Kjaradómur

12. fundur
Miðvikudaginn 02. september 1992, kl. 19:04:21 (262)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og mér datt nú í hug, þá er þetta sjálfsagt meira til gamans en í alvöru en þó verð ég að segja að það skiptir ekki máli hver ráðherrann er. Það verður stundum að treysta þeim sem fer með völdin ef hann starfar á grundvelli laga sem þingið setur. Um það snýst þetta mál og þess vegna skiptir ekki máli hvort sá sem hér stendur er ráðherra eða einhver annar. Til að mynda skipti ég ekki um fulltrúa fjmrh. í Kjaradómi sem nú situr heldur var áfram sá sem skipaður var af forvera mínum.
    En aðalatriði málsins varðandi Kjaradóm samkvæmt nýjum hugmyndum, er að þar myndar Hæstiréttur ekki meiri hluta, ekki heldur fjmrh. né aðrir, og ástæðan er sú að það kann að vera erfitt fyrir Hæstarétt að skipa meiri hluta í Kjaradóm sem síðan á að ákvarða Hæstarétti sjálfum laun og þess vegna var farin þessi leið sem hv. þm. er nú að gagnrýna. Ég hugsa að þegar hann skoðar málið betur, þá skilji hann að það eru full rök fyrir því að koma fram með þessa tillögu þótt ég sé auðvitað, eins og vonandi aðrir alþingismenn, opinn fyrir öllum nýjum gáfulegum hugmyndum í þessu máli.