Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 14:28:44 (271)

     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Sá samningur sem er hér til umfjöllunar er ákaflega mikilvægur og umfjöllun um hann hér á hv. Alþingi verður að vera í alla staði vönduð. Það þarf þess vegna engan að undra þó það taki nokkurn tíma að ræða samninginn og þau gögn sem honum fylgja og eru raunverulega hluti hans. Áður en ég kem að hinni eiginlegu umfjöllun um áhrif hugsanlegrar aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu ætla ég að koma að nokkrum mjög mikilvægum forsendum sem að mínu mati verða að vera fyrir hendi áður en það að vega saman efnahagslegar forsendur getur farið að ráða úrslitum málsins. Ég ætla ekki að fara mjög nákvæmlega í þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég tel að hér hafi farið fram mjög góð umræða um samninginn og mér finnst að stjórnarandstæðingar hafi gert ýmsum atriðum mjög góð skil og ég mun þess vegna ekki lengja umræðuna með því að fara í þau. Ég ætla hins vegar að ræða nokkur atriði sem mér finnst að ég þurfi að koma á framfæri sem mínum skoðunum og fara síðan nokkuð nákvæmlega út í þau áhrif sem mér finnst að blasi við vegna sjávarútvegsmálanna sem hafa af mörgum verið talin aðalávinningur okkar vegna þessara samninga.
    Hver einasti þingmaður verður auðvitað að gera það upp við sína samvisku hvort hann telur að þessi samningur geti á einhvern hátt reynst hættulegur sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar því að við verðum fyrst af öllu að vera sannfærð um að sjálfstæði þjóðarinnar skerðist ekki, hvorki við gildistöku samningsins né vegna þeirrar þróunar sem af honum leiðir. Hér er ég að tala um sjálfstæði í víðasta skilningi hugtaksins, þ.e. löggjafarvaldið, dómsvaldið, framkvæmdarvaldið og hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar. Það er mín skoðun með fullri virðingu fyrir lagatúlkunum og vangaveltum lögspekinga um málið að um raunverulega takmörkun á ákvörðunarvaldi okkar sé að ræða á öllum þessum sviðum. Ástæðurnar eru eftirfarandi:
    Ákvarðanir eftirlitsstofnunar EFTA skerða framkvæmdarvaldið. Víðtækt dómsvald verður framselt til EFTA-dómstólsins. Alþingi er ætlað að samþykkja í einu lagi öll lög og reglur EB sem gilda á öllum þeim sviðum sem samningurinn nær til og getur ekki breytt stafkrók í neinum af þeim lagatextum sem þar um ræðir. En svo er það sú regla sem ég vil kalla aðalsamskiptareglu framtíðarinnar á milli EB og EFTA-ríkjanna, þ.e. að ný lög og reglur á samningssviðinu skuli EFTA-ríkin samþykkja athugasemdalaust eða snauta úr samstarfinu ella. Það má líkja aðstæðum Alþingis Íslendinga við aðila í hjónabandi sem hefur samþykkt þá meginreglu að makinn taki allar ákvarðanir og eina svarið geti verið já eða endanleg ákvörðun um skilnað. En síðast en ekki síst ætla ég að nefna hið huglæga sjálfstæði, þ.e. þá sannfæringu að við erum sjálfstæð þjóð og getum sett lög og reglur að eigin vild án þess að þurfa að byrja á því að kanna hvort það brjóti í bága við lög og reglur annarra þjóða. Það sem ég hef hér sagt er meira en nóg til þess að samvisku minnar vegna verð ég að hafna þessum samningi. En það er aftur á móti margt í samningnum sem gæti orðið til bóta í samskiptum okkar við aðrar þjóðir og ýmsu af því gætum við komið í framkvæmd hvort sem þessi samningur verður að veruleika eða ekki.
