Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 15:23:16 (253)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það má segja að kjarni þessa máls sé fyrst og fremst sé tvíþættur, þ.e. annars vegar efnisinnihaldið sem hér hefur nokkuð verið rætt en hins vegar er það svo aðferðin eða vinnubrögðin sem hæstv. ríkisstjórn greip til í vanda sínum eftir að fyrir lá úrskurður Kjaradóms á dögunum.
    Ég mun aðallega ræða þetta síðarnefnda þar sem ég lít svo á að það sé á margan hátt eðlilegra að ræða hin almennu efnisatriði sem lúta að starfi Kjaradóms og skipan mála þar undir þeim dagskrárlið sem hér er nr. 2 og kemur væntanlega til umræðu næst á eftir þessum. Þar er verið að fjalla efnislega um lagaákvæði um Kjaradóm og að mörgu leyti eðlilegra umræðunnar vegna að menn haldi sig þá við efnisþættina þar.
    Staðreyndin er sú að hér er að baki mikil hrakfallasaga þar sem eru viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar við hinum óvænta úrskurði Kjaradóms sem féll 26. júní sl. Niðurstaðan hefur orðið mönnum talsvert umræðuefni nú þegar, þ.e. sú lending hæstv. ríkisstjórnar að ákveða eftir langan fund að kvöldi dags að senda bifreið með bráðabirgðalög upp á Akranes og láta forseta Íslands rita þar undir, undir miðnættið þann dag rétt eins og líf þjóðarinnar beinlínis lægi við að ljúka þessu nú öllu saman á fáeinum klukkutímum.
    Áður en ég ræði þann þátt sérstaklega ætla ég að rifja málið lítillega upp eins og það kom fyrir frá og með úrskurði Kjaradóms 26. júní ef ég man rétt og rekja mig í gegnum ferilinn þangað til ríkisstjórnin komst að þessari skrýtnu og óvæntu og furðulegu niðurstöðu sinni, sem afar fá rök standa fyrir að mínu mati, að setja bráðabirgðalög.
    Það er ljóst að mönnum kom úrskurður Kjaradóms á margan hátt á óvart. A.m.k. hygg ég að svo hafi verið að fæstir hefðu átt von á því eftir þá löngu kyrrstöðu sem ríkt hafði varðandi starfsemi Kjaradóms sem um árabil hafði nánast ekki hróflað við launum þeirra starfsmanna sem undir hann heyrðu þrátt fyrir umtalsverðar breytingar úti á vinnumarkaðnum, að þá skyldi dómurinn, loksins þegar hann á annað borð fór út í efnislegar breytingar, taka þar jafnrösklega til hendinni og raun varð á. Mjög háar prósentutölur stungu sérstaklega í augun og þá eins og við mátti búast aðallega þær sem til hækkunar voru á launum einstakra starfsmanna eða hópa. Minna fór fyrir hinu að rætt væri um þá niðurstöðu sem dómurinn taldi vera að með þeim breytingum sem hann gerði og jöfnuðust nokkuð út, þær sem voru til lækkunar og hækkunar, væri ekki um umtalsverðar breytingar á heildarútgjöldum ríkisins vegna launa þessa hóps að ræða. Engu að síður er það svo að dagana 26. og 27. júní eru það fyrst og fremst þessar hækkanir sem eru fyrirferðarmiklar í umfjöllun fjölmiðla.
    En fyrstu viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar vekja líka nokkra athygli í ljósi þess sem síðar varð. 28. júní er viðtal við hæstv. forsrh. Davíð Oddsson í Morgunblaðinu og þar segir hann:
    ,,Hæpið er að ríkisstjórnin geti breytt dómi Kjaradóms, segir Davíð Oddsson eftir sérstakan ríkisstjórnarfund um málið í gær.`` Sem sagt, sá fyrsti af mörgum ríkisstjórnarfundum var haldinn 27. júní og eftir þann fund er niðurstaða hæstv. forsrh. í viðtölum við fjölmiðla sú að það sé hæpið að ríkisstjórnin geti hróflað við þessari niðurstöðu. Í fréttinni segir, með leyfi forseta, m.a. þetta: ,, . . .  ríkisstjórnin væri nú að kanna lagalega stöðu dómsins og hvort hún eða löggjafarvaldið gæti á einhvern hátt breytt úrskurði hans og nefndi hann [þ.e. forsrh.] að í því sambandi væri setning bráðabirgðalaga til athugunar. Hann sagði þó að það væri mat þeirra lögfræðinga sem stjórnin hefði leitað til að afar hæpið væri að hægt væri að grípa til slíkra úrræða.`` --- Ég endurtek: að afar hæpið væri að hægt væri að grípa til slíkra úrræða. --- Þetta segir hæstv. forsrh. ekki í neinu fljótræði að ætla má, heldur eftir að ríkisstjórnin er búin að halda heilan fund um málið og hafa tvo sólarhringa til að kynna sér niðurstöðu dómsins.
