Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 11:35:03 (268)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég hefði kosið að hæstv. utanrrh. væri hér til staðar þegar ég ræddi þetta stóra og mikla mál og vil ég óska eftir því við forseta að hann athugaði hvort utanrrh. sæi sér fært að vera við umræðuna. ( Forseti: Utanrrh. hlýtur rétt að vera að ganga í salinn, en ef hv. þm. vill bíða með að hefja umræðuna þar til hann er kominn þá er henni það að sjálfsögðu heimilt. --- Það er verið að leita að hæstv. utanrrh. Forseti biður hv. þm. að sýna þolinmæði.) Já, virðulegur forseti, ég skal sýna þolinmæði. Vill forseti að ég víki úr ræðustól eða á ég að bíða hér á meðan leitað er að ráðherra? ( Forseti: Hv. þm. getur haft það hvort heldur sem er. --- Hæstv. ráðherra er að koma.)
    Virðulegur forseti. Við erum að ræða stórt og mikið mál sem er frv. til laga um Evrópskt efnahagssvæði en það mál á sér nokkuð langan aðdraganda. Mér þykir í raun dapurlegt að standa hér og ræða aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Ég hafði vonað að þeir sem með þetta mál hafa farið af hálfu ríkisstjórnarinnar og reyndar að bæði fyrri ríkisstjórn og sú sem nú situr hefðu séð að þessi samningur eins og hann er orðinn nú er langt frá því að vera Íslandi til hagsbóta.
    Ef litið er til baka þá má segja að í raun hafi umræða um þetta mál hafist hér á Alþingi þann 9. mars árið 1989. Þá kvaddi ég mér hljóðs utan dagskrár vegna frétta í blöðum um að til stæði að halda fund í Ósló, mig minnir að það hafi verið 17. mars, þar sem ræða átti samskipti Íslands og Evrópubandalagsins. Þá voru fréttir með þeim hætti að ég taldi ástæðu til þess að kveðja mér hljóðs utan dagskrár um þetta mál. Og mig langar, með leyfi forseta, að vitna til þess sem ég sagði þá, nokkrar setningar, en ég rakti það sem komið hafði fram í fréttum og það sem gerði það að verkum að ég kvaddi mér hljóðs var að ég sat þá í utanrmn. og sú nefnd hafði ekki fengið neinar upplýsingar um þetta mál og taldi ég það mjög óeðlilegt. Ég sagði þá, með leyfi forseta:
    ,,Getur verið að okkur Íslendingum sé ætlað að lesa það eftir á að búið sé að skuldbinda okkur í afdrifaríkum málum? Verður fyrir lok næstu viku búið að skrifa upp á það fyrir Íslands hönd að við eigum að vera þátttakendur í sameiginlegum markaði þar sem landið yrði opnað fyrir erlendu fjármagni í áður óþekktum mæli? Er hugsanlegt að forsrh. verði boðið að skrifa undir yfirlýsingu um einhvers konar yfirþjóðlega ákvarðanatöku á vettvangi EFTA?``
    Hæstv. þáv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, svaraði þessu þannig, mjög afdráttarlaust. Hann sagði, með leyfi forseta:
    ,,Mér þykir satt að segja vænt um að geta svarað hv. fyrirspyrjanda með ákveðnu nei-i við þeim spurningum sem hún bar fram í lok sinnar ræðu. Ekkert af því sem hún nefndi þar er á dagskrá. Ekkert slíkt verður undirritað á Óslóarfundinum.`` --- Svo bætir hann við: ,,Í raun og veru gæti ég látið þar máli mínu lokið, . . .  `` --- Að vísu hélt hann nokkuð langa ræðu og lýsti m.a. þeim fyrirvörum sem hann teldi að þyrfti að gera á Óslóarfundinum sem hann og gerði og hefur margoft verið vitnað til þeirra orða og ætla ég ekki að fara að endurtaka það hér. En ég verð að viðurkenna það að ég tók mark á þessum orðum og taldi að ekki væri hætta á ferðum vegna þessara fyrirvara sem þarna voru gerðir og tók ég það fram í lok ræðu minnar á þessum tíma.
    En frá því að þetta var hefur stöðugt hallað undan fæti. Fljótlega var ljóst að forsrh. réð ekki ferðinni í þessu máli. Það voru Jónarnir tveir sem réðu ferðinni. Þáv., og reyndar núv. líka, iðnrh. sagði skömmu eftir fundinn á fundi hjá Félagi ísl. iðnrekenda að Óslóaryfirlýsingin væri fyrirvaralaus af Íslands hálfu og sagði þá í raun forsrh. stríð á hendur.
    Margoft kom þetta mál upp hér á Alþingi við mörg tækifæri og forsrh. endurtók alltaf þessa fyrirvara en Jónarnir héldu alltaf hinu fram. Forsrh. þáv. var margbent á þetta en hann virtist trúa því að fyrirvörum hans væri haldið til haga. En nú verður veruleikinn ekki umflúinn. Samningurinn liggur á borðinu og Alþingi Íslendinga getur ekki breytt stafkrók. Það er spurning hvort við hér á löggjafarsamkundunni fáum að bæta úr augljósum þýðingarvillum, hvað þá meira.
    En það voru fleiri en forsrh. sem voru andvaralausir á þessum tíma. Einnig Alþb. lét utanrrh. teyma sig á asnaeyrunum þrátt fyrir allar upprifjanir nú um fyrirvara af þess hálfu. Í raun var það bara Kvennalistinn sem lýsti sig andvígan þeirri leið sem þarna var valin. Þá strax, reyndar eftir að raunverulegar viðræður hófust, lýstum við kvennalistakonur því margoft yfir á Alþingi að það hefði frekar átt að fara í tvíhliða viðræður og mæltum með því margoft að farið yrði frekar í tvíhliða viðræður en að farið yrði í þessa samninga um Evrópskt efnahagssvæði.
