Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 13:56:01 (238)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. sem er að finna á þskj. 19, það er 19. mál þingsins. Þetta frv. er flutt af hæstv. ríkisstjórn og er frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem sett voru hinn 3. júlí á þessu sumri.
    Í greinargerð með bráðabirgðalögunum koma fram ástæður þess að lögin voru sett á sínum tíma og þar kemur eftirfarandi fram, orðrétt, með leyfi forseta: ,,Nauðsynlegt sé að breyta þeim laga- og efnisreglum, sem niðurstöður Kjaradóms hvíla á, þannig að þær taki mið af stöðu og afkomuhorfum þjóðarbúsins og almennum launabreytingum í kjarasamningum annarra launþega í landinu. Á þessu ári hafi tekist að treysta stöðugleika í efnahagslífi þjóðarinnar. Ein mikilvægasta forsenda þessa stöðugleika felist í kjarasamningum við þorra launafólks um hóflegar launahækkanir. Afar brýnt sé að varðveita þennan stöðugleika og þá samstöðu, sem náðst hafi til að mæta þeim áföllum, sem þjóðarbúið hafi orðið fyrir. Niðurstöður Kjaradóms frá 26. júní sl. tefli þessum árangri í mikla tvísýnu. Staðfesting þessa komi m.a. fram í yfirlýsingum aðila á vinnumarkaði.``
    Síðan kemur sjálft frv. Það er efnislega á þá leið að Kjaradómi er gert skylt með lagaákvæði að taka tillit til viðbótarefnisatriða þegar dómurinn ákvarðar laun þeim sem undir dóminn heyra. Þessi efnisatriði eru annars vegar að taka tillit til stöðu og þróunar kjaramála á vinnumarkaði og hins vegar efnahagslegrar stöðu þjóðarbúsins og afkomuhorfa þess.

    Þess skal getið að þetta síðara atriði var í lögum áður en lögum um Kjaradóm var breytt með nýjum lögum árið 1986.
    Síðan segir í bráðabirgðalögunum, í síðari mgr. 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Telji Kjaradómur ástæðu til að gera sérstakar breytingar á kjörum einstakra embættismanna eða hópa skal þess gætt að það valdi sem minnstri röskun á vinnumarkaði.``
    Þarna er í raun opnað fyrir Kjaradóm að taka tillit til sérstakra hópa. Og síðan segir í bráðabirgðaákvæði að Kjaradómur skuli svo fljótt sem verða má, og eigi síðar en 31. júlí 1992, kveða upp nýja úrskurði á grundvelli þessara laga.
    Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin stóð frammi fyrir erfiðu vandamáli þegar Kjaradómur kvað upp sinn úrskurð og ákvað laun, hinn 26. júní í fyrra. Staða ríkisstjórnarinnar var afar þröng (Gripið fram í.) --- á þessu ári, ætlaði ég að segja, ég biðst afsökunar á því. Ég tel hins var að viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafi að öllu leyti verið rétt og mun rökstyðja það í mínu máli.
    Fyrst langar mig til þess að rekja nokkuð aðdraganda bráðabirgðalagasetningarinnar.
    Eins og ég hef áður sagt var kveðinn upp dómur Kjaradóms, hinn 26. júní sl. Í niðurstöðum Kjaradóms koma fram verulegar breytingar á launum og kjörum þeirra sem undir dóminn heyra, bæði til hækkunar og lækkunar ef tekið er tillit til heildarlauna eins og þau koma fram í ákvörðuninni og til samanburðar við það sem heildarlaun eru fyrir ákvörðunina að teknu tilliti til annarra launa en venjulegra daglauna. Í því sambandi vísa ég til rökstuðnings dómsins. Þar segir m.a. orðrétt, með leyfi forseta, og á það vil ég leggja áherslu:
    ,,Kjaradómur ítrekar enn að laun þau sem hann ákveður nú séu heildarlaun og ekki skuli greitt aukalega fyrir venjubundin störf þó að vinnutími sé að jafnaði lengri en 40 stundir á viku. Greiðsla fyrir ómælda yfirvinnu fyrir venjubundin störf ætti að vera með öllu óheimil því að í raun er hún ekkert annað en kaupauki.``
    Að öðru leyti en þessu vitna ég til rökstuðnings dómsins sem öllum hv. þm. og raunar, hygg ég, allri þjóðinni er kunnugt um.
    Ég minni á að minni hlutinn, eða einn kjaradómsmaður, var með sératkvæði. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um réttmæti niðurstöðu dómsins og allra síst þeirrar röðunar sem fram kemur af hálfu dómsins. Ljóst er þó, og ég held að allir geti verið sammála um það, að ákvörðunin sem dómurinn tók á þessum tíma var ekki í samræmi við þá kjarasamninga sem þá höfðu nýlega verið gerðir.
    Hinn 29. júní skrifaði hæstv. forsrh. bréf til Kjaradóms sem ég kýs að lesa, með leyfi forseta, en það hljóðar svo orðrétt:
    ,,Kjaradómur, bréf til Jóns Finnssonar, hæstaréttarlögmanns, formanns.
