Fíkniefnavandinn

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 18:44:02 (202)


     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. hans svör og þingmönnum hlut þeirra í þessari umræðu. Ég þakka hv. 5. þm. Austurl. þær upplýsingar að fjárln. muni beita sér fyrir auknu fjármagni til fíkniefnalögreglunnar.
    En ég vil vekja sérstaka athygli á því að það er ekki síður álit lögreglunnar að nú beri að styrkja hina almennu lögreglu til varnarbaráttunnar. Fíkniefnalögreglan er sterk deild. En þeir þurfa styrk inn í hina almennu lögreglu eins og ég gat um í minni ræðu. Ég vænti þess að við öll og hin íslenska þjóð, sem oft á eina sál, leggist öll á eitt að útrýma eiturlyfjaneyslu. Ég tel að Alþingi eigi að marka stefnu þar sem ráðgert væri á næstu 4--5 árum að gera fíkniefnaneyslu útlæga úr landinu. Fyrsta skrefið er aukið fjármagn og að styrkja og treysta starf og starfsaðstöðu lögreglumannsins. Síðan er það auðvitað hið almenna forvarnastarf sem hér hefur verið minnst á. Hér hefur verið komið inn á það að auðvitað eru mörg óveðursský á himni. Það hefur gerst á Íslandi á einu ári að atvinnuleysi ungs fólks á aldrinum 18--24 ára hefur fimmfaldast. Það er viðurkennt um allan heim að atvinnuleysinu fylgir aukin fíkniefnaneysla.
    Það eru fleiri óveðursský á lofti. Mikill niðurskurður til skólanna og menntamála er boðaður. Það er boðaður nú 800 millj. kr. niðurskurður til skólanna á þessu hausti í þessari fjárlagagerð. Það eru alvarleg tíðindi og það liggur fyrir að þau ungmenni sem hrekjast úr skólum eru líklegri til þess að feta inn á glæpabrautir. Þetta vil ég minna hér á. Það er mikilvægt, sagði landlæknir í útvarpi í morgun, að ungmennin eignist próf og starfsréttindi. Það er eitt aðalmál fangelsanna í dag að tryggja að þeir sem þar hafa færst inn á hringekju glæpanna fari út með réttindi til þess að geta snúið sér að heilbrigðu starfi þegar út er komið.
    Ég vil að lokum leggja áherslu á það að þetta mál er margslungið og margbrotið. En það á við það eins og fleira að viljinn er aflið sem við þurfum að virkja til varnar ungu fólki í þessu landi.