Fíkniefnavandinn

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 18:34:16 (198)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að hreyfa þessu máli en það er mjög þarft og um leið vil ég þakka hæstv. dómsmrh. skýr svör. Atburðir síðustu daga og vikna minna okkur á að við lifum orðið hér í dálítið breyttum heimi. Reykjavíkurborg er að verða eins og hver önnur stórborg úti í heimi og ber öll einkenni þess sem minna okkur á það að fíkniefnaneysla, fíkniefnasala, hnífstungur og líkamsárásir eru að verða því miður daglegt brauð. Innflutningur fíkniefna eykst stöðugt og við eigum mjög erfitt með að koma þar við aðgerðum. Þetta eru auðvitað dæmigerð einkenni á hvaða stórborg í heiminum sem er. Þetta eru dæmigerð einkenni á borg þar sem atvinnuleysi er að halda innreið sína og þar sem atvinnuleysi hefur fest rætur. Það eru þeir alvarlegu hlutir sem hér eru að gerast að mínu viti. Reynslan segir okkur það erlendis frá, frá Bretlandi, frá Bandaríkjunum, að eftir því sem atvinnuleysið er meira, því meira verður ofbeldið. Auðvitað mun það sama gilda hjá okkur því miður. Það er því viss hætta á að við séum að fara inn í ákveðinn vítahring sem við eigum erfitt með að komast út úr og af því hef ég og ég veit margir fleiri miklar áhyggjur. Þá er auðvitað spurningin sú, hvað er þá til ráða?
    Framkvæmdastjórn Landssambands lögreglumanna ályktaði 29. ágúst sl. og, með leyfi forseta, ætla ég að fá að vitna í þá ályktun:
    ,,Öllum má vera ljóst að lögreglan á undir högg að sækja þar sem svo mjög hefur dregið úr fjárveitingum til hennar á undanförnum árum. Hún lítur á það sem hlutskipti sitt að halda uppi lögum og reglu í þessu landi. En sé henni sökum fjárskorts gert ókleift að sinna því verkefni er það upphafið að óöld sem ekki er séð fyrir endann á.``
    Ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann taki ekki undir þá fullyrðingu sem hér er sett fram af hálfu Landssambands lögreglumanna. Ég skil það auðvitað mjög vel að það er erfitt fyrir hann á þessari stundu að gefa það út hvort fjárveitingar til lögreglunnar í Reykjavík muni aukast eða minnka á næsta ári. Hins vegar er það ljóst að formaður fjárln. Alþingis hefur lýst því yfir opinberlega að hann ætli að beita sér fyrir auknum fjárveitingum til lögreglunnar í Reykjavík og því ber sérstaklega að fagna.