Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 19:20:13 (298)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. gat þess í ræðu sinni að þeir sem gert hefðu upp hug sinn gagnvart þessum samningi kvörtuðu mest undan því að spurningum væri ósvarað. Ég tek þetta til mín en mitt svar er að það er mjög mikilvægt að fá svör við því hvort menn gera sér grein fyrir því hvað þessi samningur felur í sér og hvaða afleiðingar hann hefur. Ég fæ ekki betur séð af þeirri umræðu, sem hér hefur farið fram, en að það sé harla fátt um svör. Menn bara slá því fram að samningurinn feli í sér ýmsa möguleika án þess að rökstyðja það nokkuð frekar.
    Forsrh. hélt því fram að menn héldu hér uppi hræðsluáróðri. Það kann að vera að einhverjir séu hræddir en í mínum huga er þetta ekki spurning um ótta heldur spurning um það hvaða stöðu Ísland ætlar að taka sér í heimi þjóðanna, í samfélagi þjóðanna. Þetta er spurning um stefnu, þetta er spurning um framtíð, þetta er spurning um hugmyndafræði. Við erum hér að vega og meta kosti og galla þessa samnings. Það er alger óþarfi að gera lítið úr skoðunum þeirra sem eru andvígir þessum samningi. Við metum það einfaldlega svo að gallarnir séu meiri en kostirnir. Það er niðurstaðan að vandlega athuguðu máli.