    Mér þykir þess vegna mjög sérkennilegt að heyra hv. 8. þm. Reykn., Ólaf Ragnar Grímsson, láta sem það sé hans hugmynd að fara í tvíhliða viðræður við EB og virðist hann hafa gleymt því að aðrir hafi komið með þá hugmynd á undan honum. Meira segja hefur hann gengið svo langt að túlka niðurstöður

skoðanakönnunar sem hér hefur verið gerð að umtalsefni sem stuðning við sig og Alþb. Það var nefnilega því miður ekki hægt að fá stuðning Alþb. við tvíhliða viðræður á þeim tíma þannig að mér þykir mjög sérkennilegt að túlka þær niðurstöður sem nú hafa komið fram í skoðanakönnun sem stuðning við Alþb. Það er hvorki stuðningur við Alþb. né aðra flokka, þetta eru stuðningsmenn allra flokka sem telja að fremur ætti að fara í tvíhliða viðræður en að staðfesta þennan EES-samning sem nú er ætlast til að við gerum.
    Það er rétt að rifja það upp að pólitískur aðgöngumiði að þessum samningum var krafan um fríverslun með fisk sem fól í sér tollfrelsi með allan fisk og að styrkir Evrópubandalagsins við sjávarútveginn yrðu lagðir af. Þetta hefði auðvitað falið í sér að Evrópubandalagið hefði orðið að láta af sinni fiskveiðistefnu eða sjávarútvegsstefnu sem felst m.a. í því að fyrirtæki þar í landi, fiskvinnslufyrirtæki t.d., eru mjög mikið styrkt og öll fyrirtæki í þessari atvinnugrein. Það hefði auðvitað skipt mjög miklu máli fyrir Ísland að þetta hefði fengist fram og auðvitað var þetta gert að aðalatriði í þegar upphafi og túlkað sem sérstakur sigur af hálfu Íslendinga að fá aðrar EFTA-þjóðir til að skrifa upp á þessa kröfu. Minnist ég þess sérstaklega þegar forsrh. og utanrrh. komu heim frá Ósló í mars 1989. Þá voru viðtöl við þá í fjölmiðlum þar sem þeir lýstu þessu sérstaklega yfir og þarna var um gífurlegan sigur að ræða að þeirra mati. En auðvitað fór það svo að EB hafnaði þessu þegar á reyndi í samningaviðræðunum og kom það kannski engum á óvart og var margoft talað um á sínum tíma að þetta væru tálvonir einar.
    Það er hins vegar einkar athyglisvert nú að þegar samningurinn liggur fyrir er reynt að gera þá niðurfellingu á tollum sem þó fékkst fram að aðalatriði, en svo gott sem það er þá er hinu ekki haldið til haga hvaða verði þetta var keypt. Veiðiheimildir, þ.e. veiðiheimildir gegn niðurfellingu á tollum, það er það sem kemur út úr þessum samningum, sem er auðvitað algjör stefnubreyting af hálfu Íslendinga.
    Það er reynt að halda því fram að í stað þeirra 3.000 tonna af karfa, sem EB krefst að fá að veiða innan íslenskrar lögsögu, eigi Ísland að fá að veiða 30.000 tonn af loðnu á Grænlandsmiðum. Þetta er auðvitað blekking ein og hefur nú verið afhjúpað margoft því í fyrsta lagi hefur Evrópubandalagið ekki getað veitt nokkra loðnu við Grænland, ef ég man rétt, frá 1986, þannig að EB er þarna að bjóða hluti sem eru langt frá því að vera fastir í hendi, auk þess sem ég veit ekki betur en að sjávarútvegssamningur milli Grænlands og EB renni út í lok ársins 1993. Ég átta mig því ekki á hvers vegna reynt er að halda því fram að þarna sé um einhverjar raunverulegar veiðiheimildir að ræða. Þetta er bara blekking til þess að láta menn trúa því að þarna sé ekki um eftirgjöf af hálfu Íslendinga, þ.e. að við séum að gefa eftir veiðiheimildir fyrir aðgang að mörkuðum. En þessi krafa EB, þ.e. að fá aðgang að okkar auðlindum fyrir aðgang að mörkuðum, hefur auðvitað verið á borðinu allan tímann og þeir hafa aldrei gefið sig með hana.
    Þegar að þessu atriði var vikið í umræðunum utan dagskrár þann 9. mars 1989, sem ég vitnaði til áðan, þá líkti utanrrh. þessum viðvörunum mínum og reyndar annarra þingmanna sem til máls tóku í umræðunni við leikrit. Væntanlega til að undirstrika hversu fáránlegar þessar áhyggjur okkar væru. Hann sagði þá m.a., með leyfi forseta:
    ,,Eitt af leikritum Shakespeares heitir Mikill asi út af engu og stundum er reynt að setja svoleiðis stykki á svið á hinu háa Alþingi. Það getur verið skemmtilegt, en tilgangur þessarar umræðu er ekki að skemmta heldur að skýra.
    Nú vil ég hafa það skýrt að ég hef hvergi sagt að Íslendingar ættu að taka upp þá stefnu í samskiptum við Efnahagsbandalagið að bjóða upp á veiðiheimildir í skiptum fyrir tollfríðindi. Það hef ég hvergi sagt, hvergi nokkurs staðar. Ég hef ekki boðað neina stefnubreytingu í því efni.`` --- Síðar segir hann reyndar: ,,Eru einhverjar slíkar kröfur uppi af hálfu Efnahagsbandalagsins? Og við höfum fengið það staðfest að svo er ekki um hinar gömlu þjóðir sem veiddu hér við Ísland.`` --- En síðan segir hann, eftir að hann er búinn að telja þær upp: ,,Það á hugsanlega við um Spánverja sem hafa einhvers staðar á blaði að þeir óski eftir 3.000 tonnum í veiðiheimildum.``
    Ég endurtek: Að Spánverjar hafi einhvers staðar á blaði að þeir óski eftir 3.000 tonnum í veiðiheimildum. Kannast nokkur við þessi 3.000 tonn nú þremur árum síðar? Er það asi út af engu sem veldur áhyggjum okkar hér á Alþingi í dag?
