Evrópskt efnahagssvæði

11. fundur
Þriðjudaginn 01. september 1992, kl. 21:59:58 (215)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér fyrr í kvöld var lýst eftir því hvort hæstv. forsrh. mundi vera væntanlegur til þessa fundar og ég vil ítreka þá ósk af minni hálfu vegna þess að ég hafði hugsað mér að eiga við hann nokkurn orðastað í tilefni af ummælum sem hann hefur látið falla um ýmis mál fyrr í þessum umræðum og sérstaklega um aðdraganda málsins og ekki síst um afstöðu hans til þess hvernig hann hyggst birta fundargerðir ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Ég held að það sé þess vegna óhjákvæmilegt að biðja um það, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. verði kvaddur hér til fundar. Sömuleiðis hefði ég viljað nefna það við virðulegan forseta að hingað verði kallaður hæstv. félmrh. vegna þess að ég hafði hugsað mér að ræða við hæstv. félmrh. um þau mál í evrópska efnahagssamningnum sem hér er á dagskrá, mál sem snerta verkalýðshreyfinguna og málefni hennar og ég tel að það sé nauðsynlegt að hæstv. félmrh. sé þá viðstaddur. ( Forseti: Forseti mun að sjálfsögðu verða við þeirri beiðni að láta kanna hvort hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. eiga þess kost að koma hingað. Til upplýsingar skal þess getið að hér í húsinu eru staddir tveir hæstv. ráðherrar, hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. En nú mun verða kannað hvort umræddir hæstv. ráðherrar geta komið.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir góð viðbrögð við minni ósk og ég mun þá hefja ræðu mína í trausti þess að þessir hæstv. ráðherrar birtist hér innan tíðar.
    Ég vil aðeins víkja nokkrum orðum áður en ég kem að málinu sjálfu eins og það stendur í dag að aðdraganda þessa máls og það geri ég m.a. í tilefni af umræðum sem hér hafa farið fram af hálfu hv. 3. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Norðurl. e. sem hafa aðallega velt sér upp úr fortíð og aðdraganda málsins en hafa ekki gert heiðarlega grein fyrir afstöðu sinni til samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði eins og hann liggur fyrir núna.
    Kjarni málsins varðandi aðdragandann eins og málið stendur í dag má segja að birtist í upphafsyfirlýsingu Steingríms Hermannssonar, þáv. forsrh., á fundi leiðtoga EFTA-ríkjanna í Ósló 14. og 15. mars 1989. Þá sagði þáv. hæstv. forsrh., með leyfi forseta:
    ,,Með tilvísun til þessarar lauslegu lýsingar á stöðu Íslands leyfi ég mér að treysta því að ykkur megi vera ljóst að full aðild að Evrópubandalaginu er ekki í myndinni fyrir okkur. Við getum aldrei gefið okkur á vald yfirþjóðlegum stofnunum. Við getum aldrei afsalað okkur fullveldinu eða rétti okkar til þess að taka eigin nauðsynlegar ákvarðanir til að tryggja afkomu okkar og sjálfstæði. Við verðum ætíð að hafa sjálfir stjórn á náttúruauðlindum Íslands sem eru grundvöllur tilveru okkar. Við teljum ekki að fjarlægt vald muni nokkru sinni geta haft þá stjórn á viðkvæmum náttúruauðlindum að okkar hagsmuna sé gætt.`` ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. þm. um að útilokað virðist vera að hæstv. forsrh. geti komið til þinghússins en það er verið að reyna að ná til hæstv. félmrh. samkvæmt upplýsingum þingvarða.) (Gripið fram í.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir svörin og þó að hv. 3. þm. Reykv. sé í húsinu, þá dugir það nú ekki í þessu tilviki. Mér er þess vegna nokkur vandi á höndum, hæstv. forseti, hvernig ég á að haga máli mínu hér. Ég hafði hugsað mér að víkja nokkrum orðum að hæstv. forsrh., ekki síst út af þessu fundagerðarmáli sem hann hóf umræður um fyrir nokkru. En ég vil spyrja hæstv. forseta hvort þess er að vænta að hæstv. félmrh. sé væntanlegur í húsið. ( Forseti: Samkvæmt upplýsingum þingvarða fyrir örstuttri stundu var verið að kanna það en það lá ekki fyrir og forseti mun tilkynna það um leið og fréttir berast.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessi svör og mun halda áfram ræðu minni um hríð þar til ljóst verður hvort hæstv. félmrh. kemur hér í húsið.
    Ég hafði rakið nokkrar setningar úr upphafsyfirlýsingu Steingríms Hermannssonar forsrh. frá 14. og 15. mars 1989. Og þar kemur það alveg skýrt fram að þáv. forsrh., og reyndar formaður Framsfl., setur skýra fyrirvara í þessu máli fyrir sína hönd sem stjórnmálaleiðtogi og fyrir hönd þáv. ríkisstjórnar og meiri hluta Alþingis. Ég verð að segja það alveg eins og er að ef við berum þessa yfirlýsingu saman við efnisatriði samningsins í smáatriðum, þá kemur bersýnilega í ljós að það hefur ekki tekist í samningsferlinu að uppfylla þessar yfirlýsingar þannig að í mínum huga er það þannig að ef þeir framsóknarmenn t.d. ætluðu sér að styðja samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, sem ég veit ekkert um, þá sýnist mér augljóst að þeir verði að rökstyðja það með algjörlega nýjum hætti af því að samningsdrögin eins og þau liggja fyrir núna eru ekki í samræmi við þær yfirlýsingar sem þáv. forsrh. og formaður Framsfl. gaf á sínum tíma í upphafi málsins.
    Þáv. ríkisstjórn gerði sérstaka samþykkt með bókun þann 29. nóv. 1989. Í þeirri bókun er skýrt tekið á málum og ég leyfi mér að lesa hana, með leyfi forseta. --- Ég vil spyrja hvort utanrrh., hann er í

húsinu alla vega, gæti ekki komið hingað, leyft sér aðeins að kíkja á þessa þingmenn smástund sér til sjálfsagt sárra leiðinda. ( Forseti: Forseti vill biðja þingvörð að kalla til hæstv. utanrrh.) Í bókuninni 29. nóv. 1989 sem var samþykkt í þáv. ríkisstjórn segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Utanrrh. hefur gert ríkisstjórn og Alþingi grein fyrir sameiginlegum könnunarviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið um víðtækara samstarf ríkjanna 18 sem aðilar eru að EFTA og EB. Utanrrh. mun áfram taka þátt í undirbúnings- og samningaviðræðum þessara aðila sem byggðar verða á sameiginlegum niðurstöðum könnunarviðræðna, þar með talið þeim fyrirvörum sem Íslendingar hafa sett fram.`` --- Það voru þeir fyrirvarar sem ég var að vitna til úr ræðu fyrrv. hæstv. forsrh. frá í mars 1989. --- ,,Jafnframt því sem fylgt verður eftir í þessum viðræðum sameiginlegri kröfu EFTA-ríkjanna um fríverslun með fiskafurðir innan hins væntanlega Evrópska efnahagssvæðis verður haldið áfram tvíhliða viðræðum Íslendinga við Evrópubandalagið og aðildarríki þess með það að markmiði að trygja tollfrjálsan aðgang fyrir íslenskar sjávarafurðir að mörkuðum Evrópubandalagsins og stöðu íslensks sjávarútvegs að öðru leyti. Náið samráð verður haft innan ríkisstjórnarinnar og við utanrmn. Alþingis á öllum stigum málsins.``
    Svo mörg voru þau orð. Og í tilefni af þessari samþykkt ríkisstjórnarinnar gerir þingflokkur Alþb. sérstaka samþykkt sem birt er með þessari samþykkt ríkisstjórnarinnar á sínum tíma. Þessi sérstaka ályktun þingflokks Alþb. er frá 29. nóv. 1989 þar sem mjög afdráttarlaust kemur fram hverjir eru þeir fyrirvarar sem Alþb. hefur við áframhald þessara viðræða sem stjórnarflokkur á þeim tíma. Ég ætla ekki að fara nákvæmar út í það að sinni að lesa þennan fyrirvara eða þessa samþykkt en vísa til hennar í stórmerku riti Evrópustefnunefndar á bls. 233 og 234.
