Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 19:21:52 (299)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hlýtur að vefjast fyrir mönnum hvernig flokkar gátu tekið afstöðu jafnfljótt um það að vera á móti þessu máli en halda því fram um leið að nú eftir fimm daga umræður sé enn stórum spurningum ósvarað og kvarta mjög hart undan því. Ég vek athygli á því að við gerum ráð fyrir því að við 1. umr. máls komi fram meginsjónarmið flokkanna. Síðan gerir okkar ágæta fyrirkomulag, sem þetta þing byggir á, fulltrúum allra flokka --- og allir þingmenn allra flokka hafa aðgang að sínum mönnum í þingnefndum --- að afla þeirra upplýsinga og þeirra svara sem vantar. Það er ekki verið að afgreiða málið endanlega. Það er engin leið að gera kröfu til þess að við 1. umr. málsins liggi fyrir svör við öllum spurningum sem mönnum dettur í hug að spyrja. Við 1. umr. eru menn fyrst og síðast að ræða meginefni máls en spurningar um einstök atriði, tæknilegs eðlis og þess háttar, hljóta menn að leita svara við í þingnefndum. Ég tel að öllum lykilspurningum hafi verið svarað. Ef einhverju er ósvarað, þá hafa menn tækifæri til þess bæði hér við seinni umræður og ég tala nú ekki um í utanrmn., þar sem fram fara ítarlegar og miklar umræður um málið. Nú þegar hafa farið fram ítarlegar og miklar umræður um málið.