Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 16:40:34 (280)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Frá því hefur verið skýrt að 1. umr. um EES-samninginn og aðild Noregs að EES muni taka um tvo daga í norska Stórþinginu. Þessi fyrsta umræða okkar hefur nú staðið í hálfan mánuð og er líklega ekki lokið. Það er væntanlega til marks um hversu miklu vandaðri málabúnaðurinn er hér á hinu háa Alþingi en þar og er út af fyrir sig ánægjulegt.
    Hv. 9. þm. Reykv. flutti hér snoturlega ræðu um þetta mál í gærkvöldi. Eftir því sem hann sagði að gefnu tilefni tók hann líkingu af þessu máli og kristnitökunni og taldi að því mætti gjarnan líkja saman því verið væri að taka upp nýjan sið. Þingmaðurinn kvartaði hins vegar undan því að við kristnitöku hefði verið þannig um hnútana búið að menn hefðu mátt blóta á laun sem hann taldi ekki vera í þessu tilviki. Kannski er þessi samlíking nokkuð langsótt þótt eitthvað geti verið nýtilegt í henni. Það er rétt að þegar Ljósvetningagoði hafði legið undir feldi skamma hríð kvað hann upp úr um að það væri skynsamlegt að menn skyldu hafa einn sið og ein lög og kvað upp úr með það að ef menn slitu í sundur lögin, þá slitu menn í sundur friðinn.
    Það er kannski ekki svo langsótt að segja að hugmyndin um samrunaferilinn í Evrópu sé í anda Ljósvetningagoða að þessu leyti þótt menn hafi stigið skrefin smá og í áföngum. En hugmyndin er í stórum dráttum sú, eða öllu heldur kveikjan að þessari þróun, að menn skuli hafa ein lög á tilteknum afmörkuðum sviðum, m.a. vegna þess að ef menn slíta þau lög slíta menn í sundur friðinn. Hitt er öldungis víst að það er heimilt að blóta á laun að því er þetta varðar, ekki síður en í kristnitökunni eins og fram kemur í því að í þessum samningi er kveðið á um margvíslegar undanþágur, bæði tímabundnar og varanlegar. Kannski stenst sú samlíking líka.
    Ég vék að því, virðulegi forseti, að þessi umræða hefur staðið í hálfan mánuð. Það er í hvaða þjóðþingi sem er góður tími til þess að skiptast á skoðunum, koma á framfæri sjónarmiðum allra flokka, enda hygg ég að þau hafi komist til skila. Enn bryddir eitthvað á því að menn vilji eigna mér þau ummæli að þessi samningur sé hið fullkomnasta mannanna verk, algóður og að í þessum samningum höfum við Íslendingar fengið allt fyrir ekkert. Sumir eru þó svo sanngjarnir að viðurkenna að þetta eru ekki mín orð heldur orð helsta talsmanns samningsaðilanna sem lét þau orð falla að ávinningur Íslendinga af þessum samningum væri mikill og þeir hefðu lítið þurft á sig að leggja á móti.
    Kannski er það fyrst og fremst þetta sem menn eru að reyna að leggja mat á. Er þessi samningur Íslendingum hagkvæmur ef við leggjum á hann mat út frá grundvallarforsendum íslenskra hagsmuna? Er hann íslenskum þjóðarhagsmunum til góðs? Eða er á honum einhver slík missmíði að það sé frágangssök? Í máli talsmanna flokkanna hefur komið fram að sumir hafa gert upp við sig að þetta sé afar vondur samningur og óaðgengilegur út frá sjónarmiðum viðkomandi flokka. Aðrir hafa ekki kveðið svo skýrt að orði en menn hafa talið upp fjöldamörg atriði sem koma til skoðunar sem eðlilegt er við 1. umr. svo mikils máls.
    Fyrsta mál á dagskrá er að sjálfsögðu þetta: Er samningurinn hagkvæmur út frá bæjardyrum íslensks atvinnulífs? Er hann hagkvæmur út frá hagsmunum íslensks sjávarútvegs? Er samningurinn þess eðlis að hann geti skapað okkur Íslendingum, sem nú búum við meiri háttar erfiðleika í efnahagslífinu, ný tækifæri til sóknar á ýmsum sviðum? Er hann góður fyrir íslenskar þjónustugreinar? Hvað um áhrifin á fjármagnsmarkaðinn? Hvað um áhrif á verðlag út frá sjónarmiði neytenda? Hvað um áhrif á fjármagnsmarkaði út frá þróun fjármagnskostnaðar og vaxta? Hvað um aðgengi að erlendu fjármagni, sérstaklega erlendu áhættufjármagni? Þetta eru nokkrar af þeim helstu spurningum sem við þurfum að taka afstöðu til og út frá þeirri umræðu sem hér hefur farið fram virðast menn meta það mjög ólíkt og jafnvel ekki leggja sömu staðreyndirnar til grundvallar umræðunni.
