Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 21:52:11 (211)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég gat ekki hlýtt á alla ræðu hv. 9. þm. Reykn. en ég tók eftir því að ein af meginástæðunum fyrir því að hv. þm. mælti hér gegn aðild Íslands að þessum samningi virtist sú að þingmaðurinn hafði komist að raun um að þjóðin teldi í skoðanakönnun að við værum að missa tök á fiskveiðilandhelginni með þessum samningi. Hv. þm. veit þó mætavel, eftir að hafa lesið þessa samninga, að í engu eru skert yfirráð okkar yfir fiskveiðilandhelginni í samningunum. Það er býsna furðulegt ef heill stjórnmálaflokkur eins og Kvennalistinn byggir afstöðu sína í svo veigamiklu máli sem þessu á því hvað fólk heldur í skoðanakönnunum að sé efnisinnihald samninga en ekki á því hver er hin raunverulega efnislega niðurstaða í samningunum sjálfum. Er það virkilega svo að Kvennalistinn byggi afstöðu sína í öðrum málum á röksemdafærslu eins og þessari? Það væri full ástæða til að fá nánari skýringar á því af hálfu talsmanna Kvennalistans sem jafnan hafa notið þess álits að taka málefnalegan þátt í umræðum og málefnalega afstöðu til þeirra viðfangsefna sem hér eru til umfjöllunar. En að byggja afstöðu sína á röksemdafærslu eins og þessari kemur manni mjög á óvart ekki síst þar sem Kvennalistinn á í hlut.