    Vísað er til úrskurðar Kjaradóms, dags. 26. júní sl., um launabreytingar sem taka eiga gildi 1. júlí nk. Ljóst er að niðurstaða Kjaradóms stangast í veigamiklum atriðum á við þá þróun sem orðið hefur á hinum almenna launamarkaði og er ekki í takt við framvindu íslensks efnahagslífs um þessar mundir. Það er mat ríkisstjórnarinnar að hinn nýfallni kjaradómur sé til þess fallinn að skapa mikinn óróa í þjóðfélaginu og gæti hæglega rofið þá samstöðu sem náðst hefur um að þjóðin vinni sig sameiginlega út úr þeim efnahagslegu þrengingum sem nú er við að glíma.
    Því beinir ríkisstjórnin því eindregið til Kjaradóms að hann taki úrskurð sinn þegar til endurmats eða kveði upp nýjan úrskurð sem ekki sé líklegur til að hafa þær afleiðingar sem að framan er lýst.``
    Undir þetta bréf ritar síðan hæstv. forsrh., Davíð Oddsson.
    Kjaradómur svaraði þessu erindi forsrh. með því fyrst að vitna til lagaákvæða, síðan segir í bréfi Kjaradóms orðrétt, en það bréf er dagsett degi síðar, eða hinn 30. júní sl.:
    ,,Kjaradómi ber að byggja ákvörðun sína á tveimur grundvallarþáttum samkvæmt þessari lagagrein [ég skýt því hér inn að þá er átt við 6. gr. laga nr. 92/1986]:
    a. Að innbyrðis samræmis sé gætt á milli launa þeirra sem undir dóminn heyra.
    b. Að laun séu á hverjum tíma séu í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgða.
    Um margra ára skeið hefur Kjaradómur byggt á tiltekinni röðun embætta í launakerfi sem tekur mið af umfangi og ábyrgð starfa. Óverulegar breytingar hafa verið gerðar á þessari röðun á undanförnum árum og á það einnig við nú. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja hafa stjórnvöld hins vegar raskað verulega þessu launakerfi Kjaradóms með mjög misháum aukagreiðslum til embættismanna. Ljóst er að þessar greiðslur byggjast ekki nema að litlu leyti á mismunandi vinnuframlagi embættismanna.
    Eins og fram kemur í forsendum Kjaradóms er nú svo komið að launagreiðslur þær sem fjmrn. og önnur ráðuneyti ákveða nema allt að 50% af þeim launum sem Kjaradómi ber lögum samkvæmt að ákveða. Ekki verður séð að þessi háttur samrýmist ákvæðum laga um Kjaradóm.
    Hér má nefna sem dæmi nýlega ákvörðun fjármála- og dómsmálaráðuneytis um laun sýslumanna sem er raunar endurnýjun á eldri ákvörðun um sama efni, en samkvæmt henni nema laun sýslumanna, að meðtalinni þóknun fyrir innheimtustörf, frá 260.000--380.000 kr.
    Þegar á heildina er litið telur Kjaradómur að með ákvörðun dómsins nú hafi verið litið til þeirra launakjara sem viðkomandi embættismenn hafa notið að undanförnu. Vegna þess innbyrðis samræmis sem dóminum er skylt að hafa að leiðarljósi var hins vegar óhjákvæmilegt að þeir sem ekki hafa notið aukagreiðslna hækkuðu í launum en nokkrir munu lækka samkvæmt niðurstöðunni.
    Þá hefur Kjaradómur litið til launa í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist við þá forstöðumenn sem falla undir ákvörðun Kjaradóms.
    Kjaradómur ákveður laun um 170 starfsmanna og kjörinna fulltrúa, auk um 130 presta.
    Starfsmenn ríkisins sem fá greidd laun hjá launadeild fjmrn. munu vera um 16.000 talsins. Ekki verður séð að lögbundin lagfæring sem nú er gerð á launakerfi dómsins þurfi að raska öðrum launakerfum í landinu.
    Einn dómenda, Jón Þorsteinsson, vísar til viðhorfa í sératkvæðum sínum.
    Með vísan til framanritaðs telur Kjaradómur að hvorki séu efnisleg né lagaleg rök til þess að endurupptaka þá kjaradómsúrskurði sem upp voru kveðnir hinn 26. þ.m. og verður því að hafna tilmælum ríkisstjórnarinnar.``
    Undir þetta rita síðan fimm kjaradómsmenn.
    Það eru tvö atriði sem ég vil gera að umtalsefni, annars vegar þar sem segir: ,,Ekki verður séð að lögbundin lagfæring sem nú er gerð á launakerfi dómsins þurfi að raska öðrum launakerfum í landinu``. Það mun koma síðar í ljós að full ástæða var til að ætla að svo gæti orðið, enda breytti Kjaradómur þessu áliti sínu sem kemur fram í síðari forsendum, þ.e. forsendum fyrir síðari úrskurði dómsins hinn 12. júlí sl.
    Hitt er það atriði að það er enn minnst á Jón Þorsteinsson og sératkvæði hans. Í því sératkvæði kom efnislega fram að hann taldi þá röðun sem Kjaradómur komst að vera rétta, en taldi óhyggilegt að ganga jafnhratt fram um breytingar og meiri hlutinn vildi gera og taldi að einungis ætti að taka í áföngum nokkur skref í samráði við fjmrn.