    Hver var svo afstaða stjórnmálaflokkanna? Hvað sögðu stjórnmálaflokkarnir hver um sig að öðru leyti á sínum tíma? Framsfl. gerði samþykkt um þetta mál á miðstjórnarfundi 25. nóv. 1989 og gerir þar í raun og veru orð forsrh. að sínum og hnykkir á verulega þar sem fundur miðstjórnar Framsfl. 25. nóv. 1989 segir:
    ,,Fundurinn ítrekar sérstaklega að frjáls verslun með sjávarafurðir án þess að í staðinn komi veiðiheimildir fyrir erlenda aðila er forsenda fyrir þátttöku okkar Íslendinga í frjálsum markaði Vestur-Evrópu. Fundurinn leggur einnig áherslu á að hið viðkvæma íslenska peningakerfi verður að styrkja og gera virkara en það er nú áður en unnt er að samþykkja fullt frelsi fjármagnshreyfinga.`` --- Þetta er eitt af skilyrðum Framsfl. á þeim tíma. --- ,,Áður verður jafnframt að setja skýr lög sem tryggja að erlendir fjármagnseigendur nái ekki eignarhaldi á auðlindum landsins eða á fyrirtækjum sem þær nýta.`` --- T.d. í sjávarútvegi en ekki eingöngu í sjávarútvegi. --- ,,Þess verður einnig að gæta að meginþættir samninga um fjármagnsflutninga til og frá landinu verði ætíð í höndum Íslendinga sjálfra.``
    Og í fjórða lagi segir þessi miðstjórnarályktun Framsfl.:
    ,,Fundurinn tekur jafnframt undir það að nauðsynlegt er að Íslendingar geti gripið í taumana ef miklir flutningar vinnuafls til landsins valda erfiðleikum í atvinnumálum.``
    Með öðrum orðum: Miðað við yfirlýsingu forsrh. og miðað við þær samþykktir sem Framsfl. gerði á sínum miðstjórnarfundi í nóvember 1989 er augljóst mál að það mundi vera verulega úrleiðis fyrir þennan sama flokk að styðja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og hann stendur í dag. Auðvitað getur vel verið að þeir framsóknarmenn finni rök til þess en þeir verða þá að sýna það með sérstökum og nýjum rökum.
    Nú skyldu menn ætla að sá flokkur sem á utanrrh. --- eða sem utanrrh. á, ef við eigum kannski að orða það þannig eftir seinasta flokksþing Alþfl. ( Forseti: Forseti lofaði að upplýsa hv. þm. um hvort hugsanlegt væri að hæstv. félmrh. kæmi í húsið. Til hennar næst ekki þannig að ég á varla von á að það takist.) ( Utanrrh.: Félmrh. er erlendis.) ( Forseti: Félmrh. er erlendis, segir hæstv. utanrrh. sem nú er kominn hingað.) Virðulegi forseti. Ég verð þá að vænta þess að hæstv. utanrrh. svari spurningum fyrir hæstv. félmrh. Mér er tjáð að hæstv. félmrh. sé nú staddur í Riga að flytja erindi um íslenska velferðarkerfið en það eru væntanlega einu löndin í heiminum þar sem um þessar mundir er hægt að hæla sér af íslenska velferðarkerfinu eins og það er og það er von að varaformaður Alþfl. skuli vera sendur þangað. Ekki er svo miklu af að má hér í þessu landi.
    En hvað sagði þá Alþfl. áður en lagt var af stað í samningana um Evrópskt efnahagssvæði? Hvað sagði hann? Eru samningarnir eins og utanrrh. og formaður Alþfl. kemur með þá í samræmi við það sem Alþfl. lýsti yfir? Alþfl. sagði t.d.: Óskað verði aðlögunartíma og öryggisákvæða varðandi atriði þar sem mikil frávik eru milli evrópskra reglna og íslenskra og á sviðum þar sem smæð og einhæfni atvinnulífs á Íslandi gerir slíkt nauðsynlegt, þar á meðal að því er varðar fjármálastarfsemi og frjálst fjármagnsflæði.
    Varðandi fjármagnsmarkaðinn telur Alþfl. að ekki þurfi varanlegri undanþágur en allt að 3--4 ára aðlögunartíma, breytilegan eftir aðstæðum. Forsenda þess að hugsanlegur samningur um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu verði ásættanlegur fyrir Ísland er afdráttarlaus þátttaka í stjórnarákvörðunum svæðisins. Með öðrum orðum: Þegar yfirlýsingar Alþfl. í aðdraganda samningsins eru lesnar, þá kemur það í ljós að samningurinn stenst ekki einu sinni þær kröfur sem formaður Alþfl. gerði til sjálfs sín áður en lagt var af stað í þetta ferli og þó að við lifum á tímum þar sem það sem gerðist í gær virðist vera orðin fjarlæg saga, þá er það auðvitað óhjákvæmilegt fyrir okkur sem erum í stjórnmálum að reyna að líta yfir sviðið til lengri tíma og átta okkur á því hvað hefur verið að gerast. En þó verð ég að segja það, virðulegi forseti, að allra mestum tíðindum sætir það samt að lesa álit Sjálfstfl. frá þeim tíma áður en lagt var af stað, Sjálfstfl.,

flokks Eyjólfs Konráðs Jónssonar, Björns Bjarnasonar, Tómasar Inga Olrich svo ég nefni samnefnarana sem ég sé hér fram undan. ( Gripið fram í: Þversniðið.) Þversniðið. Hvað segir Sjálfstfl. þegar lagt er af stað? Sjálfstfl. segir:
    ,,Fulltrúar Sjálfstfl., Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðmundur H. Garðarsson og Ragnhildur Helgadóttir, fagna þeirri mikilvægu samstöðu sem náðst hefur í Evrópustefnunefnd en leggja höfuðáherslu á eftirfarandi:
    1. Hvergi verði hvikað frá þeirri stefnu sem ríki Evrópubandalagsins viðurkenndu með bókun 6 frá 1972 sem gildi tók við lok þorskastríða 1976 að Íslendingar einir ættu réttindin til fiskveiða innan 200 mílna efnahagslögsögunnar og breytingar á þeirri stefnu komi ekki til greina.`` ( EKJ: Rétt.) Einn samnefnarinn sagði rétt en hinir þegja.
    ,,Eignaraðild útlendinga að fiskveiði- og fiskverkunarfyrirtækjum verði áfram óheimil, sbr. lög nr. 33/1922. Þegar verði teknar upp viðræður við Evrópubandalagið um viðauka við bókun 6 til leiðréttinga vegna breyttra aðstæðna.`` ( EKJ: Allt rétt.) Allt rétt. ,,Á sama hátt ráði Íslendingar einir þeim fullveldisréttindum yfir landgrunninu utan 200 mílna sem þeim ber eftir 76. gr. hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samningum við nágrannaríkin um sameiginleg landgrunnsréttindi verði hraðað.`` ( EKJ: Réttast af öllu.) Ég þakka fyrir þá viðurkenningu fyrir upplestur á þessari ályktun sem ég hef fengið hér ítrekað úr salnum. Það er greinilega rétt lesið. En staðreyndin er hins vegar sú að þarna var greinilega á ferðinni allt annar stjórnmálaflokkur en sá sem núna stendur að samningunum um Evrópskt efnahagssvæði, allt annar stjórnmálaflokkur. Og hvernig er það með formann utanrmn. sem núna hefur allt í einu hlaupið úr salnum? Hann er gjarnan að brigsla einkum framsóknarmönnum um það að þeir hafi snúið við blaðinu í þessu máli. En hann skuldar þingheimi og þjóðinni rök fyrir því að Sjálfstfl., ef það er svo, skuli hafa horfið frá öllum grundvallaratriðum stefnu sinnar varðandi þennan samning frá árinu 1989. Öllum.
    Hæstv. sjútvrh. var þá formaður Sjálfstfl. Hann hefur enga grein gert fyrir því hverju sæti sú kúvending sem flokkur hans hefur tekið í þessu máli, en það er auðvitað augljóst mál að hér er á ferðinni hrein kúvending og um allt aðrar áherslur og allt aðra hluti að ræða en eru í þessum samningsdrögum núna.
