir okkur þessa dagana í fíkniefnamálum. Þessi mál heyra undir fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík en deildin á þó að þjóna öllu landinu. Það kom fram í máli Böðvars Bragasonar lögreglustjóra á fundi í fjárln. fyrir skömmu að tollvörðum og fleirum tækist að ná um 4% af þeim fíkniefnum sem koma inn í landið á meðan hlutfall annarra þjóða, t.d. Dana, væri 5--10%. Þetta er þó aðeins leikur með tölur. Enginn veit hvað markaðurinn er stór. Í dag starfa 14 manns í fíkniefnadeildinni og það hefur fækkað um einn frá árinu 1988, þá voru þeir 15. Yfirvinnukvóti þeirra er 980 tímar á mánuði en þyrfti helst að vera 1.400--1.500 tímar á mánuði sem mundi þá kosta 6--6,5 millj. í auknum launagreiðslum.
    Mörg dæmi eru um það að menn sem eru að vinna að þessum málum geri það í sjálfboðavinnu vegna þess að yfirvinnukvótinn er búinn. Það er ekki einfalt mál að bera saman stöðu þessara mála á milli landa. Danir hafa t.d. rýmri réttarfarsheimildir en við hvað varðar rannsókn slíkra mála og það getur haft sitt að segja. En það getur líka verið spurning um meira sjálfstæði fíkniefnadeildarinnar til að ráða sínum málum og þá komum við að því hvort það sé eðlilegt að slík rannsóknardeild sem á að þjóna öllu landinu heyri undir lögreglustjóraembættið í Reykjavík. Deildin er sett við hlið deilda sem hún á í raun ekki samleið með. Sakarefni í málum sem fíkniefnadeildin vinnur að getur kallað á allt að 10 ára fangelsisdóm. Þar er því um mjög alvarleg brot að ræða og alls ekki brot sem friðþægt er fyrir með sektum. Huga þarf að skipulagsbreytingum á fíkniefnadeildinni og hafa samráð við þá menn sem þar vinna. Það þarf einnig að skipuleggja þetta starf úti um landið en á stórum hluta landsins er þessum málum lítið eða ekkert sinnt þó að það sé vitað að þar fari fram dreifing fíkniefna. Vandamálið er stórt en við vitum bara ekki hversu stórt það er.
    Ég vil leggja áherslu á það að lokum að í fíkniefnamálum þarf að stórefla forvarnastarf. Það er það eina sem skilar okkur árangri til framtíðar.