    Þennan sama dag, 30. júní sl., þegar bréf Kjaradóms barst þar sem því var synjað að endurskoða dómsniðurstöðuna, kom ríkisstjórnin saman til fundar og gerði svofellda ályktun. Með leyfi forseta, mun ég lesa hana alla:
    ,,Ríkisstjórnin ritaði Kjaradómi bréf 29. þ.m. þar sem hún lýsti þungum áhyggjum af áhrifum tveggja dóma sem Kjaradómur kvað upp 26. þ.m. á framvinduna á almennum vinnumarkaði. Beindi hún þeim tilmælum til Kjaradóms að hann tæki þessa tvo dóma til endurmats í því ljósi. Kjaradómur hefur í dag synjað þessum tilmælum og sagt ,,að hvorki séu efnisleg né lagaleg rök`` til slíkrar endurupptöku.
    Lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar telja að stjórnarskrá lýðveldisins setji því skorður að lög séu sett til að afnema eða breyta þessari niðurstöðu Kjaradóms.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að endurskoða lög um Kjaradóm og mun leggja fram frv. um það efni þegar er þing kemur saman á ný. Við þá endurskoðun verði tryggt að lögin skyldi dóminn til að hafa hliðsjón af afkomuhorfum þjóðarbúsins og stöðunni á hinum almenna vinnumarkaði. Þá verður að skilgreina betur en nú er gert hvað telst til þeirra launa og starfskjara sem dómurinn ákveður.
    Þegar ný lög hafa tekið gildi skal svo fljótt sem verða má kveðinn upp nýr dómur um kjör þeirra sem falla undir dómsögu Kjaradóms.
    Ríkisstjórnin mun nú þegar í samræmi við forsendur þær sem Kjaradómur byggir á endurskoða og fella niður eða lækka yfirvinnu og nefndalaun og hlunnindi sem ekki eru bundin í kjarasamningum, jafnt hjá þeim embættismönnum sem Kjaradómur tekur til og öðrum ríkisstarfsmönnum.``
    Hér lýkur þessari ályktun ríkisstjórnarinnar og ég vek athygli á því sem segir í henni að lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar hafi talið að stjórnarskráin setji því skorður að lög --- og þá er auðvitað átt við hvort heldur sem er bráðabirgðalög eða lög sett af Alþingi --- verði sett til að afnema eða breyta þessari niðurstöðu Kjaradóms, enda var sú leið ekki farin.
    Nú er staða málsins sú að endurskoðað lagafrv. liggur fyrir. Ég vil einnig að það komi fram við þetta tækifæri að júlílaunum var breytt í hátt við kjaradóminn sem upp var kveðinn 26. júní. Þannig fengu ráðherrar, alþingismenn, prestar og hæstaréttardómarar verulega hækkun launa sinna fyrir þennan eina mánuð, flestir hverjir. Ég veit um a.m.k. einn sem hefur kvartað yfir því að hafa verið hýrudreginn, en ég vona að það leiðréttist. ( Gripið fram í: Fleiri en einn.) Fleiri en einn, kallar annar og verður að sjálfsögðu úr því bætt. En á sama hátt voru laun mjög margra embættismanna lækkuð þar sem frá heildarlaunum voru dregnar þær greiðslur sem eru aukavinna ýmiss konar.
    Þá vil ég einnig að það komi fram og vil ítreka að lögfræðileg álit lágu fyrir um það hvað hægt væri að gera í þessari stöðu.
    Strax og ljóst var, virðulegi forseti, að Kjaradómur taldi sig ekki geta tekið upp og endurskoðað dóm sinn varð ljóst að ekki var friður um þessa ákvörðun í þjóðfélaginu. Hinn 1. júlí, daginn eftir að bréfið barst til ríkisstjórnarinnar frá Kjaradómi, kom yfirlýsing eða öllu heldur ályktun frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og í lok þeirrar ályktunar, sem var nokkuð löng, segir þetta orðrétt:
    ,,Rökrétt framhald af svokölluðum leiðréttingum Kjaradóms er að samsvarandi kauptaxtahækkanir verði látnar ganga til félagsmanna BSRB. Ef ríkisvaldið hafnar slíku jafngildir það viðurkenningu á því að sjálfskömmtun yfirmanna og geðþóttaákvörðun Kjaradóms eigi að ráða gerð launakerfisins.
    Stjórn BSRB hefur lagt áherslu á réttláta tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og á þeirri forsendu er þessum niðurstöðum mótmælt. Það vekur athygli að fulltrúar atvinnurekenda skuli lýsa hneykslan á niðurstöðum Kjaradóms. Þetta er sérstaklega eftirtektarvert þegar haft er í huga að Kjaradómur réttlætir gjörð sína m.a. með hliðsjón af tekjum einstaklinga í ,,sambærilegum`` störfum á almennum markaði.``

    Hér lýkur tilvitnun í ályktun Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.
    Alþýðusamband Íslands samþykkti ályktun sama dag, hinn 1. júlí sl., og þar kemur fram eftirfarandi, orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Þeir samningar, sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði, hafa tekið mið af erfiðu efnahagsástandi og haft sem meginmarkmið að ná verðbólgu niður. Með úrskurði Kjaradóms er gengið þvert á þá stefnu sem þar var mörkuð. Úrskurðurinn gengur þvert á markmið ríkisstjórnarinnar um stöðugleika í efnahagslífinu. Standi hann hlýtur allt launafólk að krefjast sömu hækkunar.