    Þetta taldi ég mjög mikilvægt að kæmist hér á framfæri, virðulegi forseti, sérstaklega út af þessu aðdragandatali þeirra hv. þm. Björns Bjarnasonar og Tómasar Inga Olrich. Ef það er einhver flokkur sem skuldar Alþingi og þjóðinni skýringu á breyttri stefnu og nýjum áherslum í þessu máli, þá er það Sjálstfl. Það vekur að vísu athygli mína að þingmenn Sjálfstfl. hafa yfirleitt ekki talað í þessu máli. Þeir hafa yfirleitt ekki kvatt sér hljóðs, hvorki um stjórnarskrármálið né heldur um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Það vekur athygli mína. Þeir hafa sárafáir beðið hér um orðið og það kann auðvitað að vera að á bak við það séu þær skýringar að þeir vilji sumir halda í stefnu síns eigin flokks eins og hún var samþykkt og afgreidd á sínum tíma. Eða er einhver önnur ástæða fyrir því? Hafa þeir verið beðnir vinsamlegast um að þegja, eða hvað? Og ætla þeir þá að gera það? Ég trúi því ekki því í þessum hóp eru margir vaskir menn sem láta ekki segja sér að þegja. Auðvitað mun reynslan skera úr um það hver afstaða þeirra verður að lokum í þessu efni en hitt er alveg ljóst að eini flokkurinn sem hefur tekið hér vinkilbeygju í þessu máli er Sjálfstfl. Það liggur fyrir eftir þessum samþykktum sem ég hef hér lesið upp.
    Auðvitað má segja hér, virðulegi forseti, að þessi samningur og allt þetta mál sé nauðaeinfalt og í sjálfu sér þurfi ekki um það mjög mikil ræðuhöld. Málið snýst um það að ætlunin er að koma á Evrópsku efnahagssvæði þar sem forréttindi þau sem fylgja ríkisborgararétti í hverju landi eru afnumin. Samkvæmt samningnum er í raun og veru bannað að mismuna mönnum eftir þjóðerni á öllu samningssviðinu. Allt tal ýmissa ágætra manna t.d. um girðingar í þessu sambandi er að mínu mati meira og minna út í hött vegna þess að girðingar sem þjóna hagsmunum t.d. Íslendinga í málinu mundu augljóslega brjóta í bága við undirstöður samningsins sjálfs þannig að menn þurfa í raun og veru ekkert að eyða tíma í að ræða það mál. En ég ætla áður en kemur að almennum atriðum í samningnum sjálfum að leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. út í nokkur atriði í frv. til laga um Evrópska efnahagssvæðið. Það er frv. sem er upp á fimm greinar.
    Ég hef ekki orðið var við það að hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því hvað greinar 3 og 4 þýða. 3. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.``
    Ég spyr hæstv. utanrrh.: Með hvaða hætti er ætlunin að framkvæma þetta þannig að einstök ráðuneyti og ráðherrar gangi þannig frá reglum og stjórnvaldstilskipunum að í engu stangist á við þessa grein? Er ætlunin að setja upp ritskoðunarprófapparat í utanrrn. sem á að passa upp á það að enginn ráðherra eða ráðuneyti fari nokkurn tímann í tilkynningum sínum út fyrir þessa grein? Hvernig á að framkvæma hana?
    Svo ætla ég að spyrja hér um 4. gr. sérstaklega sem er satt að segja alveg ótrúleg og jafnvel þó að menn ætli sér að samþykkja þennan samning þá botna ég ekkert í því að menn sem vilja vanda vinnubrögð sín í lagasetningu geti látið sér detta það í hug að samþykkja þessa 4. gr. eins og hún stendur. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra, sem í hlut á, getur, ef sérstök nauðsyn krefur, sett reglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd EES-samningsins.``

    Ráðherra sem í hlut á getur sett reglur um framkvæmd samningsins nánast eins og honum sýnist. Þetta jafngildir því að segja: Við skulum afnema lagasafnið, hafa þar stjórnarskrána og setja aftast í stjórnarskrána nýja grein sem orðast svo: Ráðherra, sem í hlut á, getur, ef sérstök nauðsyn krefur, sett reglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd stjórnarskrárinnar. --- Og þar með punktur.
    Hér er með öðrum orðum um að ræða opið reglugerðarsetningarvald fyrir ráðherra, gjörsamlega opið, og án allra efnislegra leiðbeininga. Í öllum lögum er það þannig að það er tiltekið að ráðherra setji reglugerð á grundvelli þessara laga, þessa kafla eða með hliðsjón af þessari grein, o.s.frv. Ég man eftir því t.d. að fyrir allmörgum árum vorum við gagnrýndir mjög harðlega fyrir opin reglugerðarákvæði í frv. sem flutt var af þáv. forsrh., Ólafi Jóhannessyni. Því ákvæði var síðan breytt þannig að viðkomandi fagráðherrar voru settir inn í málið í öllum tilvikum. En hér er það í raun og veru þannig að það er sagt: Hvaða ráðherra sem er getur sett hvaða reglur sem er um nánari framkvæmd á EES-samningnum.
    Ég er algjörlega sannfærður um það, virðulegi forseti, að hér er um að ræða opnara framsal til framkvæmdarvaldsins af hálfu löggjafarsamkomunnar heldur en áður hefur verið gerð tillaga um. Ég segi fyrir mitt leyti, jafnvel þó ég væri hlynntur þessum samningi að öðru leyti en vildi vanda mig við vinnubrögð á Alþingi Íslendinga, gæti ég ekki skrifað upp á þessa setningu. Hún er fyrir neðan allar hellur. Ég bendi á það að fyrir allmörgum árum var hér maður á Alþingi Íslendinga sem Vilmundur hét Gylfason sem flutti um það langar ræður og gerði miklar kröfur um að löggjafarsamkoman fylgdist með framkvæmdarvaldinu og það yrði passað að ráðherrar misnotuðu ekki reglugerðarvald sitt. Ég tel að Vilmundur Gylfason hafi í þessu efni oft gengið mjög langt, en ég get rétt ímyndað mér hvaða orð hefðu verið notuð um tillögu af þessu tagi. Þetta gengur auðvitað ekki. Hér er verið að misbjóða löggjafarvaldinu og ég skora á Alþingi, utanríkismálanefndarmenn og aðra sem um þetta mál fjalla, að beina sérstöku kastljósi að þessari grein vegna þess að hún er algjörlega fráleit, eins og hún lítur út, burt séð frá þessum samningi að öðru leyti eða stjórnarskrármálinu t.d. að öðru leyti sem hér er mikið rætt.
    Varðandi samninginn sjálfan þá má segja að kjarni málsins komi með skýrum hætti fram í 4. gr. og það þurfi í sjálfu sér ekki mikið um það að segja. Þar stendur:
    ,,Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.``
    Það þarf ekki mikið meira að segja um þennan samning. Þetta er lykillinn að þessari galdralæsingu, þessu fjölmúlavíli sem hæstv. utanrrh. er að leggja fyrir Alþingi.
    Í raun og veru er mjög athyglisvert að lesa greinargerðina um þessa grein einmitt þar sem það er talið upp nákvæmlega hvaða undaþágur eru heimilar frá 4. gr. Hvaða undanþágur eru heimilar frá þessari grein? Þær eru sex, samkvæmt greinargerðinni á bls. 81.
    Í fyrsta lagi: ,,Ekkert er því hins vegar til fyrirstöðu að gerðar séu efnislegar kröfur, t.d. um tungumálakunnáttu umsækjenda í starf eða um að vara eða þjónusta sem falboðin er hæfi íslenskum aðstæðum.`` --- Þetta eru tvö atriði, má segja.
    Í öðru lagi: ,,Sérstakar undanþágur eru tilgreindar frá þessari meginreglu annars staðar í samningnum. T.d. er hægt að áskilja ríkisborgararétt þegar ráðið er í stöður á vegum ríkisins, sem fela í sér sérstakt trúnaðarsamband við vinnuveitanda.`` --- Hér er um að ræða lögreglumenn og slíka aðila. --- ,,Ef allsherjarregla, almannaöryggi eða almannaheilbrigði krefst er einnig hægt að láta sérstakar reglur gilda um erlenda ríkisborgara. Loks má geta þess að tekin eru af öll tvímæli um það í samningnum [eins og það er orðað hér] að Ísland og Noregur geti takmarkað aðgang erlendra ríkisborgara að fyrirtækjum í sjávarútvegi,`` o.s.frv.
    Svo er hægt að setja strangari reglur um ýmsan varning eða starfsemi svo fremi þær reglur gildi jafnt um Íslendinga sem erlenda ríkisborgara og valda ekki hindrunum í milliríkjaviðskiptum innan EES.
