Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Fimmtudaginn 03. september 1992, kl. 19:23:22 (300)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. forsrh. að þetta mál hefur verið lengi í undirbúningi og þar af leiðandi hafa menn haft býsna góðan tíma til að kynna sér málið og fylgjast með þróun þess. Allan þann tíma hafa vaknað margar spurningar og margra spurninga hefur verið spurt. Mörgum grundvallarspurningum hefur ekki verið svarað. Þessi umræða sem hér fer fram snýst ekki eingöngu um okkur. Hún snýst náttúrlega um það að við erum að fara ofan í þetta mál og upplýsa fyrir þjóðinni. Það er vel fylgst með þeim umræðum sem hér eiga sér stað. Þeim eru gerð skil í fréttum útvarps og sjónvarps og sérstökum þáttum og það er skylda okkar að upplýsa þetta mál og að við göngum til þeirrar vinnu sem fram undan er í nefndum með sem bestar upplýsingar. Auðvitað munum við halda áfram að spyrja spurninga. Það sem ég er að leggja áherslu á er það að mér finnst að ríkisstjórnarflokkarnir séu í eins konar trúboði og að þeir neiti að horfa á þá staðreynd að það eru auðvitað bæði kostir og gallar á þessum samningi. Menn eiga að horfa á þetta raunsæjum augum, vega og meta, en ekki að mála skrattann á vegginn. Það er sem betur fer enginn að því að mínu mati. Síðan draga menn sínar ályktanir af því sem fram kemur. Ég tel mig og okkur kvennalistakonur, sem höfum unnið mjög mikið og vel í þessu máli, hafa komist að þeirri niðurstöðu sem ég sagði hér áðan, að gallarnir séu fleiri en kostirnir.