    Mér finnst glannalega farið á ýmsan máta í samningnum sjálfum. Er t.d. verkalýðshreyfingin undir það búin að sætta sig við nýjar leikreglur? Verkalýðshreyfingin sem hefur ekki einu sinni fengist til þess enn þá að afnema hreppamörkin úr sínum samningum? Er hún þá búin undir það að afnumin verði landamæri ríkisins gagnvart innfluttu vinnuafli? Og er iðnaðurinn í landinu undir það búinn að takast á við aukna samkeppni? Getur hann bætt okkur upp þau störf sem glatast þegar t.d. Áburðarverksmiðjan lokar, þegar gúmmívinnustofurnar loka, þegar t.d. verður hætt að framleiða tengivagna og yfirbyggingar og yfirbyggingaverkstæðin loka? Ég vil benda hv. alþm. á það að á bls. 7 í þskj. 27, sem er frv. til laga um breyting á tollalögum sem liggur hér fyrir Alþingi, er talað um breytt vörugjaldskerfi. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í tillögum þessum felst og að leggja þarf vörugjald á nokkrar nýjar tegundir innlendrar framleiðslu til þess að uppfylla kröfur um sömu álagningu á innlendar og innfluttar vörur. Þar ber helst að nefna hjólbarðasólningu og framleiðslu tengivagna. Þá mun vörugjald á framleiðslu bílavarahluta og yfirbygginga bifreiða hækka. Á móti vegur að tollur af aðföngum til þessarar framleiðslu kann að lækka í einhverjum tilvikum, m.a. á notuðum hjólbörðum . . .  ``
    Það kemur svo annars staðar fram í þessu plaggi, og það er að mínu viti til marks um þá stefnu sem

stjórnvöld raunverulega eru að innleiða hér nú, þ.e. að verið er að aðlaga Íslendinga og íslenskt efnahagskerfi að ytri tollum EB. Það geta menn séð í þessu frv. sem ég er hér að vitna í. Þar hafa stjórnarflokkarnir tekið þá afstöðu að með breytingum á tollum og vörugjaldi er sú stefna mörkuð að vörur frá löndum sem eru utan efnahagssvæðisins munu hækka um 4,5% að meðaltali en vörur sem eru fluttar hingað inn af svæðinu sem er innan EES munu lækka um 3,5%. Þetta þýðir, og ég vitna beint, með leyfi forseta, í textann:
    ,,Tollar og vörugjöld á þær vörur, sem frumvarpið snertir, voru að jafnaði 27% af cif-verði þeirra. Var þetta hlutfall um það bil sama fyrir vörur frá EES-löndunum og fyrir vörur frá öðrum löndum. Með þeim breytingum, sem frv. felur í sér, verða álögur þessar í heild 0,5% lægri eða að jafnaði um 26,5%.`` Svo kemur þetta: ,,Með tilliti til svæða breytast þær hins vegar verulega og verða að jafnaði um 22,8% á vörum frá EES-löndum en að jafnaði um 32,6% frá öðrum löndum.``
    Það er verið að aðlaga íslenskt efnahagskerfi að ytri tollum EB. Það er engin spurning. Það hlýtur að vera meiningin. Þó er merkilegt að í öðru frv. sem liggur fyrir þinginu, þ.e. frv. til laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti og fleira, kemur fram allt önnur stefna. Þar stendur á bls. 8 í athugasemdum, með leyfi forseta:
    ,,Í frv. þessu er miðað við eftirfarandi:
    að gjaldtaka af þeim vörum sem það tekur til verði óbreytt, bæði í heild og gagnvart einstökum vörum,
    að ekki verði gerður mismunur á gjaldtöku eftir því hvort varan er flutt inn frá EES-löndum eða annars staðar frá.``
    Það er mjög merkilegt að þegar stjórnarflokkarnir eru að fást við að búa til frv. um almennar iðnaðarvörur, þá er gerður greinarmunur á innflutningnum eftir því hvort hann kemur utan eða innan EES-svæðisins, en þegar verið er að taka ákvörðun um hvernig eigi að fara með vörur, þ.e. innflutningsgjöld af ökutækjum og eldsneyti, þá gildir sú hugmyndafræði að það eigi að láta jafnræðisreglu gilda milli ríkja sem eru utan og innan svæðisins. Ég vildi taka þetta fram vegna þess að mér finnst að það komi fram stefnumörkun í fyrra frv. sem ég nefndi. Ég tel að í síðara frv. hafi menn látið undan einhvers konar ábendingum frá innflutningsaðilum, hugsanlega japönskum bifreiðainnflytjendum, en eftir stendur að sú stefnumörkun sem ríkisstjórnin hefur sett fram í hinu frv. sem ég nefndi.
    Einn af forustumönnum íslensks iðnaðar um langa tíð, Víglundur Þorsteinsson, sagði á sunnudagsmorguninn síðasta á Bylgjunni að iðnaðurinn yrði áfram í svipuðum sporum og hann hefur verið eftir að EES-svæðið yrði að veruleika. Og í hvaða sporum hefur svo iðnaðurinn verið? Það hefur margkomið fram hjá iðnrekendum að á tíð EFTA-aðildarinnar hefur iðnaðurinn staðið í sömu sporum. Það kemur fram á töflum á bls. 12 í skýrslu iðnrh., sem lögð var fyrir hv. Alþingi í vetur leið, að hlutur iðnaðarframleiðslu í vergri landsframleiðslu á árunum 1973--1990 er nokkurn veginn sá sami allt tímabilið, þ.e. milli 13 og 14% og hefur þó heldur lækkað á öllu þessu tímabili. Það kemur líka fram að hlutdeild iðnaðar í heildarvinnuafli á Íslandi hefur lækkað úr tæpum 15% niður í um það bil 11% á tímabilinu 1970--1990.
    Þær vonir sem menn bundu við inngönguna í EFTA á sinni tíð voru ekki síst þær að íslenskur iðnaður yrði vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu og skapaði ný störf og aukinn hagvöxt en þessi reynsla er ólygnust. Hún segir okkur að engin fjölgun starfa hafi orðið í iðnaði síðustu 20 ár með EFTA-aðildinni og það er þess vegna sem forstöðumenn iðnaðarins tala varlega núna um gull og græna skóga vegna reynslunnar af EFTA-aðildinni.
