Beiðni um utandagskrárumræðu

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 13:36:32 (228)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs um gæslu þingskapa þar sem í dag er liðin nákvæmlega vika síðan ég bað um utandagskrárumræðu af lengri gerðinni um stöðuna í atvinnu- og efnahagsmálum. Forseti tók þeirri beiðni vel. Sömuleiðis hæstv. forsrh. sem sagðist vera tilbúinn í umræðuna. Ég tók því hins vegar með skilningi að það kynni að dragast fram í þessa viku að þessi, að mínu mati og ég held að mati mikils meiri hluta þjóðarinnar, brýna umræða færi fram. Nú þegar komið er fram í miðja þessa viku og engin svör hafa enn komið um það hvenær þessi umræða fari fram þá hlýt ég að spyrja virðulegan forseta hvort ekki styttist í þessa umræðu. Með fullri virðingu fyrir umræðu um Evrópskt efnahagssvæði þá er þetta það mál sem öðru fremur brennur á þjóðinni í dag.