Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 14:46:42 (239)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég var nokkuð undrandi á þessari framsöguræðu hæstv. fjmrh. Þar að auki mismælti hann sig nú hér í ræðunni, eins og menn muna, nokkuð skemmtilega og sérkennilega en það hefur kannski verið vegna þess að það sem var á undan í ræðunni efnislega var nú æðisérkennilegt. Ég skil satt að segja ekki hvers vegna hæstv. fjmrh. var að leggja þennan krók á sig til þess að fara að segja að það sem ég hafði sagt um yfirvinnugreiðslur í minni ráðherratíð hjá yfirmönnum ráðuneytisins hefði ekki verið rétt. Ég skil satt að segja ekki tilefni þess.
    Það vill nú svo til að hér í hliðarsal situr sá embættismaður sem ráðherrann hafði með sér hingað til þingsins og ég bið hann nú persónulega forláts að ég neyðist til þess að víkja að því hér vegna ummæla hans núverandi embættismanns. En þegar sá embættismaður gegndi yfirmannsstöðu í ráðuneytinu sendi hann yfirvinnureikninga til mín sem ég skrifaði ekki upp á og voru sendir út aftur. Þetta hefur hann staðfest hér í hliðarsal þannig að ég satt að segja skil ekki hvað ráðherranum gengur til að vera að draga þetta mál hér með þessum hætti inn í þessa framsöguræðu. Ég er alveg reiðubúinn að ræða málið við ráðherrann síðar og ítarlegar eða við annað tækifæri. Ég hef óskað eftir því að fá símasamband við Magnús Pétursson, núv. ráðuneytisstjóra, hann er hins vegar á ferðalagi, en vildi strax nota þetta tækifæri til þess að mótmæla þessum sérkennilega efnisþætti og sá embættismaður fjmrn. sem hér situr í hliðarsal hefur staðfest að a.m.k. í hans tilviki var það rétt sem ég sagði um málið.