    Ég ætla ekki að draga það í efa að samningamenn allra aðila hafa lagt sig fram og lagt á sig mikla vinnu við það að ná fram góðri niðurstöðu fyrir sína umbjóðendur. En það dregur mjög út trúverðugleika samningsniðurstöðunnar að í sjálfu samningaferlinu hefur það komið í ljós að allir hinir samningsaðilarnir líta á EES-samninginn sem skammtímalausn. Umsóknir þeirra um aðild að EB sannfæra mig um að í samningaferlinu hafa hagsmunir okkar sem höfum markað þá stefnu að vera utan EB ekki getað vegið þungt. Miklu fremur má ætla að hinar EFTA-þjóðirnar hafi vegna þeirrar afstöðu sinnar að stefna að aðild að EB viljað ganga lengra til móts við sjónarmið samningamanna EB vegna þess að þeir hafi litið þannig á að öll útafbreytni frá hinum eiginlegu reglum EB væri slíkt skammtímafyrirbrigði að betra væri að ganga lengra til móts við EB-ríkin til að minnka hið endanlega skref til fullrar aðildar og skapa um leið jákvæðari afstöðu viðsemjendanna. Það hlýtur að vera mjög alvarlegt umhugsunarefni fyrir hv. alþm., hvort sem þeir eru með eða móti þessum samningi, að það skuli yfirleitt vera til umræðu hér á hv. Alþingi að gera þennan samning, gera samning eins og þennan sem er svona viðamikill í umfangi og mikilvægi, sem ef af verður er uppsegjanlegur með eins árs fyrirvara og þegar það liggur fyrir að aðrir samningsaðilar líta á hann sem algjört skammtímafyrirbrigði eða sem atrennu að stökkinu inn í EB.
    Ég tel að það sé mjög ólíklegt að menn hefðu verið tilbúnir að tala um mjög alvarlega samningagerð við önnur ríki undir slíkum formerkjum fyrr en núna, þ.e. að það væri engin trygging fyrir neinu framhaldi. Það væri einungis um að ræða árs uppsagnarfrest á samningi sem er svona mikilvægur. Ég tel að þetta sé út af fyrir sig ótrúleg niðurstaða að menn skuli ekki hafa litið þannig á að það þyrfti í raun og veru að vera trygging fyrir lengri gildistíma samningsins heldur en hér liggur fyrir ef menn á annað borð trúa á að það sé heppilegt að við gerum hann.
    Mér finnst því vera algjörlega nauðsynlegt að ef samningurinn verður staðfestur, þá verði um leið samþykkt yfirlýsing um að fullur vilji sé fyrir því hjá EB að breyta samningnum í tvíhliða samning þegar

EES-samningurinn líður undir lok. Og ég vil beina því til hæstv. utanrrh. hvort hann telji ekki að það sé hugsanlegt, ef menn ætla sér að keyra þetta áfram í gegn, að það sé hægt að fá slíka yfirlýsingu, þ.e. yfirlýsingu um að það sé fullur vilji fyrir því að breyta samningnum í tvíhliða samning ef EES-svæðið líður undir lok. Því ef EES-svæðið líður undir lok og engin slík trygging er fyrir hendi, þá tel ég vera verulega hættu á ferðum. Þá þyrftum við að byrja upp á nýtt að semja við EB-þjóðirnar. Við þyrftum að fá þær að samningaborðinu, staða okkar gæti jafnvel orðið mjög slæm. Ég tel það ekki óhugsandi, og mér finnst það reyndar líklegt, að EB og þau EES-ríki sem sótt hafa um inngöngu verði sammála um að öll EES-ríkin verði samferða inn í EB og að við Íslendingar verðum látnir standa frammi fyrir því að verða að láta til baka það sem við teljum vera helstu ávinningana að þessu samningum ef við viljum ekki ganga alla leið inn í EB. Það er mín skoðun að þeir sem hér á landi vilja að við göngum í EB bindi einmitt sínar vonir við að atburðarásin muni verða með þessum hætti.
    En hver er þá grundvallarafstaða stjórnarflokkanna til framtíðar Íslands í samskiptum við Evrópuríkin? Það hafa verið mjög mismunandi sjónarmið á lofti í umræðunni. Sumir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa lýst því yfir að við eigum að láta reyna á aðildarumsókn að EB, en aðrir segja að það komi ekki til greina.
    Hv. 3. þm. Reykv. sagði hér í umræðunni að það væri fráleitt að við færum að rjúfa samstöðu EFTA-ríkjanna með því að fara að huga að tvíhliða samningi. Er ekki einmitt líklegt að afstaða þeirra manna, sem ekkert sjá nema svartnætti fram undan ef við höfnum aðild að EES, verði sú þegar fer að reyna á aðildarumsóknir hinna EFTA-ríkjanna að ekki sé skynsamlegt að rjúfa samstöðu okkar með EFTA-ríkjunum og okkur sé þess vegna nauðugur einn kostur að ganga í EB? Það er enginn vafi á að hin EFTA-ríkin líta á samninginn sem skref í áttina að EB en það er erfitt að gera sér grein fyrir því hver afstaða stjórnvalda hér er. En það má þó sjá vísbendingar um vilja til að aðlaga viðskipti okkar að tollmúrum EB, og þar bendi ég á það sem ég var að segja hér áðan um þá stefnumörkun sem virðist felast í frv. sem er á þskj. 27 og ég vitnaði í.