    Eins má spyrja á hinn bóginn: Er sérstaða íslensks þjóðfélags slík að við þurfum að halda til streitu tilteknum fyrirvörum? Hefur það verið gert? Hvað um veiðiréttindi erlendra aðila í íslenskri fiskveiðilögsögu? Glötum við forræði yfir fiskveiðilögsögunni? Missum við forræði yfir auðlindum okkar? Er líklegt að erlent fjármagn flæði inn og kaupi upp íslenskar auðlindir? Fyllist landið af útlendingum? Missa Íslendingar forræði yfir svo stórum og veigamiklum þáttum?
    Þessar spurningar erum við búnir að ræða nánast í þrjú ár og enn erum við að fara yfir þessi sömu mál, spyrja sömu spurninga og sumir komast að sömu niðurstöðunum eins og umræðan hafi ekkert upplýst. Þess er auðvitað enginn kostur og ekki ástæða til við 1. umr. að rekja hvert einasta atriði sem vakið hefur verið máls á í þessum umræðum. Ef ég á að draga saman í eins stuttu máli og mér er unnt það sem hlýtur að teljast aðalatriðin, þá eru þau þessi:
    Við skulum ræða um þennan samning og meta hann út frá vanda íslensks þjóðfélags eins og sá vandi blasir við okkur nú. Ef við berum okkur saman við grannlönd og viðskiptaþjóðir hefur þjóðarbúskapur okkar þá sérstöðu að við höfum búið við langfellt stöðnunar- og hnignunarskeið. Það lýsir sér í mörgu. Við höfum byggt vöxt og viðgang þjóðarframleiðslu okkar, þjóðartekna okkar fyrst og fremst á því að sækja meira í sjóinn á meiri afla og notið þess ef viðskiptakjörin hafa farið batnandi. Við erum komin yfir endimörk vaxtar að því er varðar nýtingu þeirrar auðlindar og sumir hafa af því hvað mestar áhyggjur að það sé sjálfskaparvíti að við höfum rányrkt hana.
    Við höfum lengi viljað laða erlent fjármagn til samstarfs við að nýta aðra meginauðlind okkar, orkulindirnar. Um það hafa verið skiptar skoðanir í þjóðfélagi okkar. Engu að síður hefur mikið verið á sig lagt til þess að reyna að breyta orkulindunum í gull og að skapa atvinnu og verðmæti á þeim grundvelli. Það hefur ekki tekist. Þess vegna stöndum við frammi fyrir því að störfum á vinnumarkaðinum hefur fækkað frá árinu 1989 og fækkað allverulega frá toppi góðærisins 1987 á sama tíma og vinnandi fólki á vinnumarkaðinum hefur fjölgað. Við stöndum í fyrsta sinni frá 1967--1970 frammi fyrir því að atvinnuleysi fer vaxandi og við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvort á því geti verið líkur að atvinnuleysi festi sig í sessi, hvort hnignunar- og samdráttareinkenni í þjóðarbúskap okkar séu slík. Þetta er auðvitað stærsta sameiginlega áhyggjuefni allra þeirra sem hér eru inni á hinu háa Alþingi, þ.e. burt séð frá því í hvaða stjórnmálaflokki menn eru eða hvaða stjórnmálaskoðun menn telja sig aðhyllast.
    Fróðlegt er að bera saman aðstöðu í þjóðarbúskap okkar nú og 1968--1970. Meginástæðan þá var sú að einn helsti nytjastofn okkar, síldin, brast og hvarf en á sama tíma urðum við líka fyrir alvarlegu áfalli af því að viðskiptakjör, einkum á Bandaríkjamarkaði, snöggversnuðu. Ég kann ekkert dæmi af þjóð sem hefur á seinni árum, og jafnvel þótt leitað sé til heimskreppunnar, orðið fyrir viðlíka áfalli að missa á einu og hálfu ári um 40% af gjaldeyristekjum. Þetta var auðvitað erfitt mál og bar að með skjótum hætti.
    Ef við berum nú ástandið saman við þessa tíma þá sjáum við hins vegar strax að á þessum tíma stóðum við í virkjunum og vorum að byggja upp nýja álbræðslu í samvinnu við erlenda aðila. Á þessum tíma áttum við eftir að færa út landhelgina og færa okkur í nyt þann arð sem okkur áskotnaðist við það, við útfærslurnar 1972 og 1976. Nú erum við búnir að éta upp þann arð og hann er búinn, búið að eyða honum.
    Á þessum tíma var íslenskt þjóðarbú vissulega skuldugt en ekkert viðlíka því sem nú er. Ef ég man rétt var greiðslubyrði af erlendum skuldum þá eitthvað um 12--13% og fjarri því að langtímaskuldir okkar væru neitt í líkingu við það sem nú er. Þær eru komnar yfir 52% af þjóðarframleiðslu og vextir og afborganir af skuldum eru orðnar yfir 30% af gjaldeyristekjunum. Samanburðurinn leiðir því margt í ljós, m.a. það að við erum nú orðin svo skuldug þjóð að ekki er hlaupið að því að leysa vanda atvinnuleysisins með því að slá frekari erlend lán eða með einföldum formúlum um að ríkið eða stjórnvöld eigi í krafti erlendra lána að búa til störf.