    Síðan fer í gang sú leikflétta sem menn þekktu að hæstv. forsrh. skrifar Kjaradómi bréf, sem var merkileg hugkvæmni af hálfu hæstv. forsrh., og fer fram á það við hann að hann breyti niðurstöðu sinni, og hlýtur nú að teljast með fádæmum í sögunni að menn fari fram á það við óháðan dómstól eða óháðan aðila sem hefur dómstólsígildi eða stöðu samkvæmt stjórnskipun landsins ( Gripið fram í: Þetta var í Sovétríkjunum.) að hann breyti sinni efnislegu og rökstuddu niðurstöðu sem dómsorði og rökstuðningi og öllu saman hafði verið upp kveðinn. En hugkvæmni hæstv. ríkisstjórnar var engu að síður slík að það var ákveðið að senda bréf til Kjaradóms og fara vinsamlega fram á það við hann að hann breytti niðurstöðunni. Þetta gerist sömuleiðis 28. júní.
    Strax næsta dag, a.m.k. er það komið í fjölmiðla 30. júní, liggur fyrir að Kjaradómur hafnar tilmælum ríkisstjórnarinnar og þurfti ekki langan tíma til. Kjaradómur sá einfaldlega ekki út frá þeim lögum sem hann starfaði samkvæmt að neinar forsendur væru til þess að taka upp sinn fyrri dóm og lái þeim hver sem vill. Þetta gaf að líta og umfjöllun um þetta í blöðunum 30. júní.
    Í fjölmiðlum þessa daga voru sömuleiðis viðtöl við fjölmarga forustumenn launafólks og aðila á

vinnumarkaði sem allir eða flestir töldu niðurstöðu Kjaradóms óheppilega og hún mundi hafa mikla röskun í för með sér og stofna í uppnám þeim kjarasamningum sem gerðir höfðu verið. Blöðin tóku til við að skrifa um þetta leiðara. Sá fyrsti af mörgum sem Morgunblaðið skrifaði um þetta mál var 30. júní undir fyrirsögninni ,,Kjaradómur í kreppu.`` Í fjölmiðlum komu sömuleiðis fram upplýsingar um hversu mikil útgjöld ríkisins vegna elli- og eftirlaunalífeyrisgreiðslna mundu aukast vegna niðurstöðu dómsins. Hæstv. félmrh. kom aldrei þessu vant fram á sjónarsviðið með geislabaug um höfuðið og afþakkaði launahækkunina og sagðist mundu beita sér fyrir því að stöðva framgang dómsins.