    Það hefur fram að þessu verið ríkjandi afstaða hér á landi eftir því sem ég hef komist næst að við munum ekki gerast aðilar að EB. Þess vegna ætti þessi staða mála að leiða okkur að þeirri einu niðurstöðu sem við alþýðubandalagsmenn teljum koma til greina, þ.e. að hefja nú þegar undirbúning að tvíhliða samningi við EB.
    Ég ætla nú að koma að því sem ég tel fulla ástæðu til að ræða hér í ræðustól á hv. Alþingi, þ.e. að fara nokkuð nákvæmlega í þá hluti sem mér finnst hafa komið helst upp á yfirborðið í sambandi við sjávarútveginn sem á að vera helsta röksemdin fyrir því að við skrifum undir þennan samning. Hagsbætur sjávarútvegsins hafa verið helsta röksemdin fyrir gildi samningsins og það er þess vegna ástæða til að skoða það nokkuð hvernig þau mál líta út.
    Grundvallarforsendurnar fyrir samstarfi Evrópuríkjanna í EB felast í því að afnema höft og hömlur á viðskiptum með vörur, þjónustu, fjármagn og atvinnu. Frelsin fjögur gilda um aðalatvinnuvegi þeirra þjóða sem eiga aðild að EB og þau koma til með að gilda líka um aðalatvinnuvegi EFTA-ríkjanna í EES-samstarfinu nema hvað varðar Ísland. Sjávarútvegurinn er nefnilega ekki með í viðskiptafrelsi EB-ríkjanna og þó að hann sé aðalatvinnuvegur Íslendinga, þá nægði það ekki til að breyting kæmi nokkurn tíma til mála að þessu leyti hjá EB. Niðurstaða þessara samninga er þess vegna sú að aðalútflutningsatvinnuvegur okkar er að mestu leyti undanþeginn því frelsi í viðskiptum sem samningarnir eru grundvallaðir á. Samkeppnisstaða okkar sjávarútvegsfyrirtækja mun þess vegna einungis batna að þeim hluta sem tollalækkanir koma fyrirtækjunum til góða. Að öðru leyti erum við í sömu sporum og áður. Við munum augljóslega fá miklu minna út úr þessum samningum en félagar okkar í EFTA vegna þess að þeir munu njóta hags af viðskiptafrelsinu í sínum aðalatvinnuvegum en ekki við.
    Styrkjakerfið sem EB heldur uppi og mokar gífurlegum fjárhæðum í sjávarútveginn hjá þeim mun verða óbreytt. Þar er um að ræða bæði styrki frá Efnahagsbandalaginu sjálfu og styrki aðildarríkjanna til eigin fyrirtækja. Það er talið að á árinu 1990 hafi styrkir til sjávarútvegs EB-ríkjanna verið sem svarar 60--70 milljörðum íslenskra króna. Innan EB eru nú uppi stórhuga áform um að auka gífurlega styrki til sjávarútvegsins og þá sérstaklega til fiskvinnslunnar. Markmið þessa átaks er að gera fyrirtækjunum kleift að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru í nýjum reglugerðum EB um hollustuhætti og heilbrigði og gera fyrirtækin betur samkeppnishæf. Samkvæmt áætlunum EB á að fjárfesta um 170 milljarða ísl. kr. í vinnslu og markaðsstarfsemi á árunum 1991--1993. Af þessari upphæð, til viðbótar við áður talda styrki, mun EB greiða helminginn, þ.e. 85 milljarða. Til viðbótar við þessa styrki koma ýmsir byggðastyrkir sem mjög takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um. Við þessi ríkisstyrktu fyrirtæki þarf sjávarútvegurinn okkar að keppa. Undirstöðuatvinnuvegur okkar er sem sagt ekki metinn gildur til jafns við atvinnuvegi hinna ríkjanna. Það er þó ekki að sjá að það hefði verið mikil fórn í því fólgin fyrir EB-ríkin að breyta þessari stefnu sinni þar sem heildarframlag sjávarútvegs til landsframleiðslu EB-ríkja er 0,14%. Það er allt og sumt. Það er umhugsunarefni að grundvallarhugmynd um frelsi í viðskiptum sem öll samvinna EB byggist á skuli ekki fást viðurkennd í atvinnugrein sem er ekki umfangsmeiri en raun ber vitni hjá viðsemjendum okkar og að ekki skuli vera fyrir hendi neinn sveigjanleiki til að koma til móts við sanngjarnar kröfur okkar í þessum efnum. Skýringin á þessu er að vísu einföld þó hún hafi ekki verið mikið í umræðunni. Þessir samningar snerust um það að kenna EES-viðsemjendunum hvað stendur í EB-kverinu og með hvaða hætti eigi að túlka

það og skilja. Það stóð aldrei til að láta sjónarmið EES-ríkjanna breyta því sem hafði verið löggilt milli EB-þjóðanna. Það er mikilvægt að menn átti sig á þeim stærðum sem hér eru á ferðinni og það er þess vegna rétt að láta það koma fram til samanburðar við það sem ég sagði hérna áðan, þ.e. að framlag sjávarútvegs EB-ríkja er ekki nema 0,14% af landsframleiðslunni, að hér er framlag sjávarútvegsins 16% af landsframleiðslunni og yfir 70% af útflutningi. En þó má segja að sjávarútvegur EB-ríkjanna sé ekkert lítill í samanburði við okkar. Síðustu árin hefur veiði þeirra til manneldis verið 4 millj. tonna en neyslan er mun meiri og innflutningurinn hefur verið aðrar 4 millj. tonna. Sú staðreynd að innflutningsþörfin er svona mikil hlýtur að hvetja EB-þjóðirnar til að gera samninga við sína mikilvægustu viðskiptaaðila á sviði sjávarútvegs og Íslendingar hljóta að hafa möguleika á samningum þó að ekki yrði af þeim samningum sem hér eru til umræðu.