    Við stöndum frammi fyrir því að á þessu tímabili hefur verið byggð upp gríðarleg fjárfesting sem hefur skilað sér illa. Við búum sannanlega við offjárfestingu í fiskveiðum. Við búum við offjárfestingu miðað við núverandi aflamagn bæði í fiskveiðum og fiskvinnslu.     Við höfum lengi búið við þann vanda í einum helsta atvinnuvegi okkar, landbúnaðinum, að gríðarlegum fjármunum hefur verið varið til þess að halda honum uppi án þess að það skilaði okkur arði eða fjölgaði störfum, þvert á móti. Það er fækkun í störfum bæði í landbúnaði og úrvinnslu landbúnaðarafurða. Við erum víðar með offjárfestingu. Að miklu leyti er hún tilkomin fyrir erlendar lántökur og á ríkisábyrgð. Við höfum gert tilraunir með ríkisforræði við að skapa störf og hleypa nýju lífi í atvinnulífið. Við höfum gert það að frumkvæði ríkisstjórna í gegnum opinbert kerfi ríkisbanka, fjárfestingarlánasjóði og við höfum ætlað að vinna að því að grundvalla nýjar atvinnugreinar og skapa störf með þeim hætti. Fiskeldið er nýlegt dæmi, loðdýrabúskapurinn annað ævintýri. Þetta hefur allt saman mistekist.
    Við hljótum að hafa lært það af reynslunni að þegar svona er komið að því er varðar meginauðlindina, þegar svona er komið að því er varðar skuldastöðu fyrirtækja í meginatvinnuvegi okkar, sjávarútveginum, þegar reynslan af landbúnaðarstefnunni er orðin slík að við erum komin þar í þrot, þá er ekki til einfalt úrræði til þess að bægja frá atvinnuleysishættu eða tryggja fulla atvinnu, þ.e. tryggja nægilega mörg arðbær störf í samkeppnishæfum atvinnugreinum í veröld sem óhjákvæmilega er orðin slík að hún er orðinn einn markaðsstaður og verður það í vaxandi mæli og ekki dugar að byggja upp múra í kringum sjálfan sig, það dugar ekki að einangra sig frá þessari þróun.
    Það fráleitasta af öllu því sem haldið hefur verið fram í þessari umræðu er það að með þessum samningi séum við að tengjast atvinnuleysinu í Evrópubandalaginu og jafnvel að auka á vanda okkar. Það eru kannski mestu öfugmælin sem heyrst hafa í þessari umræðu. Ég held nefnilega að flestir þeir sem um þetta hugsa af einhverri alvöru sjái að framtíð íslensks atvinnulífs hlýtur að byggjast á því að það atvinnulíf búi við sambærileg skilyrði og keppinautar. Við verðum að leysa þessi vandamál út frá reynslunni af ríkisforsjánni. Við verðum að búa atvinnulífi okkar sambærileg skilyrði. Það lýtur að öllum sviðum. Það varðar það að vinna bug á verðbólguvanda Íslendinga, sem var krónískur en hefur nú verið ráðið við, a.m.k. á undanförnum árum, og það er kannski það sem er hið jákvæða í þessari mynd.
    Við höfum einhverja lægstu verðbólgu í Evrópu. Við höfum nú búið við umtalsverðan stöðugleika í atvinnulífi okkar. Fjármagnskostnaður hefur lækkað allverulega. Því næst þurfum við að stíga næstu skref sem eru óumflýjanleg til þess að skapa atvinnulífi og fyrirtækjum, ekki síst nýjum fyrirtækjum, sambærileg skilyrði. Það lýtur bæði að skattlagningu ríkis og sveitarfélaga o.s.frv. En að öðru leyti hlýtur þetta að byggjast á því í opnu þjóðfélagi sem byggir svona mikið á utanríkisverslun að við ryðjum úr vegi þeim hindrunum sem hingað til hafa verið í veginum að skapa útflutningsfyrirtækjum okkar aðgang að markaði þar sem þau geta keppt með árangri.
    Auðvitað snertir þetta sjávarútveginn. Hvað er um þennan samning að segja að því er varðar sjávarútveginn? Staðreyndirnar ættu ekki að vefjast fyrir okkur. Okkur hefur tekist að ná fram samningi sem tryggir sjávarútveginum tollfrjálsan aðgang að þeim markaði sem 4 / 5 hlutar af sjávarafurðum okkar fara til, tollfrelsi sem samsvarar 96% af tollskrá Evrópubandalagsins og verður að fullu komin til framkvæmda árið 1997. Þetta er lykilatriði og ég get ekki annað en lýst undrun minni á því að hv. þm., sem sumir hverjir eiga rætur sínar í sjávarplássum og eiga að vera í sæmilegum tengslum við sjávarútvegsfyrirtæki, vanmeti slíka meginstaðreynd vegna þess að þetta er í fyrsta skipti sem sjávarútvegurinn á Íslandi nýtur þess, hann er útflutningsgrein, að vera nokkurn veginn jafnfætis keppinautum sínum hvort heldur er iðnaði eða keppinautum í greininni á þessum meginmörkuðum sínum. Það mun skipta sköpum fyrir framtíð hans, algerlega.