    Síðan endurtekur ráðherrann í lok ræðu sinnar, með leyfi forseta, þann 9. mars:
    ,,Það verður að vera alveg skýrt að það hefur enginn boðað stefnubreytingu í þessum málum, enginn. Þetta mál snýst eingöngu um það að loka ekki fyrir viðræður, að lýsa sig reiðubúinn að hlusta á þessar óskir ef þær eru einhverjar, meta þær síðan ef þær væru einhverjar.``
    Þarna segir ráðherrann mjög skýrt að ekki komi til greina að veita aðgang að fiskimiðum Íslendinga fyrir aðgang að mörkuðum. En það er einmitt það sem liggur nú á borðinu. Að vísu er óvíst hvernig málinu lyktar því að enn liggur enginn sjávarútvegssamningur fyrir. EB hefur gert þá kröfu að hann verði að liggja fyrir annars muni EES-samningurinn ekki verða staðfestur af þeirra hálfu. Eitthvað telja þeir sig þarna hafa fast í hendi en ekki að Íslendingar hafi fengið allt fyrir ekkert. En það verður að hafa í huga að kjarninn í samningnum er ekki akkúrat þetta. Þótt fríverslun hefði fengist með fisk, eins og talað var um í upphafi, er samningurinn með öllu óaðgengilegur fyrir okkur. Aðalatriði þessa samnings eru þau víðtæku ákvæði um svokallað fjórfrelsi þar sem u.þ.b. 400 millj. manna svæði er gert að einum markaði án landamæra fyrir vöru, þjónustu, fjármagn og vinnuafl. Okkur er ætlað að gera lög og reglur Evrópubandalagsins að okkar, ekki bara eins og þau standa nú heldur eins og EB þóknast að móta lög og reglur í framtíðinni. Það er kannski eitt það alvarlegasta í málinu.
    Fyrr í umræðunni sagði hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, sem er varaformaður utanrmn., eitthvað á þá leið að það mætti halda af umræðunni að Ísland væri að ganga í EB með því mikla valdaafsali sem í því felst. Hv. þm. er ekki til staðar nú og ef ég man rétt þá hefur hún fjarvistarleyfi og getur því ekki hlýtt á mál mitt. En ég vildi einmitt segja að með aðildinni að Evrópsku efnahagssvæði erum við einmitt, ekki bara að taka fyrsta skrefið, heldur annað skrefið inn í EB og þá er einungis þriðja skrefið eftir. Við erum að stórum hluta að ganga inn í Evrópubandalagið og ég er alveg viss um að þeir sem ákafast keppa inn í Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. Alþfl., munu alls ekki láta stöðvast við það heldur ætla þeir að ganga alla leið.
    Lítum aðeins nánar á þá þætti sem í þessum samningi felast. Ég tek aðeins örfáa þætti því að áður hafa mjög margir þættir verið gerðir að umtalsefni og ætla ég ekki að dvelja lengi við það sem aðrir hafa skýrt mjög skilmerkilega.
    Mikið hefur verið gert úr því að þetta muni verða svo heppilegt fyrir Íslendinga, ekkert atvinnuleysi muni verða, allir vegir verða okkur opnir til að leita út fyrir landsteinana eftir atvinnu á svæðinu. Vel getur verið að ekkert hindri okkur í að fara út og leita okkur að vinnu. En spurningin er: Getum við fengið einhverja vinnu? Undanfarið ár hefur atvinnuleysi hér á landi aukist verulega og það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur. En við verðum að hafa í huga að atvinnuleysi í Evrópubandalagsinu er miklu meira en atvinnuleysið hér. Og það sem meira er, atvinnuleysi hér á landi er miklu meira meðal kvenna en meðal karla og það sama gildir í Evrópubandalaginu. Að meðaltali er atvinnuleysi hjá konum --- reyndar hef ég ekki alveg nýjustu tölur --- en það er að meðaltali um 12% en um 7% hjá körlum. Þetta er auðvitað nokkuð misjafnt eftir löndum en alls staðar er ástandið þannig að atvinnuleysi hjá konum er miklu meira en meðal karla.
    Hvernig blasir þetta mál þá við gagnvart konum? Er líklegt að atvinnulausar konur á Íslandi fari til landa Evrópska efnahagssvæðisins og gangi þar inn í hvaða vinnu sem þær kjósa? Það hljóta allir að sjá að þetta gengur auðvitað ekki.
    Í atvinnuleysi eykst þrýstingurinn á konur að fara út af vinnumarkaðnum. Maður finnur fyrir því hérna heima og það er enn þá meira áberandi í Evrópubandalagslöndunum þar sem það er eiginlega viðurkennt meðal ráðamanna að þegar að þrengir eigi konur að fara út af vinnumarkaðnum og ekkert er gert til að auðvelda þeim að vera á vinnumarkaði. Fyrirvinnuhugtakið er ansi lífseigt og þá er það í hugum margra að það séu karlarnir sem eigi að vera fyrirvinnur. Þetta bitnar auðvitað langmest á konum og er langt frá því að nokkur von sé til að þær geti farið héðan til að leita sér að vinnu. Það gildir auðvitað líka um karla en þetta gildir sérstaklega um konur þar sem atvinnuleysi meðal þeirra er alls staðar meira en meðal karla.
    Atvinnuleysið gerir það líka að verkum --- það hefur sýnt sig bæði hér á landi og einnig í EB-löndum --- að samdráttur verður í þjónustustörfum á landsbyggðarsvæðum og það verður meiri flutningur kvenna frá dreifbýlisstöðum til þéttbýlisstaða. Þetta er áberandi bæði hér á landi sem og í Evrópubandalagslöndunum. Þar sem fjölskyldupólitíkin innan EB byggist frekar á því að karlmenn séu fyrirvinnur og konur eigi að vera heima og gæta barna og sjúkra þá er enn nauðsynlegra fyrir íslenskar konur að reyna að gera sér grein fyrir hvaða áhrif aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu hefði á þær sérstaklega. Ég vil minna á að á síðasta þingi fluttu þingkonur Kvennalistans þáltill. sem fólst í því að kanna sérstaklega hvað aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði hefði á stöðu kvenna.
    Þeir sem tala um ágæti þessa samnings hafa mikið gert úr því að nú geti fólk farið hvert sem er í Evrópu og leitað sér að vinnu. Ef maður horfir fram hjá atvinnuleysinu og vonar að það muni einhvern tímann batna er spurning hvort þetta mikla frelsi til að fara á milli landa og afla sér atvinnu sé mjög hagstætt fyrir konur sérstaklega. Það er alkunn staðreynd að konur eiga miklu erfiðara með að leita um langan veg vegna fjölskylduaðstæðna, þær eru yfirleitt miklu bundnari börnum, bundnari foreldrum sínum, sérstaklega þegar þeir fara að eldast, og ef um sjúkleika er að ræða þá eru þær yfirleitt miklu bundnari við það fólk sem minna má sín. Konur taka líka yfirleitt miklu meira tillit til þess að börnum sé erfitt að flytjast oft milli skóla. Við á Íslandi verðum auðvitað að taka með í reikninginn að atvinnuþátttaka kvenna hér á landi er miklu meiri en kvenna í löndum EB og það hlýtur að hafa einhver áhrif á vinnumarkaðinn. Óhjákvæmilegt er að það hefur áhrif á stöðu kvenna.
