Fíkniefnavandinn

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 18:37:15 (199)

     Árni M. Mathiesen :
    Virðulegi forseti. Þetta mál sem hér um ræðir er ekki nýtt af nálinni. Það hefur verið vakin athygli á því allítarlega að undanförnu og vil ég þá sérstaklega vísa til ályktunar Landssambands lögreglumanna frá því 20. mars sl.
    Störf lögreglumanna í fíkniefnalögreglu eru að mörgu leyti öðruvísi en störf annarra lögreglumanna. Þeir þurfa að starfa sjálfstæðar en aðrir lögreglumenn. Þeir þurfa að fara út til þess að finna afbrotin því að þau eru yfirleitt ekki kærð til hinnar almennu lögreglu. Málin sem þeir vinna að taka lengri tíma og það eru þau stóru mál sem hindra það að efnin komist út á markaðinn og þeir glæpamenn, sem þeir eru að eiga við, leggjast oft miklu lægra en nokkurt okkar getur ímyndað sér. Lögreglumennirnir þurfa því meira sjálfstæði og meira svigrúm en þeir hafa í dag og betri starfsaðstæður. Landsumboð þeirra þarf að vera betur skilgreint þannig að aðgerðir þeirra geti verið beinskeyttari.
    Lögreglustjórinn í Reykjavík kom á fund fjárln. í síðustu viku og þar var hann spurður um það hversu miklum fjármunum væri varið til fíkniefnalögreglunnar í Reykjavík. Því miður gat hann ekki svarað þessari spurningu og því er erfitt fyrir okkur nefndarmenn að gera okkur grein fyrir því hvernig fjárhag deildarinnar er háttað og hversu miklu eða hvort þarf að bæta þar verulega við.
    En það er önnur hlið á þessu máli sem ég vil vekja athygli á og það er eftirspurnin. Við þurfum að hyggja að forvörnum og kynningarstarfi fyrir foreldra og börn. Þar á ríkisvaldið hauk í horni sem eru frjáls félagasamtök sem þessum málum hafa sinnt af nokkrum dugnaði og þar virðist krónan oft duga betur en hjá hinu opinbera. Ég held að okkur ætti að vera það ljóst að börn og unglingar sem taka þátt í heilbrigðu félags- og íþróttastarfi leiðast síður út á þær villigötur sem hér um ræðir.