    Síðan kemur næsti þáttur. Næsti fundur ríkisstjórnarinnar er 30. júní og frá niðurstöðu hans er sagt í morgunblöðunum 1. júlí, fundur sem stóð fram á kvöld, væntanlega annar í röðinni sem sérstaklega var boðaður um kjaradómsmálið. Og hver var niðurstaðan þá? Jú, hún var sú að ríkisstjórnin mundi, úr því að Kjaradómur var ekki svo vinsamlegur að taka upp dóminn að hennar tilmælum, ekkert aðhafast frekar í málinu fyrr en þing kæmi saman. Þá yrði lagt fram frv. til laga um endurskoðun á lögum um Kjaradóm. Niðurstaðan stendur og í frétt í Morgunblaðinu 1. júlí undir fyrirsögninni ,,Ákvörðun ríkisstjórnarinnar segir: Lög um Kjaradóm verði endurskoðuð.`` Með leyfi forseta áfram:
    ,,Eftir fund ríkisstjórnarinnar í gærkvöldi tilkynnti Davíð Oddsson forsætisráðherra ákvörðun hennar vegna úrskurðar Kjaradóms þann 26. júní.`` Yfirlýsing forsætisráðherra fer á eftir og aðdragandi málsins síðan rakinn og segir: ,,Kjaradómur hefur í dag synjað þessum tilmælum,`` þ.e. að taka upp dóminn ,,og sagt að hvorki séu efnisleg né lagaleg rök til slíkrar endurupptöku`` og sendi nú Kjaradómur ríkisstjórninni skeytið til baka með þessum orðum. Fyrir því sem hæstv. forsrh. fór fram á að Kjaradómur gerði voru hvorki efnisleg né lagaleg rök. Hvað var Kjaradómur að segja þarna? Hann var að segja að það sem forsrh. fór fram á við dóminn væri óheimilt, ólöglegt. Í ákvörðun ríkisstjórnarinnar í greinargerðinni frá 1. júlí segir áfram, með leyfi forseta:
    ,,Lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar telja að stjórnarskrá lýðveldisins setji því skorður að lög séu sett til að afnema eða breyta þessari niðurstöðu Kjaradóms.``
    Hvar eru þessir lögfræðilegu ráðunautar ríkisstjórnarinnar nú? Og vel að merkja, hæstv. forseti, hvar er hæstv. forsrh. sem ég teldi nú að ætti að sjá sóma sinn í að vera viðstaddur umræðuna. Hér er það sem sagt skjalfest í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni sjálfri að hennar eigin lögfræðilegu ráðunautar hafi ráðið frá því að reyna að hrófla við þessari niðurstöðu Kjaradóms með lögum. Svo segir áfram í yfirlýsingunni og það var niðurstaða ríkisstjórnarinnar 1. júlí: ,,Ríkisstjórnin hefur ákveðið að endurskoða lög um Kjaradóm og mun leggja fram frumvarp um það efni þegar þing kemur saman á ný.``
    Þetta var niðurstaða ríkisstjórnarinnar 1. júní ( Gripið fram í: 30. júní.) eða 30. júní sem síðan er sagt frá í fjölmiðlum að morgni 1. júlí af því að þetta var kvöldfundur hjá ríkisstjórninni. Þegar málin standa á þessum punkti er alveg ljóst að ríkisstjórnin telur sér ekki fært að hrófla við þessari niðurstöðu með lögum, að því er best verður skilið út frá þessum texta, hvort sem heldur er bráðabirgðalögum eða almennri lagasetningu og það er álit þeirra lögfræðilegu ráðunauta sem ríkisstjórnin styðst við. Síðan er bætt um betur og frá þessu er svo ítarlega sagt í umfjöllun í fleiri fjölmiðlum: Orð skulu standa, dómar skulu standa. Hvorki efnisleg né lagaleg rök eru til þess að taka þetta upp. Lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar vara við því að reyna að hrófla við þessum niðurstöðum með lögum. Og ég er með frekari umfjöllun um þetta úr fjölmiðlum hér fyrir framan mig.
    Morgunblaðið kemur svo út 2. júlí og þá er enn leiðari um þetta mál. Annar leiðarinn í Morgunblaðinu í röð á örfáum dögum sem er helgaður þessu máli. Og hver er fyrirsögn hans? ,,Örlagarík mistök.`` Og leiðaranum lýkur með þessum orðum, með leyfi forseta:
    ,,Með einni rangri ákvörðun á kvöldfundi þessarar stjórnar er stefnt í voða mesta árangri sem Íslendingar hafa náð í efnahagsmálum í tvo áratugi.`` Og vel að merkja, þessarar stjórnar er nánar tiltekið ríkisstjórn Íslands sem Morgunblaðið er þarna að fjalla um.
    Sömu daga héldu samtök launafólks fjölmenna fundi og áskoranir bárust víða að frá þeim og fleiri aðilum í þjóðfélaginu um að Alþingi kæmi saman til að taka á þessu máli. Forustumenn stjórnarandstöðunnar lýstu sig reiðubúna til þess að koma til þings og það var almenn krafa af hálfu aðila vinnumarkaðarins og fleiri aðila.