    Einnig ber að hafa það í huga að mjög mikið hefur færst í vöxt í löndum Evrópubandalagsins að konur séu í tímabundinni vinnu og hlutastörfum. Það er því í vaxandi mæli hlutskipti kvenna innan EB að vera ekki í fullu starfi og er áætlað að um 70--90% þeirra sem eru í slíkri vinnu séu konur. Þetta er sérstaklega mikið áhyggjuefni þar sem fólk sem er í hlutastörfum hefur ekki sama rétt og sömu réttindi á vinnumarkaði í þessum löndum og þeir sem eru í fullu starfi. Það gilda ekki sömu reglur og gilda hér á landi. Þá er það spurningin: Munum við þurfa að breyta löggjöf okkar að því er þetta varðar eins og reyndar hefur komið fram og hefur verið talað um að þyrfti að gera til að samræma það þessum reglum? Þá er óhjákvæmilegt að konur á Íslandi munu ekki njóta sama öryggis á vinnumarkaði og karlar. Þetta finnst mér vera mjög alvarlegt mál og hafa konur ekki síst haft verulegar áhyggjur af þessu.
    Launamál eru líka verulegt áhyggjuefni. Eins og við vitum er það svo hér á landi að konur hafa aðeins um 60% af þeim launum sem karlar hafa að meðaltali. Þetta er ósköp svipað og gildir í Evrópubandalagslöndunum, að vísu ekki öllum því Danmörk er þar undanskilin. En annars staðar á Norðurlöndum er munurinn miklu minni. Því hefur verið haldið á lofti að í lögum Evrópubandalagsins séu ákvæði um launajafnrétti sem sett voru inn árið 1975 og þetta hefur oft verið dregið fram í umræðuna og talað um að sé konum mjög til framdráttar. En því miður hafa þau ákvæði í lögum að hér eigi að ríkja jafnrétti til launa og reyndar jafnrétti til allra hluta ekki reynst konum neitt haldreipi. Kannski verður að hafa í huga að þetta launajafnréttisákvæði, sem kom inn í lög Evrópubandalagsins 1975, kom inn vegna þrýstings frá Frökkum. Þeir töldu að kynjajafnrétti væri meira hjá þeim en í öðrum aðildarlöndum og vegna samkeppnisstöðunnar töldu þeir nauðsynlegt að hafa slíkt ákvæði í lögunum innan Evrópubandalagsins því að þeir voru að hugsa um samkeppnisstöðu fyrirtækja sinna en ekki að setja þetta inn vegna umhyggju fyrir konum. Það er kannski þess vegna sem þetta hefur því miður ekki reynst konum til framdráttar.
    Aðild að EES mun því væntanlega ekki breyta þessum málum fyrir konur, þær verða að sækja þetta mál hér innan lands en ég óttast þó að það muni verða þeim erfiðara þegar við verðum orðinn hluti af svo stórri heild sem ætlunin er að við verðum.
    Einnig ber að hafa í huga að verkalýðshreyfingin innan Evrópubandalagsins er mjög veikburða. Aðeins um 20% launamanna eru í verkalýðsfélagi og það gæti hugsanlega leitt til aukins kynbundins launamunar þótt það sé auðvitað ekkert gefið, a.m.k. miðað við þá reynslu sem við höfum á Íslandi af verkalýðshreyfingunni, að hún berjist sérstaklega fyrir konur en þá er kannski eina leiðin sem konur hafa að krefjast hærri launa í kjarasamningum.
    Ég vil vekja athygli á því að í fréttabréfi ASÍ er einmitt fjallað um þetta atriði, þ.e. launamálin. Ég vil, með leyfi forseta, lesa nokkrar línur upp úr því, ekki síst vegna þess að gífurleg áhersla hefur verið lögð á það að ekki megi greiða erlendum aðilum lægri laun en innlendum þegar þeir eru hér í vinnu. Menn hafa sagt að þar með sé engin hætta á að flutt verði inn fólk, vinnuafl, og því greidd miklu lægri laun en Íslendingum. Þá langar mig að lesa úr Fréttabréfi ASÍ frá 2. júní 1992 en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,ASÍ hefur miklar áhyggjur af því að opnun vinnumarkaðarins geti falið í sér hættu á undirboðum hvað varðar laun og réttindi. Nauðsynlegt er að tryggja með innlendri lagasetningu og öðrum aðgerðum að slíkt geti ekki gerst.`` --- Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að ekkert hefur bólað á neinum slíkum lagasetningum eða frv. til laga að því er þetta varðar. Svo segir áfram:
    ,,Eitt af því sem einkennir almenna vinnumarkaðinn hér á landi er að í mörgum tilfellum er langt bil á milli umsaminna taxta og raunverulega greiddra launa. Núgildandi lög um starfskjör launafólks kveða á um að samningar á milli aðila vinnumarkaðarins skuli gilda sem lágmark fyrir alla vinnu sem unnin er hér á landi. Þetta býður þeirri hættu heim að aukið frelsi útlendinga til að starfa hér á landi verði til þess að laununum verði þrýst niður að taxtakaupi. Við slíkt verður ekki unað og því er nauðsynlegt að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir það.``
    Þarna hittir kannski þessi samningur aðila vinnumarkaðarins, þ.e. Alþýðusambandið, fyrir þar sem það er auðvitað alkunna að það eru raunverulega tvö launakerfi gildandi í landinu, þ.e. taxtalaunin og síðan allar yfirborganirnar. Þess vegna eru áhyggjur manna svo miklar yfir því að launin muni verða lægri hjá erlendu verkafólki sem flutt yrði til landsins. Þetta vildi ég taka fram, virðulegur forseti, vegna þess að mér finnst margir hafa lagt sérstaka áherslu á þetta atriði og að þarna megi ekki mismuna í launum. Það eru þarna leiðir út úr því ef menn, þ.e. atvinnurekendur, e.t.v. erlendir aðilar sem koma hér til að taka að sér ákveðin verk, t.d. verktakar, flytji með sér vinnufólk og þar með muni þetta tvöfalda launakerfi verða til þess að þetta fólk verði hlunnfarið í launum.