    En hvað er það þá sem verið er að bjóða okkur til hagsbóta fyrir sjávarútveginn með EES-samningunum? Í niðurfellingu og lækkun tolla á sjávarafurðum liggur þrátt fyrir allt helsti áþreifanlegi árangur þessara samninga. En til að átta sig á því hvað hér er í húfi er rétt að skoða hverjir hinir raunverulegu tollar hafa verið sem við höfum verið að greiða og hvað breytist til 1997 en þá verða tollalækkanirnar komnar að fullu til framkvæmda. Við höfum haft hér í gildi samning við þessi ríki og með honum svokallaða bókun 6. Við höfum þess vegna engan toll borgað af eftirfarandi vörum: Frystum flökum, lifur og hrognum, hvalkjöti, lýsi, kavíar, frystum síldarflökum, öðrum frystum fiskflökum í brauðmylsnu, krabbadýrum, lindýrum, niðurlögðum og niðurskornum eða frystum, þar á meðal rækju, humri og hörpudiski, og fiskimjöli.
    Við höfum borgað 3,7% toll af þorski, ýsu og ufsa, kældum, frystum og heilum, hausuðum eða skornum í bita. Sá tollur fellur alveg niður. Við höfum borgað 2% af karfa og munum greiða 0,6% af honum áfram. Við höfum borgað 13% af saltfiski og 20% af saltfiskflökum. En það verður 10% tollur áfram í gildi á síld eins og hefur verið.
    Annað tilreitt, niðurlagt og niðursoðið fiskmeti nema reyktur ufsi verður með 3,6% tolli en var áður með 10%. Meðaltollprósentan lækkar úr 3,5% nú í 0,7% samkvæmt þessum samningi. Þarna má glögglega sjá að saltfiskurinn vegur langþyngst og er langstærsti liðurinn og hefur verið það allt frá 1985 en þá gengu Spánverjar og Portúgalir í EB. Síðan hefur auðvitað verið fullur rökstuðningur fyrir því að breyta viðskiptasamningum okkar við EB en þrátt fyrir tilraunir hefur það ekki tekist.
    Það eru þess vegna í gildi eins og áður sagði 13% tollar á flattan saltfisk og 20% á söltuð þorskflök en á ufsaflökum er 16% tollur. Undanþágur eru í gildi frá þessum tollum og þær hafa verið breytilegar, bæði magnið og tollurinn. T.d. var magnið á árinu 1991 55 þús. tonn og tollurinn 7%. Þá er samkvæmt GATT-samkomulagi leyfilegt að flytja árlega 25 þús. tonn tollfrjálst til EB-landanna. Allir aðilar sem flytja inn saltfisk til EB verða að nýta sér þessa kvóta og það hefur verið mismunandi frá ári til árs hvernig okkur hefur gengið að koma okkar fiski að. Þarna er um að ræða kapphlaup um markaðinn. Sem dæmi um heildarvægi þessara tolla sem við höfum verið að greiða að undanförnu skal hér nefnt að á árinu 1988 voru heildartollgreiðslurnar 1.540 millj. og meðaltollurinn 5,5% en 1990 voru tölurnar 1.843 millj. og meðaltollurinn 3,5%.
    Ég er að þylja þetta hér upp til þess að menn geti reynt að átta sig svolítið á því hvaða stærðir er verið að tala um. Menn hafa slegið því fram að við eigum að græða 2.000 millj. á ári á þessum niðurfellingum á tollum. En hvar er raunverulegur rökstuðningur fyrir því? Hann kemur ekki fram þegar við skoðum þessar tölur. Fersk þorskflök, sem hafa verið nefnd sem er einn stærsti ávinningurinn í þessum samningi, bera núna 18% toll og við greiddum á árinu 150 millj. kr. í toll vegna þeirra en hann fellur niður ef samningurinn verður að veruleika. Af þessu hlýtur auðvitað að vera verulegur hagur en það er ekki allt í hendi sem menn sjá í þessum tölum. Þjóðhagsstofnun hefur t.d. bent á það að verð á ísuðum fiski mun að öllum líkindum lækka talsvert vegna þess að samkeppnisaðilar hafi getað greitt 24% hærra verð vegna þessarar tollverndar. Þjóðhagsstofnun bendir á að það geti verið um að ræða allt að 650 millj. kr. yfirverð á ísfiski af þessum sökum.