    En Morgunblaðið segir ekki skilið við málið með leiðaranum sínum 2. júlí heldur birtir það lögfræðiálit þeirra þriggja ráðgjafa ríkisstjórnarinnar sem til höfðu verið kallaðir eins og þau leggja sig. Hver er niðurstaðan þar? Í lögfræðiáliti Jónatans Sveinssonar hæstaréttarlögmanns segir og fyrirsögnin er valin í samræmi við það: ,,Dómurinn ekki felldur niður með stjórnvalds- eða lagaboði.``
    Í áliti Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. segir: ,,Hæpið að breyta megi Kjaradómi með bráðabirgðalögum.`` Og í textanum er í raun og veru kveðið fastar að orði en þetta. Eindregið ráðið frá því að láta sér detta í hug að breyta bráðabirgðalögum. Og í lögfræðiáliti Eiríks Tómassonar segir einnig, með leyfi forseta:
    ,,Sú spurning vaknar í þessu sambandi hvort unnt sé á grundvelli 28. gr. stjórnarskrárinnar að gefa út bráðabirgðalög um launakjör embættismanna og annarra ríkisstarfsmanna sem lög nr. 92/1986 taka til. Um það má vissulega deila hvort skilyrði séu til þess að gefa út slík lög, en bráðabirgðalög ber ekki að setja nema brýna nauðsyn beri til. Enn sem komið er hafa dómstólar ekki lýst því yfir að bráðabirgðalög brjóti í bága við stjórnarskrána vegna þess að brýna nauðsyn hafi skort til útgáfu þeirra. sbr. nú síðast héraðsdóm í svonefndu BHMR-máli uppkveðnum 13. mars 1991. Af þessum dómi verður hins vegar ráðið að dómstólar áskilja sér rétt til þess að kanna í hverju einstöku tilviki hvort bráðabirgðalöggjafinn hafi gengið of langt í þessu efni og er það mín skoðun að til þess geti komið að dómstólar lýsi bráðabirgðalög ógild vegna þess að ekki hafi borið brýna nauðsyn til útgáfu þeirra. Þess vegna ræð ég frá því að sú leið verði farin í þessu tilviki.`` Þetta segir í þriðja og síðasta lögfræðiálitinu sem ég vitna hér til og ríkisstjórnin hafði í höndunum þegar hún var að skoða þessi mál fyrstu daga júlímánaðar.
    Málið liggur sem sagt svona. Í eigin yfirlýsingu 1. júlí vísar ríkisstjórnin í lögfræðiálitin sem séu svo afdráttarlaus að það sé ekki talið gerlegt að hrófla við þessari niðurstöðu hvorki með bráðabirgðalögum né öðrum lögum. Í lögfræðiálitunum sjálfum sem Morgunblaðið birti daginn eftir geta menn lesið þetta hver fyrir sig.
    Mogginn er svo upptekinn af þessu að leiðarinn daginn eftir er enn helgaður málinu og þá er fjallað um álit lögfræðinganna. Niðurstaða Morgunblaðsins er sú að enn sé svigrúm fyrir Alþingi til að grípa inn í málið en það verði þá að koma saman til þess að gera það. Aftur vitna ég í niðurlag leiðarans en þar segir:
    ,,Ríkisstjórn og Alþingi hafa því enn svigrúm til að breyta þeim úrskurði Kjaradóms sem stefnir í voða miklum þjóðarhagsmunum. Þess vegna er nauðsynlegt og eðlilegt að Alþingi verði kallað saman þegar eftir helgi og þar verði sett sú löggjöf sem dugar til þess að tryggja hagsmuni þjóðarinnar í bráð og lengd.``