    Ríkisstjórnir hafa sett bráðabirgðalög af minna tilefni og ekkert er því til fyrirstöðu að kalla Alþingi saman með stuttum fyrirvara til þess að gera út um málið. Það eru engin rök fyrir því að fresta meðferð málsins fram í ágúst og enn síður fyrir því að taka enga afstöðu til þess hvað þá eigi að gerast.
    Miðstjórn og formenn landssambanda ítreka að verði úrskurður Kjaradóms látinn standa gerir Alþýðusambandið kröfu til þess að félagsmenn sambandsins fái sömu hækkun og æðstu embættismenn ríkisins og þeirri kröfu hlýtur að verða fylgt eftir af þunga. Það væri ábyrgðarleysi að ætla lágtekjufólki að sitja eftir á meðan aðrir hækka um tugi prósenta.``
    Daginn áður, sama dag og Kjaradómur svaraði bréfi ríkisstjórnarinnar, hinn 30. júní, var í DV viðtal við ýmsa stjórnmálaforingja og þess skal getið að flestir þeirra fóru varlega og gáfu ekki skeleggar yfirlýsingar út um niðurstöðu dómsins á því stigi málsins. Ein undantekning var þó á þessu, en það var hv. 8. þm. Reykn., formaður Alþb., sem sagði í viðtali við DV eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,,,Þessi úrskurður Kjaradóms er nánast eins og út úr leikhúsi fáránleikans,`` sagði Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb., um niðurstöðu Kjaradóms. Ólafur Ragnar sagðist undrandi á að fulltrúi fjmrh. í Kjaradómi hefði verið í meiri hlutanum. Hann sagði að ef fulltrúi fjmrh. hefði tekið undir með minni hlutanum, það er fulltrúa félmrh., teldi hann víst að hinir þrír hefðu aldrei gengið gegn vilja beggja ráðherrafulltrúanna.
    ,,Það er tvennt sem virðist koma til greina til að koma í veg fyrir að þetta komi til framkvæmda, annars vegar lagasetning og hins vegar að dómurinn afturkalli úrskurðinn,`` sagði Ólafur Ragnar. Hann sagði að ríkisstjórnin yrði að koma í veg fyrir að 25--100% launahækkun til helstu embættismanna ríkis og kirkju kæmi til framkvæmda.
    Þá sagðist Ólafur Ragnar ekki sjá að þeir embættismenn, sem ættu samkvæmt úrskurðinum að lækka í launum, mundu gera það. Að lokum má geta þess að Ólafur Ragnar sagðist aldrei hafa, þegar hann var ráðherra, skrifað upp á aukavinnu fyrir ráðuneytisstjórann eða aðra undirmenn sína.``
    Hér lýkur þessari frétt. Þessi frétt lýsir reyndar afstöðu formanns Alþb. og varð á þeim tíma a.m.k. að teljast vera skoðun Alþb. á niðurstöðum Kjaradómsins, en það er tvennt sem ég vil gera athugasemdir við. Annars vegar þar sem hann víkur að fulltrúa fjmrh. Í því sambandi vil ég geta þess að sá fulltrúi fjmrh. var skipaður af fyrrv. fjmrh., hv. 8. þm. Reykn., og þess ber að geta að fulltrúar ráðherranna hafa ekki samráð við ráðherra heldur ber þeim að fara að lögum um Kjaradóm. Í öðru lagi má geta þess að hv. 8. þm. Reykn., fyrrum fjmrh., ber að sjálfsögðu fulla ábyrgð á aukavinnugreiðslum undirmanna sinna, bæði þeirra sem heyra undir Kjaradóm og annarra, og skiptir þá engu máli hvort ritað er upp á reikning eða ekki. Þetta vil ég að komi hér fram vegna þess að saklaus lesandi þessa viðtals gæti ályktað sem svo að ekki hafi verið greidd yfirvinna til kjaradómsdæmdra manna í fjmrn. eða hafi það verið gert, þá hafi það verið gert án leyfis ráðherrans. Ég vil af sérstöku tilefni og gefnu taka það fram að slíkar greiðslur voru fyrir hendi með fullu samþykki fyrrv. fjmrh. Og það er afar nauðsynlegt að þetta komist til skila til þess að menn sitji ekki undir því að haldið sé að þeir hafi tekið sér fé í óleyfi. Reyndar er það svo og ég kýs að skíta því hér --- skjóta því hér inn, ætlaði ég nú að segja, hitt væri nú varla gæfulegt hér í ræðustólnum, en það er sérhver ráðherra, (Gripið fram í.) --- ég heyri að menn hafa fullan skilning á þessum orðum mínum hér --- sérhver ráðherra ber að sjálfsögðu ábyrgð á greiðslum til sinna undirmanna. (Gripið fram í.) Vona ég að menn jafni sig á þessu mismæli eða réttara sagt hvernig orð þessi voru fljóttekin til baka með viðeigandi hætti.
    Næst vil ég að það komi fram að föstudaginn 3. júlí ákvað ríkisstjórnin með tilliti til þess hvernig mál höfðu þróast --- og þá er ég að sjálfsögðu að vísa til ályktana aðila vinnumarkaðarins og yfirlýsinga einstakra stjórnmálaforingja, og þó einkum eins --- að grípa til þess að gefa út bráðabirgðalög. Í því sambandi vil ég leggja áherslu á eftirfarandi:
    1. Þau lög, sem hér eru til umræðu og voru sett 3. júlí, eru ekki launalög.