    Og svo er það spurningin um hvað gerist þegar þetta svokallaða frelsi í viðskiptum yfirtekur þennan markað. Nú er það ljóst samkvæmt samningnum að þær aðferðir sem Íslendingar hafa notað við að skammta vörur, sjávarafurðir, inn á markaðinn ganga ekki eftir að samningurinn tekur gildi. Samkvæmt 53. gr. samningsins er bannað að skammta vörur inn á markaðinn og ég vil, með leyfi forseta, lesa upp hluta af 53. gr.:
    ,,Eftirfarandi skal bannað og talið ósamrýmanlegt framkvæmd samnings þessa: allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem geta haft áhrif á viðskipti milli samningsaðila og hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð, henni raskað á því svæði sem samningur þessi tekur til, einkum samningar, ákvarðanir og aðgerðir sem:
    a. ákveða kaup- eða söluverð eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti;
    b. takmarka eða stýra framleiðslu, mörkuðum, tækniþróun eða fjárfestingu;
    c. skipta mörkuðum eða birgðalindum;
    d. mismuna öðrum viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og veikja þannig samkeppnisstöðu þeirra.``
    Halda menn virkilega að þær aðferðir sem Íslendingar hafa notað við að skammta fisk inn á markaðina

erlendis gangi eftir að menn eru búnir að skrifa undir samning eins og þennan?
    Það er ástæða til að benda líka á 12. gr. samningsins. Þar stendur:
    ,,Magntakmarkanir á útflutningi, svo og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðar milli samningsaðila.``
    Það gengur ekki að segja við menn að sjávarútvegurinn sé ekkert með í þessu dæmi. Það er alfarið rangt. Verslun með sjávarafurðir heyrir auðvitað alveg undir þetta samningssvið allt saman og þess vegna verða menn að horfast í augu við það að það fiskverð sem hefur fengist með þeim aðferðum sem hafa verið notaðar fram að þessu er ekki það fiskverð sem við höfum í hendi í framtíðinni. Þetta held ég að menn verði að gera sér fulla grein fyrir. Og til þess að menn fái aðeins innsýn inn í það hvað getur gerst á þessum mörkuðum langar mig að vitna hér í þýðingu úr þýsku tímariti þar sem verið er að segja frá áhrifum innflutnings Færeyinga á fiskflökum í sumar á þýska ferskfiskmarkaðinn. Þetta er úr tímaritinu Lebensmittel 21. ágúst 1992, grein eftir Werner Prill, útdráttur úr greininni. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna hér í hluta úr þessari þýðingu:
    ,,Þýski fiskvinnslumarkaðurinn í verstu erfiðleikum síðan í þráðormafárinu 1986,`` stendur hér. ,,Þýski ferskfiskmarkaðurinn er nú í verri stöðu en nokkru sinni síðan á dögum þráðormahneykslisins fyrir sex árum. Til viðbótar við hefðbundna sölutregðu yfir sumartímann þarf fiskiðnaðurinn nú að takast á við alvarlegar breytingar. Samkvæmt tölum sem lagðar voru fram á fundi fyrirtækja sem starfa á fiskuppboðsmarkaðnum hefur sölumagnið á uppboðsmörkuðunum þremur í Bremerhaven, Hamborg og Cuxhaven minnkað í 2.431 tonn í júní 1992, samanborið við 3.600 tonn í júni 1991. Samdrátturinn var enn meiri í júlí en þá voru aðeins boðin upp 2.994 tonn samanborið við 4.900 tonn í júlí 1991. Samdrátturinn tengist sívaxandi framboði unninna fiskflaka á markaðnum á undirboðsverði.