    Mikil áhersla hefur verið lögð á það að í samningnum sé yfirlýsing frá íslenskum stjórnvöldum varðandi öryggisfyrirvarann. ASÍ bendir á í fréttabréfi sínu að upphaflegir fyrirvarar Íslands náðust ekki að því er varðaði takmörkun innstreymis erlends vinnuafls. Þeir óttast að fyrirvarinn sem er af hálfu Íslands varðandi þetta mál sé nánast haldlaus. Verð ég að lýsa því hér að ég tel það einnig vera. Hins vegar vil ég taka fram að ég sjálf hef ekki verulegar áhyggjur af því að hér verði mjög mikið innstreymi vinnuafls og einhver ástæða sé til að taka þennan fyrirvara sérstaklega fyrir. Ég held hins vegar að það geti verið hætta á því að þó innstreymi vinnuafls verði mjög lítið þá muni það því miður geta haft áhrif á laun á vinnumarkaðnum.
    Eitt atriði sem ég vil einnig taka fram vegna þessa samnings er að í Evrópubandalaginu er 14 vikna lágmarksfæðingarorlof. Mjög margar konur óttast að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, og svo í framhaldi að Evrópubandalaginu, muni leiða til styttingar á fæðingarorlofi í þeim löndum þar sem það er lengra. Þetta getur verið mjög gott fyrir konur þar sem fæðingarorlof er styttra en 14 vikur. En það getur hitt konur illa þar sem fæðingarorlof er þó lengra. Fæðingarorlof á Íslandi er einungis sex mánuðir sem er þó allt of stutt en á Norðurlöndum er það miklu lengra og þar sérstaklega óttast konur samruna við þessi ríki sem eru með svona stutt fæðingarorlof.
    Annað atriði sem einnig er vert að hafa í huga og snertir kannski konur sérstaklega er að velferðarkerfið er veikara í flestum EB-ríkjum en hér á landi og þó reyndar sé mjög að því sneitt nú á síðustu tímum, þá er það þó þannig að það er veikara í EB-ríkjum. Ég óttast sérstaklega að aðlögun að því kerfi sem þar ríkir muni geta leitt til þess að enn þá erfiðara verði með sóknarfæri varðandi velferðarkerfið og það muni hitta konur miklu verr fyrir en karla. Alkunna er að konur eru almennt háðari velferðarkerfinu vegna stöðu sinnar innan fjölskyldunnar.
    Skattlagning fyrirtækja er minni í EB en hér á landi og mun samræming á samkeppnisstöðu fyrirtækja leiða af sér lækkun skatta á þeim ef það yrði gert og maður heyrir að sú krafa er mjög hávær meðal fyrirtækja að það verði gert. Auðvitað þyrfti slík samræming að eiga sér stað að einhverju leyti óháð því hvort við gerðumst aðilar að EES eða ekki. Hingað til hefur ekki verið lögð fram nein áætlun um lækkun skatta á fyrirtækjum og því er ekki ljóst hvort á að lækka skatta á fyrirtækjum og að skera enn þá frekar niður í velferðarkerfinu en þetta er auðvitað sá þáttur sem konur verða sérstaklega að vera vakandi fyrir. Það hefur sýnt sig að þar sem hámarksgróði og aukinn hagvöxtur er höfuðmarkmið lúta jafnréttissjónarmið í lægra haldi og lítið tillit er tekið til barna og þeirra sem eldri eru og veikburða. Afleiðingar slíkrar stefnu bitna frekar á konum en körlum. Því þarf ekki að koma á óvart að konur eru fjölmennari í hópi þeirra sem efast um ágæti aðildar að Evrópubandalaginu og þeirrar stefnu sem þar er ríkjandi. --- Nú langar mig til þess að vita, virðulegi forseti, hvort utanrrh. hefur tekið sér hádegisverðarhlé snemma því að ég sé hann hvergi hér og verð ég að viðurkenna það að ég sakna hans mjög. ( Gripið fram í: Hann hlustar úr hliðarherbergi.) Jæja, það var mikið gott. Mig langaði til að benda hæstv. ráðherra á þessar staðreyndir varðandi konur sérstaklega og ekki síst í ljósi þess að konur á Norðurlöndum --- og ekki síður konur í flokkum sósíaldemókrata, og þá nefni ég sérstaklega Svíþjóð af því að þar eru þær mjög virkar --- eru andsnúnar því að t.d Svíþjóð gangi í Evrópubandalagið, það eru konur og unga fólkið innan þessara flokka sem hafa þó lýst yfir stuðningi við inngöngu Svía í Evrópubandalagið og ástæðan er einmmitt þessi sem ég hef hér verið að tíunda og sama gildir auðvitað einnig um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég vil því benda hæstv. ráðherra á þessar staðreyndir og að hann taki þær með þegar hann er að meta og vega þetta mál að það eru mjög miklar líkur á því --- og það er mat flestra kvennahópa sem hafa farið ofan í þetta mál, ég tek það fram að það er ekki allra, ég segi flestra --- að sú stefna sem á að vera ríkjandi á Evrópska efnahagssvæðinu mun hitta konur verr fyrir en karla. Þetta verður að taka mjög alvarlega að mínu mati.
