Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 16:37:30 (277)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kannast við þessi lög, að vísu aðeins af því að hafa lesið þau en ekki af því að hafa tekið þátt í að búa þau til. Ég vil nú minna hæstv. sjútvrh. á að það hefur verið upplýst að um er að ræða óheimila eignaraðild í sjávarútvegsfyrirtækjum samkvæmt skilgreiningu í þessum lögum frá 1991. Auðvitað er það verkefni núverandi stjórnvalda að framfylgja lögunum. Hvernig hefur það gengið? Hvernig halda menn að það gangi í framtíðinni, fyrst það gengur ekki betur en þetta núna, þegar menn opna þjóðfélagið miklu meira en nú er fyrir útlendingum? Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann sé sjálfur trúaður á að

það þurfi ekki að breyta núverandi lögum til að tryggja stöðu íslensks sjávarútvegs eins og við viljum hafa hana. Telur ráðherrann þessi lög nægjanleg? Ráðherrann verður að svara því ef hann vill að Alþingi samþykki þennan EES-samning og með þeirri stefnu að sjávarútvegurinn eigi að vera undanskilinn þátttöku útlendinga. Þá verður hann að svara því hvort hann telur þessi lög nægjanleg.