    Eins og við höfum sagt frá áður kemur megnið af flökunum frá Færeyjum. Í þessari viku seldu Færeyingar roðflett karfaflök, 150 grömm og stærri, á 6,20 þýsk mörk kílóið. Óunninn karfi sem keyptur var á uppboðsmarkaði í Bremerhaven og unninn í fiskvinnslustöðvum á þýsku ströndinni kostaði hins vegar 10 mörk kílóið. ,,Við verðum að sjá viðskiptavinum okkar fyrir flökum á grundvelli þessa nýja verðs sem er langt fyrir neðan okkar verð,`` sagði Bernard Schneifel, eigandi Paul Schneifel GmbH, í Bremerhaven. Afleit sumarsala og undirboð Færeyinga hafa neytt Schneifel til þess að segja upp starfsfólki og kaupa ódýru flökin af Færeyingum. Fagmann, yfirmaður framleiðsludeildar van der Berg, sem er dótturfyrirtæki Unilever, tjáði okkur að Færeyingar bjóði nú flök sín bæði fiskvinnslustöðvum á ströndinni og dreifiaðilum inni í landi á 6,50--8 þýsk mörk kílóið. Fagmann veltir því fyrir sér hvernig danskir innflytjendur geti nú boðið fiskflök sem Færeyingar dreifa ekki sjálfir á enn lægri verðum en Færeyingar. Hann áætlar að Færeyingar komi inn með um 30--70 tonn á viku inn á þýska fiskflakamarkaðinn en heildarmarkaðurinn er um 2.250 tonn.``
    Þarna sést að nágrannar okkar Færeyingar, sem eru mun smærri í sniðum í fiskútflutningi og fisksölu heldur en við, valda slíkum vanda á mörkuðum í Þýskalandi að fiskiðnaðurinn hjá þeim riðar til falls. Halda menn virkilega að eftir að við erum búnir að missa tökin á því að stjórna útflutningnum á þessum fiski þá takist okkur að halda uppi verði á markaði sem er eins og þessi? Ég held að það sé alveg út í hött að láta sér detta það í hug.
    En vegna þess sem ég var að vitna hér í sem Þjóðhagsstofnun segir um þá breytingu, að tollur falli niður á flökum, þá langar mig til þess að klára þá tilvitnun. Ég tel að það sé útilokað annað en það yrði að haldast í hendur ef tollar féllu niður á ferskum flökum að útflutningur á ísuðum fiski hætti. Það er ástæðulaust að neita því að það yrði verulegur hagur að þessu ef okkur tækist að stjórna því þannig en það er ekki neitt í hendi að okkur takist það eins og ég hef verið að reyna að segja hér á undan. Niðurstaða mín í þessum tollamálum er sú að við höfum samkvæmt bókun 6 tollfrelsi á mörgum af okkar vörum. Tollar sem við höfum greitt hafa fæstir verið það háir að þeir hafi hamlað þróuninni en það er þó til bóta auðvitað að þeir lækki. Það eru aftur á móti mjög háir tollar á tiltölulega fáum en mjög mikilvægum tegundum af útflutningi okkar sem verulegur akkur væri í að losna undan og þar er saltfiskurinn, söltuð flök og fersk flök mikilvægustu afurðirnar. Það verður þó enn og aftur að minna menn á það að tollinn af saltfiskinum höfum við ekki borgað nema að mjög litlum hluta til. Við höfum flutt langmest magn af okkar saltfiski til Evrópu án tolla, þ.e. á þeim undanþágum sem hafa verið gefnar og þess vegna er ástæða til þess að gefa gaum að þeim hlutum.
    Það er líka augljóst að þessir háu tollar, sem við höfum borgað öðru hverju af saltfiskinum, eru ekki í neinu samræmi við þá samninga sem við höfum að öðru leyti við þessar þjóðir. Það er engin ástæða til að gefa sér að það náist ekki breyting á því í framtíðinni. Og svo mega menn ekki gleyma því að tollaniðurfellingarnar sem við erum að tala hér um í þessum samningi gilda einungis um þær vörur sem nefndar eru sérstaklega í samningnum og um aðrar framleiðsluvörur sem menn færu hugsanlega að framleiða hér á landi og vildu flytja út þarf auðvitað að semja sérstaklega.
    Mig langar að koma að XXII. viðauka samningsins. Eitt af þeim skilyrðum sem sett var í upphafi samningaviðræðnanna var að ekki kæmi til eignaraðildar erlendra ríkisborgara í sjávarútvegsfyrirtækjunum. Og í XXII. viðauka við EES-samninginn er Íslendingum veitt varanleg undanþága til þess að beita höftum á eignarhald útlendinga að sjávarútvegsfyrirtækjunum. Þó skulu útlendingar hafa rétt til að fjárfesta í fyrirtækjum sem taka óbeinan þátt í fiskveiðum eða fiskvinnslu.

    Eitt af þeim frumvörpum sem hefur verið lagt fram í þinginu er um það að erlendir aðilar megi stofna hér fiskmarkaði. Eftir að erlendir aðilar eru búnir að stofna fiskmarkaði er ekki hægt að koma í veg fyrir það að útflutningurinn frá þeim mörkuðum verði frjáls og hann er það í raun og veru. Um leið og verð á fiskmörkuðum verður samkeppnisfært við annan útflutning á fiski héðan, þá er útflutningurinn galopinn. Þá þýðir ekkert fyrir hæstv. utanrrh. að gefa mönnum leyfi til þess að flytja út. Það skiptir engu máli. Allir sem kaupa fisk á fiskmörkuðum hér innan lands hafa leyfi til þess að flytja út og þurfa ekki að spyrja utanrrn. um það. Það eina sem hefur komið í veg fyrir að það gerðist í stórum stíl er að verðið á mörkuðunum hefur verið það hátt að menn hafa ekki séð sér hag í því að kaupa fisk á þeim til að flytja út beint. Það eru auðvitað miklar líkur fyrir því að það breytist þegar markaðirnir taka gjörsamlega við verðmynduninni eins og þeir eru í raun og veru að gera.
