Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 14:52:09 (241)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð æ meira undrandi á ræðuflutningi hæstv. fjmrh. Fyrst segir hann að það sem ég hafi átt við eða átt að tala um hafi verið að það sem gerðist í ráðuneytinu væri allt á ábyrgð ráðherrans. Auðvitað er það rétt. Það er á ábyrgð ráðherrans, ég hef aldrei skotið mér undan því, hæstv. ráðherra. En ég var hins vegar spurður í þessu blaðaviðtali hvort ég hefði skrifað upp á yfirvinnureikninga sem er alveg nákvæm og skýr spurning og ég svaraði nei við því, ég hefði ekki gert það. Það vill svo til að við höfum hér í hliðarsal þann embættismann sem var hagsýslustjóri, annar af tveimur æðstu yfirmönnum undir fjármálaráðherra í fjármálaráðherratíð minni og hann hefur staðfest það hér við mig í einkasamtali í hliðarsalnum undir ræðu fjmrh. að hann hafi sent mér yfirvinnureikninga sem ég skrifaði ekki upp á og sendi út aftur.
    Nú vill hins vegar núv. hæstv. fjmrh. fara að leiða það inn í málið hvort viðkomandi ráðuneytisstjórar hafi tekið sér yfirvinnu án þess að hafa til þess heimild frá ráðherranum. Það er nú satt að segja þannig áburður hér í ræðustól á Alþingi af hálfu hæstv. fjmrh. í garð æðstu yfirmanna ráðuneytisins að ég kýs að ræða það fyrst við viðkomandi yfirmenn alla. Ég hef þegar gert það við þann sem situr hér í hliðarsal, Indriða H. Þorláksson. Það voru tveir aðrir sem gegndu þessum stöðum í minni tíð, Sigurgeir Jónsson og Magnús Pétursson, og ég mun að sjálfsögðu ræða við þá. En núv. fjmrh. verður hins vegar að eiga þessa furðulegu yfirlýsingu sína hér við embættismenn sína sjálfur. Varðandi það fyrra atriði sem hann nefndi, þá tel ég það vera skýrt að þeir menn sem ég skipa sem fjmrh. í stöður og eru áfram í þeim stöðum sem fulltrúar fjmrn. og fjmrh. eru auðvitað fulltrúar þess fjmrh. og fjmrn. sem er við völd hverju sinni. Þeir eru ekki áfram persónulegir fulltrúar mínir eftir að ég hef farið úr ráðuneytinu. Ég hef nú satt að segja aldrei heyrt svona frumlega skýringu.