    Ég vil ekki hverfa frá þessu án þess að minnast aðeins á það kerfi sem við erum að fara út í, þ.e. sem miðað er við að þarna verði tekið upp. Það stjórnkerfi, sem þarna er, er mjög ólýðræðislegt og andstætt því að almenningur og þá sérstaklega konur geti haft þar áhrif. Auðvitað er alkunna að áhrifa kvenna gætir allt of lítið í heiminum almennt og gildir þar einu um hvers konar stjórnskipulag er að ræða. En menn eru nú að gera sér í auknum mæli grein fyrir því að ef takast á að snúa mannkyninu af braut þeirrar sjálfseyðingar sem það er nú á verður að veita sjónarmiðum kvenna hlutdeild í stjórn samfélagsins. Það stjórnkerfi sem er við lýði í EB tekur ekki mið af þessum sjónarmiðum og það gildir líka um það stjórnkerfi sem á að vera við lýði í EES að þar nýtur sjónarmiða kvenna mjög lítið. Konur eru fáar í æðstu stöðum hvort sem um er að ræða embættismannakerfið eða pólitíska kerfið. Að vísu er ekki komið í ljós hversu margar konur verða hjá EFTA en almennt má segja að í miðstýrðum kerfum eins og þarna er um að ræða er hlutur kvenna fyrir borð borinn og gildir þá einu hvort hagkerfið er kennt við frjálsan markað eða sósíalisma. Konur hafa mest áhrif þar sem einingarnar eru minni og valddreifing er höfð að leiðarljósi. Hugmyndafræði að baki EB og EES er því langt frá því að taka mið af þörfum kvenna. Stjórnkerfið er þar bæði miðstýrt og ólýðræðislegt. Ég held að það eigi eftir að koma í ljós að þó að ég taki sérstaklega konur fyrir að almenningur muni smám saman gera sér grein fyrir því að þó að erfitt sé að hafa áhrif í því stjórnkerfi sem við búum við hér á Íslandi þá verður það enn þá verra ef við eigum að láta þetta yfir okkur ganga. Einnig mun útfærslan á þessum innri markaði og fjórfrelsinu leiða til mjög harðnandi samkeppni á öllum sviðum, ekki bara milli markaðssvæða og ef maður talar um Japan og Bandaríkin þá og EB heldur einnig innan svæðisins og það mun leiða til þess að staða þeirra, sem standa höllum fæti, verður fyrir borð borin, bæði í atvinnulífinu og á meðal einstakra þjóðfélagshópa. Einnig er áhyggjuefni að jaðarbyggðir munu eiga í vök að verjast og ætla ég ekki að ræða það neitt sérstaklega en úttektir hafa verið gerðar á því hér á landi að landsbyggðin mun fara miklu verr út úr þessum samningi en höfuðborgarsvæðið nokkurn tíma þó að það muni auðvitað vera nógu erfitt fyrir þéttbýlissvæðin líka.
    Mér hefur fundist einkar athyglisvert, virðulegur forseti, að fylgjast með því hvernig hæstv. utanrrh. hefur lagt þetta mál hér fyrir og túlkar einstök ákvæði samningsins. Ég ætla ekki að fara yfir mörg atriði en nokkur atriði sem komu fram í ræðu hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir málinu langar mig til að gera að umtalsefni. Á einum stað tekur hann sérstaklega fram að lögð hafi verið áhersla á það af hálfu fyrrv. ríkisstjórnar að ákveðnir fyrirvarar væru fyrir hendi varðandi samninginn. Mig langar að vitna aðeins til eins, með leyfi forseta, þar sem hæstv. utanrrh. er að vitna í skýrslu sína frá október 1990, þá segir ráðherrann:
    ,,Næst tók ég fram að eignarhald erlendra aðila að íslenskum náttúruauðlindum yrði ekki umsemjanlegt, að varnaglaákvæði yrðu sett um frjálsan atvinnurétt og að ekki yrði slakað á kröfum um öryggi, hollustuhætti og umhverfisvernd.`` Og svo segir hann: ,,Árangurinn liggur nú skjalfestur á borðum hv. alþingismanna.``
    Þetta þótti mér einkennilegt. Árangurinn liggur nú skjalfestur á borðum alþingismanna, og hann fullyrðir að þar hafi öllum fyrirvörum verið haldið til haga. Auðvitað er alls ekki rétt að það sé til þess að eignarhald erlendra aðila að íslenskum náttúruauðlindum yrði ekki umsemjanlegt. Það voru eingöngu fyrirvarar að því er varðaði sjávarútveginn, það voru og eru engir fyrirvarar í samningnum að því er varðar aðrar náttúruauðlindir, landferskt vatn, jarðhita, fallvötnin, ár og vötn og veiðar í þeim. Engir fyrirvarar eru

í samningnum að því er það varðar þannig að það er alls ekki rétt að öllum fyrirvörum hafi verið haldið til haga sem talað var um hér á fyrri árum. Það er mikið langt frá því.
    Hjá honum kom líka fram í umræðunni að það ætti að leggja fram hér frv. um jarðhitaréttindi og vatnsréttindi og fleiri atriði. Ekkert hefur komið fram um það og margir efast meira að segja um að nokkur leið sé að setja neitt ákvæði í lög um að hægt sé að koma í veg fyrir að erlendir aðilar eignist hér náttúruauðlindir. Ég vil minna ráðherrann á að þetta var eitt af því sem talað var um fyrr á árum að væri algert grundvallaratriði. Ráðherrann hélt því alla tíð fram að ekkert mál væri að setja girðingar í lög og mig langar, virðulegur forseti, að vitna aðeins til viðtals sem birtist í Degi laugardaginn 22. ágúst við hv. þm. Tómas Inga Olrich þar sem hann segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Það vekur hins vegar athygli að landið sjálft var ekki álitið vera auðlind sem standa ætti vörð um með sama hætti því að fyrirvarar um landakaup gufuðu upp í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þetta er verulegur galli í samningnum frá mínum sjónarhóli.``