    Var þessi árangur keyptur of dýru verði? Við settum okkur það mark að við vildum ekki heimila rétt erlendra manna til fjárfestingar í sjávarútvegi. Það tókst. Það er varanlegur fyrirvari gagnvart því. Ef við viljum breyta því, þá er það á okkar eigin valdi. En fyrirvarinn náðist.
    Hér hafa nokkrir orðið til þess að fullyrða ranglega að árangurinn með markaðsaðgengið hafi verið keyptur því verði að fallast á veiðiheimildir einhliða. Það er rangt, það stenst einfaldlega ekki staðreyndirnar. Það sem er að segja um þennan tvíhliða samning er einfaldlega það að hann er sérstakur samningur, hann byggir á skuldbindingum sem rekja má aftur til tvíhliða samningsins við Evrópubandalagið 1972/1976. Hann er niðurstaða af viðleitni sem allar ríkisstjórnir sem setið hafa á Íslandi frá þeim tíma hafa verið að reyna og hann staðfestir það sem allar ríkisstjórnir hafa haft á stefnu allan þennan tíma ágreiningslaust. Við semjum ekki um einhliða veiðiheimildir um aðgang að markaði en við erum reiðubúnir til þess að gera samning um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum ef það er báðum aðilum í hag. Það er ekki ný stefna ríkisstjórnarinnar. Þeirri stefnu var líka fylgt í tíð fyrri ríkisstjórnar og hvorki stóð á hv. þm. Steingrími Hermannssyni né Halldóri Ásgrímssyni að staðfesta það, enda liggur það fyrir staðfest. Þetta er engin stefnubreyting. Samningurinn liggur fyrir að öðru leyti en því að ekki er búið að ganga frá þeirri útfærslu um það hvernig með skuli fara ef þessar veiðiheimildir nýtast ekki af óviðráðanlegum ástæðum öðrum hvorum aðilanum. Að öðru leyti liggur samningurinn fyrir.
    Hagur sjávarútvegsins af samningnum er þess vegna aldeilis ótvíræður. Hann byggir ekki fyrst og fremst á því að losna við þá tolla sem áður voru í gildi. Samt sem áður þurfti ég að hlusta á einn ágætan þingmann sem sagði: Þessir tollar skipta aldrei neinu máli. Hvað var viðkomandi þingmaður að segja? Hann var að segja það að áratuga barátta t.d. saltfiskútflytjenda, ekki síst núna seinustu árin eftir inngöngu Spánar og Portúgals, fyrir því að fá fellda niður þessa tolla, hafi bara verið tóm vitleysa, skipti engu máli. Er ekki öllum ljóst að ef Íslendingar standa frammi fyrir tollmúrum á bilinu 7, 13, 18 um 20% en keppinautarnir ekki gerist það einfaldlega að útflytjandinn þarf að greiða þessa tolla eða hann endurspeglast í hærri verðum sem þýðir lakari markaðsaðstöðu? SÍF hefur einfaldlega sagt að það sé mat þeirra að þessi tollamismunun gegn Íslendingum á saltfiskmörkuðunum hafi kostað íslenska útflytjendur um einn milljarð á ári bara að því er varðar saltfiskmarkaðinn á Spáni.
    Ef taka ætti annað dæmi og það skiptir meira máli, þá er það þetta: Af hverju hafði Evrópubandalagið lága og jafnvel enga tolla á óunnum fiski og hverjar voru afleiðingar þess? Afleiðingarnar voru að sjálfsögðu þær að laða að hráefni til fiskvinnslunnar í Evrópubandalaginu. Hvernig stóð á því að það varð ekki þróun hér á landi í þá átt að nýta betur neytendamarkaðina með ferskan fisk, t.d. í formi flaka á neytendamarkað? Það var einfaldlega vegna þess að tollurinn var of hár. 18% tollur útilokaði að þau viðskipti gætu þróast. Niðurfelling þess tolls getur þýtt á mjög skömmum tíma vaxtartækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg og fiskvinnslu sem er alveg ástæðulaust að vanmeta. Hvað svo sem líður því sem menn vilja segja hér í

pólitísku karpi er það nú svo sem betur fer að fjöldinn allur af fyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi og fiskvinnslu er fyrir löngu, fyrir ári, byrjaður að undirbúa það að nýta þessi tækifæri. Auðvitað vita þau hvað þetta þýðir. En að halda því fram að þetta skipti engu máli er vægast sagt ótrúlegt. Við eigum eftir að heyra meira um það hvernig fyrirtæki í fiskvinnslunni nýta sér þessi tækifæri og þegar fram líða stundir og menn líta til baka munu menn láta deilur um það niður falla.