    2. Lögin afnámu ekki ákvörðun dómsins.
    3. Lögin fjölguðu þeim efnisþáttum sem dómurinn skyldi bygga ákvörðunina á.
    4. Lögin skylduðu dóminn að kveða upp nýjan úrskurð fyrir 1. ágúst.
    5. Lögin opnuðu möguleika til að breyta kjörum einstakra manna eða hópa ef sérstakar aðstæður mæltu með því. Í því sambandi held ég að rétt sé að upplýsa að þá hafði ríkisstjórnin sérstaklega í huga annars vegar presta og hins vegar dómara.
    6. Þá vil ég að það komi fram að að mínu áliti hafði Kjaradómur verulegt svigrúm til að taka á málinu. Hins vegar hlaut hann að taka sérstakt tillit til nýrra efnisatriða.
    Hinn 12. júlí kvað síðan Kjaradómur upp nýjan úrskurð. Það er óþarfi fyrir mig að lesa þann úrskurð upp. Honum hefur verið dreift og hann er vel þekktur meðal hv. alþm. og þjóðarinnar en þó vil ég

lesa hér tvö atriði. Í fyrsta lagi segir dómurinn nú í forsendum hins nýja dóms:
    ,,Þessi launaákvörðun`` --- og þá er dómurinn að vísa til sinnar fyrri ákvörðunar --- ,,olli miklu uppnámi hjá samtökum launþega og atvinnurekenda en í maí sl. hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 1,7%.``
    Ég vil undirstrika þetta því að í forsendum hins síðari dóms lítur dómurinn á þetta sem nýtt atriði til að taka tillit til þegar niðurstaðan fæst. Og síðar í forsendunum segir svo, með leyfi forseta, orðrétt:
    ,,Við samanburð á 1. mgr. 6. gr. laganna og ákvæðum bráðabirgðalaganna í 2. og 3. mgr. er ljóst að þær skorður sem bráðabirgðalöggjafinn hefur sett Kjaradómi útiloka að hann geti gætt innra samræmis í launaákvörðun og uppfyllt þá skyldu sína skv. 1. mgr. 6. gr. laganna að ákveða laun embættismanna, ráðherra og alþingismanna í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Hin nýja viðmiðun við þróun kjaramála á vinnumarkaði er ekki í samræmi við meginreglur 1. mgr. 6. gr. sem er því í reynd gerð óvirk.
    Ákvæði bráðabirgðalaganna um ,,tillit til stöðu og þróunar á vinnumarkaði`` er óljóst. Við skýringu á því þykir verða að líta til greinargerðar með bráðabirgðalögunum þar sem segir að ,,nauðsynlegt sé að breyta þeim laga- og efnisreglum sem niðurstöður Kjaradóms hvíla á, þannig að þær taki mið af . . .  almennum launabreytingum og kjarasamningum annarra launþega í landinu.`` Með hliðsjón af forsendum og tilurð bráðabirgðalaganna og yfirlýsingu ráðherra um forskrift að nýrri ákvörðun Kjaradóms er það niðurstaða dómsins að skýra verði lögin á þann veg að aðstæður í þjóðfélaginu nú leyfi ekki meira en 1,7% almenna hækkun á launum þeirra sem undir kjaradómsákvarðanir heyra.
    Í síðar mgr. bráðabirgðalaganna, nú 3. mgr. 6. gr., er gefið færi á að gera breytingar á kjörum einstakra embættismanna eða hópa. Síðari hluti ákvæðisins um að þess skuli gætt að það valdi sem minnstri röskun á vinnumarkaði vísar væntanlega til viðbragða aðila vinnumarkaðarins, en þau viðbrögð treystir Kjaradómur sér ekki til að meta. Kjaradómur lítur svo á að með bráðabirgðalögunum hafi löggjafarvaldið í reynd tekið í sínar hendur þær launaákvarðanir sem Kjaradómi er ætlað að taka. Verður ekki annað séð en fyrri launakerfum, þ.e. launakerfi Kjaradóms og launaákvörðunum fjmrn. og annarra ráðuneyta sem í gildi voru fyrir kjaradómsúrskurði 26. júní sl., sé ætlað að haldast enn um sinn.`` --- Hér lýkur lestrinum.
    Við þetta hef ég athugasemdir. Ég tel að það sé ekki rétt, það er mín skoðun að það sé ekki rétt ályktun sem kemur fram í forsendum dómsins. Ég tel að með setningu laganna og með þeim nýju efnisatriðum sem inn í lögin komu hafi dómurinn haft meira frelsi, meira svigrúm en hann segir hér í sínum forsendum. Hins vegar get ég ekki nú frekar en áður deilt við Kjaradóm um niðurstöðurnar því að þær eru óumdeilanlegar, þ.e. þeim verður ekki breytt nema af öðrum dómstólum. Raunar ætti það nú að koma fram að kjaradómur er í eðli sínu ekki dómstóll í lögfræðilegri merkingu þess orðs heldur lögbundinn gerðardómur en það skiptir kannski ekki öllu máli í þessu sambandi. (Gripið fram í.) Þetta eru sérstök lög og er sams konar gerðardómur og t.d. yfirskattanefnd þannig að dómstólar geta fjallað um niðurstöðu dómsins og eru til þess bærir að breyta þeim niðurstöðum. Það er önnur saga og kemur satt að segja ekki þessu máli við.
