Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 20:46:28 (206)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég kom því miður hér inn í salinn eftir að síðasti ræðumaður hóf mál sitt en ég vil óska eftir svörum forseta við þeim athugasemdum sem hér komu fram. Ég vil geta þess að, eins og við öll vitum, þá erum við að ræða gríðarlega yfirgripsmikið mál sem nær til vel flestra ráðuneyta og við þingkonur Kvennalistans höfðum með okkur ákveðin verkaskipti þannig að hver og ein tekur fyrir þá málaflokka sem heyra undir þær nefndir sem viðkomandi þingkona er í. Þar af leiðandi er ekki óeðlilegt að óskað sé eftir því að þeir ráðherrar sem þeim málum stjórna séu hér viðstaddir. Ég vil taka undir með varaþingflokksformanni Alþb. varðandi það að ráðherrar séu hér viðstaddir. Það er ekki bara verið að ræða samninginn sjálfan heldur hvernig hann snertir íslenskt þjóðfélag og mér finnst það eðlileg krafa að sem flestir ráðherrar séu hér viðstaddir. Þar af leiðandi er umræða við þessar kringumstæður nánast út í hött.