Beiðni um utandagskrárumræðu

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 13:40:23 (230)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef í þessu máli viljað sýna stjórn þingsins allt það umburðarlyndi sem mögulegt er, m.a. vegna þess að ný forsætisnefnd er að fóta sig við stjórn þingsins. Ég hlýt hins vegar að benda forseta á það að samkvæmt eðli málsins þá fer utandagskrárumræða fram um mál sem eru svo brýn að þau geta ekki beðið eftir að komast að samkvæmt þeirri eðlilegu þingmálaröð sem er í gangi á hverjum tíma. Ég held að sá sem hér talar og virðulegur forseti séu alveg sammála um það að hér er um að ræða mál sem er það brýnt að mjög nauðsynlegt er að það verði tekið á dagskrá.
    En ég ítreka hér hver er andi þingskapanna gagnvart slíkum beiðnum um utandagskrárumræðu auk þess sem ég minni á ummæli hv. 4. þm. Reykv., fráfarandi formanns utanrmn., að það liggi nú ekkert á með þessa EES umræðu. Því held ég að það sé miklu brýnna að við komum atvinnumálaumræðu hér í gang og við brýnum ríkisstjórnina í þeim málaflokki.