Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 17:47:01 (288)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. utanrrh. aldrei svara þessari spurningu um kostnaðinn. Þetta er ekki spurning um það hvað samningsgerðin hefur kostað eða öll þau ferðalög, sem henni hefur fylgt, heldur hvernig framtíðin lítur út. Hvað mun þetta kosta okkur í framtíðinni? Ég get nefnt sem dæmi að við vorum að kíkja á lítið frv. í efh.- og viðskn. um eftirlit með hættulegum vörum. Reiknað er með að þessi smápóstur kosti 3--8 millj. Fjmrn. leggur mat á þann kostnað sem fylgir þessum lagabreytingum. Þetta er pínulítið dæmi og við höfum fram undan tugi lagabreytinga og alls konar eftirlit og reglugerðir sem auðvitað þarf að fylgja eftir. Hvað kostar þetta allt saman? Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því hvað þetta kostar. Hvað þurfum við að senda marga embættismenn til útlanda eða hafa í störfum hér til þess að standa undir þessum samningi? Það er ekki endilega gagnrýnivert að þess þurfi heldur þurfum við fyrst op fremst að vita hvað þetta kostar. Út í hvað erum við að leggja?