    Það sem kannski skiptir máli og ég ætlaði að kalla fram með þessari athugasemd --- og ég held að það sé mikilvægt að átta sig á því --- er að ég tel að í raun hafi dómurinn getað komist að hvorri niðurstöðunni sem var á grundvelli beggja laganna, þ.e. það hafi ekki skipt máli um niðurstöðuna hvor lögin voru í gildi. Ég bendi á það máli mínu til stuðnings að í 6 ár eða um það bil lét dómurinn viðgangast að breyta einungis launum þeirra sem undir Kjaradóm falla í hátt við almennar launabreytingar og þó heldur lakar og minna en almennar launabreytingar voru í þjóðfélaginu og ég sé ekki betur en síðari lögin gefi svigrúm þótt það svigrúm sé að sjálfsögðu mun þrengra enda var þeim breytingum ætlað að knýja Kjaradóm til þess að koma saman á ný og taka tillit til nýrra efnisástæðna. En það má ekki rugla þessu saman við það að það er ekki verið að setja lög á niðurstöðu dómsins.
    Virðulegi forseti. Í framhaldi af þessu sem ég hef nú rakið er eðlilegt að spyrja þeirrar spurningar hvort þessi bráðabirgðalög standist 28. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta munu vera fyrstu bráðabirgðalög sem sett hafa verið eftir að þeirri grein var breytt á sínum tíma.
    Þegar skoðað er hvort brýna nauðsyn hafi borið til, þá er að mínu áliti augljóst að það skilyrði er fyrir hendi, bæði formlega og efnislega. Í því sambandi er einfaldast að vitna til þess fræðimanns sem oftast er vitnað til en það er Ólafur Jóhannesson, stjórnlagaprófessor og fyrrum forsætisráðherra, einnig sem fræðimann dr. Bjarna Benediktsson, sem einnig var stjórnlagaprófessor og fyrrum forsætisráðherra. Þá vil ég benda á ræðu Steingríms Hermannssonar fyrrum forsætisráðherra sem mælti fyrir bráðabirgðalögum haustið 1990 og síðast en ekki síst ræðu hv. þm. Páls Péturssonar 1. þm. Norðurl. v. sem var frsm. meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar þegar bráðabirgðalög sem sett voru sumarið 1990 voru til umræðu en þar dregur hann skýrt fram í sínu máli rökstuðning sem á við nákvæmlega jafn vel í þessu máli og því máli sem þá var flutt.
    Breytingar sem gerðar hafa verið á þessari lagagrein breyta engu um skilyrðin sem eru tilnefnd í greininni og má í því sambandi vitna til athugasemda við lagafrv. en í athugasemd við 5. gr. sem síðar varð 6. gr. frv., segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Hér er því ekki um að ræða breytingu á þeim skilyrðum sem

verið hafa fyrir útgáfu bráðabirgðalaga.`` --- Þetta sýnir að löggjafinn var ekki að breyta þeim skilyrðum sem sett hafa verið frá upphafi í stjórnarskrána og eru nú í 28. gr. hennar.
    Ég gæti, virðulegi forseti, farið mörgum orðum um þetta atriði. Þetta er mál sem hefur oftsinnis verið til umræðu. Ég hef aflað mér verulegra gagna og það er kannski rétt að það komi fram að það hefur ætíð verið svo að það hefur verið talið að löggjafinn, í þessu tilfelli bráðabirgðalöggjafinn, ríkisstjórnin, leggi endanlegt mat á það hvort hin brýna nauðsyn sé fyrir hendi. Að vísu örlar á því í dómi bæjarþings í máli Bjarnheiðar Guðmundsdóttur, en það er þetta mál sem stundum hefur verið kallað mál BHMR. Þar segir í dómi undirréttar að bráðabirgðalögin hafi allfrjálsar hendur um þetta mat en þó ekki óbundnar með öllu. Í þeim dómi er heimild dómstólanna skýrð þannig að þeirra sé fyrst og fremst að meta hvort sú brýna nauðsyn sem bráðabirgðalöggjafinn telur vera á setningu bráðabirgðalaga sé studd nægjanlegum rökum svo ljóst megi vera að um sýnilega misbeitingu heimildarinnar sé ekki að ræða. --- Hér er ég að vitna til undirréttardóms, hæstaréttardómur hefur ekki gengið en mun væntanlega ganga núna í haust í þessu máli sem auðvitað er mjög mikilvægt fyrir alla framvindu þessara mála á sviði íslensks réttar.
    Ég held að menn séu svo almennt sammála um þetta atriði að það þurfi ekki að eyða fleirum orðum um það en skal fúslega gera það síðar ef ég verð inntur eftir því.