    Með öðrum orðum er alveg ljóst að fyrir sjávarútveginn er þessi samningur einhver sá mikilvægasti sem nokkru sinni hefur verið gerður. Hann þýðir fyrst og fremst ný vaxtartækifæri. Hann kemur á réttum tíma þegar afli er að dragast saman vegna þess að hann gefur tækifæri til þess að skapa meiri verðmæti úr minni afla. Hann kemur á réttum tíma vegna þess að hann opnar tækifæri til samstarfs líka við erlenda aðila til þess að ná fótfestu á þeim markaði sem við höfum hingað til ekki getað sinnt nema í litlum mæli, þ.e. á neytendamörkuðunum sjálfum, að komast að uppboðsmörkuðunum inn á neytendamarkaðinn. Síðan mun reynslan skera úr um það hvernig okkur tekst til því að þetta eru tækifæri og það er í okkar höndum að láta á það reyna hvernig tekst að nýta þau.
    Svo oft er búið að ræða þá fyrirvara sem lagt var upp með og hvernig þeim hefur verið til skila haldið að ég á ekki að þurfa að endurtaka eitt eða neitt í þeim efnum. Alveg liggur ljóst fyrir að því er varðar sjávarútveginn, að því er varðar orkulindirnar, að við getum haldið núverandi skipan í þeim málum í fullri sátt við þennan samning. Samningurinn breytir engu um það, ekki nokkrum sköpuðum hlut. Ef við viljum hér á hinu háa Alþingi og það er meiri hluti fyrir því, binda tryggilegar um hnútana, t.d. með því að eyða óvissu um eignarhald hvort heldur er á orkuauðlindunum, jarðhitanum, vatnsföllunum, kaldavatnslindum eða afréttarlöndum, þá getum við gert það. Af hálfu ríkisstjórnarinnar verða lögð fram frv. að frumkvæði iðnrh. um þau mál sem hafa verið undirbúin og þeir sem tala mest um nauðsyn þess að taka af öll tvímæli og aflétta öllum vafa um þjóðareignina í þessum auðlindum, þeim er í lófa lagið að tryggja það og það er ekkert sem brýtur í bága við samninginn í því efni.
    Ég tel sjálfur þetta vera skynsamlegt vegna þess að jafnvel þótt við þyrftum að laða erlent fjármagn til þátttöku í fyrirtækjunum sem nýta auðlindirnar þá breytti það engu um eignarrétt þjóðarinnar í þessu tilviki og hvorki auðlindirnar né mannvirkin hlaupa úr landi.
    Sama máli gegnir um --- þó þessir fyrirvarar séu þýðingarmestir --- þær breytingar aðrar sem við þurfum að gera og varða innlenda löggjöf. Menn hafa mikið spurt um bújarðirnar. Við erum búin að ræða þetta í þrjú ár. Það mál er einfaldlega þannig að okkur er í lófa lagið að breyta ýmsu, bæði að því er varðar lög og stjórnvaldsframkvæmd hér á landi til þess að gera það enn erfiðara fyrir einstaklinga, hvort heldur er fyrir innlenda eða erlenda, til að eignast og nýta bújarðir í öðrum tilgangi en búrekstri ef menn vilja. Út af fyrir sig er þetta fær leið, en við sömdum um tímabundinn frest frá meginreglunni til ársins 1996 þannig að við höfum góðan tíma til þess að velta þeim málum fyrir okkur. Ég tók eftir þeirri ábendingu að kannski væri ekki skynsamlegast að ræða það mál mjög úr ræðustóli á Alþingi, málið er einfaldlega að vinna verkið. Það er í höndum hæstv. landbrh. og hann mun vafalaust gera grein fyrir því nánar við skoðun málsins, bæði í þingnefndum og eins við frekari umræður.
    Því hefur verið haldið fram í umræðunum að með þessum samningi værum við að leggja ofuráherslu á Evrópumarkaðinn og við værum að binda hendur okkar gagnvart markaðsöflun og útflutningi að því er varðar aðra markaði. Þetta er einfaldlega ekki svo. Í fyrsta lagi vegna þess að EES-samningurinn kveður ekki á um tollabandalag, ekki er um það að ræða að við höldum uppi sameiginlegri viðskiptastefnu út á við eða sameiginlegum tollum út á við. Menn hafa jafnvel vitnað í einn af þeim lögfræðingum sem hafa látið ljós sitt skína um stjórnarskrármálið og það er eitt af mörgum dæmum sem sá lögfræðingur misskilur algjörlega. Hann túlkar 120. og 121. gr. í samningnum á þann veg að þær skerði rétt þjóðarinnar til samninga við önnur ríki. Misskilningurinn er í því fólginn að þessar greinar fjalla um það að okkur er ekki heimilt að mismuna samningsaðilunum sjálfum, þ.e. innan þessa samstarfs getum við ekki boðið Þjóðverjum betri kjör en Frökkum. Þetta er lítið dæmi um stóran misskilning en dæmin eru svo mörg að ef það ætti að telja þau öll upp, sem sjálfsagt er að gera við skoðun málsins í nefndum, þá væri sá listi nokkuð langur.
