Fíkniefnavandinn

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 18:28:50 (196)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er fjallað um utan dagskrár er stórt og viðamikið og þingmönnum er þröngur stakkur skorinn að þurfa að koma með sjónarmið á tveimur mínútum. Ég vil geta þess að þingmenn Alþfl. hafa á liðnum þingum flutt tillögur um auknar varnir gegn vímuefnum þar sem m.a. hefur verið lögð áhersla á sjálfstæði fíkniefnalögreglunnar og að sami aðili fari með rannsókn fíkniefnamála á landinu öllu og hafi sjálfstæðan fjárhag. Ég minni jafnframt á það frv. sem kom inn í þingið sl. vor sem heilbrrh. flutti og fjallar um samræmdar aðgerðir í þessum málum.
    Fíkniefnasviðið er eitt þriggja sviða innan rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík en hefur fengið aukið vægi og er gert að sinna beiðnum annars staðar að af landinu eins og hér hefur komið fram. Það er þess vegna mjög nauðsynlegt að tryggja þessum þýðingarmikla hluta löggæslunnar sjálfstæðan fjárhag og gera það kleift að sinna þessum málum. Fíkniefnaneysla og ofbeldi helst í hendur eins og hér hefur komið fram og hvort tveggja eykst hröðum skrefum og veldur óhugnaði og ótta á heimilunum í landinu. Það er því nauðsyn á samræmdum aðgerðum en eitt mikilvægasta atriðið er að tryggja stöðu fíkniefnalögreglunnar. Hún hefur unnið öflugt og þögult starf og að baki hverri aðgerð sem ber árangur liggur mikil vinna. Lögreglan á hól skilið fyrir að hafa náð að upplýsa og afstýra innflutningi á efni, t.d. í umræddu máli sem framsögumaður vísaði til í upphafi og þar með að afstýra því að hættulegt efni færi hér á markað. Ég tel að forvarnir allar séu afar mikilvægar en að afstýra því að efni komi inn í landið er mikilvægast af öllu.
    Ég fagna svari dómsmrh. og treysti því að úrbætur verði mjög virkar. Ég bendi á í lok máls míns að á árinu 1990 var lagt hald á umtalsvert af fíkniefnum en það var lagt hald á 13 byssur, 985 skot og 29 hnífa. Þetta var árið 1990 og það segir okkur hvert við stefnum.