    Þar með liggur afstaða Morgunblaðsins fyrir, afstaða aðila vinnumarkaðarins, stjórnarandstöðunnar, afstaða yfirleitt allra sem höfðu tjáð sig um málið og ríkisstjórnarinnar líka því að hún var sammála. Í yfirlýsingu 1. júlí telur hún að bráðabirgðalagasetning eða önnur lagasetning komi ekki til greina heldur eigi að kalla þingið saman eða bíða eftir því að það komi saman og að þá verði lagt fram nýtt frv. um endurskoðun á lögunum um Kjaradóm. Og enn er haldið áfram og 3. júlí segir í blöðum:
    ,,8--10 þúsund manna útifundur krefst þess að Alþingi verði strax kvatt saman. Ríkisstjórnin útilokar ekki að Alþingi verði kallað saman, segir forsrh. Félmrh. segist ekki treysta sér til að þiggja hækkun Kjaradóms.``
    Þetta voru forsíðufréttirnar eða sverustu fyrirsagnirnar í fjölmiðlunum þessa daga. Hvað er ríkisstjórnin að hugsa þarna? Hún er að hugsa um að kalla þingið saman, forsrh. útilokar ekki að láta undan þeim þrýstingi sem þarna er orðinn. (Gripið fram í.) Garminum Katli, þ.e. Alþýðublaðinu, verður ekki gleymt, hann er hér aftar í bunkanum. Ég ætla ekki að þreyta fundarmenn á því að fara mikið ítarlegar ofan í þetta. Ég er hér með myndarlegan bunka af upplýsingum um þetta og Alþýðublaðið er einhvers staðar inni í honum því að í leiðara þess einn daginn var einmitt tekið undir það sjónarmið að eðlilegast og skynsamlegt við þessar aðstæður væri að kalla saman Alþingi þannig að málgagn annars stjórnarflokksins, þ.e. Alþfl., hafði þessa afstöðu svo maður hlýtur eiginlega að spyrja sig: Hvaðan kom ríkisstjórninni þessi ótrúlega hugmynd í kjölfar allrar umræðunnar þar sem allir sem höfðu tjáð sig um málið voru á einu máli um að lagasetning væri yfir höfuð hæpin og bráðabirgðalög út úr myndinni? Hin almenna krafa í þjóðfélaginu var að þing kæmi saman og reynt yrði að finna leið til þess að afstýra voða í þessum málum. Engu að síður gerðust þau undur sem nú skal vikið að og sömuleiðis má lesa margt um í fjölmiðlum að á álnarlöngum fundi á Þingvöllum kemst ríkisstjórnin að þeirri ótrúlegu niðurstöðu, þvert ofan í fyrri yfirlýsingu, fyrri ákvarðanir, ráðleggingar lögfræðinga sinna, þvert ofan í sjónarmið yfirleitt allra þeirra sem áður höfðu fjallað um málið, að setja bráðabirgðalög. Og auðvitað tóku þau bráðabirgðalög af dóminn, hæstv. fjmrh., láttu ekki svona. Hver varð niðurstaðan af setningu þeirra bráðabirgðalaga? Hvað myndu löglærðir menn segja um þær æfingar að reyna að halda því fram að það hafi ekki staðið til að hrófla við dómnum á nokkurn hátt með þessari lagasetningu? Auðvitað urðu það efnisáhrif bráðabirgðalaganna að dómurinn gekk til baka allur eins og hann lagði sig. Allir vita að þegar farið er lögfræðilega ofan í saumana á slíkum hlutum er horft á réttaráhrifin en ekki bara það formsatriði að það sé ekki sjálfur dómurinn sem tekinn sé beint af í lagasetningunni heldur farin sú krókaleið að pína dóminn til þess að dæma upp á nýtt, allt öðruvísi og ómerkja þar með fyrri ákvörðun. Og það mun hæstv. ríkisstjórn fá að reyna þegar mál verður dómtekið eða dæmt, sem mér skilst að hún standi nú frammi fyrir, að þessi röksemdafærsla er á ærið veikum grunni byggð.