    Þannig hafa menn lýst áhyggjum sínum á margan máta og ég tel að ekkert hafi komið fram í þessari umræðu sem er þess eðlis að það ætti að staðfesta að þessi ótti styðjist við rök. Við þurfum ekki að óttast um forræði Íslands yfir fiskimiðunum, það breytist ekki með samningnum. Við þurfum ekki að óttast um forræði okkar yfir orkulindunum, okkar er í lófa lagið að haga því að vild. Við þurfum ekki að óttast að fjársterkir erlendir aðilar kaupi upp Ísland. Og ef menn hugsa þá spurningu í ró og næði þá held ég að menn ættu að geta sannfærst um það. Það er ekki bara spurningin um bújarðir þar sem við eigum sjálfir þess kost að ráða framkvæmdinni að verulegu leyti, en hugleiðum þetta aðeins, þessa gömlu martröð um að hið ríka Þýskaland geti nú, eins og einn hv. þm. sagði yfir kvöldverðarborðinu, keypt upp Ísland. Við höfum á undanförnum árum og áratugum verið að leggja að okkur að reyna að laða erlent fjármagn til þátttöku í íslensku atvinnulífi. Okkur hefur lítt miðað og lítt tekist. Hvers vegna í ósköpunum eru menn enn með þessa martraðarmynd og þennan hræðsluáróður? Hvers vegna skyldi hið ríka Þýskaland ekki vera búið að kaupa upp Ísland nú þegar? Halda menn að það sé vegna þess að það hafi verið ógerlegt út af íslenskum lögum? Auðvitað er það ekki svo. Hvers vegna er hið ríka Þýskaland er að reyna að gera erlendum aðilum í atvinnu- og viðskiptalífi hvers kyns gylliboð til þess að fá þá til að fjárfesta í eyðimörkinni sem kommúnisminn skildi eftir sig í Austur-Þýskalandi? Hvers vegna er það sem hið þýska kapítal er hins vegar á sama tíma að reyna að nýta fjárfestingartækifærin í Austur-Evrópu? Hvers vegna gengur Íslendingum svona erfiðlega að fá erlenda aðila til þess að taka þátt í eða fjárfesta í fyrirtækjum sem ættu að skapa verðmæti, gera atvinnulífið fjölbreyttara, fjölga störfum á Íslandi? Hvers vegna öll þessi tregða?
    Ég trúði því ekki þegar hv. þm. lét þessi orð falla að hann meinti neitt með þessu vegna þess að hér var um að ræða reyndan stjórnmálamann sem hefur mikla reynslu af íslensku þjóðfélagi og samskiptum við erlenda aðila og hann veit miklu betur. Auðvitað trúir þessu ekki nokkur maður.
    En þessi grýluljós sem búið er að tendra eru svo mörg og ég held að ekki sé ástæða af minni hálfu til þess að leita þau öll uppi enda ef menn meina eitthvað með þessu þá fylgja menn því eftir þegar fjallað er um málið í nefndum og reyndar ýmis þau fylgimál sem um er að ræða.
    Kannski er ástæða til þess að láta koma fram svona í upplýsingaskyni að það er sérstaklega spurt hvort kostnaður við þetta væri ekki orðinn óhæfilegur.
    Ef við lítum á upplýsingar til loka ágúst 1992, um er að ræða upplýsingar frá 1989 til ágústloka 1992, þá hefur kostnaður við ráðgjafarstörf í þessu mikla máli í þrjú ár numið 4 millj. Þýðingarkostnaðurinn í heild hefur numið 78 millj. Ferðakostnaðurinn 89 millj., eða samtals 161 millj. Þess er þó hins vegar að geta að t.d. ferðakostnaður, hér er átt við ferðakostnað sérfræðinga sem að málinu hafa unnið og á vegum allra ráðuneyta, er auðvitað að stórum hluta þess eðlis að stór hluti af honum hefði til fallið hvort eð var burt séð frá þessum samningi. Síðan er það um málið að segja að á næsta ári þegar samningurinn hefur tekið gildi þá munum við þurfa að leggja fram fjármagn til samstarfsverkefna á ýmsum sviðum sem samningurinn felur í sér, eins og t.d. að því er varðar rekstur eftirlitsstofnunar EFTA 14,8 millj. að áætlað er, dómstólum 4,9 millj., þróunarsjóðinn sem EFTA-ríkin leggja sameiginlega til, framlög Íslands yrðu þar 59,3 millj. og samstarfsverkefni önnur 30 millj.
    Kostnaður vegna samstarfsverkefna mun síðan aukast nokkuð á árinu 1994 þegar Ísland verður aðili að rammaáætlun nr. 4 á sviði rannsókna og þróunar og má áætla að sá kostnaður verði allt að 100 millj. kr. á ári. Jafnframt er þess að vænta að það fjármagn skili sér og gott betur í gegnum þá styrki til rannsóknaverkefna sem um er samið að verði unnin hér á landi og undir forustu íslenskra vísindamanna.
