Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 17:48:19 (289)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. segir að spurning sín hafi ekki beinst að því hver væri kostnaðurinn nákvæmlega, eins og hann mun birtast á fjárlögum, heldur hvað þetta allt saman muni kosta okkur í framtíðinni. Út frá því dæmi, sem hún tók, sem ég út af fyrir sig þekki ekki til, þá vil ég nefna að á því er mikill munur hvort íslenskt atvinnulíf og fyrirtæki býr við samræmdar leikreglur, eins og til að mynda samræmdar samkeppnisreglur, býr við sömu reglur að því er varðar aðgang að markaðnum, að því er varðar staðla, að því er varðar heilbrigðisvottanir en ef við þyrftum að leysa slík vandamál í hvert skipti og þau koma upp. Í þessu felst mikill sparnaður og ég nefni eitt dæmi.
    Við getum ekki haldið uppi mjög öflugum bírókratískum kerfum, t.d. í sambandi við þessi staðlamál. Sérsamningur okkar við Svía um að njóta þjónustu Svía sem reka eina yfirstaðlastofnun og sjö undirstofnanir á ýmsum sviðum mun t.d. spara okkur ákaflega mikið. Ég hef ekki áhyggjur af því að þetta sé svo dýrt í framkvæmd út af því mikla bírókratíi sem við yrðum að hlaða upp. Ég held að við ættum að reyna að meta annars vegar útlagðan kostnað og hins vegar þann ávinning sem við höfum af því að vera fullgildir aðilar á jafnréttisgrundvelli í öllu þessu samstarfi. Síst af öllu ættu áhugamenn um menntamál og kennslumál að gleyma þeim ávinningi sem vissulega er eftirsóknarverður á þeim sviðum.