    Virðulegur forseti. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar á hinum fræga fundi á þingvölllum varð engu að síður sú að lausnin væri að setja bráðabirgðalög og ég hef mikið velt því fyrir mér hvers vegna. Hvers vegna í ósköpunum valdi hæstv. ríkisstjórn þá leið í ljósi allra þeirra aðstæðna sem lágu fyrir í málinu og ég hef gert grein fyrir? Er það virkilega þannig að stolt einhverra í ríkisstjórninni sé slíkt að þeir fari frekar út í ógöngur sem þessar heldur en að viðurkenna að þeim hafi orðið á og að láta undan kröfu og óskum annarra. Var það vegna þess að stjórnarandstaðan hafði þá afstöðu að þing ætti að koma saman sem hæstv. forsrh. og ríkisstjórn hans gat ekki hugsað sér að fara þá leið? Var það vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins vildu að Alþingi yrði kallað saman sem ríkisstjórnin gat ekki hugsað sér að fara þá leið? Því efnisástæðurnar eru ekki fyrir hendi. Það er rangt sem hæstv. fjmrh. sagði áðan að það hefði eitthvað verið því til fyrirstöðu að kalla þingið saman og láta það taka á þessu máli. Í ljósi þess að hér kemur í fyrsta sinn til beiting bráðabirgðalaga samkvæmt nýjum ákvæðum stjórnarskrárinnar er þetta auðvitað stóralvarlegt mál sem hér er á ferðinni. Og það er algerlega óhugsandi að hæstv. fjmrh. sleppi frá þeirri umræðu

með jafnbillegum hætti og hann reyndi í framsöguræðu og andsvörum áðan. Ég trúi því ekki að menn séu svo minnislausir að ætla að sleppa Sjálfstfl., sem hafði hæst allra á þinginu 1990--1991 um að afnema ætti bráðabirgðalagaréttinn, við slíka leikfimi og loftfimleika í röksemdafærslum. Ég trúi því ekki. Staðreyndin er auðvitað sú að ef menn lesa hina nýju 28. gr. stjórnarskrárinnar, sem er sjálfsagt að gera hér með leyfi hæstv. forseta, og 35. gr. (Gripið fram í) --- hér eru auðvitað ekki aðrir en þeir sem hafa áhuga á þessu máli og það er eðlilegt. Það þurfa ekki fleiri að vera hér. Þeir sem hafa ekki áhuga á stjórnarskránni eða stórmálum geta verið annars staðar mín vegna. (Gripið fram í.) 28. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög er Alþingi er ekki að störfum.`` Þessi setning er innan hornklofa í nýjustu prentun stjórnarskrárinnar vegna þess að hún bættist við 1991. ,,Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi þegar er það er komið saman á ný.``
    35. gr. kveður hins vegar á um samkomudag og starfstíma Alþingis og er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Reglulegt Alþingi skal koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar eða næsta virkan dag ef helgidagur er og stendur til jafnlengdar næsta árs hafi kjörtímabil alþingismanna ekki áður runnið út eða þing verið rofið.``
    Í umræðunni nú hefur þegar verið nefnt það samhengi sem þessar breytingar voru í, að þingið skyldi starfa allt árið og stjórn þess og nefndir væru virkar og vakandi allt árið. Ein meginröksemdin fyrir því var sú að með því yrði heimild til setningar bráðabirgðalaga í raun og veru óþörf. Þar með væri hægt að kalla þingið saman með mun styttri fyrirvara en áður var hægt og það sem er þó mikilvægara í þessu sambandi er að þar með gæti þingið tekið til starfa umsvifalaust, vegna þess að forsetinn situr. Það þarf ekki að kjósa þinginu stjórn, ekki að kjósa nefndir og því er þinginu ekkert að vanbúnaði að hefja umfjöllun um mál á fyrstu mínútu eftir að það hefur fund hvenær ársins sem er samkvæmt hinni nýju stjórnarskrá. Auðvitað var það hugsun manna, ég bið hæstv. fjmrh. að hugsa sinn gang áður en hann heldur lengra út á þann þunna ís, að með þessu yrði bráðabirgðalagavaldið meira og minna óþarft. Er það nú ekki a.m.k. hyggilegt fyrir hæstv. fjmrh. að fara yfir ræður Sjálfstfl. frá umræðum um þetta mál 1990--1991 áður en hann segir mikið meira? Ég er ansi hræddur um að hann eigi eftir að reka sig á og þar yrði um hastarlegar mótsagnir í málflutningi að ræða miðað við það sem hann reyndi að segja áðan. Ekki var, virðulegur forseti, ófærðinni fyrir að fara þann 3. júlí í sumar, ef ég man rétt. Það vill svo til að þennan dag var ég staddur norður í landi í einstakri blíðu, sem reyndar var um allt land, þannig að þetta voru einhverjir sólríkustu og bestu dagar sumarsins og ekki ófærðinni fyrir að fara. Ekki var það ástæðan til þess að ekki var hægt að kalla þing saman að ætla mætti að menn yrðu veðurtepptir hist og her um landið.
