Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 20:44:46 (205)

     Jóhann Ársælsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með það að hér eigi að fara fram umræða við þessar aðstæður um þetta mál. Forseti lagði mikla áherslu á það í viðræðum við okkur fulltrúa þingflokkanna að þessi umræða héldi áfram í dag og kvöld. Ég taldi nokkuð einsýnt að hún yrði þá með eðlilegum hætti og hér yrðu mættir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar sem eiga hlut að máli. Nú er hæstv. utanrrh. hér einn mættur fyrir ríkisstjórnina. Ég tel að það sé lágmarkið ef á að fara fram umræða um þetta mál að hér séu staddir bæði forsrh. og hæstv. utanrrh. og svo eftir atvikum þeir fagráðherrar sem eiga hlut að máli eftir því sem ræðumenn telja tilefni til að ræða við þá. Mér finnst satt að segja að þessi umræða, sem ég tel mjög mikilvæga, eigi það skilið að menn sinni henni á eðlilegan máta, að hér séu ekki haldnir einhverjir málamyndafundir og ætlast til þess að hv. þm. haldi ræður yfir tómum sölum og án þess að tala við þá sem eiga að vera oddvitar ríkisstjórnarflokkanna í málinu.