Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 15:58:45 (254)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örstutt. Í fyrsta lagi tel ég mig hafa sýnt fram á í fyrri ræðu minni að skilyrði til bráðabirgðalagaútgáfu hafa ekkert breyst og vitnaði þar til texta. Í öðru lagi vil ég benda á að málsókn hafði líka hafist þegar bráðabirgðalög voru til umræðu á sínum tíma vegna bráðabirgðalaganna 1990 og breytti auðvitað engu um meðferð máls á þingi. Það er hins vegar annað mál og rétt umræðuefni hversu æskilegt það er að beita bráðabirgðalögum en ég tel að þurfi að breyta þingsköpum til þess að liðka til fyrir því að hægt sé að kalla þing saman og afgreiða slík mál með snöggum hætti. En aðalatriðið er þetta sem ég ætlaði að taka á og það er varðandi lögfræðilegu álitsgerðirnar sem lágu fyrir. Ég tel að það þurfi að gera ríkan greinarmun á því hvort sett eru lög á niðurstöðuna eða hvort sett eru lög sem breyta efnisþáttunum sem niðurstaðan byggir á. Og það er þetta atriði sem ég var að reyna að leggja áherslu á í mínu máli og bendi á að lögfræðingarnir sögðu að það skipti ekki máli hvort um bráðabirðgalög eða önnur lög væri að ræða. Það væri vafasamt hvort hægt væri að setja lög á niðurstöðu dómsins en ég held að það hafi engum dottið í hug að það mætti ekki breyta lögunum um Kjaradóm og óska eftir því með lögum að hann endurskoðaði afstöðu sína og kvæði upp nýjan dóm.