    Það verður að draga í efa að þær ágætu fyrirætlanir, að sjávarútvegsfyrirtækin verði eingöngu í eigu Íslendinga, endist til lengdar. Þar er fyrst að nefna hina óbeinu eignaraðild. Til að slík ákvæði standist til lengdar þarf af fullri hörku að neyða þá sem eignast af einhverjum ástæðum of stóran hlut í fyrirtækjum eða sem eiga hlut í fyrirtæki sem breytir starfsemi til að selja hann. Samkvæmt nýlegum lögum sem nú eru í gildi ættu íslensk fyrirtæki sem að hluta til eru í eigu erlendra ríkisborgara að selja hlut sinn í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þessu hefur ekki verið fylgt eftir. Það kom hér til umræðu á síðasta þingi að hér væru eignaraðilar í útgerð, erlendir eignaraðilar. Ég kannast ekki við að því hafi verið fylgt eftir að þeir seldu sinn hlut í fyrirtækjunum.
    Ýmsir útgerðaraðilar hafa líka mótmælt því að greininni sé ekki fært að fá erlent áhættufjármagn og segja að hún verði ekki samkeppnishæf við aðra starfsemi þess vegna. Mestar líkur eru á að smám saman muni erlendir aðilar koma inn í sjávarútveginn og verði veiðiheimildirnar látnar halda áfram að ganga kaupum og sölum, þá mun það flýta verulega fyrir eignatilfærslunum.
    En sá hagur sem kemur fram í þessum samningi er ekki útlátalaus fyrir okkur. Við eigum að hleypa EB-flotanum inn í landhelgina til að veiða 3 þús. tonn af karfa sem er verslun með óveiddan fisk á okkar miðum í staðinn fyrir 30 þús. tonn af loðnu sem Grænlendingar eiga. Við höfum nú veitt þessa loðnu að undanförnu sjálfir fyrir ekki neitt og í samningunum sem nýlega hafa verið gerðir milli Íslendinga, Grænlendinga og Norðmanna um veiðar úr loðnustofninum var samið um að nú skyldu veiðarnar miðast við að menn veiddu meira af sínum hluta á eigin hafsvæði og ef það tækist ekki, þá félli rétturinn niður. Við vorum með pálmann í höndunum gagnvart þessari afgangsveiði sem grænlenska loðnan raunverulega var. Það hefði verið erfitt fyrir EB að vísa okkur á þessi 30 þús. tonn til að veiða til þess að standa við sinn hlut nema menn leysi EB-ríkin undan þessu samningsákvæði og leyfi þeim að láta loðnuna synda til okkar og við kaupum þar með rétt til að veiða fisk sem við hefðum annars fengið ókeypis. En með því að gera þennan samning --- og hann er hluti af EES-samningnum, hvað sem hæstv. utanrrh. segir um það --- þá stöndum við frammi fyrir því að vera að stíga skref aftur á bak í baráttunni fyrir fullum yfirráðum okkar yfir fiskimiðunum. Og það skref er táknrænt afsal á sjálfstæði okkar þar sem við erum að hopa fyrir fyrrum bjargföstum áformum okkar um að hleypa engum þjóðum aftur inn í landhelgina sem okkur hefur tekist að koma þaðan út. Samningamenn EB virðast hafa lagt þunga áherslu á að beygja okkur í þessu máli. Og skýringin á því er ekki nema ein. Hún getur ekki verið af efnahagslegum ástæðum. Til þess er málið ekki nógu stórt á þeirra mælikvarða. Sjávarútvegur EB-ríkjanna er svo lítið brot af þeirra hagsmunum.
    Það er ekki nema ein ástæða sem þarna er á ferðinni. Það er verið að ryðja brautina til meiri landvinninga síðar og það megum við ekki láta ganga yfir okkur. Þetta mál verður þess vegna að skoða ásamt ýmsum öðrum atriðum í þessum samningi þar sem óumdeilanlega er verið að tala um margvíslegar takmarkanir á fullveldi og sjálfstæði landsins, en líka í því ljósi að viðsemjendur okkar virðast ætla sér stærri hlut síðar.
    Að öllu samanlögðu tel ég einsýnt að hafna samningnum og vísa til þess sem ég sagði í upphafi máls míns, en ég vil bæta því við að það hefur verið of mikið gert úr þeim hag sem við erum taldir hafa af samningnum, enda hefur mönnum gengið erfiðlega að benda á glögg dæmi um það. Það að aðalatvinnuvegur okkar skuli ekki vera tekinn gildur á sama hátt og aðalatvinnuvegir annarra ríkja í þessu samstarfi er gjörsamlega óásættanlegt.
    Hæstv. forseti. Ég vísa til þess sem ég sagði fyrr í ræðu minni. Ég tel að samningurinn brjóti í bága við fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Samvisku minnar vegna mun ég ekki geta stutt hann þrátt fyrir að af honum kunni að vera einhver efnahagslegur ávinningur.