    Á blaðsíðu 81 í samningsskjalinu eru allar hugsanlegar undanþágur tíndar upp, allar. Þetta er tæmandi upptalning á þeim undanþágum sem heimilt er að veita samkvæmt samningsdrögunum eins og þau líta út. Þess vegna er það fyrir girðingavini alveg sérstaklega fróðlegt að lesa þennan kafla á bls. 81 í greinargerðinni því þar eru taldar upp allar þær hugsanlegu undanþágur sem hér er um að ræða.
    Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara yfir einstök atriði í þessu skjali vegna þess að önnur atriði hafa ýmist verið rædd eða þá að þau skýrast mjög skýrt út frá þessum þætti. Ég ætla þó aðeins að víkja að því sem hér hefur verið sagt um forúrskurðina og einkum þeim þætti varðandi forúrskurði sem eru í þessu plaggi. Í þessu plaggi er gert ráð fyrir forúrskurðum og að forúrskurðir verði bindandi, en það er jafnframt sagt í greinargerðinni að þetta ákvæði verði ekki notað nema með sérstakri samþykkt Alþingis, lögum og/eða breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þetta ákvæði er ekki í lagi að mínu mati. Það segi ég vegna orða sem fallið hafa fyrr í þessum umræðum. Ég segi það vegna þess að þetta ákvæði er partur af samningnum auðvitað. Menn eru að samþykkja að taka forúrskurðakerfið hér inn á þetta blað þó það þurfi nýja samþykkt í lögum eða stjórnarskrá til þess að koma því í notkun. Það er alveg augljóst mál og við þekkjum það sem höfum lesið eitthvað um samningsferlið að Evrópubandalagið gerði þetta ákvæði um forúrskurðina að ströngu skilyrði af sinni hálfu við afgreiðslu málsins, þannig að hér er auðvitað um það að ræða að Evrópubandalagið, samningsaðilinn, telur að hér sé mjög mikilvægt ákvæði og þess vegna er útilokað fyrir menn að ætla sér, eins og utanrrh. og reyndar einn og einn maður í stjórnarandstöðunni, að ýta þessu máli frá og segja að þetta sé algjört smámál. Þetta er ekki smámál. Það er nauðsynlegt að átta

sig á því að þetta er þarna inni og það er skilyrði og það er partur af þessu máli.
    Varðandi samninginn að öðru leyti ætla ég út af fyrir sig ekki að fara yfir einstakar greinar í honum, það væri svo sem hægt að finna eitt og annað og það er jafnvel hægt að finna hér skemmtilega hluti sem gætu kannski orðið mönnum til nokkurrar umhugsunar á síðkvöldum. Það fyndnasta í plagginu, hæstv. utanrrh., er undanþágan fyrir Húsatryggingar Reykjavíkur. Húsatryggingar Reykjavíkur á bls. 135 --- ég sé að ráðherrann er að fletta þessu skjali, hægri síðu, það fer vel á því. Hvað eru Húsatryggingar Reykjavíkur? Það er einokunarfyrirtæki sem Reykjavíkurborg hefur komið upp í sambandi við húsatryggingar. Við Reykvíkingar verðum að tryggja okkur hjá Húsatryggingum Reykjavíkur, annað er algjörlega óheimilt. Það er bannað að tryggja hjá Vátryggingafélaginu eða hvað þær nú heita þessar sjoppur allar. Það er bannað. Húsatryggingar Reykjavíkur hafa notið skattfrelsis. Þær hafa ekki einu sinni borgað skatta, þetta einokunarfyrirtæki Sjálfstfl. í Reykjavík. Og niðurstaðan er sú að í öllum þessum haug sem ég sé að þingmenn hafa fyrir framan sig, eins og hv. 8. þm. Reykn., í öllum þessum haug, þar sem menn hafa læðst eins og lýs fyrir hverja einustu setningu og milli línanna alls staðar og skoðað með stækkunargleri og í smásjá hvert einasta orð, þá lögðu þeir það á sig þessir miklu snillingar, þessir lúsiðnu embættismenn sem eiga alla mína samúð, að biðja um undanþágu fyrir Húsatryggingar Reykjavíkur. Einokunarfyrirtæki Sjálfstfl. í Reykjavík.
    Ég mundi hafa haft gaman af því að heyra hvernig þeir hafa borið orðin Húsatryggingar Reykjavíkur fram á frönsku í þessum viðræðum. Og það veit hv. 5. þm. Reykn. best hér inni hvernig það er gert. Það er gjörsamlega kengfyndið að hugsa sér það að þessi flokkur samkeppnisfrelsisins, viðskiptafrelsisins á Íslandi sem leggur hérna fram fleiri, fleiri tugi þúsunda síðna af pappírum í viðskiptafrelsi, gerir út sérstakan leiðangur til að biðja um áframhaldandi undanþágu á einokun fyrir Húsatryggingar Reykjavíkur. Enda tók ég eftir því að fulltrúar Sjálfstfl. í heilbr.- og trn. voru heldur kengslegir þegar ég var að ræða þetta þar á sínum tíma og voru ekki mjög samkeppnisfrjálsir í framan meðan sú umræða fór fram. Það er auðvitað alveg með ólíkindum, þetta lið og svo þykist það vera að stuðla að einhverju frelsi í viðskiptum. Alveg með ólíkindum. Þeir fundu tryggingafélag niðri í Sviss, í einhverju þorpi í Sviss ( Gripið fram í: Og í Þýskalandi.) og eitt eða tvö í Þýskalandi þar sem var svipað kerfi þar sem menn höfðu komið því á að láta alla tryggja hjá einum og sama aðila og láta þennan sama aðila borga fyrir slökkviliðið. Þessir höfuðsnillingar, embættismenn utanrrh. og Reykjavíkurborgar, lögðu saman á einni góðri Viðeyjarstund og sögðu: Allt skal frjálst nema tryggingarnar í Reykjavík. Ja, þvílíkt.
    Og þannig er það, virðulegi forseti, að þrátt fyrir allt er þetta ekki allt jafnhundleiðinlegt og menn geta ímyndað sér af því að sjá þessa hauga því þarna leyndist þó hlutur sem var býsna fyndinn satt best að segja og kom upp um strákinn Tuma og þetta samkeppnisfrelsislið sem reytir einlægt hár sitt og skegg fyrir samkeppnisfrelsinu þegar peningarnir eru yfirleitt annars vegar --- nema Húsatryggingar Reykjavíkur. Húsatryggingar Reykjavíkur! Ja, til hamingju, hæstv. utanrrh. Þvílíkt og annað eins. Kerfisskelfirinn mikli, formaður Alþfl., hann fór með Húsatryggingar Reykjavíkur í leiðangur niður til Evrópu og lét Frakka og Þjóðverja og Breta og hvað þeir nú heita allir, skrifa Húsatryggingar og bera það fram á hinum aðskiljanlegu tungum Evrópu. Kannski flæmsku líka. Ja, þvílíkt.
    Nei, virðulegi forseti, því miður er það nú svo að þessir haugar eru ekki skemmtiatriði af þessu tagi nema að mjög takmörkuðu leyti. Það sem ég vildi víkja næst að í sambandi við þennan samning er sú staðreynd að Alþýðusamband Íslands hefur fjallað um þessi mál og það hefur gjarnan verið sett þannig upp af ýmsum aðilum, hef ég tekið eftir, að Alþýðusambandið væri jafnvel bara hlynnt þessu. Það er ekki rétt uppsetning mála. Staðreyndin er sú að Alþýðusamband Íslands hefur sett fjöldann allan af skilyrðum að því er þetta mál varðar. Fjöldann allan af skilyrðum. Ég vil inna hæstv. utanrrh. eftir því hvernig þau skilyrði standa.
    Í greinargerð miðstjórnar Alþýðusambands Íslands um Evrópskt efnahagssvæði segir svo m.a., með leyfi forseta:
    ,,Alþýðusamband Íslands hefur fylgst náið með framgöngu þessa máls frá upphafi. Í janúar 1990 lýsti miðstjórn sambandsins yfir stuðningi við þá leið sem ákveðin var með samningum á milli EFTA og EB. Af hálfu ASÍ hefur þó alltaf komið skýrt fram að stuðningur við samningana væri háður ýmsum skilyrðum. ASÍ hefur stutt fyrirvara íslenskra stjórnvalda varðandi atvinnu- og búseturéttindi og möguleika útlendinga til þess að taka þátt í atvinnurekstri sem byggist á nýtingu íslenskra náttúruauðlinda.