    Nei, hæstv. forseti. Það þarf ekkert að mylja það meira með sér. Það voru engar frambærilegar ástæður fyrir því að kalla Alþingi ekki saman. Engar. Það var ekkert því til fyrirstöðu að þingið kæmi saman með fárra daga fyrirvara eða sólarhringa og það gat hafið störf, umfjöllun um þetta mál þegar í stað. Það þurfti engum tíma að eyða til þess að kjósa því nýja forustu eða skipa störfum þess með öðrum hætti eins og gera hefði þurft ef nýtt þing hefði tekið til starfa og gera þarf í upphafi hvers nýs þings að hausti.
    Eitt atriði enn er óhjákvæmilegt að nefna í þessu sambandi sem ég tel nú að afhjúpi meira en nokkuð annað hina skelfilegu nekt ríkisstjórnarinnar í þessu máli og það eru ákvæði frv. sjálfs, sem sagt þau að það hafi legið svona mikið á að setja bráðabirgðalög 3. júlí sl. að ekki hafi verið hægt að kalla þingið saman og afgreiða þau á næstu sólarhringum með eðlilegum hætti þó svo að Kjaradómi sé síðan ekki ætlað að skila niðurstöðu í málinu fyrr en 31. júlí. Í ákvæði til bráðabirgða segir:
    ,,Kjaradómur skal svo fljótt sem verða má, og eigi síðar en 31. júlí 1992, kveða upp nýja úrskurði á grundvelli þessara laga.
    Gildistaka hinna nýju úrskurða skal miðast við 1. ágúst 1992.`` Það er tæpur mánuður til stefnu, hæstv. fjmrh., samkvæmt ákvæðum í ykkar eigin frv. Og hvernig á þá að sannfæra okkur um það að tíminn hafi verið svo naumur að óhjákvæmilegt hafi verið að grípa til bráðabirgðavaldsins? Það er ekki hægt. Það gat engum sköpum skipt fyrir Kjaradóm hvort hann hafði 25 daga, 27 daga eða 28 daga til að vinna þetta verk sem þarna átti að ætla honum. Það þýðir ekki að telja okkur trú um það þannig að sjálf meginröksemdin og sú sem stjórnarskráin gengur út frá að verði að vera fyrir hendi hrynur þegar farið er ofan í efnisatriði frv. sjálfs því auðvitað er það alveg ljóst að nauðsynin verður að vera svo brýn, þ.e. svo aðkallandi að það sé ekki tími til neins annars en að setja bráðabirgðalög. Hérna inni í efri deild heitinni eru orðabækurnar íslensku ef menn vilja fletta upp á orðinu ,,brýn`` og orðskýringum því fylgjandi. En ætli við skiljum það ekki nægilega vel, allir sem hér erum að eiga orðaskipti.
    Nei, hæstv. forseti. Ég tel að þetta sé satt best að segja ákaflega dapurlegt og ríkisstjórnin sjálf sé þarna í svo hrikalegri mótsögn við sjálfa sig, hafi farið slíka kollhnísa í málinu að mér er til efs að maður hafi séð annað eins. Ég hvet menn til þess að hafa samband við bókasafn Alþingis, fá hjá því blaðaúrklippurnar frá 26. júní til og með 3. júlí sem þingið safnar og flokkar niður undir hausnum kjaramál og fara í gegnum þær. Ég vænti þess að það þætti fleirum en mér fróðleg lesning að sjá þessa ótrúlegu kollhnísa sem ríkisstjórnin fór þarna í málinu. Það má e.t.v. reyna að finna í því einhverjar skýringar á þessari hrapallegu niðurstöðu.

