Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 20:52:22 (209)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti mun gera ráðstafanir til þess að athuga hvort hæstv. forsrh. getur komið á fundinn. Forseti vissi ekki að hann væri upptekinn annars staðar en eins og fyrir getur komið geta ráðherrar þurft að sinna óvæntum gestum og þess vegna ekki hægt að gera ráðstafanir því viðvíkjandi varðandi fundarhaldið. Eins og hér hefur komið fram þá er kvöldfundur --- sem að vísu er gert ráð fyrir í starfsáætlun að geti orðið á þriðjudögum --- en búast má við því að þessi fjarvera hæstv. forsrh. hafi verið ákveðin áður en til kvöldfundar var boðað. Forseti hefur ekki haft tækifæri til að kynna sér það en mun gera það eins fljótt og hægt er.
    Forseti hélt fund með formönnum þingflokka í morgun og ræddi tilhögun fundarhalds í dag og næstu daga eins og forseta ber að gera samkvæmt þingsköpum. Þar kom fram að það mundi verða fundur í kvöld þar sem haldið yrði áfram að ræða þau mál sem eru á dagskrá. Einnig var rætt um hvernig mætti halda áfram með fundarhaldið í vikunni og formenn þingflokka geta því væntanlega upplýst það á fundi með sínum þingflokkum.
    Þá væntir forseti þess að það sé hægt að hefja umræðuna á ný og vill einu sinni enn bjóða hv. 9. þm. Reykn. að taka til máls.