    Ég er honum alveg sammála. Þetta er verulegur galli í samningnum, einnig frá mínum sjónarhóli, og það held ég að gildi um miklu fleiri. En því var alltaf haldið fram, bæði hér á Alþingi og annars staðar, að fyrirvarar væru í samningnum, þ.e. það væri ekkert mál að setja svokallaðar girðingar í lög. Ég var ein af þeim sem þreyttist aldrei á að segja hæstv. ráðherranum að ekki mætti mismuna eftir þjóðerni og ekki væri hægt að setja neinar girðingar í lög sem mundu koma í veg fyrir að erlendir aðilar gætu eignast hér það land sem þeir kærðu sig um með öllum þeim hlunnindum sem þar væru nema þá við ætluðum að útiloka Íslendinga frá því einnig. Ég man ekki betur en að í tíð síðustu ríkisstjórnar hafi þáv. landbrh., Steingrímur J. Sigfússon, margoft talað um það hér að hann vildi ekki koma fram með frv. að því er þetta varðar vegna þess að hann vildi að settir yrðu varanlegir fyrirvarar inn í samninginn um að landið væri einnig undanskilið í þessum samningum að því er varðaði fjárfestingar. Talað var um þetta og ég minnist þess sérstaklega að þegar við vorum í umræðuþætti á Stöð 2, það var líklega 30. okt. sl., þá var þetta sérstaklega til umræðu og þá urðu nokkrar deilur milli mín og hæstv. utanrrh. að því er þetta mál varðar þar sem ég hélt því fram að ekki væri heimilt að mismuna á nokkurn hátt að því er varðaði fasteignir nema um yrði að ræða varanlega fyrirvara og tók þar dæmi um ýmsa dóma sem fallið hefðu í því máli. Ráðherrann hélt því fram að þetta væri víst hægt og að dómar hefðu fallið hjá Evrópubandalaginu að því er þetta mál varðar og vísaði meira að segja til þess að hann væri með einn dóm í töskunni sinni og beygði hann sig svo niður og benti á hana. Síðan kom auðvitað í ljós að enginn dómur var í töskunni því að aldrei hafði fallið neinn dómur í þessu máli sem heimilaði að mismuna fólki eftir þjóðerni. Það er ekki hægt. Það kemur einnig í ljós í þessari bláu bók, sem við höfum nú fengið hér, þar sem þeir sem skrifuðu þessa bláu bók komust auðvitað að þeirri sömu niðurstöðu sem átti auðvitað að vera ljós fyrir löngu. Að minnsta kosti átti það að vera ljóst þeim sem áttuðu sig á eðli samningsins að auðvitað yrði ekki hægt að setja neinar girðingar í lög, varanlegir fyrirvarar yrðu að vera í samningnum. Þegar verið er að halda því fram að þetta atriði hafi verið ljóst fyrir fram þá var það alla vega ekki hæstv. utanrrh. ljóst þar sem hann hélt því statt og stöðugt fram að það væri hægt að koma í veg fyrir þetta en síðan auðvitað hafa fleiri sannfærst um að er ekki hægt. Þetta vildi ég rifja upp, virðulegur forseti.
    Ég veit ekki hversu mikið ég á að fjalla um ræðu hæstv. ráðherra. Það hafa margir gert á undan mér og er óþarfi að vera að tíunda þá sömu þætti sem þar hafa verið teknir til. Þó langar mig að minnast á eitt atirði og það er hversu mikið lagasetningarvald er í raun flutt frá Alþingi til ráðherra með þessum samningi. Í 4. gr. frv. um Evrópskt efnahagssvæði segir, með leyfi forseta:
    ,,Ráðherra, sem í hlut á, getur, ef sérstök nauðsyn krefur, sett reglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd EES-samningsins.``
    Þarna fær ráðherra allt það vald í hendur frá Alþingi sem honum sýnist til þess að setja lög og reglur á sínu sviði bara ef það er í anda þessa samnings. Við verðum að minnast þess að samningurinn gerir ráð fyrir því að við verðum að taka fullt tillit til laga og reglna Evrópubandalagsins og þeirra tilskipana sem það gefur út vegna þess að stefnt er að því að þetta verði einsleitt svæði eins og sagt er í samningnum.
    Mig langar að taka dæmi um hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur hugsað sér að þetta muni verða framkvæmt. Ég gríp bara af tilviljun af borði mínu eitt frv. til laga þar sem þetta kemur mjög greinilega fram en það er 28. mál á þskj. 29 þar sem verið er að tala um breytingu á lagaákvæðum varðandi samgöngumál vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu. Mig langar að vekja athygli á því hvernig þetta á að gerast. Þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Samgönguráðherra er heimilt að setja reglur á sviði leiguaksturs með vörur og farþega, að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiða af samningi um Evrópskt efnahagssvæði . . .  `` Síðan kemur áfram og áfram --- ég ætla ekki að taka það allt saman --- en það sama gildir um fólksflutninga- og langferðabifreiðar, sama gildir um siglingar, um eftirlit með skipum, um leiðsögu skipa, reglugerð á sviði hafnamála, á sviði vegamála og um veitinga- og gististaði og um skipulag ferðamála. Það var kannski einmitt þetta síðasta sem mér þótti mjög merkilegt þar sem hæstv. samgrh. hefur hér reynt að fá okkur á Alþingi til að samþykkja breytingar á þessum lögum sem ekki hefur verið samstaða um, en ef þetta verður samþykkt frá þinginu fær hann heimild á einu bretti til að setja reglugerðir og þá á grundvelli þessa samnings sem er svo opinn eins og margoft hefur verið gerð grein fyrir. Ég tel því, virðulegur forseti, algerlega útilokað að samþykkja að Alþingi afsali sér öllu lagasetningarvaldi með þessum hætti og skil ég þá ekki hvers vegna við erum yfirleitt að koma hérna saman ef það er þá rétt til þess að spjalla kannski við ráðherrana, t.d. um einhverja skýrslu sem þeir vilja hugsanlega láta okkur ræða eða láta okkur vita um því að lagasetning verður varla á verksviði Alþingis eftir að þessi samningur verður orðinn að veruleika. Það er þá kannski rétt að taka bara upp gömlu skipanina að við séum hérna nokkrar vikur á sumri og hættum því fyrirkomulagi að Alþingi sitji allt árið sem við erum þó nýbúin að samþykkja. Þetta er því hreinasta fásinna að mínu mati og mér finnst alls ekki koma til greina að Alþingi samþykki frv. eins og það liggur fyrir. Við getum ekki með þessum hætti afhent framkvæmdarvaldinu allt lagasetningarvald.
    Auðvitað væri ástæða til þess að draga fram ótalmargt fleira um þetta mál en það er heldur ekkert útrætt og verður alls ekki útrætt við 1. umr. málsins. Ánægja utanrrh. með þennan langhund, sem hér er verið að reyna að tyggja ofan í Alþingi Íslendinga, leynir sér ekki en ekki er að sjá að þjóðin sé sammála ráðherranum um mat á málinu.
    Ráðherrar Alþfl. fundu upp á því snjallræði snemmsumars að kosta til vandaðrar skoðanakönnunar af almannafé um afstöðu fólks til þessa óskabarns flokksins. Þetta gerðist í beinu framhaldi af þeirri húskveðju sem utanrrh. hafði sent inn á hvert heimili í landinu og þannig átti að verða tryggt að niðurstaðan yrði ótvírætt jákvæð málstað ráðherrans í vil.