    Meginfyrirvari ASÍ hefur þó tengst þróun félagsmála innan EES og af hálfu sambandsins hefur alltaf komið skýrt fram að EES-samningurinn megi ekki að nokkru leyti verða til þess að grafa undan réttindum launafólks á Íslandi.``
    Síðan segir í greinargerð Alþýðusambandsins:
    ,,Eftir að samningum um Evrópskt efnahagssvæði lauk í október á síðasta ári gerði sambandsstjórn ASÍ tvær ályktanir um samninginn.
    Í fyrsta lagi ályktaði sambandsstjórn að efna ætti til þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.
    Í öðru lagi var ályktað um efni samninganna og dregnar fram bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar.``
    Sambandsstjórn taldi kosti samningsins fyrst og fremst felast í bættum markaðs- og vinnslumöguleikum fyrir íslenskar sjávarafurðir sem nauðsynlegt sé að nýta á sem bestan hátt. Sem neikvæðar hliðar

var bent á hættu á yfirráðum erlends fjármagns og hættur vegna opnunar vinnumarkaðarins. Bent var á að á þessum sviðum sé innlend lagasetning nauðsynleg og m.a. var þess krafist að sett verði innlend löggjöf og aðrar viðhlítandi ráðstafanir samhliða samningnum sem komi m.a. í veg fyrir undirboð útlendinga á íslenskum vinnumarkaði eins og hv. 9. þm. Reykn. ræddi rækilega í ræðu sinni hér áðan.
    Það er gert ráð fyrir því, virðulegi forseti, að þessi mál verði sérstaklega rædd á alþýðusambandsþingi núna í haust, kemur fram í þessari greinargerð.
    Alþýðusambandið segir t.d. um stjórnarskrárþáttinn að á hann beri að leggja sérstaka áherslu og hann beri að vanda og að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál. Þarna er Alþýðusambandið í raun og veru í mjög góðu samspili við aðra aðila sem fjallað hafa um þennan samning á undanförnum árum og undanförnum missirum og mánuðum en einnig í mjög góðu samspili við fjölda aðila sem tóku afstöðu t.d. á sínum tíma til samninganna um EFTA, Fríverslunarbandalag Evrópu. Þá var það þannig að Samtök frjálslyndra og vinstri manna voru nýstofnuð sem stjórnmálaflokkur --- og ég hygg að hæstv. utanrrh. kannist við þann flokk. --- Sá flokkur studdi EFTA-samninginn á sínum tíma en sá flokkur og forustumenn hans, og einkum formaður, Hannibal Valdimarsson, lagði sérstaka áherslu á nauðsyn þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn á sínum tíma. Alþýðusambandið er trútt þessari stefnu sem mörkuð hefur verið af Alþýðusambandinu um áratuga skeið og kemur fram í greinargerðinni sem ég var að vitna til.
    Í öðru lagi --- ég nefni númer eitt sem sagt þjóðaratkvæðið --- eru ákvæðin um félagafrelsið þannig að Alþýðusambandið hefur miklar áhyggjur af þeim. Þar segir:
    ,,Alþýðusamband Íslands krefst þess að íslensk stjórnvöld hviki ekki frá afstöðu sinni í þessu máli ef til þess kemur að þessir sáttmálar taki gildi á Evrópska efnahagssvæðinu og geri ítarlega fyrirvara um stöðu félagsmála hér á landi þannig að sú framkvæmd sem verið hefur í þeim efnum gildi áfram.``
    Ég spyr líka hæstv. utanrrh.: Hvað með þennan þátt? Hinn félagslega þátt og þær kröfur sem Alþýðusambandið hefur gert í þeim efnum?
    Og ég spyr um atvinnumálin sem er þriðja meginskilyrði Alþýðusambandsins. Þar segir:
    ,,Alþýðusambandið bendir á mögulega samvinnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um þróunaráætlun í atvinnumálum þar sem t.d. væri lögð áhersla á samvinnu á milli lítilla og meðalstórra fyrirtækja og fyrirtækjaneta. Alþýðusamband Íslands telur átak í atvinnumálum og iðnþróun vera innanlandsmál þar sem öruggur og hagstæður aðgangur að Evrópumarkaði gæti stuðlað að því að vel takist til.``
    Hvar er þetta átak í atvinnumálum sem Alþýðusamband Íslands gerir kröfu um?
    Í fjórða lagi hefur Alþýðusambandið ýmislegt að athuga við tilhögunina að því er varðar frjáls atvinnu- og búseturéttindi. Um það segir Alþýðusambandið:
    ,,Alþýðusamband Íslands bendir á að upphaflegir fyrirvarar Íslands um einhliða möguleika á takmörkun innstreymis erlends vinnuafls náðu ekki fram. Þess í stað mun gilda almennur öryggisfyrirvari um alla þætti samningsins. Í samningnum er einhliða yfirlýsing frá íslenskum stjórnvöldum um að öryggisfyrirvarinn verði fyrst og fremst notaður af Íslands hálfu varðandi vinnumarkað og fasteigna- og landakaup. Ekki er sýnt hvaða þýðingu þessi yfirlýsing hefur en öllum ætti að vera ljóst að möguleikar íslenskra stjórnvalda til þess að stöðva tilflutning erlends launafólks eru mun verri innan ramma EES-samningsins en á samnorræna vinnumarkaðnum.`` --- Ég spyr utanrrh. einnig um þetta atriði.
    Og Alþýðusambandið heldur áfram í þessari greinargerð:
    ,,Alþýðusamband Íslands hefur miklar áhyggjur af því að opnun vinnumarkaðarins geti falið í sér hættu á undirboðum hvað varðar laun og réttindi. Nauðsynlegt er að tryggja með innlendri lagasetningu og öðrum aðgerðum að slíkt geti ekki gerst. Eitt af því sem einkennir almenna vinnumarkaðinn hér á landi er að í mörgum tilfellum er langt bil á milli umsaminna taxta og raunverulegra greiddra launa. Núgildandi lög um starfskjör launafólks kveða á um að samningar á milli aðila vinnumarkaðarins skuli gilda sem lágmark fyrir alla vinnu sem unnin er hér á landi. Þetta býður þeirri hættu heim að aukið frelsi útlendinga til starfa hér á landi verði til þess að launum verði þrýst niður að taxtakaupi. Við slíkt verður ekki unað og því er nauðsynlegt að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir það.`` --- Ég spyr hæstv. utanrrh. í þessu sambandi í fimmta lagi: Hvaða leiðir eru færar í þeim efnum?
    Enn fremur segir Alþýðusambandið:
    ,,Samkvæmt núgildandi reglum þarf að leita álits stéttarfélaga vegna atvinnuleyfa allra útlendinga nema Norðurlandabúa. Samkvæmt EES-samningnum þarf ekki að leita umsagnar stéttarfélaga vegna íbúa frá EES eftir að samningurinn tekur gildi. Ljóst er að þessi breyting mun draga mikið úr möguleikum stéttarfélaganna til þess að hafa áhrif á kjör þeirra útlendinga sem hingað koma frá Evrópska efnahagssvæðinu.``
    Alþýðusambandið ræðir einnig sérstaklega í greinargerð sinni um það sem kallað er ,,vinna handan landamæra`` og segir um það orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Hinn nýi sameiginlegi markaður opnar möguleika á því að fyrirtæki innan Evrópska efnahagssvæðisins taki að sér verkefni innan annarra ríkja en þessi möguleiki er hluti af frjálsri þjónustustarfsemi. Þetta mun auka samkeppni sem bæði geta haft jákvæð og neikvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf. Þannig geta fyrirtæki náð betri nýtingu og afkastagetu en spurningin er hvort íslensk fyrirtæki séu of smá til þess að geta nýtt sér þessa möguleika að einhverju marki.``

    Og síðan segir Alþýðusambandið:
    ,,ASÍ gengur að því vísu að ráðstafanir verði gerðar bæði innan lands og innan EES sem komi í veg fyrir misnotkun á grundvelli þessara nýju möguleika og bendir þar á þær lágmarksreglur sem verið er að setja í hina félagslegu framkvæmdaáætlun Evrópubandalagsins. Koma verður í veg fyrir misnotkun vegna vinnu handan landamæra í byggingar- og verktakastarfsemi.