    Síðan er ekki mikið meira að gera í sjálfu sér í málinu en að hv. nefnd sem þetta fær til umfjöllunar hlýtur auðvitað að kanna það sjálfstætt og á sínum eigin forsendum hvernig málið liggur m.a. gagnvart ákvæðum 28. og 35. gr. stjórnarskrárinnar. En ég verð að játa þá fáfræði mína hér að mér er ekki alveg ljóst hvað á að gera við þær aðstæður að ríkisstjórnin hafi þegar gripið til bráðabirgðalagavalds sem ekki reynist síðan vera fyrir hendi, eða ef svo fer. Og þegar svo það bætist við að þolandi úti í þjóðfélaginu hefur þegar höfðað mál, þá verður málið að mörgu leyti enn snúnara. Hvernig er þá eðlilegast að leiða það til lykta, ef t.d hv. efh.- og viðskn. kemst að þeirri niðurstöðu, eða einhverjir aðrir aðilar sem á vegum þingsins færu að skoða það, að bráðabirgðalagarétturinn hefði ekki verið virkur við þessar aðstæður? Það er það sem hæstv. ríkisstjórn þarf að sýna okkur fram á með einhverjum haldbetri rökum en þeim að hugsanlega hefðu einhverjir þingmenn nýtt sér málfrelsið hér og það hefði kannski tekið einhverja klukkutíma að afgreiða þetta mál eða þess vegna sólarhringa. Þó svo væri var lögunum ekki ætlað að hafa áhrif að undangenginni umfjöllun Kjaradóms fyrr en 1. ágúst þannig að það var tæpur mánuður til stefnu.
    Hæstv. forseti. Það líður nú senn að hefðbundnum þingflokksfundatíma og ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég á kost á því að skoða málið í þeirri nefnd sem væntanlega fær það til umfjöllunar. Ég þykist hafa fyrir mitt leyti gert nægjanlega grein fyrir því að það eru auðvitað stórfelldar efasemdir uppi um að það hafi á nokkurn hátt verið samrýmanlegt hugsun og orðanna hljóðan í þeim greinum stjórnarskrárinnar sem við eiga að hæstv. ríkisstjórn greip við þessar aðstæður til setningar bráðabirgðalaga. Ég held að hæstv. ríkisstjórn hafi sér fátt til málsbóta í þeim efnum og allra síst Sjálfstfl. en talsmenn hans höfðu manna hæst hér um það á sínum tíma að þetta rúma bráðabirgðalagavald væri óþolandi og það þyrfti að afnema. Ég var þeirrar skoðunar og vil láta hana koma hér fram að lokum um þennan þátt málsins að menn litu svo á að þessi bráðabirgðalagaréttur sem þarna stæði enn þá eftir þrátt fyrir stjórnarskrárbreytinguna væri næstum að segja einhverar leifar, einhverjar fornminjar sem menn reiknuðu ekki með að yrði gripið til eða grafnar upp framar nema þá hugsanlega þannig að við einhverjar algjörlega afbrigðilegar aðstæður eins og þegar náttúruhamfarir hefðu gengið yfir, ófriður eða menn við einhverjar mjög erfiðar aðstæður í vitlausri tíð um hávetur gætu ekki af tæknilegum ástæðum náð Alþingi saman, þá gæti þetta út af fyrir sig hugsast. En það væri þá eitthvað af því tagi sem hlyti að eiga við.
    Efnislega, hæstv. forseti, ætla ég ekki að hafa um þetta mörg orð að þessu sinni þar sem ég mun geyma mína umfjöllun um það þangað til frv. sjálft um Kjaradóm kemur á dagskrá, 2. dagskrármál þessa fundar. Ég vil eingöngu segja það að málið er að því leyti til á ýmsan hátt vandasamt að það má færa ýmis rök fram fyrir hinni efnislegu niðurstöðu Kjaradóms, bæði með henni og móti. Það er líka ljóst að aðstæður voru mjög erfiðar til þess að úrskurður af þessu tagi gæti komið til framkvæmda hvað sem mönnum sýndist um hann að öðru leyti, hvort sem menn hefðu nú meiri eða minni samúð með þeim tilfæringum sem Kjaradómur var að reyna að gera. Það eru allt saman efnisatriði sem mér finnst sjálfsagt að ræða og nauðsynlegt er að gera, en ég tel að sé heppilegast að halda algerlega utan við þennan stjórnarskrárþátt málsins eða bráðabirgðalagasetningarþátt sem ég hef hér fyrst og fremst gert að umtalsefni og læt fyrir mitt leyti nægja að þessu sinni við þennan hluta umræðunnar.