Beiðni um utandagskrárumræðu

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 13:41:55 (231)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Mér finnst þetta ótrúlega mikil stífni af hendi hæstv. forseta, að vilja ekki ljá máls á að taka þessar umræður á dagskrá. Eins og menn sjá hafa þrjú mál verið tekin inn á dagskrá þessa fundar. Það hefur verið afstaða forseta að þessar umræður, sem hefur verið beðið um núna utan dagskrár, kæmu ekki á dagskrá fyrr en búið væri að ræða til enda EES-málið, stjórnarskrármálið og þau mál sem núna eru á dagskránni. Mér finnst þetta ótrúlega mikil stífni einfaldlega vegna þess að EES-umræðan er ekki það langt komin. Við vitum ekkert hvort henni getur lokið á einum, tveimur eða jafnvel þremur dögum. Auk þess er utanrmn. að fást við það mál og hefur ekki gert það að skilyrði að 1. umr. um það hér

í þinginu ljúki áður en hún fjallar um það. Hún er sem sagt með það í umfjöllun þannig að það tefur ekki meðferð málsins að því leyti. Þess vegna hefði ósköp auðveldlega mátt fresta þeirri umræðu eða a.m.k. leyfa svona brýnum umræðum eins og við erum að tala um að komast fram fyrir.
    Ég sé ekki hvers vegna svona er staðið að málum. Mér finnst að það þurfi að ræða þetta alvarlega í forsætisnefndinni og finnst mjög undarlegt að heyra fréttir af því að fyrsti raunverulegi fundur nýkjörinnar forsætisnefndar eigi ekki að fara fram fyrr en 9. þessa mánaðar. Það er aldeilis ótrúlegt. Það er kominn svolítill spotti síðan við kusum þessa nefnd og mér finnst undarlegt að heyra fréttir af því að hún skuli ekki eiga að koma saman fyrr en 9. þessa mánaðar til þess að ræða um framhaldið á þingstörfunum. Ég varð fyrir verulegum vonbrigðum með það því að ég hafði bundið vonir við að það samkomulag, sem varð um að kjósa þá nefnd, yrði til þess að hjálpa til við að ná samkomulagi um að stjórna þinginu eðlilegar en gert var í fyrravetur. Mér finnst margt benda til þess á þeim hlutum sem við höfum verið að ræða undanfarna daga að það sé veruleg stífni á ferðinni gagnvart því að stjórna þessu með samkomulegi við stjórnarandstöðuna og ég harma það ef þinghald ætlar að fara þannig af stað.