    ASÍ treystir því að ríkisstjórnin leggi fram lagafrumvarp og geri aðrar viðhlítandi ráðstafanir sem tryggi að þessar kröfur nái fram að ganga.`` --- Og ég spyr í sjötta lagi: Hvar er þetta frv.?
    Hér hef ég með öðrum orðum, virðulegi forseti, farið yfir greinargerð Alþýðusambands Íslands eins og hún birtist sl. sumar og lagt fyrir hæstv. utanrrh. nokkrar spurningar. Í þessari greinargerð Alþýðusambandsins er vikið að fleiri atriðum, t.d. ríkisstyrkjum til skipasmíðaiðnaðarins. En menn vita það kannski ekki að þannig er frá hlutum gengið í sambandi við Evrópska efnahagssvæðið að Evrópubandalagsríkin geta haldið áfram að styrkja sinn skipasmíðaiðnað þannig að íslenskur skipasmíðaiðnaður stendur jafnhöllum fæti eftir í samkeppninni og hann hefur gert til þessa við niðurgreiddan iðnað í þessum löndum. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, það er rangt sem haldið hefur verið fram að verkalýðssamtökin hafi fortakslaust samþykkt fyrir sitt leyti á neinn hátt að Ísland gerðist aðili að Evrópsku efnahagssvæði. Það er langt frá því. Alþýðusambandið hefur t.d. í þessari greinargerð sett fram milli 10 og 20 skilyrði sem öll eru með þeim hætti að það er í raun og veru alveg óhjákvæmilegt að utanrrh. svari hér við þessar umræður hvort hann ætlar að verða við þessum kröfum ASÍ og ef svo er, þá hvernig.
    Virðulegi forseti. Ég hafði í sjálfu sér hugsað mér að víkja hér að ýmsum fleiri atriðum en á hins vegar nokkuð óhægt um vik þar sem hæstv. forsrh. sem þarf auðvitað að svara fyrir ríkisstjórnina í heild í málum þeim sem hér eru á dagskrá er fjarri, einkum og sér í lagi vegna þess að þessi hæstv. ráðherra hefur veist mjög harkalega að fyrrv. ríkisstjórn í þessu sambandi. Ég mun því bregða á það ráð, virðulegi forseti, að ætla mér tíma við umræðuna síðar til þess að gera grein fyrir ýmsum málum nánar en ætla að koma hér aðeins að nokkrum grundvallaratriðum og fyrst því sem fram kom í máli hv. þm. Vilhjáms Egilssonar hér í gær sem flutti satt að segja alveg stórmerka ræðu. Hún var svo hreinskilin.
    Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sagði í raun og veru að hér værum við að taka nýjan sið. Hv. þm. vísaði til þess að Íslendingar hefðu á undanförnum öldum tekið við nýjum siðum annars staðar að með ýmsum hætti. Ég man ekki hvort hann vitnaði beinlínis til kristnitökunnar en ég man ekki betur en hann hafi vitnað a.m.k. til siðaskiptanna í þessu efni. Og það kann út af fyrir sig að vera að það sé þannig að ýmsir telji að þetta sé býsna fjarstæðukennt hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni. En ég er nú ekki viss um að það sé alveg eins fjarstæðukennt og menn vilja vera láta og mönnum kann að sýnast í fljótu bragði. Staðreyndin er að sú hugmyndafræði sem liggur á bak við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði flæðir yfir um þessar mundir og þess vegna kann mönnum að virðast að við eigum kannski fáa aðra kosti en að ákveða að taka við Evrópsku efnahagssvæði eins og það er.
    Út af fyrir sig er það mín skoðun að ég tel að Íslendingar geti undir engum kringumstæðum og eigi ekki að einangra sig frá helstu viðskiptalöndum sínum að einu eða neinu leyti og það var þess vegna sem Alþb. fyrir sitt leyti ákvað á sínum tíma að það væri rétt að Íslendingar tækju þátt í þessum viðræðum um Evrópskt efnahagssvæði. Við töldum að það væri skynsamlegt og óhjákvæmilegt og það er í samræmi við þessa afstöðu að ég er að lýsa þessum skoðunum mínum hér. Hitt er hins vegar spurningin og það er það grundvallaratriði sem við stöndum frammi fyrir: Hvernig gerist þetta? Með hvaða hætti og undir hvaða formerkjum? Um það er ágreiningurinn.
    Ég heyrði að það var vitnað hér í einn merkan samtíðarmann á dögunum um það að Alþb. hefði ekki tekið afstöðu til fjórfrelsisins heldur bara til rammans. Staðreyndin er auðvitað sú að það er hugsanlegt að setja málin þannig upp þó að það hafi ekki verið gert af hálfu Alþb. Alþb. tók afstöðu til allra þessara þátta í sínum ályktunum. En auðvitað er hugsanlegt að greina þessa hluti með vissum hætti í sundur. Það er auðvitað hugsanlegt að finna mann sem segir: Ég styð fjórfrelsið en ég er andvígur stofnanaþættinum vegna þess að ég tel að hann stangist á við stjórnarskrána. Og það er líka hugsanlegt að finna mann sem segir: Ég styð fjórfrelsið og ég tel stjórnarskrárþættina í lagi að því er varðar EES en ég tel þá ekki í lagi að því er varðar Evrópubandalagsþáttinn. Og ég held að menn megi ekki í útúrsnúningaleik hér, eins og hv. þm. Björn Bjarnason, setja hlutina upp eins og hann hefur gert hér aftur og aftur að menn hljóti í raun og veru að dæma þessa hluti alla með svo að segja einni handasveiflu, í einu höggi. Málið er aðeins flóknara en svo að það sé skynsamlegt og mér finnst að við eigum að geta gert þá kröfu hvert til annars í jafnalvarlegu máli og því sem hér um ræðir að við reynum að fara yfir það á sæmilega vitsmunalegu plani og skiptumst á skoðunum um það eins og það liggur fyrir en ekki með því að gera hvert öðru upp skoðanir, hvorki í fortíð, nútíð né framtíð.
    En það er rétt út af fyrir sig sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson segir að það er bersýnilegt að hér er um að ræða tiltekna hugmyndafræði, tiltekna hugmyndalínu sem er á bak við þetta mál. Það er út af fyrir sig rétt. Munurinn hins vegar --- og ef ég man rétt þá nefndi hv. þm. Vilhjálmur Egilsson kristnitökuna. ( Gripið fram í: Já, hann gerði það.) En í kristnitökunni voru undanþáguákvæði. Þar máttu menn blóta á laun og éta hrossakjöt. Staðreyndin er sú að þessi samningur sem við erum hér að tala um er miklu lakari að þessu leytinu til. Menn mega hvergi hreyfa sig eins og samræmist íslenskum hagsmunum ef þeir í einhverju örlitlu stangast á við þessi fræði þannig að það er í raun og veru gengið lengra í því að selja Ísland í þessum samningi undir hinn nýja sið heldur en í þeim milliríkjasamningi sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson nefndi hér og mun hafa verið gerður í kringum árið 1000. Hér er í raun og veru róið fyrir hverja vík og sagt: Menn skulu gegna á öllum sviðum. Öllum. Hrossakjötið og blótið á laun í þessum textum, þessum þúsundum síðna er Húsatryggingar Reykjavíkur. Þær eru það hrossakjöt og það blót á laun sem mönnum leyfist eftir hinum nýja sið hins mikla kerfisskelfis, Jóns Baldvins Hannibalssonar, hæstv. utanrrh.
    Hitt sem var ekki síður merkilegt í ræðu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar var það að hann viðurkennir að menn hljóti í framhaldi af þessum samningi að ræða um aðild að Evrópubandalaginu og það gerir hv. þm. Björn Bjarnason í raun og veru líka. Hv. þm. Björn Bjarnason áskilur sér bersýnilega allan rétt til þess að taka það mál fyrir í svo að segja beinu framhaldi af þeim umræðum sem nú eru í gangi um Evrópskt efnahagssvæði. Mér segir svo hugur um að þess sé ekki langt að bíða að þessir hv. þm. muni fara að halda hér langar og ítarlegar ræður um það að við hljótum að ganga í Evrópubandalagið. Hv. þm. Björn Bjarnason er svo vinsamlegur að orða þetta þannig að þetta sé varða á þeirri leið. Hann telur reyndar að stjórnarandstaðan sé líka að flytja frv. um vörðu á þessari leið og þakkar stjórnarandstöðunni samt ekkert fyrir það sem hann ætti þó að gera til að vera sjálfum sér samkvæmur sem hann er nú reyndar sjaldan, þessi þingmaður, þegar um þessi mál er að ræða vegna þess að hann er mest í útúrsnúningaleikjum. Látum það nú vera.