    Eitthvað virtist boðskapurinn hafa farið misjafnlega í fólk og lenti þá nýbakaður formaður utanrmn. í úrtakinu. Niðurstaðan varð nefnilega sú að fleiri voru á móti þessum samningi en með honum og þegar niðurstaðan varð ljós stungu ráðherrarnir henni undir stól. Þetta eru alveg forkastanleg vinnubrögð og í raun siðlaust með öllu að ráðherrar Alþfl. skuli leyfa sér slíkt. Síðan kemur hæstv. ráðherra og telur að ekki sé hægt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að vanþekking þjóðarinnar á þessu máli sé svo alger að ekkert þýði að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta þykir mér alveg ótrúlegt. Að vísu sagði hæstv. ráðherra í ræðu sinni að hann teldi að mál væru til sem ætti að bera undir þjóðaratkvæði. En hvaða mál eru það þá ef það er ekki að fara nánast inn í Evrópubandalagið? Hvaða mál eru það sem hæstv. ráðherra telur að séu þannig mál að það sé hægt að bera þau undir þjóðaratkvæði? Ef ekki á að bera samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, sem er stórt skref inn í Evrópubandalagið, undir þjóðaratkvæði, hvenær á þá að gera það? Ég vil gjarnan fá það fram því að hæstv. ráðherra tók ekki fram í ræðu sinni hvenær þessar aðstæður væru og hvaða mál þetta væru sem þarna er um að ræða.
    Ég vil, virðulegur forseti, taka mikið mark á því sem þjóðin segir. Alþingi fær vald sitt frá þjóðinni og það hefur ekkert leyfi til þess að hunsa vilja hennar. Eftir að ráðherrann er búinn að tala á lítilsvirðandi hátt um þekkingu þjóðarinnar, hvað landsmenn viti nú lítið, þá segir hann samt, svona til að draga úr, með leyfi forseta:
    ,,Slíkt er ekkert óeðlilegt því að hann er viðamikill [þ.e. samningurinn] og vex mörgum í augum hér á hinu háa Alþingi þótt grundvallarreglur hans séu út af fyrir sig einfaldar.`` Það er einmitt það sem er málið. Grundvallarreglur þessa samnings eru einfaldar í sjálfu sér og það er einmitt afstaða til þessara grundvallarreglna sem almenningur er að taka. Almenningur er að taka afstöðu til þeirra grundvallarreglna og þegar almenningur áttar sig á þeim, þá hafnar hann þessum samningi. Ég vil minna ráðherrann á það að í fyrra og hittiðfyrra voru skoðanakannanir ekki á þennan veg. Þá voru fleiri sem vildu styðja það að Ísland gerðist aðili að Evrópsku efnahagssvæði, en núna þegar fólk er að gera sér betur grein fyrir hvað þarna er á ferðinni hafnar það honum. Þess vegna er eðlilegt að þjóðin sé spurð álits. Og það hefur ekkert með það að gera að Alþingi sé að fría sig ábyrgð. Í lýðræðisþjóðfélagi er eðlilegt að leita til þjóðarinnar um álit á svo viðamiklu máli sem mun gerbreyta öllu á Íslandi.
    Virðulegur forseti. Ég hef í stuttu máli tekið fyrir fáein atriði í þessu viðamikla máli. Ég hef þó ekki tekið fyrir ýmsa þætti sem ég hefði þó gjarnan viljað gera að umtalsefni. Ég hef t.d. ekki gert að umtalsefni hvaða áhrif þessi samningur muni hafa fyrir iðnaðinn en það er eins og gífurleg áhersla sé lögð á það að iðnaðurinn muni hagnast mest á þessum samningi. Þetta er auðvitað út í bláinn í ljósi þess að strax með viðskiptasamningi Íslands og Evrópubandalagsins frá 1972 varð fríverslun með iðnaðarvörur og það breytist auðvitað ekkert með þessum samningi. Hins vegar geta auðvitað nokkrir þættir breyst að því er varðar iðnaðinn en það er alls ekki ljóst að það sé honum til hagsbóta það sem þarna er á ferðinni. Ég ætlaði því að geyma mér ýmsa þætti þessa máls. Þá hef ég heldur ekki gert að umtalsefni það sem ég hefði gjarnan viljað nota meiri tíma til, þ.e. þann þátt samningsins sem snýr að umhverfismálum. Ég tel að veruleg hætta sé á því að öll sóknarfæri í umhverfismálum verði mjög erfið og nánast útilokað fyrir almannasamtök að hafa áhrif í gegnum þetta viðamikla kerfi sem þarna á að koma upp. Æ fleiri gera sér ljóst að með þeirri stefnu sem er fylgt innan Evrópubandalagsins og reyndar víðar mun heimurinn aldrei lifa af í mörg ár og við munum tortímast. Ég tel að miklu erfiðara verði að breyta þessu innan þessa stóra kerfis, þ.e. Evrópubandalagsins, og það sé miklu farsælla að við reynum í þeim málum að hafa samvinnu við allar þjóðir en ekki eingöngu 18 þjóðir á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ég hef í stuttu máli tekið fyrir fáein atriði í þessu viðamikla máli sem enginn flokkur á Alþingi vill í raun bera ábyrgð á nema kannski Alþfl. Það vill nefnilega enginn kannast við afkvæmið. Málflutningur sjálfstæðismanna gengur ekki síst út á það að kenna fyrri ríkisstjórn krógann og hinna að sverja hann af sér. Það er kominn tími til að menn skoði samninginn og taki afstöðu til hans eins og hann liggur fyrir óháð því hverjir það voru sem utanrrh. tókst að draga með sér út í foraðið. Aðalatriðið er að menn átti

sig á að ekki er of seint að snúa við, enda landtakan hinum megin með öllu óviss.
    Rétt er að hafa í huga að EB er ekki allur heimurinn eins og ætla mætti af málflutningi utanrrh. og dyggustu stuðningsmanna hans. Við skulum reyna að treysta böndin við nágrannaþjóðirnar og aðra sem vilja skipta við okkur án þess að kasta frá okkur þýðingarmiklum þáttum íslensks fullveldis og sjálfsákvörðunarrétti. --- [Fundarhlé.]