Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 14:49:30 (240)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. þm. hafi ekki verið í þingsal þegar ég ræddi um þetta mál ( ÓRG: Ég hlustaði í gegnum hátalarann.) eins og staðfest er hér í frammíkalli, en það sem ég var að lýsa var yfirlýsing hv. þm. þar sem hann sagðist undrast á Kjaradómnum en af því að ég las hér textann og í textanum komu fram tvö efnistriði sem ég þurfti að gera athugasemd við, þá leyfði ég mér það. Annað var um fulltrúa fjmrn., sem ekki var minnst á í andsvari hv. þm. og ég tel það vera þá á þann veg að hv. þm. samþykki það sem ég sagði um það. Um hitt atriðið sem hv. þm. minntist á, þá er hann að gera athugasemd við það að ég hafi bent á að þeir sem tóku yfirvinnu, bæði kjaradómsmenn og aðrir í ráðuneytinu á hans tíma, gerðu það auðvitað á ábyrgð ráðherrans og það hefur ekkert með það að gera hvort ráðherrann skrifaði upp á yfirvinnuna eða ekki. Þetta vil ég láta koma fram vegna þess að menn skildu ummæli fyrrv. ráðherra og núv. hv. þm. á þann veg að þeir sem hefðu tekið sér yfirvinnu og voru kjaradómsmenn hefðu gert það að ráðherra forspurðum. Einfaldast er fyrir mig að spyrja hv. þm.: Tók ráðuneytisstjóri fjmrn. yfirvinnu án þess að hæstv. ráðherra sem þá var og núv. þm. hefði hugmynd um það eða var það gert með leyfi ráðherrans og vitund hans og vilja? Ef hv. þm. getur svarað því, þá er það allt í lagi. Að öðrum kosti sitjum við uppi með þá stöðu að viðkomandi ráðuneytisstjóri og reyndar aðrir sem tóku laun í ráðuneytinu hafi tekið sér yfirvinnuna sjálfir og þá þarf auðvitað að ræða það mál á þeim grundvelli.