    Spá mín er sú að þessir menn, leiðtogi Verslunarráðsins og formaður efh.- og viðskn. Alþingis, og hv. þm. Björn Bjarnason muni hér áður en mjög langur tími líður, ég segi ekki áður en næsta ár er allt, koma með beinar tillögur um það að við athugum rækilega hvort við eigum ekki að verða aðilar að Evrópubandalaginu með beinum hætti. Það er augljóst af því hvernig þessir menn haga orðum sínum að þeir hafa allt opið í þessu efni, allt opið og það þarf nú ekki að tala mikið um Alþfl. í því sambandi vegna þess að hann hefur alltaf verið til í verk af þessu tagi. Ég tel líka að þessir menn muni í umræðum um málin á næsta ári og þegar fram á það kemur hafa með sér einn þátt sem ég gerði hér að umræðuefni fyrr í umræðum um þessi mál og var lagt út með býsna sérkennilegum hætti í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi en það er það að samkvæmt reglum EES er það EB sem ræður. EB hefur tillöguréttinn. Við höfum ekki tillögurétt. Við höfum málfrelsi. Við höfum málfrelsi en ekki tillögurétt í raun og veru. Og að við munum standa frammi fyrir því þegar reglugerðarfargan Evrópubandalagsins fer að hvolfast hér yfir á næsta ári og þarnæsta, þá munum við segja margir: Hvert er þá orðið okkar starf? Hver er þá orðinn okkar hlutur? Og er þröngt fyrir dyrum okkar kotkarla hér í þessari stofnun þegar hinir stóru aðilar senda hina miklu pósta hingað inn og við sitjum hér með stimplana og færibandið og segjum já takk og já takk og já takk, vegna þess að auðvitað er það þannig að eftir að menn eru á annað borð komnir hérna inn í samtök af þessu tagi, þá munu þeir auðvitað ekki fara að vísa frá ýmsum málum sem þarna er um að ræða vegna þess að þar er um að ræða hreinar tæknilegar afgreiðslur. En eftir stendur það að við þingmenn á Alþingi Íslendinga erum í niðurlægjandi færibandsafgreiðslu, ekki fyrir ríkisstjórn Íslands heldur í raun og veru fyrir Evrópubandalagið. Og það er þetta sem þessir menn ætla sér að bjóða okkur.
    Það var mjög merkilegt viðtal sem kom snemma á þessu ári í sjónvarpinu þar sem Árni Snævarr fréttamaður greindi frá því hvernig þessi mál eru í Danmörku, og nú eru Danir í Evrópubandalaginu þannig að málið er ekki að öllu leyti sambærilegt, að sjálfsögðu ekki, en það er sambærilegt að því er samningssviðið varðar. Árni Snævarr sagði 21. apríl sl., með leyfi forseta:
    ,,25 af 152 lagafrumvörpum sem lögð voru fram á danska þinginu á fyrri helmingi síðasta árs voru í raun aðeins staðfestingar á því sem þegar hafði verið ákveðið á vettvangi Evrópubandalagsins í Brussel.`` --- 25 af 152 lagafrumvörpum. --- ,,Þetta hlutfall, eitt af hverjum sex frumvörpum, er þó hærra í ákveðnum málaflokkum, t.d. iðnaðar- og samgöngumálum og fimm af sjö frumvörpum sem fjölluðu um landbúnað voru EB-frumvörp.
    Ekki er síður athyglisvert að líta á fjölda lagalega bindandi ákvarðana af hvaða tagi sem þær eru. Á síðasta ári töldust 3.200 reglur sem gilda í Danmörku jafnt og öðrum EB-ríkjum hafa verið settar í Brussel, en á sama tímabili hafa aðeins 964 lög og reglugerðir sem gilda í Danmörku verið settar að frumkvæði Dana.``
    Þetta eru hlutföllin þarna og auðvitað ber að endurtaka það svo að öllu sé til skila haldið að það er ekki þar með sagt að það verði nákvæmlega sömu hlutföll hér. En hitt er auðvitað alveg ljóst að það er fjöldinn allur af slíkum málum sem mun berast hingað inn í þingið og menn verða að samþykkja, menn verða að hneigja sig og beygja og þá er ég sannfærður um að einn og einn þingmaður, jafnvel úr Sjálfstfl., mun segja: Þetta gengur ekki. Ég læt ekki bjóða mér þetta. Frekar fer ég bara þarna inn til að hafa áhrif á það hvað verður sent til Íslands upp að Austurvelli.
    Það er þessi staðreynd sem menn eins og hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, og hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, treysta á að sé aðeins fyrsta skrefið og menn muni síðan halda áfram inn í Evrópubandalagið af því að við erum eins og við erum. Við sættum okkur ekki við niðurlægjandi færibandaafgreiðslu fyrir miðstöð Efnahagsbandalags Evrópu.
    Um þetta atriði hafa hins vegar þessir þingmenn Sjálfstfl., sem hér hafa talað eða Alþfl. enn síður auðvitað ekki rætt nokkurn hlut. Hefur nokkur alþýðuflokksmaður talað fyrir utan hv. 11. þm. Reykn. og hæstv. utanrrh.? Auðvitað ræða menn þetta ekki mikið en þetta er þó grundvallaratriði.

    Þá kem ég að því: Er það þannig að hæstv. utanrrh. sé sem einstaklingur og sé sem alþingismaður svo viss um að hann sé að gera rétt í þessu máli að hann telji það við hæfi fyrir sig og sína samvisku að láta þetta ganga yfir þjóðina? Mér heyrist hann ætla að gera það og mér heyrist hann vera sannfærður um að þetta sé rétt og hann ætli að kýla þetta áfram hvað sem það kostar. Ávinningarnir sem hann hefur rakið eru í raun og veru allt of litlir að mínu mati miðað við þá áhættu sem hér er uppi. En ég verð að segja það alveg eins og er, virðulegi forseti, að maður spyr sig að því aftur og aftur: Til hvers er þessi samkoma? Hvað eru menn að gera hér sem láta sér það í léttu rúmi liggja að bjóða Alþingi upp á þessi ósköp sem fram undan eru?
    Það er stundum verið að tala um virðingu fyrir Alþingi. Stundum er verið að biðja þjóðina um að bera virðingu fyrir Alþingi, en ég spyr: Berum við virðingu fyrir okkar eigin verkum? Erum við alltaf örugglega að vanda okkur eins og við lifandi getum? Svarið er: Nei, við erum ekki að því. En mín skoðun er sú að við eigum a.m.k. í máli af þessu tagi að vanda okkur eins vel og við lifandi getum og leita spurninga alveg innst í hugskot okkar um það, ekki hvort við erum að gera rétt gegn einhverjum hér á Alþingi, einhverjum öðrum flokki eða fyrir okkar flokk heldur fyrir þá þjóð sem spyr að leikslokum og þarf að búa við þennan samning og samningsákvæði um nokkur ókomin ár, sennilega ekki mjög mörg af því að ég spái því, og endurtek það að verði Ísland aðili að þessum samningi, þá spái ég því að fyrir lok næsta árs muni heyrast hér á Alþingi raddir sem segja: Við skulum halda áfram. Og þess vegna segi ég við þá sem eru núna tvístígandi: Það er mikil ábyrgð lögð á herðar þeim mönnum sem segjast vera á móti Evrópubandalaginu en ætla í raun og veru að líta á þetta mál sem einhverja varnarlínu í þeim efnum. Það er svo fullkomin fjarstæða að það tekur engu tali. Þetta er engin varnarlína í þessu máli. Engin varnarlína.