    Að sjálfsögðu má nefna til hér við þessa umræðu fleiri mál. Við höfum haft sérstaklega í huga að víkja að einum þætti málsins sem varðaði það sem fram kom í ræðu hv. 9. þm. Reykv. af því að hann taldi að ég hefði með einum eða öðrum hætti ekki gefið réttar upplýsingar um afstöðu stéttarsamtaka eins og Alþýðusambands Íslands til þessa máls. Þetta vildi ég leiðrétta og láta kom skýrt fram. Í bráðabirgðagrein miðstjórnar ASÍ um EES frá því fyrr í sumar segir að í janúar 1990 hafði miðstjórn ASÍ lýst yfir stuðningi við þá leið sem ákveðin var með samningum EFTA og EB. Síðan segir í greinargerðinni orðrétt:
    ,,Miðstjórn hefur fyrr lýst áhyggjum af þróun atvinnumála hér á landi á síðustu missirum. Í því ljósi er mikilvægt að fylgt verði eftir markmiði EES-samningsins að tryggja skilyrði fyrir fullri atvinnu. Innihald samningsins ætti að gefa íslenskum fyrirtækjum betri samkeppnisskilyrði, en eigi samningurinn að fela í sér aukinn hagvöxt og aukna atvinnu, verða bæði stjórnvöld og atvinnulíf að vera vel á verði og hafa frumkvæði að því að nýta sér þá möguleika sem bjóðast. EES-samningurinn gæti skapað íslenskum fyrirtækjum nauðsynlegar forsendur fyrir nýfjárfestingum og vöruþróun sem gætu skapað aukna vinnslu hér á landi og þar með aukinn virðisauka.``
    Þetta er jákvæð afstaða til meginmálsins en jafnframt er rétt að komi fram að stuðningur ASÍ var skilyrtur og þar sagði orðrétt:
    ,,ASÍ hefur stutt fyrirvara íslenskra stjórnvalda varðandi atvinnu og búseturéttindi og möguleika útlendinga til þess að taka þátt í atvinnurekstri sem byggist á nýtingu íslenskra náttúruauðlinda. Meginfyrirvari ASÍ hefur þó tengst þróun félagsmála innan EES og af hálfu sambandsins hefur alltaf komið skýrt fram að EES-samningurinn megi ekki að nokkru leyti verða til þess að grafa undan réttindum launafólks hér á landi.``
    Í október á sl. ári lýsti sambandsstjórn ASÍ yfir þeirri skoðun sinni að hætta gæti stafað af yfirráðum erlends fjármagns og opnun vinnumarkaðarins. Þess var krafist að sett yrði innlend löggjöf m.a. til þess að koma í veg fyrir undirboð útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Þar var beðið um það að lögfest yrði eftirlit með því að innlendir og erlendir starfsmenn verði ekki látnir gjalda þjóðernis, það verði bannað að mismuna og því eiga allir að njóta sömu launakjara.
    Ég bendi á að átt er við launakjör en ekki bara laun og ef einhverjir brjóta þessi lög verður þeim refsað, auk þess bannar EES-samningurinn ekki skylduaðild að stéttarfélögum. Í bréfi mínu til forseta ASÍ í júní sl. staðfesti ég að stefna núv. stjórnvalda væri að breyta ekki þeirri stefnu sinni á vettvangi Evrópuráðsins að skylduaðild að stéttarfélögum stangist ekki á við ákvæði um félagafrelsi í félagasáttmála Evrópu. Erlendir ríkisborgarar í vinnu hérlendis munu því verða að vera í stéttarfélögum og allir þeir sem setjast að hér á landi þurfa að skrá sig og eftirlit með vinnumarkaði verður því einfalt, auk þess sem fyllsta tillit verður tekið til ábendinga stéttarfélaga.
    Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um sérstaka ráðgjafarnefnd aðila vinnumarkaðarins sem hafa það sérstaka verkefni að fylgjast með þróun mála og benda á það sem betur má fara. Önnur mál sem ASÍ hefur lýst áhyggjum af verða tryggð með sama hætti. Þar má nefna yfirráð yfir náttúruauðlindum og takmarkanir á fasteigna- og jarðakaupum.
    Í umræðunum hefur því verið hreyft af ýmsum að samningurinn hljóti í eðli sínu að vera fyrsta skref í

átt til fullrar aðildar að Evrópubandalaginu, að samningurinn hljóti að vera biðsalur Evrópubandalagsins og jafnvel gefið í skyn að með því að staðfesta þennan samning sé verið að véla menn til stuðnings við markmið um fulla aðild síðar. Þessu hefur lengi verið haldið fram en kannski er dálítið minna um rökstuðninginn fyrir því enda vandasamt að finna slíkum getgátum rök. Í raun og veru er það svo að Ísland er eina ríkið innan EFTA þar sem stefna stjórnvalda hefur verið að líta á samninginn um aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu sem valkost við aðild að EB. Ég hef löngum lýst þeirri skoðun minni að með samningnum, ef við getum slegið því föstu að hann geti staðið um ókomna tíð, þá séum við búin sem þjóð að leysa brýnustu vandamál okkar í samskiptum við Evrópubandalagið. Búin að fá lausn á sérvandamálum sem varða íslenskan sjávarútveg, búin að fá aðild að innri markaði Evrópu, búin að tryggja okkur í stórum dráttum jafnréttisskilyrði á þessum mörkuðum sem við getum ekki lifað án og orðnir aðilar að fjórfrelsinu þannig að þarna er ekki aðeins um vöruviðskipti að ræða heldur einnig fjármagnsmarkaðinn, þjónustuviðskipti og vinnumarkað. Við værum með öðrum orðum búin að leysa brýnustu vandamál í samskiptum við EB og gætum búið við þá niðurstöðu hvað svo sem liði mati manna á frekari þróun Evrópubandalagsins í átt til sambandsríkis eða nánari samstarfs annarra ríkja, hvort heldur væri á sviði varnarmála, peningamála o.s.frv.