    Næsta spurning sem hlýtur þá að vakna er sú hvort ríkisstjórninni hafi borið að kalla Alþingi saman. Í fyrsta lagi vil ég benda á að í raun og veru hefur ekkert það gerst sem breytir í sjálfu sér því að nú eigi frekar en áður að kalla þing saman. Það lá verulega á að gera þessa breytingu sem gerð var með bráðabirgðalögunum. Þegar var byrjað að greiða út laun samkvæmt niðurstöðu dómsins. Ef það átti að freista þess að knýja á um endurskoðun dómsins, þá hlaut það að taka talsverðan tíma. Alþingi yrði kallað saman og yrði þá að fjalla um málið og loks að kjósa nýjan dóm væntanlega og hann þyrfti að fá svigrúm til að kveða upp nýjan úrskurð.
    Þess ber að geta að það er nánast útilokað að kalla saman þing á grundvelli þingskapalaga án þess nú og tryggja það að lagafrumvörp eins og bráðabirgðalög eða ný frumvörp sem koma í stað bráðabirgðalaga nái fram að ganga á örstuttum tíma. Aðrar þjóðir hafa átt við þessi vandamál að stríða, sem ég tel vera vaxandi vandamál íslenska þingsins, en það er sú kreppa sem kemur upp í lýðræðinu þegar málfrelsi þingsins er svo mikið sem raun ber vitni án þess að nægilegur tími sé gefinn til þess að menn geti þá talað saman. Það getur ekki farið saman fullt málfrelsi og takmarkaður fundartími nema að slíkt bitni á sjálfu lýðræðinu.
    Danir hafa og höfðu áratugum saman áhyggjur af þessu og nú er svo komið í Danmörku að þar þekkist ekki að bráðabirgðalög séu gefin út. Jafnvel þegar stærstu atburðir eiga sér stað í danskri sögu og kalla þarf saman þing til þess að taka afar stórar ákvarðanir, þá gerist það með þeim hætti að einungis það eina mál er til afgreiðslu og það er afgreitt á einum degi --- á einum degi, segi ég hér. Ég nefni t.d. olíuskattinn sem settur var á á sínum tíma og eins hið stóra mál þegar Danir, þetta forna heimsveldi, tók á það ráð að senda herskip til Persaflóa á sínum tíma sem auðvitað var stórmál fyrir Dani sem höfðu ekki átt í stríði áratugum saman og ekki af neinu afli árhundruðum saman. Það tók einn dag að kalla þingið saman og taka þessa ákvörðun. Og ég spyr þá sem þekkja til starfa Alþingis, bæði þá sem eru hér inni í salnum og hina sem á hverjum degi geta horft á störf þingsins hér hvort þeir trúa því og treysta að hægt sé að kalla saman þingið og láta það starfa eins og einhver stakk upp á í 10 eða 20 mínútur eða í einn dag til þess að fjalla um mál á borð við þau sem koma upp og er nauðsyn að gera breytingar á lögum um.
    Ég vil nú aðeins fara frekar inn á þetta atriði því að þetta tel ég vera mjög mikilvægt fyrir framtíð mála og hvort hægt verði í framtíðinni að búast við því að ríkisstjórnin kalli frekar Alþingi saman en að gefa út bráðabirgðalög. ( Gripið fram í: Það hefur nú verið styttri og markvissari framsaga ráðherra hjá Dönum.) Ég taldi, hv. þm., að það væri full ástæða fyrir Alþingi að fjalla þannig um þetta mál sem er afar viðkvæmt í mörgum skilningi, bæði vegna þess að hér er um að ræða bráðabirgðalög og eins vegna þess að hér er verið að fjalla um bráðabirgðalög sem efnislega hafa áhrif á laun og kjör þingmanna sjálfra, þá taldi ég það skyldu mína að hér kæmu fram allar þær upplýsingar sem þyrftu að koma fram í dagsins ljós og ég vona að hv. þm. fyrirgefi mér það þó ég ræði þetta mál svo ítarlega jafnvel þótt það taki nokkrar mínútur enda gat þessi umræða ekki hafist strax í upphafi af ástæðum sem ég hygg að hv. þm. viti hver var. Hitt er svo annað mál að hv. þm. hefur tækifæri til þess að fjalla um þetta mál svo og annað mál sömu tegundar í þeirri nefnd sem hann á sæti í og vænti ég þess að þar eigi ég hauk í horni og hann þurfi þá ekki sjálfur að eyða tíma þingsins hér á eftir en geti komið sínum sjónarmiðum fram þar ef hann er mjög tímabundinn í dag. ( Gripið fram í: Ráðherrann greiðir stöðugt fyrir umræðum og flýtir fyrir meðferð málsins.)
