Beiðni um utandagskrárumræðu

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 13:37:57 (229)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti tekur undir að það mál sem hv. 6. þm. Norðurl. e. óskar eftir að ræða utan dagskrár brennur á þjóðinni í dag. Það er rétt sem fram kom í hans máli að forseti tók vel beiðni um að hér mætti fara fram utandagskrárumræða um þetta mál. En jafnframt svaraði forseti því til að undir eins og 1. umr. um það mál sem þetta þinghald á fyrst og fremst að fjalla um, EES-frumvarpið, væri lokið þá gæti þessi utandagskrárumræða farið fram. Forseti var bjartsýnn og taldi möguleika á að það gæti gerst í þessari viku. Vikan er nú ekki enn alveg liðin, morgundagurinn er eftir. Hv. þm. og forseti hittust hér fyrir utan dyrnar í morgun og ræddu þetta aðeins þá og niðurstaða þess samtals var einmitt sú, og það er eina svarið sem forseti getur enn þá gefið, að við sjáum hvernig málin þróast á morgun. Svo framarlega sem við sjáum fyrir endann á umræðunni um EES-málið þá mun svo sannarlega verða orðið við þeirri ósk að hefja þessa utandagskrárumræðu.
    Forseti vill jafnframt geta þess að fyrir liggur beiðni frá þingflokki Alþb. um sams konar utandagskrárumræðu eða hliðstæða, þ.e. um sjávarútvegs- og atvinnumál. Þetta var m.a. eitt af því sem forseti taldi sig eiga erindi við þingflokksformenn um í gærmorgun, að kanna möguleika á að ljúka EES-umræðunni, hugsanlega í gær með tilliti til þess að þessi utandagskrárumræða mætti fara fram á morgun. En málið stendur enn þá opið og forseti getur því miður ekki gefið önnur svör en hún hefur gefið nú.