    Með öðrum orðum er ég þeirrar skoðunar að Ísland hafi markað sér þá sérstöðu að samningurinn er valkostur við EB-aðild. Ég er alveg sannfærður um það að ef þannig fer einhvern tímann á næstu árum að aðrar þjóðir Norðurlanda og þá ekki síst keppinautar okkar á viðskiptasviðinu, Norðmenn og Danir, verða innan Evrópubandalagins en við einir utan, þá mundi þrýstingur á íslensk stjórnvöld um að skoða þann kost betur verða mjög verulegur ef við hefðum ekki þennan samning. Menn geta einfaldlega spurt sem svo: Halda menn að forsvarsmenn í íslenskum sjávarútvegi og það fólk sem starfar í íslenskum sjávarútvegi léti það kyrrt liggja ef ekki einasta Danir heldur einnig Norðmenn væru komnir inn í Evrópubandalagið og nytu þar 100% tollfrjáls aðgangs að markaði en við hefðum setið uppi með gamla tvíhliða fríverslunarsamninginn? Halda menn að forsvarsmenn í íslenskum sjávarútvegi mundu láta það kyrrt liggja og telja það viðunandi ástand? Nei, þeir mundu ekki gera það. Þá mundu menn hins vegar segja sem svo að eiga ekki annarra kosta völ, tvíhliða samningur.
    Ég bendi bara einfaldlega á það að þessum þrýstingi og öðrum slíkum er út af fyrir sig létt af okkur með EES-samningnum. Hitt er svo annað mál að þeir sem tala um það núna að við ættum að hafna þessum kosti og fara í tvíhliða samninga meina auðvitað ekkert með því sem þeir eru að segja. Auðvitað er enginn svo gjörsamlega ábyrgðarlaus að hafna þessum ávinningi fyrir Íslands hönd í fullkominni óvissu um einhvern tvíhliða samning einhvern tíma síðar í framtíðinni upp á náð og miskunn Evrópubandalagsins. Það er staðreynd að sá ávinningur sem fékkst náðist ekki hvað síst fyrir tilstyrk bandalagsþjóða okkar í EFTA. Þegar menn spyrja um fórnarkostnað samningsins þá er staðreynd að hann var fyrst og fremst lagður af mörkum af hálfu bandalagsþjóða okkar.
    Við værum í allt annarri stöðu í tvíhliða samningum. Margbúið er að fara yfir þetta og þarf ekki að eyða orðum að því þetta er búið mál, liðin tíð. Hitt er svo annað mál að samningurinn, þótt hann sé miklu meira en tvíhliða samningur um markaðsaðgang sjávarafurða, mun eðli málsins samkvæmt breytast í tvíhliða samning þegar fram líða stundir ef hinar EFTA-þjóðirnar gerast EB-aðilar og þannig færi að við yrðum eina EFTA-þjóðin sem er aðili að þessum samningi sem eftir stæði utan EB þótt þessi samningur væri fenginn í fjölþjóðlegu samstarfi. Það hefði skilað okkur ávinningi þess vegna þá yrði hann í eðli sínu tvíhliða samningur með annars konar eftirlitsstofnunum og annars konar lausnum að því er varðar lausn deilumála.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta neitt frekar. Það er af ásettu ráði sem ég leiði hjá mér að ræða stjórnarskrárþátt málsins í þessari umræðu. Ég geri ráð fyrir því að taka þátt í umræðunni um það mál í tilefni af frv. sem flutt hefur verið af forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og það mun jafnframt gefa mér kost á að ræða fáeinum orðum um þjóðaratkvæðagreiðslur og tel eðlilegt að ræða það mál frekar í því samhengi. Ég vil fyrir mitt leyti láta í ljós þá ósk að þessi mikli samningur fái vandaða umfjöllun, bæði samningarnir sem slíkir í utanrmn. sem og þau fylgifrumvörp sem verða lögð fram á næstu dögum og vikum þegar þeim hefur verið vísað til nefndar og að það markmið sem við settum okkur með þessum samningi um það að hann gæti náð að komast til framkvæmda í byrjun nýs árs að þær vonir gætu ræst. Ekki hvað síst í ljósi þess að miðað við núverandi ástand í atvinnumálum Íslendinga kemur það á réttum tíma og okkur væri mikil nauðsyn á því að geta með nýju ári unnið kerfisbundið að því að nýta okkur þau nýju vaxtartækifæri sem samningurinn felur í sér.