    Kem ég nú að því atriði sem ég tel mjög mikilvægt þegar fjallað er um þann þátt hvort kalla skuli þing saman því ég tel það vera bagalegt að ekki sé hægt að kalla þing saman og leysa úr málum með löggjöf í stað þess að gefa út bráðabirgðalög. Þannig var að þegar stjórnarskránni var breytt síðast, þá stóð til að setja inn í þingskapalög sérstakt ákvæði um það hvernig hægt væri að greiða fyrir þingstörfum þegar stæði sérstaklega á. Í frv. sem hv. þm. Páll Pétursson, Guðrún Helgadóttir, Kristín Einarsdóttir, Hjörleifur Guttormsson og fleiri fluttu var að finna ákvæði sem síðar fór inn í frv. sem flutt var af öllum þingflokkum um þingskapalög. Þetta ákvæði var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Þegar brýna nauðsyn ber til getur forsrh. gert tillögu um að ræðutími þingmanna og annarra ráðherra en þess sem mælir fyrir stjfrv. sé takmarkaður við 8 mínútur og ræðutími framsögumanna meiri og minni hluta nefnda við 15 mínútur. Hverjum þingmanni skal þá einungis heimilt að tala einu sinni við hverja umræðu og framsögumanni tvisvar en eigi fleiri en tveimur þingmönnum að framsögumanni meðtöldum frá hverjum þingflokki. Slík tillaga forsrh. skal borin undir atkvæði umræðulaust.``
    Og í yfirliti sem fylgdi með frv. segir svo um umræður í f-lið, með leyfi forseta:
    ,,Sérstök takmörkun umræðna eftir tillögu forsrh. er leyfð þegar brýna nauðsyn ber til að hraða afgreiðslu þingmáls. Þetta er einkum hugsað í tengslum við afgreiðslu frumvarpa til staðfestingar bráðabirgðalaga.``
    Og í stjórnskipunarlagafrumvarpinu segir svo í lok greinargerðar með 5. gr. sem fjallar um bráðabirgðalög, með leyfi forseta:
    ,,Þess má geta að í drögum að þingskapalögum eru ákvæði sem koma eiga í veg fyrir að staðfestingarfrumvörp falli vegna óeðlilega langra umræðna.``
    Ég vona þegar þetta er sagt að menn átti sig á því að þetta náði ekki í gegn. Þetta féll út úr frv. Og ég hygg að þetta sé ein af ástæðunum fyrir því að ekki verður hjá því komist að ríkisstjórnir, ekki einungis sú sem nú situr heldur ríkisstjórnir í framtíðinni, munu hugsa sig tvisvar um áður en þær hyggjast kalla þing saman fremur en að beita bráðabirgðalagaákvæðinu sem út af fyrir sig er ekkert við að segja að ríkisstjórnir geri og hafi gert um árabil. Ég vek athygli á þessu vegna þess að af einhverjum ástæðum fór þetta þingskapaákvæði ekki inn í lögin á sínum tíma eins og ætlast var til þegar stjórnarskránni var breytt.
    Ég vil geta þess, virðulegur forseti, að þegar bráðabirgðalögin voru sett var tiltölulega stutt til þings og þess vegna ljóst að staðfestingarfrv. yrði til umræðu mjög fljótlega. Ég vil einnig, virðulegur forseti, geta þess að flutt hefur verið nýtt frv. og staðið þannig við efnisyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ég hef óska eftir því að það frv. megi eiga efnislega samleið til nefndarinnar sem um málið fjallar, efh.- og viðskn., og vænti þess að málin verði skoðuð saman. Ég kynnti það frv. fulltrúum stjórnmálaflokkanna áður en það var lagt fram og ég legg áherslu á að það mál nái fram að ganga á yfirstandandi þingi og minni á að bráðabirgðalög þarf að staðfesta, ef gömlu lögin eiga ekki að rakna upp, áður en 6 vikum er lokið af þinginu. Það þýðir að ljúka verður afgreiðslu þessa máls áður en þing fer heim og tekur sér leyfi sem mér skilst að um sé samkomulag síðar í þessum mánuði.
    Það er freistandi hér að eyða ýmsum misskilningi sem komið hefur upp varðandi það frv. Það er aðeins eitt atriði sem ég vil nefna af því að ég heyrði frá því að prestar hefðu gert athugasemd við það frv. Án þess að það sé hér til umræðu vil ég geta þess að þrátt fyrir fjölmörg rök þess efnis sem fram hafa komið um að prestar ættu að standa utan við ákvarðanir Kjaradóms og kjaranefndar var það gert, ekki síst fyrir mín orð, að stétt prestanna er látin falla undir lögin um Kjaradóm og kjaranefnd. Ég tel að það sé mikilvægt og bendi á að hlutverk kjaranefndar samkvæmt því frv. er að hluta til hlutverk Kjaradóms áður og bendi á að þessi eina stétt sem nú fellur undir kjaranefndina var að sjálfsögðu stétt sem áður tók laun samkvæmt kjarasamningum við ríkið og það má alls ekki rugla því saman við að hér sé verið að ráðast á kirkjuna eða draga úr sjálfstæði hennar. Vísa ég að öðru leyti til greinargerðar með því frv.
    Virðulegi forseti. Ég er kominn að lokum míns máls. Ég hef heyrt það á frammíköllum að mönnum hefur þótt þessi lestur æðilangur. Ég vil einungis af því tilefni segja að ég tel að það sé afar mikilvægt að við áttum okkur á því hér hvernig við hyggjumst taka á bráðabirgðalöggjafarvaldinu í framtíðinni og hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til þess að við sleppum fram hjá því og getum kallað Alþingi saman. Um það hljóta umræðurnar að snúast um þetta tiltekna frv. En við megum heldur ekki gleyma því að fyrir liggur annað frv. um sama efni og ég tel að það sé mikið í húfi fyrir alþingismenn og alla þá sem þurfa að hlíta niðurstöðu Kjaradóms að þessi mál fái efnislega afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Ég tel að það sé bæði þingi og þjóð fyrir bestu.
    Að þessum orðum töluðum legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.