Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 16:00:19 (255)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel að hæstv. fjmrh. hafi alls ekki útskýrt hér eða flutt nein frambærileg rök fyrir því að það séu einhverjir þeir erfiðleikar eða einhverjar þær hindranir í vegi fyrir því að kalla þingið saman og láta það fjalla um mál af þessu tagi sem slíkt strandi á. Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan að hann talaði um það eins og það væru einhverjir sérstakir vankantar eða meinbugir á því, og hann vitnar nú í þingsköpin. Ég bið hæstv. fjmrh. að tala þá skýrar og útskýra fyrir okkur hvað það er í þingsköpunum eða starfsháttum þingsins sem gerir það að verkum að ekki er hægt að kalla það saman við svona aðstæður. Er það það að menn hafi ótamarkaðan ræðutíma eða málfrelsi eða hvað er það, hæstv. ráðherra? Er það það að málin þurfa að fara í gegnum þrjár umræður? Hvernig sér hæstv. fjmrh. þetta fyrir sér? Að það verði tekið af mönnum málfrelsið og þetta verði bara ein umræða og þetta verði bara ein

handaupprétting? Hvað er hæstv. fjmrh. að fara hér út í? Er ekki holt undir þeim málflutningi að stjórnarskrárvarin réttindi þingmanna hér í þessari stofnun séu þrándur í götu vinnubragða þegar svona stendur á? Er það ekki dálítið hættulegur málflutningur, hæstv. fjmrh., að skjóta sér á bak við það að slíkt sé svo tímafrekt og seinlegt að það gangi ekki? Munurinn á að kalla þingið saman og setja hér lög með venjulegum hætti og hinu að grípa til bráðabirgðalaganna er náttúrlega ærinn þegar horft er til þeirrar áhættu sem framkvæmdarvaldið tekur með því annars vegar að leggja fram frv. á þingi og leita eftir stuðningi við það samkvæmt venjulegum aðferðum þingræðisins en hins vegar að taka lögin í eigin hendur.