    Ég hafði, virðulegi forseti, hugsað mér að ræða hér nokkuð um undirbúninginn að þessum málum að öðru leyti, m.a. varðandi iðnaðinn og hvernig að þeim málum er staðið, hvernig hæstv. iðnrh. hefur staðið að þeim málum, en ég sé að hann er ekki vakandi frekar en aðrir ráðherrar hér þannig að ég nenni ekkert að vera að eyða tíma í að varpa sérstaklega orði á hann. Hæstv. iðnrh. hefur mikla reynslu í þessum efnum, Hann skrifaði skýrslu fyrir ríkisstjórnina árið 1970 þegar aðildin að EFTA var á dagskrá og benti á margar mjög gagnlegar hugmyndir í þróunarmöguleika íslensks iðnaðar, afar fróðlegar, þar sem væri hægt að ná alveg gífurlegum möguleikum fyrir íslenskan iðnað. Það frumlegasta í þessu sérfræðingaáliti sem hann skrifaði, m.a. ítarlega um prjónlesiðnaðinn, niðursoðið og niðurlagt grænmeti, húsgagna- og innréttingasmíði, sem er nú eiginlega horfin á Íslandi en hann rakti ítarlega þá möguleika að Íslendingar yrðu bráðum allir að vinna við að framleiða stóla og borð fyrir Evrópu, hundrað þúsund borð, milljón stóla, var einhvern tíma sagt --- en það frumlegasta af öllu í þessari skýrslu hæstv. iðnrh. er það þar sem hann bollaleggur verulega möguleika Íslendinga til skartgripasmíði. Hann telur að það muni réttlæta mjög aðildina að EFTA að Íslendingar leggist hér í gífurlega skartgripasmíði. Og þá var það nú þannig að ríkisstjórnin sem þá var var með áætlanir um stórfelld tækifæri af ýmsu tagi í íslenskum iðnaði og hafði tekið frá smápeninga í því skyni, einhverjar milljónir. Sú stjórn sem nú situr er ekki einu sinni með peninga í þessu sambandi. Hún er ekki að gera neitt til þess að tryggja það að sjávarútvegur eða iðnaður geti notað þessa möguleika sem menn eru að telja sér trú um að séu á þessum pappírum. Það er ekkert verið að gera. En í sjálfu sér nenni ég ekki að tala mikið við hæstv. iðnrh. um þetta mál, alla vega ekki á þessum fundi þar sem hann er í burtu þó að það hefði kannski verið gaman fyrir þingheim á þessum kvöldfundi að heyra lesið upp úr greinargerð þessa núv. iðnrh. um skartgripasmíði Íslendinga frá árinu 1970. Ég ætla ekki að fara ítarlegar út í það, virðulegi forseti. Og þar sem hæstv. forsrh. getur heldur ekki vaknað, þá ætla ég heldur ekki að ræða ítarlega um þau mál sem snúa að honum en aðeins að benda á að frá því að hafist var handa við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði á sínum tíma hefur margt breyst. Það hefur margt breyst. Ekki aðeins hefur stefna Sjálfstfl. breyst að því er virðist í grundvallartriðum, ekki aðeins höfum við breyst með ýmsum hætti sem hér erum heldur hafa allar aðstæður breyst í grundvallaratriðum. Og það viðurkenna allir og meira að segja hæstv. utanrrh.
    Hæstv. utanrrh. sagði í skýrslu sinni til Alþingis í mars 1992, með leyfi forseta: ,,Þegar samningarnir um EES hófust fyrir þremur árum var heimurinn allur annar en hann er nú.``
    Í öðru lagi sagði hann: ,,Hinar pólitísku forsendur sem leiddu til EES-samninganna virðast ekki eiga við lengur, hvorki við EB né EFTA.`` --- Þetta sagði hæstv. utanrrh.
    Í þriðja lagi: ,,Hefur hin hraða rás viðburðanna hlaupið fram úr hugmyndasmiðum hins Evrópska efnahagssvæðis? Hefur EES í ljósi breyttra aðstæðna glatað tilgangi sínum?`` --- Þetta er líka tilvitnun í hæstv. utanrrh.
    Og svo segir hæstv. utanrrh. í þessari sömu skýrslu, orðrétt: ,,Trúir því einhver að Evrópska efnahagssvæðið fái staðist sem tveggja stólpa brú sem hvílir annars vegar á stólpa útvíkkaðs Evrópubandalags með 17 aðildarríkjum og 370 millj. íbúa og hins vegar á brúarstólpa Íslands og Liechtensteins með innan við 300 þús. íbúa?`` --- Þetta var tilvitnun í utanrrh.
    Þessar staðreyndir sem hér eru upp úr skýrslu utanrrh. frá árinu 1991 blasa allar við í dag auðvitað enn þá skýrar en þá þegar þetta var skrifað. Þetta var skrifað af mikilli framsýni af hæstv. ráðherra. Ég held að við þurfum öll að gera okkur grein fyrir því að hafi þessi lausn, sem menn telja sig finna í Evrópska efnahagssvæðinu, verið vafasöm fyrir þremur árum, þá er hún enn þá hæpnari í dag.
    Ég hef orðið var við það, virðulegi forseti, að einn og einn þingmaður telur þó að í þessum málum felist einhver lausn á alvarlegustu efnahagsvandamálum Íslands í dag. Ég hef orðið var við það að einn og einn þingmaður er að skrifa leiðara í stjórnarmálgögnin og telur að aðild að Evrópsku efnahagssvæði geti orðið sérstaklega til þess að leysa úr atvinnuvandamálum fólks víðs vegar um landið. Og ég segi við þá menn sem skrifa svona leiðara og halda þessu fram: Það er ljótt að blekkja fólk með þessum hætti. Það er ljótt.
    Ég tók eftir því að hv. 11. þm. Reykn. flutti hér afskaplega fallega og bjartsýna ræðu um hið Evrópska efnahagssvæði og hvað það gæti í raun og veru leyst úr miklum vanda fyrir íslenskt efnahagslíf. Það er blekkingastarfsemi. Og ég vil líka segja það að ég er viss um að þingmaðurinn gerir sér ekki grein fyrir því út fyrir sig. En ég tel að málflutningur af þessu tagi sé hrein og klár blekkingastarfsemi og ekkert annað. Þess vegna verð ég að segja það hér, virðulegi forseti, að mér fyndist með hliðsjón af þessu, stjórnarskrárþættinum, þeim skoðanakönnunum sem liggja fyrir, að þá ættu utanrrh. og forustumenn Sjálfstfl. að athuga það mjög vandlega hvort ekki er skynsamlegra að ýta þessu máli til hliðar um sinn og athuga mjög gaumgæfilega hvert þetta mun leiða okkur og hvað við getum haft upp úr þessu.
    Ég sagði það hér fyrr í kvöld í minni ræðu að þetta mál væri í raun og veru þríþætt. Það væri í fyrsta lagi spurningin um fjórfrelsið svokallaða, í öðru lagi spurningin um það hvort stofnanaþátturinn stangaðist á við stjórnarskrána eða ekki og í þriðja lagi væri það Evrópubandalagsþátturinn og það að Evrópubandalaginu er fengið mjög mikið vald með þessu. Ég skal alveg játa það hér, virðulegi forseti, úr þessum ræðustól að það var þetta síðasta sem réði í raun og veru algjörum úrslitum um mína persónulegu afstöðu að lokum í þessu máli. Það að Evrópubandalaginu er fengið eins mikið vald og kemur t.d. fram í 6. gr. samningsins gerir það að verkum að ég tel að ég geti með engu móti sem alþingismaður stutt samning af þessu tagi. Ég geti það ekki. Út af fyrir sig tel ég að vafinn sem hreyft er af lögfræðingunum sé nægilega rík ástæða til þess að setja þetta mál í dóm þjóðarinnar, stjórnarskrá eða þjóðaratkvæði. En ég viðurkenni út af fyrir sig að um það geta verið deildar meiningar. Ég hef mína skoðun á því. En það að ætla sér að afhenda hluta af ríkisvaldinu þrígreinda í hendurnar á samtökum sem við erum ekki í, það megum við ekki gera. Við megum ekki gera það. Jafnvel þó svo sé að einhverjir okkar hafi átt aðild að þessum málum á fyrri stigum, þá megum við undir engum kringumstæðum láta það henda að við gerum þjóðinni það að við afhendum hana og hagsmuni hennar inn í samtök þar sem við ráðum engu og tökum í staðinn upp niðurlægjandi færibandavinnu fyrir aðila sem við erum ekki hluti af. Og ég trúi því ekki að það finnist margir þingmenn hér í salnum nú og næstu daga sem láta bjóða sér það, jafnvel þó þeir séu í stjórnarflokkunum vegna þess að þeir eiga auðvitað eins og allir alþingismenn og allir Íslendingar sjálfstæða æru, alltaf í öllum málum en frekar í þessu máli en nokkru öðru máli sem hefur verið lagt fyrir Alþingi frá því að lýðveldið var stofnað á Íslandi.