Fíkniefnavandinn

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 18:42:03 (201)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Mér er ljóst að það er alveg á mörkunum að rými sé fyrir þessa stuttu ræðu mína. Ég vil aðeins leggja það inn í þessa annars ágætu umræðu, og þakka málshefjanda hennar fyrir, að hér erum við kannski ekki að tala við alveg réttan aðila. Vissulega leikur lögreglan mikið hlutverk í baráttunni gegn eiturlyfum í þessu landi en við hefðum átt að hafa hér hæstv. fjmrh. líka því að það er ekki við hæstv. dómsmrh. einan að sakast. Tollvarslan er auðvitað mikilvægur baráttuaðili í þessu máli vegna þess að lögreglan tekur ekki við málinu fyrr en efnin eru komin inn í landið og þurfi að efla löggæsluna þarf ekki síður að efla tollgæsluna um land allt því að það eru ekki þeir sem neyta þessara lyfja sem eru stærstu kaupendurnir erlendis. Það eru ólíklegustu aðilar sem flytja efnin inn í landið og þess vegna er ekki nóg að huga að stöð Leifs Eiríkssonar. Það þarf að líta á hverja einustu höfn í þessu landi. Fyrr en við getum komið í veg fyrir að þessi efni flytjist inn í landið held ég að lögreglan fái hvergi rönd við reist. Síðan gæti hæstv. ríkisstjórn rætt það á sínum næsta fundi hvort ástandið í þjóðfélaginu sé nú beinlínis þannig vaxið um þessar mundir með vaxandi atvinnuleysi, versnandi fjárhag heimilanna og með öðru slíku sem fólk verður að búa við, menn geta spurt sig á þeim góða fundi hvort líklegt sé að þessi mál fari batnandi við þær aðstæður.